Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eb ch. 45

Eyrbyggja saga 45 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eb ch. 45)

Anonymous íslendingasögurEyrbyggja saga
444546

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Það sumar, áður bardaginn var í Álftafirði, hafði skip komið
í Dögurðarnes sem fyrr var sagt. Þar hafði Steinþór af Eyri
keypt teinæring góðan við skipið. Og er hann skyldi heim færa
skipið tók hann vestanveður mikið og sveif þeim inn um
Þórsnes og lentu í Þingskálanesi og settu þar upp skipið í
Gruflunaust og gengu þaðan út yfir ásana til Bakka og fóru
þaðan á skipi heim. En teinæringurinn hafði ekki sóttur orðið
um haustið og stóð hann þar í Gruflunausti.



Það var einn morgun litlu fyrir jól að Steinþór stóð upp
snemma og segir að hann vill sækja skip sitt inn í
Þingskálanes. Þá réðust til ferðar með honum bræður hans,
Bergþór og Þórður blígur. Þá voru sár hans mjög gróin svo að
hann var vel vopnfær. Þar voru og í ferð Austmenn Steinþórs
tveir. Alls voru þeir átta saman og voru fluttir inn yfir
fjörð til Seljahöfða og gengu síðan inn á Bakka og fór þaðan
Þormóður bróðir þeirra. Hann var hinn níundi.



Ís var lagður á Hofstaðavog mjög svo að bakka hinum meira og
gengu þeir inn eftir ísum og svo inn yfir eið til
Vigrafjarðar og lá hann allur. Honum er svo háttað að hann
fjarar allan að þurru og leggst ísinn á leirana er fjaran er
en sker þau er eru á firðinum stóðu upp úr ísnum og var þar
brotinn mjög ísinn um skerið og voru jakarnir hallir mjög út
af skerinu. Lausasnjór var fallinn á ísinn og var hált mjög á
ísnum.



Þeir Steinþór gengu inn í Þingskálanes og drógu skipið úr
naustinu. Þeir tóku bæði árar og þiljur úr skipinu og lögðu
þar eftir á ísnum og svo klæði sín og vopn þau er þyngst
voru. Síðan drógu þeir skipið inn eftir firðinum og svo út
yfir eiðið til Hofstaðavogs og allt út að skörinni. Síðan
gengu þeir inn eftir klæðum sínum og öðrum föngum. Og er þeir
gengu inn aftur á Vigrafjörð sáu þeir að sex menn gengu innan
úr Þingskálanesi og fóru mikinn út eftir ísnum og stefndu til
Helgafells.



Þeir Steinþór höfðu grun af að þar mundu fara Þorbrandssynir
og mundu ætla til jólavistar til Helgafells. Tóku þeir
Steinþór þá ferð mikla út eftir firðinum til klæða sinn og
vopna þeirra sem þar voru. En þetta var, sem Steinþór gat, að
þar voru Þorbrandssynir. Og er þeir sáu að menn hljópu innan
eftir firðinum þóttust þeir vita hverjir þar mundu vera og
hugðu að Eyrbyggjar mundu vilja sækja fund þeirra. Tóku þeir
þá og ferð mikla og stefndu til skersins og hugðu sér þar til
viðurtöku og fórust þeir þá mjög svo í móti og komust þeir
Þorbrandssynir í skerið.



En er þeir Steinþór hljópu fram um skerið þá skaut Þorleifur
kimbi spjóti í flokk þeirra og kom það á Bergþór Þorláksson
miðjan og varð hann þegar óvígur. Gekk hann inn á ísinn og
lagðist þar niður en þeir Steinþór sóttu þá að skerinu en
sumir fóru eftir vopnum þeirra.



Þorbrandssynir vörðust vel og drengilega. Höfðu þeir og vígi
gott því að jakarnir voru hallir út af skerinu og voru
ákaflega hálir. Tókust því seint áverkar með mönnum áður þeir
komu aftur er vopnin sóttu.



Þeir Steinþór sóttu sex að skerinu en Austmenn gengu í
skotmál á ísinn frá skerinu. Þeir höfðu boga og skutu á þá í
skerið og varð þeim það skeinusamt.



Þorleifur kimbi mælti þá er hann sá að Steinþór brá sverðinu:
"Hvítum ræður þú enn hjöltunum Steinþór," sagði hann, "en
eigi veit eg hvort þú ræður enn deigum brandinum sem á hausti
í Álftafirði."



Steinþór svarar: "Það vildi eg að þú reyndir áður við skildum
hvort eg hefði deigan brandinn eða eigi."



Sóttist þeim seint skerið. Og er þeir höfðu langa hríð við
ást gerði Þórður blígur skeið að skerinu og vildi leggja
spjóti til Þorleifs kimba því að hann var jafnan fremstur
sinna manna. Lagið kom í skjöld Þorleifs. En með því að hann
varði sér mjög til spruttu honum fætur á jakanum þeim hinum
halla og féll hann á bak aftur og renndi öfugur ofan af
skerinu. Þorleifur kimbi hljóp eftir honum og vildi drepa
hann áður hann kæmist á fætur. Freysteinn bófi hljóp eftir
Þorleifi. Hann var á skóbroddum.



Steinþór hljóp til og brá skildi yfir Þórð, er Þorleifur
vildi höggva hann, en annarri hendi hjó hann til Þorleifs
kimba og undan honum fótinn fyrir neðan kné. En er þetta var
tíðinda þá lagði Freysteinn bófi til Steinþórs og stefndi á
hann miðjan. En er hann sá það þá hljóp hann í loft upp og
kom lagið milli fóta honum. Og þessa þrjá hluti lék hann senn
sem nú voru taldir.



Eftir þetta hjó hann til Freysteins með sverðinu og kom á
hálsinn og brast við hátt.



Steinþór mælti: "Ball þér nú Bófi?" sagði hann.



"Ball víst," sagði Freysteinn, "og ball hvergi meir en þú
hugðir því að eg er eigi sár."



Hann hafði verið í flókahettu og saumað í horn um hálsinn og
kom þar í höggið. Síðan snerist Freysteinn aftur upp í
skerið. Steinþór bað hann eigi renna ef hann væri eigi sár.
Snerist Freysteinn þá við í skerinu og sóttust þá allfast og
varð Steinþóri fallhætt, er jakarnir voru bæði hálir og
hallir, en Freysteinn stóð fast á skóbroddunum og hjó bæði
hart og tíðum. En svo lauk þeirra skiptum að Steinþór kom
sverðshöggi á Freystein fyrir ofan mjaðmir og tók manninn í
sundur í miðju.



Eftir það gengu þeir upp í skerið og léttu eigi fyrr en
fallnir voru allir Þorbrandssynir.



Þá mælti Þórður blígur að þeir skyldu á milli bols og höfuðs
ganga allra Þorbrandssona en Steinþór kvaðst eigi vilja vega
að liggjöndum mönnum.



Gengu þeir þá ofan af skerinu og þar til er Bergþór lá og var
hann þá enn málhress og fluttu þeir hann með sér inn eftir
ísnum og svo út yfir eið til skipsins. Reru þeir þá skipinu
út til Bakka um kveldið.



Sauðamaður Snorra goða hafði verið á Öxnabrekkum um daginn og
séð þaðan fundinn á Vigrafirði. Fór hann þegar heim og sagði
Snorra goða að fundurinn hefði orðið á Vigrafirði um daginn
lítt vinsamlegur. Tóku þeir Snorri þá vopn sín og fóru inn
til fjarðarins níu saman. Og er þeir komu þar voru þeir
Steinþór í brottu og komnir inn af fjarðarísnum.



Sáu þeir Snorri á sár manna og voru þar engir menn látnir
nema Freysteinn bófi en allir voru þeir sárir til ólífis.



Þorleifur kimbi kallar á Snorra goða og bað þá fara eftir
þeim Steinþóri og láta engan þeirra undan komast.



Síðan gekk Snorri goði þangað sem Berþór hafði legið og sá
þar blóðflekk mikinn. Hann tók upp allt saman, blóðið og
snæinn, í hendi sér og kreisti og stakk í munn sér og spurði
hverjum þar hefði blætt.



Þorleifur kimbi segir að Bergþóri hefir blætt.



Snorri segir að það var holblóð.



"Má það fyrir því," segir Þorleifur, "að það var af spjóti."



"Það hygg eg," sagði Snorri, "að þetta sé feigs manns blóð og
munum vér eigi eftir fara."



Síðan voru Þorbrandssynir færðir heim til Helgafells og
bundin sár þeirra.



Þóroddur Þorbrandsson hafði svo mikið sár aftan á hálsinn að
hann hélt eigi höfðinu. Hann var í leistabrókum og voru votar
allar af blóðinu. Heimamaður Snorra goða skyldi draga af
honum. Og er hann skyldi kippa brókinni fékk hann eigi af
honum komið.



Þá mælti hann: "Eigi er það logið af yður Þorbrandssonum er
þér eruð sundurgerðamenn miklir að þér hafið klæði svo þröng
að eigi verður af yður komið."



Þóroddur mælti: "Vantekið mun á vera." Eftir það spyrnti sá
öðrum fæti í stokkinn og togaði af öllu afli og gekk eigi af
brókin.



Þá gekk til Snorri goði og þreifaði um fótinn og fann að
spjót stóð í gegnum fótinn milli hásinarinnar og fótleggsins
og hafði níst allt samt, fótinn og brókina. Mælti Snorri þá
að hann væri eigi meðalsnápur að hann hafði eigi hugsað
slíkt.



Snorri Þorbrandsson var hressastur þeirra bræðra og sat undir
borði hjá nafna sínum um kveldið og höfðu þeir skyr og ost.
Snorri goði fann að nafni hans bargst lítt við ostinn og
spurði hví hann mataðist svo seint. Snorri Þorbrandsson
svaraði og sagði að lömbunum væri tregast um átið fyrst er
þau eru nýkefld.



Þá þreifaði Snorri goði um kverkurnar á honum og fann að ör
stóð um þverar kverkurnar og í tunguræturnar. Tók Snorri goði
þá spennitöng og kippti brott örinni og eftir það mataðist
hann.



Snorri goði græddi þá alla, Þorbrandssonu. Og er hálsinn
Þórodds tók að gróa stóð höfuðið gneipt af bolnum nokkuð svo.
Þá segir Þóroddur að Snorri vildi græða hann að örkumlamanni
en Snorri goði kvaðst ætla að upp mundi hefja höfuðið þá er
sinarnar hnýtti. En Þóroddur vildi eigi annað en aftur væri
rifið sárið og sett höfuðið réttara. En þetta fór sem Snorri
gat að þá er sinarnar hnýtti hóf upp höfuðið og mátti hann
lítt lúta jafnan síðan. Þorleifur kimbi gekk alla stund síðan
við tréfót.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.