Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Sts ch. 9

Sturlu saga 9 — ed. Guðrún Nordal

Not published: do not cite (Sts ch. 9)

Anonymous SturlungaSturlu saga
8910

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Nú skal taka þar til máls er Böðvar bjó í Tungu í Sælingsdal. Þá réðst til búlags með honum Yngvildur Þorgilsdóttir. Hún var þá ekkja. Þá var það tíðinda að þeir synir Þorgeirs voru í Hvammi með Sturlu mági sínum, Þorvarður og Ari. Þeir gerðu sér títt um fundi við Tungumenn og hittust oftast að laugu. Það var um veturinn er Þorvarður hafði farið til laugar í Sælingsdal og er hann skyldi heim fara féll hann af baki og skeindi sig á fæti og mæddi hann blóðrás og fóru þeir í Tungu og var hann þar eftir og batt Yngvildur um fót honum. Hann var mjög lengi í Tungu að lækningu og um vorið var hann ýmist eða í Hvammi. Það var rætt að þau Þorvarður og Yngvildur mæltust fleira við en aðrir menn en vinir þeirra synjuðu þess. En um vorið eftir ræðst Þorvarður til Eyjafjarðar en Yngvildur gerði þá bú að Ballará. Hún lét sér búa svefnhús og var þar löngum. Hún hafði fótarmein um sumarið og gekk lítt um sýslur. En of haustið kom þar kona að sex vikum. Hún hét Þórdís og var Leifsdóttir. Hún var úr Eyjafirði. Og er hún hafði skamma hríð dvalist þá ól hún barn. Það var nefnt Sigríður en faðir hennar Þorsteinn Þorleifsson, norðlenskur maður. Hún fór um haustið með barnið norður til Eyjafjarðar. En eigi að síður grunuðu menn og gerðu menn margort of ráð þeirra Þorvarðs og Yngvildar. Og er Einar varð þessa var leitar hann eftir um málið við Þorvarð og kvað hann mundu vilja hér um sönnu svara. En þau svör komu hér í mót af Þorvarðs hendi að synja og var festur járnburður fyrir en Klængur biskup skyldi gera um hversu sem skírsla gengi. Grímur hét sá maður norðlenskur er járnið bar. En er höndin var leyst þá var það ákvæði biskups að hann væri skír. Og eftir sneri biskup gerð og gerði fé á hendur Einari og sleit svo því þingi. Það sumar bjóst Þorvarður til utanferðar í Eyjafirði. Þá seldi og Yngvildur Sturlu fjárheimtur sínar allar og tók hann sókn og vörn allra hennar mála sem hann væri aðili. Eftir það ræðst Yngvildur til ferðar á laun norður til Eyjafjarðar og skar sér skör og karlklæði og með henni Steingrímur kumbaldi Mársson. Og er kaupmenn lögðu út eftir firði hlóðu þeir segli og skutu báti og reru yfir á Galmansströnd og gekk Yngvildur þar á skip og fór í brott með Þorvarði og komu við Noreg. Þá var Ingi konungur Haraldsson og réðst Þorvarður til hans en Gregoríus Dagsson tók við haldi Yngvildar. En er þetta fréttist þá hófst af nýju sá orðrómur að Sigríður mundi vera dóttir Þorvarðs og Yngvildar og það með að skírsla hefði villt verið og að Sturla og Ingibjörg hefðu þessi ráð vitað með Þorvarði. Og snýst nú Einar með fjandskap á hendur Sturlu og kvað hann hafa vafið sig í miklu vandræði. Og næsta sumar kvað Einar það upp fyrir vinum sínum að hann mundi málum fram halda á hendur Sturlu um þenna óhæfuhlut og svo gerði hann og fjölmennti mjög og sótti þau mál í dóm að hann hefði ráðið þau ráð Þorvarði að hann skyldi segja að Þorsteinn væri faðir Sigríðar þar sem Þorvarður var Þorgeirsson og gert í því mannvillu og kristnispell og lét varða fjörbaugsgarð. En Sturla bauð eið fyrir málið að hann hefði eigi í þessum ráðum verið. Einar mælti: Fá tólf menn með þér að sanna eið þinn og mun eg þá eigi halda málum fram. Og er eiða skyldi vinna þá skildi Sturla svo undir eiðstaf að hann hafði eigi ráðið Þorvarði að gera mannvillu. Þá innti Einar svo undir málið: Og eigi vitað með honum. Þá svarar Sturla: Eigi hugði eg mig um það mundu sekjan verða þótt eg segði eigi óhöpp eftir tengdamönnum mínum meðan eg var eigi að spurður. Þá svarar Einar, kvað nú það heyra mega hvort Sturla hefði vitað mannvilluna. Og sá orðrómur lagðist á að hann mundi vitað hafa. Var þá lokið sættinni. En með því að sætt sú var ógoldin er biskup hafði gert á hendur Einari þá stefndi Sturla eindaga um alþingissættarhald og lét varða fjörbaugsgarð. Og fóru hvortveggi málin í dóm og höfðu hvorirtveggju mikið fjölmenni og gengu hvortveggi málin fram og urðu báðir sekir fjörbaugsmenn, Sturla og Einar. Eftir þingið söfnuðu þeir báðir liði til féránsdóma og þá fór Einar í Hvamm með hálft fjórða hundrað manna en hann lét eftir í Saurbæ Hrólf Gunnólfsson við hundrað manns. Þar var með Einari Snorri Kálfsson og Þorleifur beiskaldi úr Hítardal son Þorleiks auðga, og Hermundur Koðránsson, Halldór Egilsson og mart annarra virðingamanna. Sturla hafði og mikið lið. Þar var Böðvar Þórðarson, Páll Bjarnason. Sturla reið vestur til Saurbæjar með sex tigu manna upp Þverdal en ofan Traðardal og svo í Saurbæ og háði féránsdóma á Staðarhóli og reið aftur um Sælingsdal og utan reiðgötu að Hvammi. En flokkur Einars sat fyrir ofan götuna milli túngarðs og Stekkamúla. Síðan gengu þeir Böðvar heiman af bænum með flokkinn mót Sturlu. En Einar hljóp upp og eggjaði atgöngu en Þorleifur beiskaldi bað hann eigi stefna mönnum í svo mikinn voða að aldrei leystist sem von var á, að svo mikið fjölmenni skyldi berjast. Og urðu margir góðir menn til með honum að eiga hlut í og skildu menn þar óhappalaust. En er þeir fundust, Sturla og Böðvar, sagði Böðvar að Sturla hafði mjög hætt til um málin, riðið frá mönnum sínum. Sturla kvað eigi mundu þykja haldið til jafns við Einar ef hann sæti heima og hæði eigi féránsdóma en kvað vant að hvorir þar bæru hærra hlut.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.