Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Þórð ch. 7

Þórðar saga hreðu 7 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Þórð ch. 7)

Anonymous íslendingasögurÞórðar saga hreðu
678

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Nú er þar til að taka að Ósi er Skeggi hefir heygja látið Orm
frænda sinn. Hann sendir mann norður til Indriða félaga Orms
að segja honum vígið, biður hann búast norðan ef hann vill
nokkuð leita til hefnda eftir félaga sinn því að hann hafði
svarist í fóstbræðralag við Orm áður þeir fóru til Íslands.
Indriði brá við skjótt og tók vopn sín. Hann hafði hjálm og
skjöld rauðan, mikið krókaspjót í hendi, gyrður biturlegu
sverði. Honum fylgdu tveir Austmenn og aðrir tveir íslenskir
menn. Indriði reið frá skipi þá er hann var búinn.



Nú er þar til að taka er þeir Þórður og Skeggi skildu að Ósi
að Eiður talaði með Þórð: "Það vildi eg fóstri minn að þú
riðir af héraðinu fyrst en eg mun annast um bú þitt meðan þú
ert á burt."



Þórður segir: "Þú skalt ráða en ekki er mér mikið um að flýja
bólstað minn."



"Svo hlýtur nú að vera að sinni," sagði Eiður, "því að eigi
kenni eg kapp föður míns ef þér dugir að sitja samtýnis við
hann svo búið."



Síðan bjóst Þórður heiman. Hann tók vopn sín, skjöld og
hjálm, sverð og spjót. Bræður hans buðust til ferðar með
honum.



"Eigi vil eg það," sagði Þórður, "því að eg vil ykkur í engi
vandræði leiða með mér en hafið áður í engum vígaferlum
staðið með mér. Og haldið kyrru fyrir með fóstra mínum þar
til fleira verður til tíðinda."



Síðan sté hann á bak og bað alla heimamenn vel lifa. Síðan
reið hann upp á háls til Línakradals og einn maður með honum
til leiðsagnar. Hann léttir eigi fyrr leið en hann kemur út í
Langadal til Engihlíðar síð um kveldið. Hann hafði grímu yfir
hjálminum og duldist.



Synir Þorvalds þóttust kenna hann og sögðu föður sínum "og ef
hann er mun tíðindum gegna er hann fer huldu höfði um
héraðið."



Bóndi spurði hinn mikla mann að nafni. Hann sagðist Þórður
heita.



"Og ertu Þórður hreða?"



Hann segir: "Kalla máttu svo ef þú vilt. Sá er maðurinn."



Bóndi segir: "Hverju gegnir um ferðir þínar?"



Þórður segir vígið Orms og allan tilganginn og kvað vísu:



Fátt kann eg fleygi hrotta,

fegring um vó eg, segja.

Áðr vildi sá öldu

ósæma Gná ljósa.

Því varð eg bráðr að brúði

blakkrennir nam spenna

vogs en vildi eigi

varr unna þess svarra.


Þorvaldur sagði: "Mikil tíðindi segir þú, víg Orms frænda
Skeggja, og munu margir frændur eftirsjár veita með Skeggja."



Þórður kvað vísu:



Veit eg að eftir ýti

ormreitar munu leita

frændr og vilja vendi

vopndöggvar mig höggva.

Eigi veit þó að ítra

egg reiði fram Skeggi

ríkr hvort eg renn frá leiki

reinar elds fyrir einum.


Þorvaldur segir: "Eigi er það og víst eða hvert ætlar þú nú
að ríða?"



Þórður svarar: "Norður ætla eg fyrst til skips er uppi
stendur í Kolbeinsárósi hvað sem þá leggst fyrir."



Þorvaldur bauð honum Einar son sinn til fylgdar því að Þórði
voru leiðir ókunnigar. Skyldi hann fylgja honum norður úr
Vatnsskarði þar til sem leiðir skildust. Þórður þakkaði honum
og dró fingurgull af hendi sér og gaf Þorvaldi.



Bóndi þakkaði honum gjöfina og bað hann sín vitja ef honum
líkaði: "Segir mér svo hugur að þú munir í þessi ferð verða
reyndur um vopnfimi og karlmennsku. Muntu svo eiga við að sjá
að Össur frændi Orms mun sitja um líf þitt þá hann fréttir
því að hann er höfðingi mikill og ódældarmaður."



Þórður kvað það fram koma um sinn hag sem lagið yrði "og er
ekki mark að mínum ættarfylgjum ef eigi týna nokkurir frændur
Orms fyrir mér lífi áður eg lýk nösum. En vel fer þér bóndi
og haf þökk fyrir. Mun eg þiggja þína vináttu ef eg þarf til
að taka."



Síðan reið Þórður á burt og Einar með honum. Skildu þeir
Þorvaldur með vináttu. Þeir ríða upp eftir Langadal og norður
Vatnsskarð. Og er þeir komu norður úr skarðinu skildi þá á um
leiðir. Vildi Þórður ríða um Grindarhóla og hann réð. Þeir
riðu til Arnarstapa og áðu þar. Þórður kvað sér svefnhöfugt
og kvað sækja að sér ófriðarfylgjur.



Nú er þar til að taka er Indriði fréttir víg Orms félaga
síns. Hann reið frá skipi og með honum fjórir menn, tveir
norrænir. Hét annar Sigurður en annar Þorgrímur. Þeir voru
hinir víglegustu menn. Aðrir tveir voru íslenskir menn. Hét
annar Bárður en annar Þorfinnur, miklir menn og sterkir. Þeir
voru vel vopnaðir. Þeir riðu sem leið liggur upp eftir
Skagafirði til Vatnsskarðs þenna hinn sama dag sem Þórður
reið um skarðið.



Nú sjá þeir Þórður reið fimm manna með vopnum. Þórður spurði
förunaut sinn hverja hann kenndi þar ríða.



Hann sagði: "Eigi kann eg mann að kenna ef það er eigi
Indriði stýrimaður, fóstbróðir Orms, með rauðan skjöld og
allmikið krókaspjót í hendi."



Þórður svarar: "Vera má svo að Indriði vilji hafa minn fund.
Eða hvers liðs á eg þar von sem þú ert?"



Hann sagði: "Engi er eg vígamaður og eigi má eg mannsblóð
sjá. Og er illt að vita ef þú skalt látast fyrir þeim."



Þórður kvað eigi víst "hver skipstjórnarmaður mun vera í
kveld að skipi Indriða."



Eftir þetta býst Þórður til varnar en mein kvað Þórður það að
félagi hans var huglaus og kvað vísu:



Eigi skal eg fyr ýtum flýja

unda logs að þessum fundi,

gegnir skulu það fyrðar fregna,

flæðar báls á þessum hálsi.

Heldr ætla eg, hjálmi faldinn,

hrotta söng að fremja löngum

eikikjóls þótt að mér sæki

ýtar sex að vopna messu.


Og er þeir fundust frétti Indriði hvað Orm dveldi. Þórður
segir og kvað Orm hafa keypta sér staðfestu á Miðfjarðarnesi.



Síðan sagði hann honum vígið "og hefndu hans nú því að ekki
muntu í betra færi komast við mig en nú."



Indriði kvað svo vera skyldu. Síðan sækja þeir allir að
honum. Sigurður austmaður leggur til Þórðar með spjóti og kom
í skjöldinn og renndi út af og niður í völlinn. Hann laut
eftir laginu. Og er Þórður sá það hjó hann til hans. Kom það
á Sigurð miðjan og tók í sundur fyrir ofan mjaðmirnar. Í
þessu hjó Þorfinnur til Þórðar og kom í skjöldinn og sneið af
mikinn mána af skildinum. Þórður hjó á fótinn Þorfinni fyrir
ofan kné og tók af fótinn.



Þórður bað Indriða betur að sækja "ef þú vilt hefna félaga
þíns."



Indriði hleypur að Þórði og veitir honum mikla atsókn. Þeir
sóttust lengi en svo lauk að Indriði féll fyrir Þórði og
flakti allur í sundur af sárum. Þá hljóp Þórður að förunautum
Indriða og var eigi langt þeirra vopnaviðskipti áður Þórður
drap þá báða. Eftir þetta settist Þórður niður og batt sár
sín því að hann hafði fengið mörg sár og stór. Hann gengur að
Indriða og spurði ef hann mundi vera græðandi.



Hann segir: "Þess þykir mér von ef læknar koma til."



Þá tók Þórður til Indriða og kippti honum úr blóði og lætur
hann á bak hesti sínum. Eftir það tekur Þórður hest sinn og
ríður vestur í Bólstaðarhlíð og segir þar tíðindin. Síðan
reið hann með Indriða í Engihlíð. Þorvaldur fagnar vel Þórði
og býður honum allan þann greiða sem hann vill þiggja og spyr
tíðinda.



Hann segir bardagann að Arnarstapa og fimm manna lát "en því
er eg hér kominn að eg vildi að þú græddir Indriða því að
aldrei fær vaskara mann."



Þorvaldur kvað það skylt vera. Tók hann við Indriða og bjó
honum kerlaug og fægði sár hans og hafði hann engi banvænleg
sár. Þorvaldur býður Þórði lækning.



Hann kveðst eigi það vilja: "Mun eg norður leita á landið
hvað sem fyrir verður."



Indriði tók til orða: "Nú er svo komið sem þér megið vita að
eg hefi leitað til hefnda við Þórð eftir Orm. En því skipti
svo að féllu fyrir Þórði fjórir mínir félagar en eg sár til
ólífis og fór það sem von var með okkur Þórði því að hann er
engum manni líkur um vopnfimi. Nú er ráð mitt Þórður að þú
ríðir norður til skips míns og bíð mín þar. Ólöf heitir
húsfreyja á Óslandi. Hún er kvenskörungur og hinn besti
læknir. Beið hana viðtöku, þar til sem eg kem norður, og
lækningar. Össur heitir bóndi er býr að Þverá í Skagafirði.
Hann er frændi Orms er þú vóst. Hann mun sitja um líf þitt."



Þórður bað hann hafa þökk fyrir tillög "en fara mun eg ferða
minna fyrir Össuri sem eg hefi ætlað."



Eftir þetta reið Þórður norður yfir Skarð til Skagafjarðar og
allt til skips. Hann kom til Óslands síð um kveldið og fann
bónda og spurði bóndi hann að nafni. Þórður nefndi sig.



Þórhallur segir: "Heyrt hefi eg þín getið oft. Hvað heldur
þig til hérkomu?"



Hann sagði honum fundinn þeirra Indriða og vígin og kvað
vísu:



Háði eg víst í víðu

Vatnsskarði sókn harða.

Þar lét eg fjóra fjörvi

fleins sýnendur týna.

En Indriði unninn

ítr varð í byr rítar.

Þeim gaf eg líf er Leifa

láðdýri kann stýra.


Þórhallur kvað hann mikinn afbragðsmann "og líst mér svo sem
þú munir vera sár mjög."



Þórður kvað ekki mikið bragð að því en lést hafa þó skeinur
nokkurar.



Í þessu kom húsfreyja út.



Hún mælti: "Hver er þessi hinn mikli maður er hér er kominn?"



Þórður segir til sín. Hún kveðst heyrt hafa hans getið jafnan
og bað hann af baki stíga og dveljast þar náttlangt. Þórður
bað húsfreyju hafa þökk fyrir.



Þórhallur mælti: "Vandhæfi þykir mér á viðtöku þessa manns,
ratað í mikil vandræði í vígaferlum en maðurinn mjög sár og
þarf lækningar. Eru og miklir menn til eftirsóknar og hefnda
um Orm. Þykir mér svo sem sá muni hvorki sjá fyrir fé eða
fjörvi sem honum veitir nokkura hjálp."



Þá segir húsfreyja: "Eigi líst okkur þetta einn veg. Þykir
mér sem sá muni betur hafa er honum veitir nokkura hjálp. Vil
eg bjóða þér Þórður að vera hér svo lengi sem þú vilt og að
binda sár þín og græða þig ef þess verður auðið."



Þórður þakkaði henni og kveðst þetta þiggja mundu "ef bóndi
samþykkir."



Þórhallur sagði nú enn fara sem vant er "að þú munt vilja
ráða. Mun eg heita Þórði að vera honum trúr í öllum hlutum.
Má eg halda tungu minni um hérvist Þórðar."



Síðan sté Þórður af baki og fylgdi húsfreyja honum í eitt
útibúr en bóndi tók af hesti hans. Húsfreyja setti borð fyrir
Þórð og fór hann til matar. Eftir það bjó hún honum kerlaug
og fægði sár hans. Hafði hann mörg sár og stór.



Þórður var á Óslandi á laun þar til sem hann var heill orðinn
allra sára sinna.



Þá talaði Þórður með Þórhall bónda og húsfreyju: "Svo er nú
komið að eg er heill orðinn sára minna og vil eg ekki lengur
fara huldu höfði eða vera hér lengur en ykkur hjónum líkar
vel."



Húsfreyja segir: "Það er minn vilji að þú sért hér þar til
sem einnhvern veg slítur úr málum þessum."



Þórhallur segir: "Það vil eg að Þórður sé hér í vetur. En þó
er mér sagt að Össur að Þverá muni ætla að sjá eftir hefndum
við þig."



Þórður kveðst eigi það hirða: "Má það eigi víst vita hver
hellum hleður að höfði öðrum."



Einn dag reið Þórður til skips. Var það lagið út undir
Elenuhólm. Og í þann tíma kom Indriði til skips. Höfðu
hásetar búið skipið meðan Indriði var í Engihlíð.



Indriði bauð Þórði að fara utan með sér en ekki kveðst hann
mega hann austur halda fyrir frændum Orms er bæði voru margir
og ríkir "en sæst hefi eg um víg öll fyrir þína hönd þau sem
urðu á fundi okkrum. Hefi eg bætt þau mínum peningum."



Þórður þakkaði honum allt þetta og dró gullhring af hendi sér
og gaf honum en ekki lést hann mundu utan fara að sinni.
Eftir þetta skildu þeir með vináttu og fór Indriði utan og er
hann úr sögunni.



Þórður reið á Ósland.



Þórhallur tók allvel Þórði og kvað það vel að hann fór eigi
utan: "Hefir þú hér dvalist um hríð og líkar mér vel við þig.
Veit eg og að húsfreyja vill að þú sért hér þeim stundum sem
þú vilt. Er eg og maður barnlaus og er gott að gera slíka
menn sér að vinum og styrkja þá með peningum þótt í nokkuð
falli. Vantar mig hvorki hug né vit til ráðagerða ef Össur
slæst á fjandskap við þig."



Þórður tók vel undir þetta.



Þá segir húsfreyja: "Eigi vildi eg Þórður að þú tryðir mjög á
vísdóm Þórhalls né brautargengi. En vel ætla eg að þú reynir
um sinnsakir ef þú þarft til að taka um garpskap Þórhalls."



Þórður dvelst með Þórhalli um veturinn.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.