Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Háv ch. 7

Hávarðar saga Ísfirðings 7 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Háv ch. 7)

Anonymous íslendingaþættirHávarðar saga Ísfirðings
678

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Eftir það býr hún ferð hans og ríður hann leið sína. Var karl
heldur bjúgur og kemur hann á þing. Voru þá tjaldaðar búðir
og menn allir komnir. Hann reið að einni mikilli búð en þá
búð átti Steinþór af Eyri, ríkur maður og höfðingi mikill og
hinn mesti garpur og fullhugi. Hann stígur af baki og gengur
inn í búðina. Sat Steinþór og menn hans hjá honum þar.
Hávarður gekk fyrir hann og kvaddi hann vel. Hann tók vel
kveðju hans og spurði hver hann væri. Hávarður sagði til sín.



Steinþór mælti: "Ertu sá sem frægastan áttir son þann er
Þorbjörn drap og menn ágættu mest vörn hans?"



Hann sagði að sá er hinn sami "og vildi eg bóndi að þú
leyfðir mér að vera í búð þinni um þingið."



Hann svarar: "Það lofa eg víst. Og ver hljóður og fáskiptinn.
Eru þeir sveinarnir jafnan glensmiklir og þér harmur mjög í
hug. Ertu lítt við kominn, gamall og til einskis fær."



Það er sagt að Hávarður karl tekur sér einhvers staðar rúm í
búðinni, leggst þar niður og gengur aldrei úr rúmi sínu.
Aldrei kemur hann á mál sitt við nokkurn mann og líður mjög á
þingið.



Það var einhvern morgun að Steinþór gengur að Hávarði og
mælti: "Hví fórstu hingað þar sem þú liggur hér sem
arftökukarl eða ófær maður?"



Hávarður svarar: "Hitt hafði eg ætlað að leita bóta eftir
Ólaf son minn en eg em ófús til mjög. Er Þorbjörn óspar til
illyrða og ódrengskapar."



Steinþór mælti: "Haf ráð mitt, gakk til funda við Þorbjörn og
kær mál þitt. Vænti eg ef Gestur fer með þér að þú fáir rétt
af Þorbirni."



Hann stóð þá upp og gekk út mjög bjúgur. Fór hann til búðar
þeirra Gests og Þorbjarnar og inn í búðina. Var Þorbjörn þar
en eigi Gestur. Þorbjörn heilsaði Hávarði og spurði hví hann
væri þar kominn.



Hann svarar: "Svo verður mér minnisamt dráp Ólafs sonar míns
að mér þykir sem nýtt sé og er það erindi mitt að beiða þig
bóta fyrir vígið."



Þorbjörn svarar: "Hér kann eg gott ráð til. Kom til mín heim
í héraði. Mun eg þá hugga þig að nokkuru en eg á nú margt að
annast og vil eg að þú klymtir nú ekki á mér."



Hann svarar: "Ef þú gerir nú engan veg á þá hefi eg reynt að
eigi gerir þú heldur heima í héraði. Hafði eg ætlað að
nokkurir mundu styrkja mál mitt."



Þorbjörn mælti: "Heyrið fádæmi," segir hann. "Hann ætlar að
koma mönnum á hendur mér. Ver á brott og kom ekki á þetta mál
við mig síðan ef þú vilt ómeiddur vera."



Hávarður reiddist þá mjög og sneri út úr búðinni og mælti:
"Urðum til gamlir og verið hefðu þeir mínir dagar að mér
hefði ólíklegt þótt að eg mundi þola slíkan ójafnað."



Og er hann gengur í brott þá gengu menn í móti honum. Var þar
Gestur Oddleifsson og fylgdarmenn hans. Hávarður var svo
reiður að hann hugði varla að hvar hann fór. Hann vill og
ekki finna mennina. Gekk hann heim til búðar. Gestur leit til
mannsins er gekk hjá honum.



Hávarður gekk til rúms síns og lagðist niður og blés við.
Steinþór spurði hversu farið hefði. Hann sagði sem fór.



Steinþór svarar: "Slíkt er óheyrilegur ójafnaður og vænn til
mikillar sneypu nær sem fram kemur."



En er Gestur kom inn í búðina fagnaði Þorbjörn honum vel.



Þá mælti Gestur: "Hver gekk maður úr búðinni fyrir litlu?"



Þorbjörn svarar: "Hví spyrð þú svo undarlega, vitur maður?
Ganga hér miklu fleiri út og inn en vér megum greina."



Gestur svarar: "Þessi maður var ólíkur öðrum mönnum. Hann var
mikill vexti og nokkuð við aldur og skaust á fótum og þó hinn
karlmannlegasti og svo leist mér sem fullur væri upp harms og
óyndis og skaprauna og svo var hann reiður að hann gáði eigi
hvar hann fór. Mér leist og maðurinn giftusamlegur og eigi
allra færi við að eiga."



Þorbjörn svarar: "Þar mun verið hafa Hávarður karl þingmaður
minn."



Gestur spurði: "Var sá ekki hans son er þú drapst saklausan?"



"Það ætla eg víst," sagði hann.



Gestur mælti: "Hversu þykist þú hafa efnt það er þú lofaðir
mér þá er eg gifti þér systur mína?"



Þorgils hét maður og var kenndur við móður sína og kallaður
Hölluson. Hann var hinn mesti ágætismaður og fullhugi. Var
hann þá með Gesti frænda sínum og þá sem mestur uppgangur
hans. Gestur bað Þorgils ganga eftir Hávarði og biðja hann
þangað koma. Þorgils gekk til búðar Hávarðar og sagði honum
að Gestur vildi finna hann.



Hávarður svaraði: "Ófús em eg að fara og verða að þola
Þorbirni ójafnað og skemmileg orð."



Þorgils bað hann fara, "mun Gestur styðja þitt mál."



Hávarður fór og er þó tregur til. Koma þeir til Gests. Hann
stendur upp í móti honum og fagnaði honum, setur hann niður
hjá sér.



Þá mælti Gestur: "Nú skaltu Hávarður taka til að upphafi og
segja frá skiptum ykkrum Þorbjarnar."



Hann gerði nú svo. Og er hann hafði sagt spurði Gestur
Þorbjörn hvort nokkuð væri svo. Þorbjörn kvað ekki hégómað
frá.



Gestur mælti: "Hefir nokkur heyrt slíkan ójafnað? Eru hér
tveir kostir til. Sá annar að eg rýf öll kaup ella lát mig
einn skera og skipta um ykkur mál."



Þorbjörn játar því.



Þeir gengu þá út úr búðinni. Kallaði Gestur til sín fjölda
manna og stóðu menn í hring. En þar voru í hringnum nokkurir
menn saman komnir og töluðu málið.



Þá mælti Gestur: "Eigi kann eg Þorbjörn að gera svo mikið sem
vert væri fyrir því að þú hefir ekki til. Vil eg gera fyrir
víg Ólafs þrenn manngjöld. En fyrir annan ójafnað þann sem þú
hefir gert þeim Hávarði þá vil eg gera þér Hávarður, haust og
vor, að þú komir til mín og skal eg sæma þig gjöfum og því
heita þér að gera aldrei forverkum við þig meðan við lifum
báðir."



Þá mælti Þorbjörn: "Þessu vil eg játa og gjalda hæglega heima
í héraði."



Gestur svaraði: "Nú skal gjalda allt féið hér á þinginu og
gjalda vel og skörulega. Mun eg svo leggja til ein
manngjöld."



Lét hann og þegar það fram allt vel goldið. Settist Hávarður
þá niður og hellti í kápuskaut sitt. Þorbjörn gekk þá að og
galt smám og smám og gat goldið ein manngjöld og kvað þá
lokið því er hann hefði til. Gestur bað hann þá ekki undan
draga.



Þorbjörn tekur þá einn knýtiskauta og leysir til, "það mun
víst að þá mun honum ekki vangoldið þykja ef þetta fer til" -
slær síðan á nasir Hávarði svo að þegar féll blóð um hann -
"eru þar nú tennur og jaxlar," segir Þorbjörn, "úr Ólafi syni
þínum."



Hávarður sér nú að það hrynur ofan á kápuskautið. Sprettur
hann upp ákafareiður svo að sinn veg hrýtur hver peningurinn.
Hann hafði einn staf í hendi og hleypur að hringnum og setur
stafinn fyrir brjóst einum manni svo að þegar fellur hann á
bak aftur svo að hann lá lengi í óviti. Hávarður stökk út
yfir mannhringinn svo að hann kom hvergi við og kom hvar
fjarri niður og svo heim til búðar sem ungur maður. Og er
hann kom heim mátti hann við engan mann mæla og kastaði sér
niður og lá sem sjúkur væri.



Eftir þetta mælti Gestur við Þorbjörn: "Engum manni ertu
líkur að illmennsku og ójafnaði. Kann eg og eigi að sjá á
manni ef eigi iðrast þú þessa nokkurt sinn eða þínir
frændur."



Gestur var þá svo reiður og óður að þegar ríður hann af
þinginu til Ísafjarðar og gerir skilnað þeirra Þorbjarnar og
Þorgerðar. Þykir Þorbirni nú hin mesta smán og öllum frændum
hans en geta þó ekki að gert. Sagði Gestur að svo muni hann
annarra skamma verri bíða og sér maklegri. Ríður Gestur á
Barðaströnd með frændkonu sína og of fjár.



Svo er sagt að eftir þingið býst Hávarður karl heim. Var hann
þá allstirður.



Þá mælti Steinþór: "Ef þú þarft Hávarður lítillar liðveislu
við þá kom til mín."



Hann þakkaði honum, reið síðan heim og lagðist niður í sæng
sína og lá þar hina þriðju tólf mánuði. Var hann þá miklu
stirðastur. Bjargey hélt hinu sömu fram um athöfn sína að hún
reri á sjó hvern dag með Þórhalli.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.