Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eb ch. 29

Eyrbyggja saga 29 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eb ch. 29)

Anonymous íslendingasögurEyrbyggja saga
282930

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þóroddur hét maður. Hann var ættaður af Meðalfellsströnd,
skilgóður maður. Hann var farmaður mikill og átti skip í
ferðum. Þóroddur hafði siglt kaupferð vestur til Írlands, til
Dyflinnar.



Í þann tíma hafði Sigurður jarl Hlöðvésson í Orkneyjum herjað
til Suðureyja og allt vestur í Mön. Hann lagði gjald á
Manarbyggðina. Og er þeir höfðu sæst setti jarl eftir menn að
bíða skattsins en hann var mest goldinn í brenndu silfri. En
jarl sigldi þá undan norður til Orkneyja.



En er þeir voru seglbúnir er skattsins biðu tóku þeir
útsunnanveður. Og er þeir höfðu siglt um stund gekk veður til
landsuðurs og austurs og gerði storm mikinn og bar þá norður
um Írland og brutu þar skipið í spón við ey eina óbyggða. Og
er þeir voru þar að komnir bar þar að þeim Þórodd Íslending
er hann sigldi úr Dyflini. Jarlsmenn kölluðu á kaupmenn til
hjálpar sér. Þóroddur lét skjóta báti og gekk þar á sjálfur.
En er þeir fundust hétu jarlsmenn á Þórodd til hjálpar sér og
buðu honum fé til að hann flytti þá heim til Orkneyja á fund
Sigurðar jarls en Þóroddur þóttist það eigi mega er hann var
áður búinn til Íslandsferðar. En þeir skoruðu á hann fast því
að þeim þótti við liggja fé sitt og frelsi að þeir væru eigi
upp leiddir á Írland eða Suðureyjar þar sem þeir höfðu áður
herjað. Og svo kom að hann seldi þeim bátinn frá hafskipinu
og tók þar við mikinn hlut af skattinum. Héldu þeir síðan
bátinum til Orkneyja en Þóroddur sigldi bátlaust til Íslands
og kom sunnan að landinu. Hélt hann síðan vestur fyrir og
sigldi inn á Breiðafjörð og kom með heilu í Dögurðarnes og
fór um haustið til vistar með Snorra goða til Helgafells.
Hann var síðan kallaður Þóroddur skattkaupandi.



Þetta var litlu eftir víg Þorbjarnar digra. Þann vetur var að
Helgafelli Þuríður, systir Snorra goða, er Þorbjörn digri
hafði átt.



Litlu eftir það er Þóroddur kom út hafði hann uppi orð sín og
bað Snorra goða að hann gifti sér Þuríði systur sína. En með
því að hann var auðigur að fé og Snorri vissi góð skil á
honum og hann sá að hún þurfti mjög forvistu, við þetta allt
saman sýndist Snorra að gifta honum konuna og veitti hann
brúðkaup þeirra um veturinn þar að Helgafelli. En um vorið
eftir tók Þóroddur við búi að Fróðá og gerðist hann góður
bóndi og skilríkur.



En þegar Þuríður kom til Fróðár vandi Björn Ásbrandsson
þangað komur sínar og var það alþýðumál að með þeim Þuríði
væru fíflingar. Tók Þóroddur þá að vanda um komur hans og
hafði eigi að sök.



Þá bjó Þórir viðleggur að Arnarhvoli. Voru synir hans þá
vaxnir, Örn og Valur, og voru hinir efnilegustu menn. Þeir
lögðu Þóroddi til ámælis að hann þoldi Birni slíka skömm sem
hann veitti honum og buðust þeir til fylgdar með Þóroddi ef
hann vildi ráða bætur á komum Bjarnar.



Það var eitt sinn að Björn kom til Fróðár að hann sat á tali
við Þuríði. En Þóroddur var jafnan vanur inni að sitja þá er
Björn var þar en nú sést hann hvergi.



Þuríður mælti: "Hugsa þú svo um ferðir þínar Björn," sagði
hún, "að eg hygg Þóroddur ætli nú af að ráða hingaðkomur
þínar og get eg að þeir hafi farið á veg fyrir þig og mun
hann ætla að þér skulið eigi jafnliða finnast."



Þá kvað Björn vísu þessa:



Guls mundum við vilja

viðar og blás í miðli,

grand fæ eg af stoð stundum

strengs, þenna dag lengstan,

alls í aftan, þella,

eg tegumk sjálfr að drekka

oft horfinnar erfi,

armlinns, gleði minnar.


Eftir það tók Björn vopn sín og gekk í brott og ætlar heim.
En er hann kom upp um Digramúla hljópu upp fyrir honum fimm
menn. Þar var Þóroddur, húskarlar hans tveir og synir Þóris
viðleggs. Þeir veittu Birni atgöngu en hann varðist vel og
drengilega. Gengu þeir fastast að Þórissynir. Þeir veittu
honum áverka en hann varð banamaður beggja þeirra.



Eftir það leitaði Þóroddur undan með húskarla sína og var sár
lítt en þeir ekki.



Björn gekk leið sína þar til er hann kom heim og gekk til
stofu og bað húsfreyja griðkonu að vinna honum beina. Og er
hún kom í stofu með ljós þá sá hún að Björn var blóðugur
mjög. Gekk hún þá fram og sagði Ásbrandi föður hans að Björn
var blóðugur heim kominn. Gekk Ásbrandur í stofu og spurði
hann hví Björn var blóðugur "eða hafið þið Þóroddur fundist?"



Björn svarar og segir að svo var. Ásbrandur spurði hversu
farið hefðu viðskipti þeirra. Björn kvað:



Munat hyrlesti hraustum

hríðar mér að stríða,

heldr hef eg vígi valdið

Viðleggs sona tveggja,

sem vígbalkar válki

valdr geymi-Bil falda

eða dalsveigi deigum

Draupnis skatt að kaupa.


Síðan batt Ásbrandur sár hans og varð hann græddur að heilu.



Þóroddur sótti Snorra goða að eftirmáli um víg Þórissona og
lét Snorri búa mál til Þórsnessþings en synir Þorláks á Eyri
veittu Breiðvíkingum að málum þessum. Og urðu þær málalyktir
að Ásbrandur gekk til handsala fyrir Björn son sinn og hélt
upp fébótum fyrir vígin en Björn var sekur ger utan um þrjá
vetur og fór hann í brott samsumars.



Það sama sumar fæddi Þuríður að Fróðá sveinbarn og var
nefndur Kjartan. Óx hann upp heima að Fróðá og var snemma
mikill og efnilegur.



En er Björn kom um haf fór hann suður til Danmarkar og þaðan
suður til Jómsborgar. Þá var Pálna-Tóki fyrir Jómsvíkingum.
Björn gekk þar í lög þeirra og var þar kappi kallaður. Hann
var þá í Jómsborg er Styrbjörn hinn sterki vann hana. Björn
fór og til Svíþjóðar er Jómsvíkingar veitu Styrbirni. Hann
var og í orustunni á Fýrisvöllum þá er Styrbjörn féll og
komst þaðan á skóg með öðrum Jómsvíkingum. Og meðan
Pálna-Tóki lifði var Björn með honum og þótti hinn besti
drengur og hinn hraustasti í öllum mannraunum.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.