Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eb ch. 43

Eyrbyggja saga 43 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eb ch. 43)

Anonymous íslendingasögurEyrbyggja saga
424344

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þorbrandur bóndi í Álftafirði átti þræl þann er Egill sterki
hét. Hann var manna mestur og sterkastur og þótti honum ill
ævi sín er hann var ánauðgaður og bað oft Þorbrand og sonu
hans að þeir gæfu honum frelsi og bauð þar til að vinna slíkt
er hann mætti.



Það var eitt kveld að Egill gekk að sauðum í Álftafirði út
til Borgardals. Og er á leið kveldið sá hann að örn fló
vestan yfir fjörðinn. Dýrhundur mikill fór með Agli. Örninn
lagðist að hundinum og tók hann í klær sér og fló vestur
aftur yfir fjörðinn á dys Þórólfs bægifóts og hvarf þar undir
fjallið. Þenna fyrirburð kvað Þorbrandur vera mundu fyrir
tíðindum.



Það var siður Breiðvíkinga um haustum að þeir höfðu
knattleika um veturnáttaskeið undir Öxlinni suður frá Knerri.
Þar heita síðan Leikskálavellir, og sóttu menn þangað um alla
sveitina. Voru þar gervir leikskálar miklir. Vistuðust menn
þangað og sátu þar hálfan mánuð eða lengur. Var þar þá gott
mannval um sveitina og byggð mikil og flestir hinir yngri
menn að leikum nema Þórður blígur. Hann mátti eigi að vera
fyrir kapps sakir en eigi var hann svo sterkur að hann mætti
eigi fyrir þá sök að vera. Sat hann á stóli og sá á leikinn.
Þeir bræður, Björn og Arnbjörn, þóttu eigi að leikum hæfir
fyrir afls sakir nema þeir lékjust við sjálfir.



Þetta sama haust ræddu Þorbrandssynir við Egil, þræl sinn, að
hann skal fara út til knattleikanna og drepa nokkurn af
Breiðvíkingum, Björn eða Þórð eða Arnbjörn, með nokkuru móti
en síðan skal hann hafa frelsi.



Það er sumra manna sögn að það væri gert með ráði Snorra goða
og hafi hann svo fyrir sagt að hann skyldi vita ef hann mætti
leynast inn í skálann og leita þaðan til áverka við menn og
bað hann ganga ofan skarð það er upp er frá Leikskálum og
ganga þá ofan er máleldar væru gervir því að hann sagði það
mjög far veðranna að vindar lögðust af hafi um kveldum og
hélt þá reykinum upp í skarðið og bað hann þess bíða um
ofangönguna er skarðið fyllti af reyk.



Egill réðst til ferðar þessarar og fór fyrst út um fjörðu og
spyr að sauðum Álftfirðinga og lét sem hann færi í eftirleit.
En á meðan hann var í þessi ferð skyldi Freysteinn bófi gæta
sauða í Álftafirði.



Um kveldið er Egill var heiman farinn gekk Freysteinn að
sauðum vestur yfir ána og er hann kom á skriðu þá er Geirvör
heitir er gengur ofan fyrir vestan ána þá sá hann mannshöfuð
laust óhulið. Höfuðið kvað stöku þessa:



Roðin er Geirvör

gumna blóði,

hún mun hylja

hausa manna.


Hann sagði Þorbrandi fyrirburðinn og þótti honum vera
tíðindavænlegt.



En það er að segja af ferð Egils að hann fór út um fjörðu og
upp á fjall fyrir innan Búlandshöfða og svo suður yfir
fjallið og stefndi svo að hann gekk ofan í skarðið að
Leikskálum. Leyndist hann þar um daginn og sá til leiksins.



Þórður blígur sat hjá leikinum. Hann mælti: "Það veit eg eigi
hvað eg sé upp í skarðið, hvort þar er fugl eða leynist þar
maður og kemur upp stundum. Kvikt er það," segir hann. "Þykir
mér ráð að um sé forvitnast," en það varð eigi.



Þenna dag hlutu þeir búðarvörð Björn Breiðvíkingakappi og
Þórður blígur og skyldi Björn gera eld en Þórður taka vatn.
Og er eldurinn var ger lagði reykinn upp í skarðið sem Snorri
hafði getið til. Gekk Egill þá ofan eftir reykinum og stefndi
til skálans.



Þá var enn eigi lokið leikinum. En dagurinn var mjög á liðinn
og tóku eldarnir mjög að brenna en skálinn var fullur af
reyk. Og stefnir Egill þangað. Hann hafði stirðnað mjög á
fjallinu.



Egill hafði skúfaða skóþvengi, sem þá var siður til, og hafði
losnað annar þvengurinn og dragnaði skúfurinn. Gekk þrællinn
þá inn í forhúsið. En er hann gekk í aðalskálann vildi hann
fara hljóðlega því að hann sá að þeir Björn og Þórður sátu
við eld og ætlaði Egill nú á lítilli stundu að vinna sér til
ævinlegs frelsis. Og er hann vildi stíga yfir þröskuldinn þá
sté hann á þvengjarskúfinn þann er dragnaði. Og er hann vildi
hinum fætinum fram stíga þá var skúfurinn fastur og af því
reiddi hann til falls og féll hann innar á gólfið. Varð það
svo mikill dynkur sem nautsbúk flegnum væri kastað niður á
gólfið.



Þórður hljóp upp og spurði hvað fjanda þar færi. Björn hljóp
og upp og að honum og fékk tekið hann áður hann komst á fætur
og spyr hver hann væri.



Hann svarar: "Egill er hér, Björn félagi," sagði hann.



Björn spurði: "Hver er Egill þessi?"



"Þetta er Egill úr Álftafirði," segir hann.



Þórður tók sverð og vildi höggva hann. Björn tók þá Þórð og
bað hann eigi svo skjótt höggva manninn "viljum vér áður hafa
af honum sannar sögur." Settu þeir þá fjötur á fætur Agli.



En um kveldið er menn komu heim til skála segir Egill svo að
allir menn heyrðu hversu ferð hans hafði ætluð verið. Sat
hann þar um nóttin en um morguninn leiddu þeir hann upp í
skarðið, það heitir nú Egilsskarð, og drápu hann þar.



Það voru lög í þann tíma ef maður drap þræl fyrir manni að sá
maður skyldi færa heim þrælsgjöld og hefja ferð sína fyrir
hina þriðju sól eftir víg þrælsins. Það skyldu vera tólf
aurar silfurs. Og er þrælsgjöld voru að lögum færð þá var
eigi sókn til um víg þrælsins.



Eftir víg Egils tóku Breiðvíkingar það ráð að færa þrælsgjöld
að lögum og völdu þrjá tigu manna þaðan frá Leikskálum og var
það einvalalið. Þeir riðu norður um heiði og gistu um nótt á
Eyri hjá Steinþóri. Réðst hann þá til ferðar með þeim. Voru
þeir þaðan í ferð sex tigir manna og riðu inn um fjörðu og
voru aðra nótt á Bakka að Þormóðar, bróður Steinþórs. Þeir
kvöddu þá Styr og Vermund frændur sína til þessar ferðar og
voru þá saman átta tigir manna.



Þá sendi Steinþór mann til Helgafells og vildi vita hvað
Snorri goði tæki til ráða er hann spurði liðsafnaðinn. En er
sendimaðurinn kom til Helgafells sat Snorri goði í öndugi
sínu og var þar engi breytni á híbýlum. Varð sendimaður
Steinþórs engra tíðinda vís hvað Snorri ætlaðist fyrir. En er
hann kom út á Bakka segir hann Steinþóri hvað tíðinda var að
Helgafelli.



Steinþór svarar: "Þess var von að Snorri mundi þola mönnum
lög. Og ef hann fer eigi inn til Álftafjarðar þá sé eg eigi
til hvers vér þurfum liðsfjölda þenna því eg vil að menn fari
spaklega þó að vér höldum málum vorum til laga. Sýnist mér
ráð Þórður frændi," segir hann, "að þér Breiðvíkingar séuð
hér eftir því að þar mun minnst til þurfa að í komi með ykkur
Þorbrandssonum."



Þórður svarar: "Það er víst að eg skal fara og skal Þorleifur
kimbi eigi að því eiga að spotta að eg þori eigi að færa
þrælsgjöld."



Þá mælti Steinþór til þeirra bræðra, Bjarnar og Arnbjarnar:
"Það vil eg," segir hann, "að þið séuð eftir með tuttugu
menn."



Björn svarar: "Eigi mun eg keppast til fylgdar við þig meir
en þér þykir hæfilegt en eigi hefi eg þar fyrr verið að eg
hafi liðrækur verið ger. En það hygg eg," segir hann, "að
yður verði Snorri goði djúpsær í ráðunum en eigi er eg
framsýnn," sagði Björn, "en það er hugboð mitt að þar komi í
þessi ferð að þér þyki þínir menn eigi of margir áður við
finnumst næst."



Steinþór svarar: "Eg skal gera ráð fyrir oss meðan eg er hjá
þó að eg sé eigi svo djúpsær sem Snorri goði."



"Mega skaltu það frændi fyrir mér," segir Björn.



Eftir þetta riðu þeir Steinþór brott af Bakka, nær sex tigir
manna, inn eftir Skeiðum til Drápuhlíðar og inn yfir
Vatnsháls og um þveran Svelgsárdal og stefndu þaðan inná
Úlfarsfellsháls.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.