Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Heið ch. 12

Heiðarvíga saga 12 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Heið ch. 12)

Anonymous íslendingasögurHeiðarvíga saga
111213

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Snorri tekur dagverð að miðjum morgni og standa hestar þeirra söðlaðir. Hann átti þrjá sonu. Hét einn Halldór, annar Guðlaugur, var hann þeirra elstur, og Þórður sá yngsti, var hann þá níu vetra [vide infra þ.e. sjá síðar], og skal hann með fara.



Guðlaugur var jafnan heima og lét Snorri hann sjálfan ráða hvað hann starfa vildi. Var hann ei heldur mikið laginn til vinnu. Hann var siðprúður og bænrækinn og hélt vel trú sína, átti og ekki illt við fólk. Var hann því eigi lyndislíkur hinum bræðrum sínum en þeir voru glensmiklir og köstuðu fyrir þetta spotti að hönum.



Snorri gengur til kirkju er hann hafði þar gjöra látið. Skein þá sól úr austri. Og er hann gengur inn mætir hann Guðlaugi. Ætlar hann þá út að ganga og hefur á bænum verið eftir venju sinni. Snorri mælir hvert hann vilji eigi með sér fara að hefna móðurföður síns. Guðlaugur svarar að hann ætli so muni vel mannað að eigi þurfi síns liðs við og hafi hann eigi skipt sér af vígaferlum hingað til, megi faðir sinn ráða því en helst vilji hann þó heima sitja.



Snorri mælti: "Eg hefi eigi kallað að þér um verk þín hingað til og skaltu þeim sjálfur ráða upp frá þessu og er mér vel um gefið þú hvergi farir og rækir siðu þína."



So hefur Snorri frá sagt að hann hafi aldrei slíka manns ásjónu séð sem Guðlaugs sonar síns þá er hann mætti hönum í kirkjunni. Hafi hann þá verið rauður sem blóð að sjá í andliti og hafi sér so sem nokkur ógn af staðið. Guðlaugur fór nokkrum vetrum síðar til Englands. Gaf faðir hans hönum fé með sér. Gekk hann þar í munkaklaustur, færði siðugan lifnað og þótti hinn besti klerkur allt til dauðadags.



Snorri ríður nú heiman og fylgdarmenn [Eyrbyggja segir, cap. 38, þeir hafi alls verið tuttugu og telur upp fjóra þá helstu, sem þó er ólíklegt þeir hafi so margir verið í þessari fluguferð] hans. Hittust hann og hinir þar í Dölum sem ráð var fyrir gjört. Ríða síðan allir saman suður Bröttubrekku. Var þetta á laugardegi. Hallar þá mjög að kvöldi er þeir koma suður af fjallinu. Ríða þeir þá fyrir ofan bæi.



Þá mælti Snorri: "Eigi þykir mér að þó nú kæmi þoka."



Ríða síðan suður Hvítársíðu. Þá var þoka yfir héraðinu og vindur af hafi og úr við [segir sagan]. Láta þeir nú taka niður hesta sína og æja [segir sagan], ríða þar eftir nokkra stund. Tekur þá til að elda aftur og heiða upp þokuna og sá tíðindi [segir sagan] yfir héraðið. Eigi var fleira manna heima á bæ Þorsteins en synir hans, piltur einn og kona sú er embættir fé [segir sagan]. Þar eftir ríða þeir yfir ána og þá þeir komu so nærri að sjá mátti gripi við bæ Þorsteins spyr Snorri hvert þeir sjái fleiri en þrjá hesta þar heima við túnið so sem sér sýnist. Þeir segjast ei fleiri sjá. Þá mælti Snorri að eigi mundu þeir mannmargir heima vera. Ríða nú að bænum og er þá sól nýrunnin og sjá þeir slóðina eftir sér er þeir gjört höfðu um nóttina yfir ána.



Þeir Snorri stíga af hestum sínum á bak við húsin. Segir hann einum er með hönum var [minnir mig héti Þórður] hann skuli fara upp á skálavegginn hægra megin því þar hefur hann spurt að Þorsteinn liggur undir og segir hönum að reyta þekjuna og slíta grasið seint og taka fast og jafnt í líka sem hestur biti. Maðurinn gjörir so.



Þorsteinn vaknar og kallar til smalapiltsins og segir hann muni of skammt hafa rekið hestana frá í gærkvöldi og skuli hann fara að reka þá. Hann ansar að eins og sofnar aftur. Enn heyrir Þorsteinn að eitthvað nagar þekjuna, kallar aftur til piltsins en hann sofnar aftur. Fer þá Þorsteinn á fætur út að forvitnast um þetta og er í línbrókum einum. Og þá hann kemur út úr dyrunum litast hann um og verður við ekkert var og vill nú skyggnast að víðar í kringum húsin. Í því bili hlaupa þeir Snorri að hönum. Er þar ekki að sökum spurt og engu orði kemur hann fyrir sig. Leggja þeir að hönum fjórir í einu. Kemur eitt lagið í kviðinn og fellur hann strax [1012. Eyrbyggja, cap. 38, setur víg Þorsteins um haustið 1008. Kemur það af því til að hún hleypur yfir hefnda eftirsóknina Þorsteins við Gest og þau árin]. Draga þeir hann upp að veggnum og bíða þar enn nú úti hljóðlega. Lengist nú Þorvarði [mig minnir hann héti so. Eyrbyggja saga nefnir Gunnar son Þorsteins og mun það réttara [nema fleiri hafi verið]] að faðir hans kemur eigi inn og gengur út. Kemur hann engri vörn fyrir sig og fer á sömu leið [man eg eigi glöggt hvert þeir vógu þar að auki annan son Þorsteins, þó kannske það hafi verið]. Annar sonur Þorsteins var og heima. Hét hann Sveinn [minnir mig] og var níu vetra gamall. Lengist hönum föður síns inn í bæinn og heyrir eitthvað hark úti, veit og eigi hvað um er. Kemur hann út í dyrnar og er hönum svefn í augum.



Snorri mælti við son sinn Þórð kausa [Þórður kausi er hér látinn vera nógu ungur því eftir Eyrbyggju, cap. 37, sendi Snorri faðir hans hann út til Fróðár 1001 að setja dyradóm yfir afturgöngunum]: "Sér kötturinn músina? Ungur skal að ungum vega" [segir sagan].



Þórður [mun hafa verið Þórður Þórðarson köttur, de quo [þ.e. samkvæmt] Laxdæla saga, cap. 43 [og Ólafs saga Tryggvasonar, sú þrykkta í öðrum parti, pag. 89 a., þeirra son [þ.e.: Þórðar Ingunnarsonar og Guðrúnar Ósvífursdóttur] var Þórður köttur er fóstraði Snorri goði. Hans son var Stúfur skáld]] fóstri hans mælti: "Það skal aldrei ske að so ungur sveinn sé veginn og skulum við undir eins falla báðir."



Segir Snorri hann skuli ráða þó sér sé grunur að sá sveinn muni einhvers staðar höggva í ætt sína. Bera þeir nú líkin saman í kös þar í túninu, skiljast við so búið og hraða sér í burtu. Var þetta á lítilli stundu gjört. Lýsa víginu á næsta bæ. Ríða nú upp með ánni og yfir í Hvítársíðu og upp frá bæjum, stíga þar af hestum sínum og taka átfang [segir sagan] og leggjast niður og hvíla sig og hesta sína. Fylgjurum Snorra þykir þetta óviturlegt að leggjast niður í grashögum skammt frá bæjum. Snorri segir eigi muni til saka. Liggja þeir þar fram yfir miðdegi og finna smalamann einn. Snorri biður hann bera kveðju Borgfirðingum frá Snorra goða og segja þeir hafi nú gjört sér greiðara fyrir en næst. Ríða síðan vestur fjöll og hver heim til sín og þykir förin vel hafa gengið.



Nú er að segja hvað gjörist á bæ Þorsteins. Kona hans kemur heim úr seli sama drottinsdagsmorgun, lítilli stundu eftir það þeir Snorri eru burt riðnir, og ætlar að færa þeim feðgum hreinar skyrtur. Tvær dætur hennar ungar eru með henni. Ríða þær nú að túngarðinum og stíga þar af baki og biður hún þær að bíða sín þar. Hún gengur heim að bænum og sér þar vegsummerki. Og þá hún hefur litið á hverjir þar liggja vegnir gengur hún burt og stígur strax á hest og getur ei um fyrir þeim hvers hún hafi heima var orðið. Þær spyrja hvað valdi hún komi so skjótt aftur. Hún kvað erindið eigi hafa krafið lengri dvalar, ríður nú sem skjótast til næsta bæjar sem heitir Kelda [minnir mig, heldur en Klúka eður Lækur] og hittir þar klerk einn frænda sinn sem [mig minnir] Eldjárn héti og segir hönum tíðindin. Bregður hann við strax og tekur menn með sér að sjá líkin, sendir boð á næstu bæi og flýgur nú þegar þessi viðburður um Borgarfjörð og er að vörmu spori farið að leita Snorra og þeysa vestur um Hvítársíðu þann veg er líkast þótti hann riðið hefði og hafa þeir eigi af hönum. Féll þeim nú allilla er Snorri gekk so úr greipum þeim og þá enn fremur er þeir fréttu hann hefði legið þar í búfjárhögum um daginn og virðist þeim nú Snorri helst til slægur orðið hafa. Settu þeir þá í lög sín að hver maður skyldi vera skyldur að leita strax um landeign sína að veganda ef víg væri vakið innan héraðs.



Líður nú veturinn eftirkomandi og fram að alþingi og búa þeir til eftirmálin Borgfirðingar og voru eigi þeir aldauða [segir sagan] er fylgdu að þeim málum. Eru nú þessi mál uppi höfð á alþingi [1013, en eftir Eyrbyggja sögu 1009]. Voru það margir er tæja vildu Kleppjárni [segir sagan], frændur hans og vinir, en Snorri heldur svari vegna manna sinna og er hann ljúfur að svara fébótum. Gengur sá dómur á málið að víg Styrs og Þorsteins skuli fallast í faðma en synir Þorsteins bættir þrem hundruðum silfurs [minnir mig] og hélt Snorri uppi fésektum fyrir menn sína. Skulu fjórir þeirra [minnir mig] fara af landi burt og vera fyrir utan þrjá vetur. Greiðir Snorri bæturnar á sama þingi en hinir fara samsumars utan er til voru dæmdir. Lyktar nú þanninn þessum málum að sinni.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.