Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 60

Egils saga Skalla-Grímssonar 60 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 60)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
596061

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Eiríkur konungur réð einn vetur fyrir Noregi eftir andlát
föður síns, Haralds konungs, áður Hákon Aðalsteinsfóstri,
annar sonur Haralds konungs, kom til Noregs vestan af
Englandi, og það sama sumar fór Egill Skalla-Grímsson til
Íslands. Hákon fór norður til Þrándheims; var hann þar til
konungs tekinn; voru þeir Eiríkur um veturinn báðir konungar
í Noregi. En eftir um vorið dró hvortveggi her saman; varð
Hákon miklu fjölmennri; sá Eiríkur þá engan sinn kost annan
en flýja land; fór hann þá á brott með Gunnhildi, konu sína,
og börn þeirra.



Arinbjörn hersir var fóstbróðir Eiríks konungs og barnfóstri
hans; hann var kærstur konungi af öllum lendum mönnum; hafði
konungur sett hann höfðingja yfir allt Firðafylki. Arinbjörn
fór úr landi með konungi; fóru fyrst vestur um haf til
Orkneyja; þá gifti hann Ragnhildi, dóttur sína, Arnfinni
jarli; síðan fór hann með liði sínu suður fyrir Skotland og
herjaði þar; þaðan fór hann suður til Englands og herjaði
þar.



Og er Aðalsteinn konungur spurði það, safnaði hann liði og
fór í mót Eiríki; og er þeir hittust, voru borin sáttmál
milli þeirra, og var það að sættum, að Aðalsteinn konungur
fékk Eiríki til forráða Norðimbraland, en hann skyldi vera
landvarnarmaður Aðalsteins konungs fyrir Skotum og Írum.
Aðalsteinn konungur hafði skattgilt undir sig Skotland eftir
fall Ólafs konungs, en þó var það fólk jafnan ótrútt honum.
Eiríkur konungur hafði jafnan atsetu í Jórvík.



Svo er sagt, að Gunnhildur lét seið efla og lét það seiða, að
Egill Skalla-Grímsson skyldi aldrei ró bíða á Íslandi, fyrr
en hún sæi hann. En það sumar, er þeir Hákon og Eiríkur höfðu
hitst og deilt um Noreg, þá var farbann til allra landa úr
Noregi, og komu það sumar engi skip til Íslands og engi
tíðindi úr Noregi.



Egill Skalla-Grímsson sat að búi sínu; en þann vetur annan,
er hann bjó að Borg eftir andlát Skalla-Gríms, þá gerðist
Egill ókátur, og var því meiri ógleði hans, er meir leið á
veturinn. Og er sumar kom, þá lýsti Egill yfir því, að hann
ætlar að búa skip sitt til brottfarar um sumarið; tók hann þá
háseta; hann ætlar þá að sigla til Englands; þeir voru á
skipi þrír tigir manna. Ásgerður var þá eftir og gætti bús
þeirra, en Egill ætlaði þá að fara á fund Aðalsteins konungs
og vitja heita þeirra, er hann hafði heitið Agli að skilnaði
þeirra.



Egill varð ekki snemmbúinn, og er hann lét í haf, þá byrjaði
heldur seint, tók að hausta og stærði veðrin; sigldu þeir
fyrir norðan Orkneyjar; vildi Egill ekki þar við koma; því að
hann hugði, að ríki Eiríks konungs myndi allt yfir standa í
eyjunum. Sigldu þeir þá suður fyrir Skotland og höfðu storm
mikinn og veður þvert; fengu þeir beitt fyrir Skotland og svo
norðan fyrir England. En aftan dags, er myrkva tók, var veður
hvasst; finna þeir eigi fyrr en grunnföll voru á útborða og
svo fram fyrir. Var þá engi annar til en stefna á land upp,
og svo gerðu þeir, sigldu þá til brots og komu að landi við
Humru mynni; þar héldust menn allir og mestur hluti fjár,
annað en skip; það brotnaði í spón.



Og er þeir hittu menn að máli, spurðu þeir þau tíðindi, er
Agli þótti háskasamleg, að Eiríkur konungur blóðöx var þar
fyrir og Gunnhildur og þau höfðu þar ríki til forráða og hann
var skammt þaðan uppi í borginni Jórvík. Það spurði hann og,
að Arinbjörn hersir var þar með konungi og í miklum kærleik
við konunginn.



Og er Egill var vís orðinn þessa tíðinda, þá gerði hann ráð
sitt; þótti honum sér óvænt til undankomu, þótt hann
freistaði þess að leynast og fara huldu höfði leið svo langa,
sem vera myndi, áður hann kæmi úr ríki Eiríks konungs; var
hann þá auðkenndur þeim, er hann sæju. Þótti honum það
lítilmannlegt að vera tekinn í flótta þeim; herti hann þá
huginn og réð það af, að þegar um nóttina, er þeir höfðu þar
komið, þá fær hann sér hest og ríður þegar til borgarinnar.
Kom hann þar að kveldi dags, og reið hann þegar í borgina;
hann hafði síðan hatt yfir hjálmi, og alvæpni hafði hann.



Egill spurði, hvar garður sá væri í borginni, er Arinbjörn
átti; honum var það sagt; hann reið þangað í garðinn; en er
hann kom að stofunni, steig hann af hesti sínum og hitti mann
að máli; var honum þá sagt, að Arinbjörn sat yfir matborði.



Egill mælti: "Eg vildi, góður drengur, að þú gengir inn í
stofuna, og spyr Arinbjörn, hvort hann vill heldur úti eða
inni tala við Egil Skalla-Grímsson."



Sá maður segir: "Það er mér lítið starf að reka þetta
erindi."



Hann gekk inn í stofuna og mælti stundar hátt: "Maður er hér
kominn úti fyrir dyrum," segir hann, "mikill sem tröll; en sá
bað mig ganga inn og spyrja, hvort þú vildir úti eða inni
tala við Egil Skalla-Grímsson."



Arinbjörn segir: "Gakk og bið hann bíða úti, og mun hann eigi
lengi þurfa."



Hann gerði sem Arinbjörn mælti, gekk út og sagði sem mælt var
við hann.



Arinbjörn bað taka upp borðin. Síðan gekk hann út og allir
húskarlar hans með honum; og er Arinbjörn hitti Egil,
heilsaði hann honum og spurði, hví hann var þar kominn.



Egill segir í fám orðum hið ljósasta af um ferð sína; "en nú
skaltu fyrir sjá, hvert ráð eg skal taka, ef þú vilt nokkurt
lið veita mér."



"Hefir þú nokkura menn hitt í borginni," segir Arinbjörn, "þá
er þig muni kennt hafa, áður þú komst hér í garðinn?"



"Engi," segir Egill.



"Taki menn þá vopn sín," segir Arinbjörn.



Þeir gerðu svo, og er þeir voru vopnaðir og allir húskarlar
Arinbjarnar, þá gekk hann í konungsgarð; en er þeir komu til
hallar, þá klappaði Arinbjörn á dyrum og bað upp láta og
segir, hver þar var; dyrverðir létu þegar upp hurðina.
Konungur sat yfir borðum.



Arinbjörn bað þá ganga inn tólf menn, nefndi til þess Egil og
tíu menn aðra. "Nú skaltu, Egill, færa Eiríki konungi höfuð
þitt og taka um fót honum, en eg mun túlka mál þitt."



Síðan ganga þeir inn; gekk Arinbjörn fyrir konung og kvaddi
hann. Konungur fagnaði honum og spurði, hvað er hann vildi.



Arinbjörn mælti: "Eg fylgi hingað þeim manni, er kominn er um
langan veg að sækja yður heim og sættast við yður; er yður
það vegur mikill, herra, er óvinir yðrir fara sjálfviljandi
af öðrum löndum og þykjast eigi mega bera reiði yðra, þó að
þér séuð hvergi nær. Láttu þér nú verða höfðinglega við þenna
mann; lát hann fá af þér sætt góða fyrir það, er hann hefir
gert veg þinn svo mikinn, sem nú má sjá, farið yfir mörg höf
og torleiði heiman frá búum sínum; bar honum enga nauðsyn til
þessar farar nema góðvilji við yður."



Þá litaðist konungur um, og sá hann fyrir ofan höfuð mönnum,
hvar Egill stóð, og hvessti augun á hann og mælti: "Hví
varstu svo djarfur, Egill, að þú þorðir að fara á fund minn?
Leystist þú svo héðan næstum, að þér var engi von lífs af
mér."



Þá gekk Egill að borðinu og tók um fót konungi; hann kvað þá:




Kominn emk á jó Íva

angrbeittan veg langan

öldu enskrar foldar

atsitjanda at vitja;

nú hefr sískelfir sjalfan

snarþátt Haralds áttar

viðr ofrhuga yfrinn

undar bliks of fundinn.



Eiríkur konungur sagði: "Ekki þarf eg að telja upp sakar á
hendur þér, en þó eru þær svo margar og stórar, að ein hver
má vel endast til, að þú komir aldrei héðan lífs. Áttu engis
annars af von en þú munt hér deyja skulu; máttir þú það vita
áður, að þú myndir enga sætt af mér fá."



Gunnhildur mælti: "Hví skal eigi þegar drepa Egil, eða manstu
eigi nú, konungur, hvað Egill hefir gert, drepið vini þína og
frændur og þar á ofan son þinn, en nítt sjálfan þig; eða hvar
vita menn slíku bellt við konungmann?"



Arinbjörn segir: "Ef Egill hefir mælt illa til konungs, þá má
hann það bæta í lofsorðum þeim, er allan aldur megi uppi
vera."



Gunnhildur mælti: "Vér viljum ekki lof hans heyra; láttu,
konungur, leiða Egil út og höggva hann; vil eg eigi heyra orð
hans og eigi sjá hann."



Þá mælti Arinbjörn: "Eigi mun konungur láta að eggjast um öll
níðingsverk þín; eigi mun hann láta Egil drepa í nótt, því að
náttvíg eru morðvíg."



Konungur segir: "Svo skal vera, Arinbjörn, sem þú biður, að
Egill skal lifa í nótt; hafðu hann heim með þér og fær mér
hann á morgun."



Arinbjörn þakkaði konungi orð sín. "Væntum vér, herra, að
héðan af muni skipast mál Egils á betri leið; en þó að Egill
hafi stórt til saka gert við yður, þá lítið þér á það, að
hann hefir mikils misst fyrir yðrum frændum. Haraldur
konungur, faðir þinn, tók af lífi ágætan mann, Þórólf,
föðurbróður hans, af rógi vondra manna, en af engum sökum; en
þér, konungur, brutuð lög á Agli fyrir sakar Berg-Önundar; en
þar á ofan vilduð þér hafa Egil að dauðamanni og drápuð menn
af honum, en rænduð hann fé öllu, og þar á ofan gerðuð þér
hann útlaga og rákuð hann af landi, en Egill er engi
ertingamaður. En hvert mál, er maður skal dæma, verður að
líta á tilgerðir. eg mun nú," segir Arinbjörn, "hafa Egil með
mér í nótt heim í garð minn."



Var nú svo; og er þeir komu í garðinn, þá ganga þeir tveir í
loft nokkurt lítið og ræða um þetta mál. Segir Arinbjörn svo:
"Allreiður var konungur nú, en heldur þótti mér mýkjast
skaplyndi hans nokkuð, áður létti, og mun nú hamingja skipta,
hvað upp kemur; veit eg, að Gunnhildur mun allan hug á leggja
að spilla þínu máli. Nú vil eg það ráð gefa, að þú vakir í
nótt og yrkir lofkvæði um Eirík konung; þætti mér þá vel, ef
það yrði drápa tvítug og mættir þú kveða á morgun, er við
komum fyrir konung. Svo gerði Bragi, frændi minn, þá er hann
varð fyrir reiði Bjarnar Svíakonungs, að hann orti drápu
tvítuga um hann eina nótt og þá þar fyrir höfuð sitt; nú
mætti vera, að vér bærum gæfu til við konung, svo að þér kæmi
það í frið við konung."



Egill segir: "Freista skal eg þessa ráðs, er þú vilt, en ekki
hefi eg við því búist að yrkja lof um Eirík konung."



Arinbjörn bað hann freista; síðan gekk hann brott til manna
sinna; sátu þeir að drykkju til miðrar nætur. Þá gekk
Arinbjörn til svefnhúss og sveit hans, og áður hann
afklæddist, gekk hann upp í loftið til Egils og spurði, hvað
þá liði um kvæðið.



Egill segir að ekki var ort - "hefir hér setið svala ein við
glugginn og klakað í alla nótt, svo að eg hefi aldregi beðið
ró fyrir."



Síðan gekk Arinbjörn á brott og út um dyr þær, er ganga mátti
upp á húsið, og settist við glugg þann á loftinu, er fuglinn
hafði áður við setið; hann sá, hvar hamhleypa nokkur fór
annan veg af húsinu. Arinbjörn sat þar við glugginn alla
nóttina, til þess er lýsti; en síðan er Arinbjörn hafði þar
komið, þá orti Egill alla drápuna og hafði fest svo, að hann
mátti kveða um morguninn, þá er hann hitti Arinbjörn; þeir
héldu vörð á, nær tími myndi vera að hitta konung.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.