Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Fbr ch. 24

Fóstbrœðra saga 24 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Fbr ch. 24)

Anonymous íslendingasögurFóstbrœðra saga
232425

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þá er Þormóður var orðinn heill maður þess er Falgeir hafði á
honum unnið þá fluttu þeir Skúfur og Bjarni Þormóð heim á
Stokkanes og varðveittu hann þar á laun í einu búri. Þar var
Þormóður hinn þriðja vetur. Þann vetur seldu þeir Skúfur og
Bjarni bæinn á Stokkanesi og aðrar jarðir þær sem þeir áttu
og svo kvikfé og ætluðu að ráðast í brott af Grænlandi.



Snemmendis um vorið bjuggu þeir skip sitt og settu fram. Þá
fýstist Þormóður úr útibúrinu. Hann sagðist eiga erindi
norður í fjörðinn. Hann fær sér þá einn bát. Fífl-Egill réðst
til ferðar með honum. Sest Egill til ára en Þormóður stýrir.
Egill var góður ræði og vel syndur. Veður var bjart og gott,
sólskin og vindur lítill. Þeir fara inn eftir Einarsfirði. Og
er þeir voru komnir inn í fjörðinn þá ókyrrist Þormóður mjög
og róast um og hallar skipinu ýmsa vega.



Egill mælti: "Hví lætur þú svo heimsklega og ferð sem ærir
menn eða hvort vilt þú hvelfa undir okkur skipinu?"



Þormóður svarar: "Óvært er mér."



Egill mælti: "Eigi má eg róa fyrir látum þínum og er nauðsyn
á að þú látir eigi svo ferlega að þú hafir okkur á kafi."



En hvað sem Egill ræðir um þetta þá lýkur svo að Þormóður
hvelfir bátinum undir þeim. Kafar Þormóður undan skipinu og
þegar eftir tekur hann annað kaf að öðru til þess er hann
kemur á land. Hann hefir öxi sína með sér.



Egill kemur upp hjá skipinu og kemst á kjöl, tekur þar hvíld
og litast um og hyggur að ef hann sjái Þormóð nokkuð og fær
eigi séð hann. Réttir Egill þá bátinn og eftir það sest hann
til ára og rær út eftir firði og þar til er hann kemur heim á
Stokkanes, segir þeim Skúfi og Bjarna hið sanna frá sínum
ferðum, lét það fylgja sögunni að hann hugði Þormóð dauðan
mundu vera. Þeim sýndist sjá atburður undarlegur og þykjast
eigi svo búið mega hafa að en renna nokkuð grunum á hvort
Þormóður mun týndur vera.



Nú er að segja frá Þormóði hvað hann hafðist að þá er hann
kom á land. Hann vatt fyrst klæði sín og eftir það tók hann á
sig göngu og fór til þess er hann kom á Hamar til Sigríðar.
Það var síð dags. Hann barði þar á dyr og gengur út kona ein
og heilsar honum og snýr inn aftur og gengur til stofu.
Þormóður gengur eftir henni til stofu og sest utarlega á
óæðra bekk.



Sigríður tók til orða og mælti: "Hver kom þar?"



Hann svarar: "Ósvífur heiti eg."



Sigríður mælti: "Svo er hver sem heitir. Vill Ósvífur vera
hér í nótt?"



Hann svarar, kveðst það vilja. Um myrgininn kom Sigríður að
máli við hann og spurði hvern veg af stæðist um ferðir hans.



Þormóður mælti: "Satt var það að eg nefndist Ósvífur í gær."



Hún svarar: "Kenna þóttist eg þig þó að eg hefði ekki fyrri
séð þig að þú ert Þormóður Kolbrúnarskáld."



Hann svarar: "Eigi gerir að dylja því að rétt kenndan hefir
þú manninn. En eg ætla að fara á Langanes til Þórunnar
Einarsdóttur og hitta Ljót son hennar. Þau hafa oft ljótlega
til mín lagt."



Sigríður mælti: "Þá skal Sigurður son minn fylgja þér. Lengi
hafa þau Ljótur og Þórunn þung verið til vor."



Þormóður mælti: "Óráðlegt sýnist mér að Sigurður fari með mér
því að þið munuð eigi halda mega bústað ykkrum hér ef nokkuð
skerst í með okkur Ljóti."



"Gjarna vil eg láta bústað til þess," sagði Sigríður, "að
Ljótur fengi nokkura svívirðing."



Nú fer Sigurður með Þormóði á Langanes til Þórunnar. Þeir
drepa þar á dyr og gengur út ein kona og heilsar þeim.
Sigurður spurði hvort Ljótur væri heima.



Hún svarar: "Hann er í stofu."



Sigurður mælti: "Biddu hann út koma."



Griðkona gengur inn og mælti Ljótur skyldi út koma.



Hann svarar: "Hver mælti það?"



"Sigurður af Hamri," segir hún, "og annar maður sá er eg
kenndi eigi."



"Hvern veg var sá maður sjónum er þú kenndir eigi?"



Hún svarar: "Svartur maður og hrokkinhærður."



Ljótur mælti: "Líkan segir þú hann Þormóði sakadólgi vorum."



Nú gengur Ljótur fram og konur með honum þær sem þar voru.
Ljótur tekur eitt spjót í hönd sér og gengur í dyrin og
kennir Þormóð og leggur þegar á honum miðjum. Þormóður laust
við laginu öxinni er hann hafði og ber niður spjótið. Kemur
lagið í fót honum fyrir neðan kné og verður það mikið sár.
Ljótur lýtur eftir er hann lagði til Þormóðar og þá höggur
Sigurður meðal herða Ljóti og særir hann miklu sári. Hann
hljóp inn í dyrnar. Þormóður hjó eftir honum og kom höggið á
lærið og reist ofan lærið og kálfann. Hljóp öxin niður í
þröskuldinn. Ljótur féll inn í dyrin. Konurnar hljópu yfir
hann fram og ráku aftur hurðina. Snúa þeir þá í brott.



Mælir Þormóður að Sigurður skyli fara heim á Hamar "og seg
móður þinni tíðindin en eg mun leita fyrir mér," segir
Þormóður.



Nú skiljast þeir. Fer Sigurður heim á Hamar og segir móður
sinni þau tíðindi sem í höfðu gerst.



Sigríður mælti: "Það er mitt ráð að þú farir á fund Skúfs og
skorir á hann til viðtöku. Seg honum að eg vildi selja land
mitt og ráðast með honum brott af Grænlandi."



Nú fer Sigurður á fund Skúfs og ber upp erindi sín fyrir
hann. Skúfur tekur við Sigurði og selur land Sigríðar og
tekur upp bú hennar og flytur til skips.



Þormóður bindur sár sitt og fer ofan til nausts þess er
Þórunn átti. Sér hann að skip hafði verið dregið fram úr
nausti og þykist vita að húskarlar Þórunnar munu vera rónir.
Gengur Þormóður þá til sjóvar og gerir sér rúm í einu
þarabrúki, liggur þar um daginn. Og er aftnast tók þá heyrir
hann áraglamm, verður þess var að húskarlar Þórunnar eru
komnir að landi.



Þeir mæla svo: "Gott veður mun á myrgin og munum vér þá róa,
munum ekki brýna upp skipi voru og láta fljóta hér í höfninni
í nótt."



Þeir gera svo, fara heim síðan. Þá var mjög kveldað. Nú er
þeir eru heim farnir þá rís Þormóður upp og fer þangað sem
skipið flaut, leysir festar og sest til ára, rær á fjörðinn
og stefnir til bæjarins í Vík.



Á því kveldi lagðist Þórdís niður á Löngunesi til svefns. Hún
lét illa í svefni. Og er hún vaknaði mælti hún: "Hvar er
Böðvar son minn?"



Hann svarar: "Hér er eg móðir eða hvað vilt þú?"



Hún svarar: "Eg vil að vér róum á fjörðinn því að þar eru
veiðarefni."



Böðvar svaraði: "Hvern veg er veiðarefni það?"



Þórdís mælti: "Þormóður skógarmaður vor er á firðinum einn á
skipi og skulum vér fara til fundar við hann."

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.