Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Reykd ch. 16

Reykdœla saga 16 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Reykd ch. 16)

Anonymous íslendingasögurReykdœla saga
151617

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Nú er frá því að segja að Háls kemur einhverju sinni á fund
Áskels og ber upp vandkvæði sín fyrir honum, segir að varla
þóttist hann mega búi halda ef Helga kona hans kemur eigi
heim og biður Áskel nú hlut í eiga og vita ef hún vildi enn
láta að hans orðum. Áskell hét nú að eiga hlut í með þeim ef
Háls vill því heita í móti að láta batna samfararnar við
hana.



Svo er sagt að Áskell bjóst til ferðarinnar með tuttuganda
mann og var í ferð með honum Vémundur og Háls. Og nú fara
þeir þar til er þeir koma þar sem heitir Leyningsbakki og þá
mælti Áskell að þar vildi hann vera grafinn þá er hann
andaðist og þótti þar vera gott landsleg og sagði að hann
vildi ekki fé hafa með sér. Nú svara þeir frændur hans að
þess skyldi langt að bíða að hann þyrfti niður að grafa.



Síðan aka þeir til Eyjafjarðar og upp með Eyjafjarðará og nær
gagnvart Stokkahlöðum. Vémundur og Háls riðu fram fyrir og
sjá þeir að menn ganga brott úr laugunni og kenna að þar var
Steingrímur og nokkurir menn með honum.



Og þá mælti Háls: "Við hefir Steingrímur enn leitað að þvo af
sér svívirðinguna er þú lést ljósta hann með sauðarhöfðinu.
Og þó mun honum það tregt veita áður en hann fái alla af
þvegið."



Og nú segir Áskell að honum þótti helst tröll toga tungu úr
höfði honum er hann mælti slíkt, sagði að meiri von væri að
þeir hefðu heyrt hvað hann hafði mælt er hann var forviðris
en Áskell kveðst heyra í gegn veðrinu og var mjög löng stund
fram til þeirra Vémundar. En þó kvað hann nú svo búið vera
mundu.



Þeir ríða nú í Eyjafjarðardal til Grana og voru þar um
nóttina. Nú beiðir Áskell Grana að Helga dóttir hans mundi
verða í ferð með þeim og hét nú því á mót að Háls skyldi
betur við hana vera héðan af en áður hafði hann verið en
ellegar kveðst hann mundu heimta út peninga hennar og láta
hana þá heim fara ef eigi betraðist um af hans hendi. Og
Grani vill enn gera sem Áskell beiddi.



Nú bjuggust þeir á brott þaðan snemma um morguninn og var
Helga í þeirra ferð og Grani lét aka Áskatli til Vöðlaheiðar.
En er þau koma gagnvart Kroppi þá sáu þau þrjá tigu manna
renna til árinnar. Og nú bað Áskell að þeir skyldu fara undir
stakkgarðinn er þar var hjá þeim og æja hestum sínum en síðan
bað hann þá ganga fram á bakkann og verjast þaðan ef eigi
væri allt fritt af Steingríms hendi og þótti nú vera mega að
eigi þyrfti nú að dyljast við hvort Steingrímur hefði heyrt
fyrra dags það sem Háls mælti. Og nú ganga þeir fram á
bakkann. En svo er sagt að áin var ísuð og var ótraustur
ísinn á ánni. Áskell spurði þá hvað Steingrímur vildi er hann
fór svo hvatlega. En Steingrímur kvað nú mál að efna
heitstrenging sína og kvað nú fleiri munu gjalda Vémundar en
þá er þess væru maklegir.



Nú er svo sagt að þar sló þegar í bardaga er þeir voru komnir
í skotmál. Þá sá Steingrímur að seint mun að vinnast meðan
þeir gangast eigi nær en svo sem þá var og þykir nú það eina
til að þeir leiti yfir ísinn að þeim Áskatli. Nú mælti Áskell
til Steingríms og bað hann varlega fara á ísinn og kvað hann
ótraustan en Helgi úr Árskógi svaraði og kvað þá munu sára
mjög, Áskel og förunauta hans, og hann mundi fyrir því slíkt
mæla og letja þá atgöngunnar. Þá segir Þorvarður Örnólfsson
að honum þykir atsóknin þeirra Steingríms óvænleg. Þá tók
Helgi úr Árskógi það bragða, mágur hans, að hann stakk
spjótskaftinu niður á ísinn og hljóp svo á bakkann upp að
þeim Áskatli. Háls hjó þegar framan í fang Helga svo að hann
féll á bak aftur út á ána og fékk þegar bana.



Svo er sagt að nú brast niður spöngin undir þeim Steingrími.
Sumir vilja það segja að Vémundur skyti til Steingríms með
spjóti þá er hann vildi upp úr vökinni á ísinn og yrði honum
það að bana en sumir segja að hann drukknaði þar í vökinni.
Tveir menn drukknuðu aðrir en Steingrímur. Tveir menn voru og
drepnir af hans förunautum, Helgi mágur hans og einn maður
annar.



Svo er sagt að Áskell bað þá nú hvata í brott sem þeir mega.
Ekki er þess getið að hann týndi neinum manni í bardaganum.
Ráðast þau nú til ferðar. Þeir ríða nú fyrir, Vémundur og
förunautar þeirra, og ræða um að mjög vel hefði að borist er
Steingrímur var af ráðinn og þótti þeim vel hafa gengið
leikurinn.



Frá því er að segja að sá maður hafði verið í ferðinni með
Steingrími er Þórir er nefndur. Hann var son Ketils flatnefs.
Hann hafði rennt fótskriðu yfir ísinn og leyndist þar þá er
hann sá hversu Steingrími hafði farist. Þar heitir Kárapollur
sem hann var staddur. Nú er hann þóttist vita að þeir Áskell
mundu brott farnir frá ánni þá hljóp hann undan ísinum og upp
á bakkana. Þá Vémund hafði nú mjög brátt borið undan fram.
Það er frá Þóri að segja að hann hleypur nú fram eftir þeim
Áskatli og er hann kom að sleðanum þar sem þeir óku þá hjó
hann þegar til Áskels goða og kom í höfuðið. Hann snýr nú
þegar aftur til árinnar og rennir enn fótskriðu yfir ísinn og
fer nú til sinna förunauta og sagði þeim frá sinni ferð. Þeim
þótti hann hafa haft gott erindi. Fara þeir nú heim og una
sinni ferð illa.



Frá Áskatli er það að segja að hann bað Helgu binda um höfuð
sér og ekki skyldi hún gera vart við um áverkann og kveðst
gjarna vilja að hér hlytist ekki illt af ef hann mætti því
við koma. Og hún gerði sem hann beiddi og gat ekki um þetta
og vissu þau tvö ein þenna atburð.



Þau komust á Háls um aftaninn. Og um morguninn snemma vekur
Áskell þá og biður upp standa hvatlega og kveðst heim vilja
til dagverðar um daginn. Og nú fara þau og komast yfir
Fljótsheiði. Nú sagði hann þeim að hann hafði sár fengið og
hversu það hafði að borist og kveðst fyrir því eigi fyrr hafa
til sagt að hann vissi kapp frænda sinna um það að þeir mundu
eigi hafa skilið við svo búið ef þeir vissu þá þegar en hann
kvaðst gjarna vilja að engir menn hlytu illt af vígi hans og
bað þá vera sáttgjarna frændur sína og kvað þá það best af að
gera að stöðva óhöppin sem mátti, sagði og að hann þóttist
það jafnan gert hafa um þeirra mál að firra þá vandræðum sem
hann mátti og bað þá nú þess minnast um þenna hlut er honum
þótti svo miklu máli skipta, segir og að hann vildi gerð
þeirra Eyjólfs Valgerðarsonar og Hávarðs og hafði hann þegar
sett ráðið allt fyrir Hávarði um gerðina, hvern veg hann
vildi vera láta. Nú andast Áskell goði og þótti mönnum það
mikill mannskaði því að hann hafði verið mikill höfðingi og
vinsæll. Nú veita þeir honum þvílíkan umbúnað sem hann hafði
fyrir sagt og þóttu nú þessi tíðindi helsti fljótt að hendi
hafa komið.



Þessi tíðindi spyrjast nú víða og þótti öllum mikið að orðið
í fráfalli slíkra manna. Þótt Áskell væri mörgum mönnum meir
harmdauði en Steingrímur þá var þó hvortveggi mikill
höfðingi.



Nú er svo sagt að Eyjólfur sendi orð Hávarði og svo Þorsteini
syni Áskels og Vémundi og öðrum frændum hans þeim sem nokkurs
voru verðir. Skyldu þeir koma á Möðruvöllu til sáttarfundar.
En því er Skútu Áskelssonar ekki hér við getið að hann var þá
ekki á Íslandi og hafði hann verið utan um hríð. Og nú koma
menn til fundarins. Er svo sagt að Einar Konálsson fóstri
Eyjólfs átti mikinn hlut í sáttmálum millum manna. Er nú um
leitast ef Þorsteinn eða frændur hans vildu sættir taka.



Þorsteinn segir: "Að því hefi eg jafnan hugað þá er eg hefi
verið við staddur þá er faðir minn var við málaferli manna að
jafnan vildi hann firra menn vandræðum heldur en æsa þá fram
að óhöppunum. Og svo mikinn hug sem hann lagði á jafnan að
sætta menn þá líst mér," segir hann, "sem gjarna mundi hann
vilja að hér gerðust eigi vandræði af á milli manna þessu
máli er hann tekur svo mjög sjálfan. Nú mun eg eigi hitta mér
betra ráð en líkja sem mest eftir því sem eg vissi að hann
gerði og mun eg eigi níta sættunum."



Kemur nú þar að menn vilja að Eyjólfur og Hávarður geri um
málin eftir því sem Áskell hafði beitt fyrir öndverðu og er
þeir höfðu sáttir á orðið á málið þá biðja þeir Þorstein koma
til sín og aðra menn þá sem þar voru við staddir. Var sú
sættargerð þeirra Hávarðs og Eyjólfs að vígin Áskels og
Steingríms skyldu á standast en hinir þrír förunautar
Steingríms er þar létust skulu koma fyrir tilferðina þeirra
Steingríms en goldin aftur Eyin mikla fyrir víg Helga úr
Árskógi. Og voru nú veittar tryggðir í milli manna nema fyrir
Skútu. Hann var utanlands. Þórir skyldi fara utan og vera
aldrei í Norðlendinga fjórðungi meðan Fjörleifarsynir væru á
lífi. Eyjólfur seldi nú gripina í hendur Þorsteini og
Hávarði, þá er Áskell hafði honum selda eftir
hrútshöfuðshöggið. Og nú skiljast menn vel sáttir og undu nú
vel þessum málalyktum.



En frá Vémundi kögur er það að segja að hann varð sóttdauður
en þótti þó vera hinn mesti garpur meðan hann lifði.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.