Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eb ch. 32

Eyrbyggja saga 32 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eb ch. 32)

Anonymous íslendingasögurEyrbyggja saga
313233

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Svo er sagt að það gerðist nú til tíðinda að Örlygur á
Örlygsstöðum tók sótt. Og er að honum tók að líða sat Úlfar
bróðir hans yfir honum. Hann andaðist af þessi sótt.



En er Örlygur var látinn sendi Úlfar þegar eftir Arnkatli.
Fór Arnkell þegar á Örlygsstaði og tóku þeir Úlfar fé allt
undir sig það er þar stóð saman. En er Þorbrandssynir spurðu
andlát Örlygs fóru þeir á Örlygsstaði og veittu tilkall um fé
það er þar stóð saman og kalla sína eign það er leysingi
þeirra hafði átt en Úlfar kvaðst arf eiga eftir bróður sinn
að taka. Þeir spurðu hvern hlut Arnkell vildi að eiga.
Arnkell kvað Úlfar óræntan skyldu fyrir hverjum manni meðan
félag þeirra væri ef hann mætti ráða.



Fóru Þorbrandssynir þá í brott og fyrst út til Helgafells og
segja Snorra goða og beiddu hann liðveislu en Snorri goði
kvaðst eigi mundu þetta mál leggja í þrætur við Arnkel með
því að þeim hafði svo sleppt til tekist í fyrstunni að þeir
Arnkell höfðu fyrri komið höndum á féið. Þorbrandssynir kváðu
hann eigi mundu meira stjórna ef hann hirti eigi um slíkt.



Þetta haust eftir hafði Arnkell inni haustboð mikið en það
var vandi hans að bjóða Úlfari vin sínum til allra boða og
leiða hann jafnan með gjöfum út.



Þann dag er menn skyldu frá boðinu fara af Bólstað reið
Þórólfur bægifótur heiman. Hann fór að finna Spá-Gils vin
sinn, hann bjó í Þórsárdal á Spá-Gilsstöðum, og bað hann ríða
með sér inn á Úlfarsfellsháls. Þræll Þórólfs fór með honum.



Og er þeir komu inn á hálsinn þá mælti Þórólfur: "Þar mun
Úlfar fara frá boðinu og meiri von að hann hafi gjafir
sæmilegar með að fara. Nú vildi eg Spá-Gils," segir hann, "að
þú færir mót honum og sætir fyrir honum undir garðinum að
Úlfarsfelli og vil eg að þú drepir hann. En þar til vil eg
gefa þér þrjár merkur silfurs og eg skal bótum upp halda
fyrir vígið. En þá er þú hefir drepið Úlfar skaltu taka af
honum gripi þá er hann hefir þegið af Arnkatli. Þú skalt
hlaupa út með Úlfarsfelli til Krákuness. En ef nokkurir menn
fara eftir þér, lát þá skóginn hlífa þér. Far síðan á minn
fund og svo skal eg til sjá að þig skal eigi saka."



En með því að Spá-Gils var ómegðarmaður og mjög féþurfi þá
tók hann við flugu þessi og fór utan undir túngarðinn að
Úlfarsfelli. Sá hann þá að Úlfar gekk neðan frá Bólstað og
hafði skjöld góðan er Arnkell hafði gefið honum og sverð
búið. Og er þeir fundust beiddist Spá-Gils að sjá sverðið.
Hann hældi Úlfari mjög og kvað hann vera göfgan mann er hann
þótti þess verður að þiggja hinar sæmilegustu gjafir af
höfðingjum. Úlfar vatt við skegginu og seldi honum sverðið og
skjöldinn. Gils brá þegar sverðinu og lagði í gegnum Úlfar.
Eftir það hljóp hann út með Úlfarsfelli til Krákuness.



Arnkell var úti staddur. Hann sá hvar maður hljóp og hafði
skjöld og þóttist kenna skjöldinn. Kom honum í hug að Úlfar
mundi eigi hafa skjöldinn látið sjálfráður.



Kvaddi Arnkell þá menn til að fara eftir manninum "en með
því," segir hann, "að hér hafa komið fram ráð föður míns og
hafi þessi maður veitt Úlfari bana, þá skuluð þér þegar drepa
hann hver sem hann er og látið hann eigi koma mér í augsýn."



Þá gekk Arnkell upp til Úlfarsfells. Fundu þeir þar Úlfar
dauðan. Þórólfur bægifótur sá að Spá-Gils hljóp út með
Úlfarsfelli og hafði skjöld. Þóttist hann þá vita hversu
farið hafði með þeim Úlfari.



Þá mælti hann við þrælinn er honum fylgdi: "Nú skaltu fara
inn á Kársstaði og segja Þorbrandssonum að þeir fari til
Úlfarsfells og láti nú eigi ræna sig leysingjaarfinum sem
fyrr því að nú er Úlfar drepinn."



Eftir það reið Þórólfur heim og þóttist nú hafa vel sýslað.
En þeir er eftir Spá-Gilsi hljópu fengu tekið hann út við
klif er upp ríður úr fjörunni. Fengu þeir þá af honum sannar
sögur. Og er hann hafði sagt allt sem farið hafði tóku þeir
hann af lífi og kösuðu hann þar við klifið en þeir tóku
gripina og færðu Arnkatli.



Þræll Þórólfs kom á Kársstaði og sagði Þorbrandssonum
orðsending Þórólfs. Þá fóru þeir út til Úlfarsfells og er
þeir komu þar var Arnkell þar fyrir og mart manna með honum.
Þá veittu Þorbrandssynir tilkall um fé það er Úlfar hafði átt
en Arnkell leiddi fram vottasögu þeirra er við voru handsal
þeirra Úlfars og kvaðst það halda mundu því að hann kvað þar
eigi ósáttir á hafa gengið að lögum, bað þá eigi ákall veita
um fé þetta því að hann kvaðst halda mundu sem föðurarfi
sínum.



Sáu Þorbrandssynir þá sinn kost að hverfa frá. Fóru þeir þá
enn út til Helgafells og sögðu Snorra goða hvar þá var komið
og báðu hann liðveislu.



Snorri kvað enn farið hafa sem fyrr að þeir höfðu orðið tafli
seinni en Arnkell "og munuð þér", sagði hann, "eigi þrífa í
hendur honum eftir þessum peningum með því að hann hefir áður
tekið undir sig lausafé en löndin liggja yður öllum jafnnær
og munu þeir þau hafa sem handsterkari eru. En þess er þó
meiri von að Arnkell hafi hér af meira hlut sem af öðrum
yðrum skiptum. Er það og satt að segja að má yður það er yfir
margan gengur því að Arnkell situr nú yfir hvers manns hlut
hér í héraði og mun það svo vera meðan hann lifir hvort sem
það er lengur eða skemur."



Þorleifur kimbi svarar: "Satt segir þú það Snorri. Má það og
kalla vorkunn að þú réttir eigi vorn hlut við Arnkel því að
þú heldur engu máli til fulls við hann því er þið eigist við
með ykkur að skipta."



Eftir það fóru þeir Þorbrandssynir heim og líkaði þeim
allþungt.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.