Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

ÞKak ch. 15

Þórðar saga kakala 15 — ed. Guðrún Nordal

Not published: do not cite (ÞKak ch. 15)

Anonymous SturlungaÞórðar saga kakala
141516

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Nú er þar til máls að taka er Kolbeinn Arnórsson ungi hafði sent þá Brodda til Vestfjarða. En um veturinn áður hafði hann sent menn suður til Þóru Guðmundardóttur, móður Gissurar- voru þeir fyrir þeirri ferð Einar Jónsson og Höskuldur Gunnarsson- þess erindis að þeir tóku hernaðarsök af Þóru Guðmundardóttur á hönd Þórði og fjórtán mönnum öðrum. Riðu þeir Einar og Höskuldur til þings með þessi mál. Kolbeinn reið upp á þing að dómum. Kom þar Hjalti biskupsson til móts við hann. Varð Þórður sekur og þeir menn allir fjórtán, Teitur Styrmisson, Hrafn Oddsson, Dufgussynir fjórir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hrafn Sveinbjarnarson, Hákon galinn, Þorsteinn Þorbergsson. Var þetta illa ræmt af alþýðu. Þótti öllum í þessu sýnast hinn mesti ákafi og kölluðu þeir Þórður þetta flautasekt fyrir því að þeir Þórður höfðu náttverð einn í Tungu og höfðu flautir einar. Eftir það ríður Kolbeinn Arnórsson og Hjalti biskupsson og Ormur Bjarnarson af þingi vestur til Breiðafjarðardala og höfðu nær sex hundruð manna. Sturla Þórðarson var þá í Sælingsdalstungu. Kolbeinn sendi þangað sína menn og bað þá drepa Sturlu. Hann fékk njósn og reið undan vestur til Saurbæjar. En er Kolbeins menn komu í Tungu var Sturlu leitað með brugðnum vopnum um öll hús og svo í kirkju. Var þá rænt því er laust var. Reið Kolbeinn þá með allan flokkinn vestur til Saurbæjar. En Sturla fékk sér skip í Tjaldanesi og fór þaðan út til Krosssunds. Komu þar til móts við hann Dufgussynir, Hákon galinn og þeir heimamenn Þórðar er suður þar höfðu verið. Riðu þeir Kolbeins menn þá ofan eftir Langey að sundinu. Og er þeir fundust skorti þar eigi illt orðtak er hvorir völdu öðrum. Riðu Kolbeins menn í fjöruna en þeir Sturla reru brott frá sundinu. Skildu þeir Sturla þar og Dufgussynir. Skyldi hann þá fara suður um fjörð í liðsafnað. Kolbeinn Dufgusson og Hákon galinn reru inn til Ballarár og svo suður til Bíldseyjar og vildu vita hvað títt væri um hesta sína. Höfðu þeir þá og frétt af að Kolbeins menn höfðu fengið skip nokkur. En Björn kægill og Jón Árnason voru í Tjaldanesi og reru inn til Akureyja og ætluðu að taka skip þau sem þar voru. En er þeir komu fyrir lendinguna þá sáu þeir menn hlaupa með vopnum uppi um eyna og upp um Kýrauga. Þeir kenndu að þar voru komnir Norðlendingar og hlupu þeir þegar á land. Voru þeir mjög svo jafnmargir. Þar var fyrir þeim Óttar bróðurson Guðmundar biskups. Þeir Óttar hlupu þegar á borg eina en þeir Björn sóttu að þeim og báðu þá upp gefast. Gáfu þeir Óttar þá upp vopn sín og gengu þeim til handa og fóru með þeim Birni. Reru þeir þá út til Fagureyjar. Nú er þeir Kolbeinn og Hákon komu í Bíldsey voru þar menn fyrir og höfðu bundið hesta þeirra og ætluðu þá að leggja þá á skip. Hlupu þeir Hákon þegar upp á eyna. Þar var fyrir Jón Oddason er kallaður var skeggbarn og þeir níu saman. Stukku þeir upp frá sjónum og á borg eina og bjuggust til varnar en þeir Kolbeinn og Hákon héldu eftir þeim. Og þegar er þeir Kolbeinn komu að borginni hljóp Kolbeinn upp og tók Jón höndum og féllu þeir báðir saman ofan fyrir borgina. Var þá þegar unnið á Jóni. Hákon Bótólfsson greip af honum stálhúfuna og laust í höfuðið og var það högg svo mikið að Jón leiddi til bana fám dögum síðar. Eftir það voru þeir allir handteknir og flettir og höfðu þeir Kolbeinn þá heim með sér til Fagureyjar. Ekki varð af liðsafnaði Sturlu og undu þeir Kolbeinn illa við það. Hafði hann verið kyrr meðan í Fagurey og hafst ekki að. Fengu þeir þá njósn af að lið Kolbeins var komið í Arney og höfðu þeir eitt skip. Tók Sturla þá það ráð að gera mann vestur í móti Þórði og bað að hann skyldi hvata suður sem mest. En hann sjálfur og Dufgussynir reru inn til Arneyjarsunds fjórum skipum og ætluðu að verja Kolbeins mönnum sundið þar til er Þórður kæmi vestan. Var þar svo til farið að þröskuldur lá í sundinu en djúpt af út tvo vega. Var þar reitt að fjörum en eigi flóðum. En er þeir Sturla komu að sundinu lögðu þeir skipum tveim megin hjá þröskuldinum og ætluðu að grýta á þá svo að þeir næðu eigi utan að ríða. En er fjara tók hertu þeir Kolbeins menn á og riðu utan á þröskuldinn. Tók þá að mjókka sundið og mátti þá grýta á skipamenn úr báðum eyjunum. Hrukku þeir Sturla þá úr sundinu en Kolbeins menn riðu inn í Langey og fluttust þeir þá þegar inn yfir Krosssund. Eftir það riðu þeir þegar inn um Meðalfellsströnd og svo inn til Dala en Sturla fór heim í Fagurey. Sendimaður Sturlu mætti Þórði í Flatey og segir Þórði hvað títt var suður þar. Þórður bað sína menn ferma hvert skip af grjóti. Tók hann þá heit mikið til guðs og talaði langt erindi og snjallt og herti alla í ákafa ef fundi manna bæri saman að hver skyldi duga sem mannlegast. Eftir það gengu menn á skip sín. Var þá bæði gert, siglt og róið suður um flóana. En er skipin sóttu suður undir eyjarnar þá sáu þeir Kolbeinn Arnórsson ungi og þóttust þegar vita að það mundi vera lið Þórðar. Þeir Þórður fundu einn bát er fiskimenn voru á og sögðu þeir slíkt sem í hafði gerst með þeim Sturlu og Kolbeins mönnum. Hélt Þórður þá út til Fagureyjar og fundust þeir Sturla þar. Var það þá ráðs tekið að Teitur Styrmisson var sendur suður til Böðvars að beiða hann liðveislu. En þeir Þórður og Sturla héldu skipum sínum inn til Hólmsláturs. Skyldu Böðvar og þeir Teitur þar koma til móts við þá. Komu þeir Böðvar og Teitur að ákveðinni stundu. Fór þá sem fyrr að Böðvar vildi eigi veita Þórði móti Kolbeini. Lá Þórður þá um hríð undir Hólmsláturseyju með þrjá tigi skipa og hafði þá á fjórða hundraði manna. En frá þeim Kolbeini er það að segja að þeir riðu inn í Hvammssveit og svo yfir í Laxárdal. Tóku þá að herja, meiða menn en ræna fé. Ráku menn þá bú sitt á fjöll og forðuðu sér svo og fé sínu. Tósti hét maður. Hann var fylgdarmaður Hjalta biskupssonar. Hann reið upp á hálsana fyrir sunnan Laxárdal að leita fararskjóta manna og þeir þrír saman. Þeir sáu hvar undan þeim voru rekin naut og hross og voru með þrír menn. Voru þeir allir slyppir. Sá maður hét Ingólfur er féið rak. Hann var mikill maður og sterkur. Hann sá að þeir mundu hvergi undan komast og bað að þeir skyldu renna á þá þegar er þeir mættu. En er þeir Tósti komu eftir þá báðu þeir þá Ingólf laus láta föngin. En Ingólfur kvað það eigi mundi að óreyndu og rann hann þegar á Tósta en þeir félagar þeirra sóttust í annan stað. Hvortveggi þeirra, Tósti og Ingólfur, voru sterkir menn. Fór þá svo með þeim að Tósti féll. Greip Ingólfur þá meðalkaflann á sverðinu, því er Tósti var gyrtur með, og hjó þá undan Tósta fótinn þar er kálfi var digrastur en annan í ristarliðnum í einu högginu. Eftir það flettu þeir þá alla vopnunum og hestunum en félagar Tósta fluttu hann til húss og segja Hjalta að Tósti hefði fengið áverka. Þeir Hjalti sáu þá hvar menn slógu á engiteig. Lét Hjalti þá taka. Hét annar Áslákur en annar Árni. Þeir voru gamlir menn og heilsulitlir og höfðu þeir því eigi forðað sér. Hjalti lét hvorntveggja þeirra fóthöggva og mæltust þau verk illa fyrir. Þá lét Hjalti enn brjóta fótleggi í tveim mönnum í Laxárdal. Eftir það reið hann heim suður en Kolbeinn norður til Skagafjarðar. En er Þórður spurði þetta þá sigldi hann vestur til Barðastrandar. Gekk hann þá af skipum en lét menn fara með skipin hið ytra. Spurði Þórður að þeir Broddi og Hafur höfðu haldið skipunum norður úr Ísafirði og höfðu gert þar áður nokkuð hervirki en drepið engan mann. Fór Þórður þá heim til Mýra og allir menn til búa sinna. Var hann þá heima um hríð. Var nú af látið að leita um sættir. Þótti þá sýnt að annar hvor þeirra Kolbeins mundi hníga verða fyrir öðrum.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.