Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ljósv ch. [A]

Ljósvetninga saga 32 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Ljósv ch. [A])

Anonymous íslendingasögurLjósvetninga saga
31[A]

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Ljósvetninga saga- A-gerð Þorgeir goði bjó að Ljósavatni, höfðingi mikill. Forni hét maður er bjó í Haga í Reykjardal, góður bóndi. Þá bjó Arnór í Reykjahlíð, faðir Þorfinns, kappi mikill. Þeir voru þingmenn og vinir Þorgeirs goða. Það er og sagt að þeir Þorfinnur og Grettir fundust og réð þar hvorgi á annan og má af því marka hvílíkur kappi Þorfinnur var. Í þann tíma bjó Ófeigur Járngerðarson í Skörðum, höfðingi og garpur mikill. Ölvir hét maður er bjó að Reykjum, búandi góður. Þeir bræður, Sölmundur og Söxólfur, bjuggu að Gnúpum Víðarssynir, garpar miklir og ójafnaðarmenn og bjuggu fyrir austan í dalnum og voru óeirðarmenn miklir um kvennafar og málaferli og höfðu því mikinn yfirgang að fáir treystust að ganga í mót þeirra vilja. Ærið voru þeir frægir og þó að illu. Sölmundur var fyrir þeim. Hann venur komur sínar til Ölvis að hitta dóttur hans og í mót vilja frænda hennar og fékkst þó engi forstaða af lítilmennsku föður hennar. Það er að segja að Ófeigur átti för inn í hérað og hitti Ölvir hann og bað að hann kæmi þar er hann færi heim aftur og sagði honum ósæmd þeirra Víðarssona. Ófeigur mælti: «Illa mun sjatna ofsi þeirra bræðra en koma mun eg hér er eg fer heim.» Ölvir þakkar Ófeigi góð orð. Ölvir hafði átján þræla. Ófeigur kom þar um kveldið. Nú er að segja frá þeim Víðarssonum að þeir fara heiman til Ölvis. Þá mælti Sölmundur: «Þið bræður skuluð standa í dyrum og horfa út og vætti eg að rýr verður þrælaættin fyrir oss.» Sölmundur sótti inn eftir konunni og hafði hana á brott. Þá mæltu þrælarnir: «Hvað gerðum vér nú átján er þeir Víðarssynir komu að þrír?» En Ófeigur spratt upp og tók vopn sín og gekk út eftir þeim og voru þeir þá komnir að túngarðinum. Og í því er Sölmundur vill taka við henni og hefja út af garðinum kom Ófeigur að í því og grípur til hennar og kippir henni inn af garðinum. «Hvar til ætlar þú Sölmundur,» segir Ófeigur, «um þína ósæmd er þú gerir eftir bóndadætrum? Og máttu svo til ætla að menn munu það eigi þola þér og sæk hana nú þangað í Skörð ef þú vilt og reynum við með okkur.» Sölmundur mælti: «Ekki munum við til þrautar leggja.» Og skildust að því að þeir fóru í brott og tókst svo af fíflingar og ósæmd af tilkomu Ófeigs. Sat Ölvir í friði. Síðan kom Hallvarður út Arnórsson í Húsavík og Sigurður hét maður er skip átti með honum, norrænn maður. Þeir Austmennirnir vistuðust þar um veturinn og var Sigurður með Forna í Haga. Hann seldi varning sinn um veturinn og sagði Forni hvar skuldarstaðir voru bestir. Austmaður fór og bar svo til að hann fór fyrir neðan garðinn að Sölmundar og lá hestur hans í keldu. Sölmundur sá það og fór til og bauð honum til sín og tók við honum vel og falaði varning að honum og hét verði fyrir. Austmaður fór heim og sagði Forna að hann hafði selt Sölmundi varninginn en Forni lét illa yfir og sagði að hann mundi illa gjalda. Nú var kyrrt um veturinn. Um vorið fór Austmaðurinn að heimta varningsverðið en Sölmundur svaraði illa og kvað fúinn vera varninginn og vildi ekki gjalda. Austmaðurinn fór heim. En bráðlega eftir það fóru þeir stefnuför til Sölmundar, Forni og Arnór. Þeir voru fimmtán saman. Þeir bræður voru þrír heima og hlýddu til um hríð. Síðan mælti Sölmundur að einsætt væri að þola slíkt eigi. Og þá hljóp Söxólfur til og þreif spjót sitt og skaut til Austmannsins og fékk hann þegar bana. Þeir fóru við það í brott. Arnór flutti hann upp í Reykjahlíð. Þeir bjuggu málið til þings. Þeir fóru nú á þingið og var leitað um sættir og kom þar að Söxólfur skyldi utan fara og koma eigi út en Sölmundur vera utan þrjá vetur og fóru þeir utan. Sölmundur lagðist í víking og þeir bræður. Í þann tíma var Hákon jarl yfir Noregi og fór Sölmundur til hans og mat jarl hann mikils. Hann fýstist út um sumarið en jarl kvað það óráðlegt, slíkt sem hann átti hér um að vera. Hann hafði þá verið tvo vetur í Noregi. Jarl kvaðst fyrr mundu senda út skip og gripi og hlynna fyrir honum. Hann sendi út hatt girskan og taparöxi þeim Guðmundi og Þorgeiri goða til trausts. Og eftir það fór hann út og hitti þá og sagði þeim vingan jarls og orð en afhenti þeim gjafarnar og gripi þá sem jarl hafði sent þeim. Þeir tóku við honum og voru honum fengnir fjórir menn til fylgdar. Þorgeir mælti til Sölmundar: «Guðmundi varstu sendur því að hann er handgenginn.» Guðmundur mælti: «Þér voru gripirnir sendir og sæki hann að þitt traust. En ef þú vilt eigi það þá verum allir samt og veitumst að málum þessum.» Þorgeir svarar: «Eg em vant við kominn er þingmenn mínir eiga í hlut. En þó mun eg að styðja,» sagði Þorgeir, «en þú ver fyrir málinu.» Guðmundur mælti: «Eigi kann eg í móti því að mæla er þú hefir lögin í þínu valdi.» Þorgeir mælti: «Sé eg ráðið til, að koma honum á þrjár leiðir, Eyfirðinga leið og Reykdæla leið og Ljósvetninga leið, og höldum saman leiðir þó að norður séu meir mínir þingmenn.» Þorgeir átti fjóra sonu, Tjörva, Höskuld, Finna og Þorkel. Þorfinnur var þá utan, úr Reykjahlíð, en Arnór faðir hans hittir Þorgeir og biður hann veita sonum sínum. Þorgeir kvað: «Eigi mun eg Guðmundi í móti vera.» Arnór mælti: «Eigi veit eg hvað í slíku er fólgið. Og gakk þú eigi í móti sonum þínum er málinu vilja fylgja.» Þorgeir svarar: «Mér þykir þú illt ráð hafa upp tekið að leggja sæmd sína í virðing við eins manns mál útlends og sé sá þó látinn nú. Og mun eg Guðmundi veita.» Arnór mælti: «Kynleg veisla og að illu mun verða.» Arnór ríður á Vagla, þar bjó Höskuldur Þorgeirsson, hittir þá bræður og segir hver efni hann ætlar í vera um samband þeirra höfðingjanna. «Það þykir mér ráð,» sagði hann, «að þér bræður hittið Þórð föðurbróður yðvarn, vitran mann og yður vel viljaðan.» Og svo gera þeir. Nú líður á sumarið og setja þeir til njósnir í lið þeirra höfðingjanna og verða þess varir að þeir ætla að koma manninum á þrjár leiðir svo að þeir mættu eigi vita. Guðmundur og Þorgeir ætla nú að fjölmenna. Þeir bræður safna nú liði. Og er þeir eiga skammt til leiðmótsins þá segir Finni Þorgeirsson að þeir munu ríða í móti liði þeirra höfðingjanna. Og svo gera þeir og stíga af baki hestum sínum hjá sauðahúsinu og láta hesta sína að húsabaki en þeir ganga inn í húsið. Svo var háttað húsinu að tvö voru vindaugu á hlöðunni en vegur þeirra Guðmundar lá fyrir dyrnar. Nú ber þá að brátt. En Finni Þorgeirsson var maður skyggn: «Það ræð eg ef yður er hugur á að banna Sölmundi leiðina þá missið eigi klyfjahestsins er milli þeirra höfðingjanna er rekinn fram.» Höskuldur mælti: «Eg skal það annast.» Og er þá ber þar fyrir dyrnar þá skýtur Höskuldur spjóti og keyrði fyrir brjóst Sölmundi þar sem þeir fóru með hann en þeir bræður hlupu út úr húsinu og til hesta sinna og ríða til liðs síns. En þeir Guðmundur og Þorgeir bregða við skjótt þegar er þeir vissu hverjir að ollu og ríða eftir þeim. Og þegar er þeir finnast þá slær þar í bardaga með þeim. Þar fellur Arnór úr Hlíð af liði þeirra Þorgeirssona. Þar féll og húskarl Guðmundar og einn maður af þeim bræðrum. Og ná þeir Guðmundur nú eigi leiðinni. Þórður bróðir Þorgeirs gekk þar mest í millum manna og kvað Þorgeiri mjög missýnast er hann gekk í mót sonum sínum í orustu. Þeir skilja nú að sinni og var Þorgeiri það sagt að Höskuldur sonur hans var mjög sár og báðu menn hann skiljast við mál þessi og vera eigi í móti sonum sínum. Þorgeir mælti til Guðmundar að illt hlyti af málum þessum «og mun eg við skiljast,» segir Þorgeir og svo gerir hann. Guðmundur segir: «Það er nú ráð að við söfnum saman liði okkru.» «Ekki mun nú af því verða,» segir Þorgeir og nú fer hann heim. En frá Höskuldi er það að segja að hann var ekki sár en höfðu þetta því til bragðs tekið að þeir vildu að Þorgeir skildist við sem var. En þeir bræður voru allir saman og óhelguðu Sölmund. Þeir lögðu nú í fjandskap við Guðmund sem lengi hélst síðan. Þeir bræður sátu nú yfir sæmdum og áttu fund um vorið og bundu það saman að skiljast eigi við málið og búa til vígsmálið eftir Arnór og fjörráð við sig. Guðmundur átti annan fund við sína menn. Þeir bræður hittu Ófeig og báðu hann fara til leiðar og kölluðust réttu að fylgja þótt þeir hefðu þann óhelgað er fyrstur fór með vélræði og kom fyrr út en mælt var. Ófeigur hafði áður setið hjá málum þeim og latti hann og kvað ófallið að deila við föður sinn «en mér þykir enn eigi með öllu ráðið hvort hann skilst við málin eða eigi og vildi eg að þú sættist á málin með jafnaði og er sá bestur og mun eg ríða til með þér.» Höskuldur kveðst lítið erindi haft hafa á hans fund «og ertu kallaður drengur góður og garpur mikill en ekki má eg því hæla.» Ófeigur mælti: «Mikið tekur þú af þessu en leita mun eg um sættir fyrst með yður en skiljast þó eigi við þig í þraut. En það ræð eg að þér farið vægilega með yðru máli en takið eigi fyrr sætt en vér komum.» En hálfum mánuði fyrir þing reið Tjörvi í Goðdali fyrir því að hann var mægður við Hafur og reið nú til þings. Guðmundur hitti Þorgeir og spurði um afla þeirra sona hans. Þorgeir kvaðst ætla að þeir munu hafa fjölmenni. «Er það satt,» segir Guðmundur, «að til sé búið vígsmálið og Sölmundur óhelgaður?» Þorgeir mælti: «Það er vegur og munum við hafa fjölmenni í móti þeim.» Arnsteinn hét maður er bjó í Öxarfirði að Ærlæk. Hann átti þriðjung í goðorði við Þorgeir og synir hans hinn þriðja þriðjung. Kominn var Ófeigur til þings með fimm tigu manna, þeir Tjörvi vestan með hundrað manna og voru á þingi nótt eina. Þá gengu þeir á fund Arnsteins, Tjörvi og Höskuldur, og kölluðu hann til máls við sig. Hann bað þá inni við talast. Þeir báðu hann út ganga og svo gerði hann. Þá mælti Höskuldur: «Hér horfist til málaferla og horfir mjög í móti með oss frændum. Er þér vandi á báðar hendur. Og kalla þeir oss ómaga er í kviðinum eru. Nú höfum vér þriðjung goðorðs en faðir vor annan. En þú ræður hvar þú snýrð að og þeir hafa meira hlut er þú vilt fylgja.» Arnsteinn mælti: «Það er mér vandi mikill. Mér er vel við Þorgeir og þykir mér það ráð að þér leggið á hans vald.» Höskuldur mælti: «Ekki standa svo málaefni til.» Höskuldur stóð úti fyrir búðardyrunum en Tjörvi í búðinni en Arnsteinn á milli þeirra. Tjörvi mælti: «Engi sæmd er boðin fyrir Arnór vin vorn.» Höskuldur mælti: «Það hæfir nú betur að þú gerir eftir vorum vilja en þó er nú ekki lengur að draga fyrir þér ... ... eigi sakvarir. En lát það fé allt koma í hendur mér og ekki mun það týnast. Og mætti þar koma um síðir að þú þyrftir eigi meira fé að bæta Þorkel hák og væri það maklegt að þeir bættu sjálfir slíku mál sín.» Guðmundur mælti: «Viturlega sýnist mér þetta ráðið.» Einar segir: «Trú þú þér einum til að vita þessi ráð.» Guðmundur fór heim og grófst eftir um sakar við þingmenn Þóris, legorðssakar og hrossreiðir og hverja er hann mátti til fá og tók fé af hverjum þeirra og fór svo fram nokkura hríð. Nú er og öllum kunnigt hve mjög Þórir lætur sína sæmd er hann mátti ekki þingmenn sína halda og fékk hann af því óvirðing mikla er hann hélt eigi sína þingmenn. Ingjaldur hét maður. Hann var farmaður. Hann kom skipi sínu í Eyjafjörð. En Guðmundur var vanur að koma fyrstur allra manna til skips. Hann var auðigur maður. Guðmundur var vanur að ráða kaupum og bjóða mönnum til sín. Og enn var svo og fór Ingjaldur til Guðmundar og var með honum um veturinn. Og var þá kyrrt þann vetur. En um vorið skildust þeir vinir og fór hann til skips. Hann var auðigur maður og drengur góður. Hann bjó skip sitt. Þorgils hét maður. Hann var þingmaður Þóris. Hann bjó að Ökrum í Hörgárdal og kallaður Akrakarl, ekki mjög vinsæll né trúr í kaupum. Hann fór til skips um dag einn með föggur og var það ull og klippingar og lét falt við Ingjald. Honum var annsamt. Ingjaldur fór til að vega ull og klippinga og hugði ekki að hvernig var og fékk honum léreft og fékk slíkt sem þeir urðu á sáttir og fór Þorgils í brott. Og er Austmaður hugði að varningnum var fúið bæði ull og klippingar. Honum líkar illa og fer á fund Guðmundar og segir honum. Guðmundur mælti: «Marga velgerð hefir þú mér gert en enga meiri en þessa. Seldu mér málið en eg mun gjalda þér slíkt fé sem þú átt að honum.» Nú tók hann við málinu en gaf honum gjafar og skildust vinir. Fór Austmaðurinn utan og er hann úr sögunni. Og er stefnudagar komu reið Guðmundur með þrjá tigu manna og stefndi Þorgilsi um bekkráð. Þorgils segir: «Eg vil bjóða fyrir þetta að leggja undir gerð ykkra Þóris og hefi eg eigi vitað að ull væri ónýt né klippingar.» Guðmundur segir: «Lítt ætla eg að við Þórir gerum um málin ef við einir erum að» en lét Þorgils maklegan að láta sitt fyrir svik sín og stefndi honum til alþingis. Guðmundur ríður heim eftir það en Þorgils fór á fund Þóris og sagði að honum var stefnt og sagði að honum þótti hann mjög láta hlut sinn fyrir Guðmundi. Þórir mælti: «Má mér það er yfir margan gengur.» Þorgils fór heim. Nú ríður Guðmundur til þings og svo aðrir menn og hefir Guðmundur fram mál á hönd Þorgilsi. Og þá er kemur að dómum þá gengur Þórir til og býður boð fyrir Þorgils og sagði að menn sættust á slík mál. Guðmundur segir að hann vill engi boð af honum þiggja. Þórir kvað honum lítt aftur fara að ósæmd við þá en Guðmundur lét honum enn eigi mega svo þykja meðan hann væri eigi fyrir sökum hafður. Málið horfði óvænt og hafði Þórir ekki afl móti að rísa og varð Þorgils sekur. Óvirðing féll á mál Þóris. En frá Þorgilsi er það að segja að hann þóttist sjá hversu fara mundi og fór hann norður í Húsavík um þingið með lausafé sitt en lönd stóðu eftir og kvikfé en hann fór utan og er hann úr sögunni. Nú ríða menn heim af þinginu og spurði Guðmundur að Þorgils var í brottu farinn en vissi þó að mikið fé var eftir. Þórir átti að nefna féránsdóm eftir þingmann sinn en Guðmundur til að koma. Nú ríður Guðmundur heiman. Þórir bauð þeim öllum þangað er fé áttu að heimta að Þorgilsi. Og þangað var boðað fé því öllu er hann hafði átt. Land hafði hann átt að Steðja og hafra tíu er Þórir varðveitti og ætlaði hann þá og til reka fundarins. Fjárhlutur var mikill eftir í geldfé og treystust menn eigi að kaupa án lofi Guðmundar. Guðmundur reið fjölmennur til féránsdóma og varð þar ekki til tíðinda. Og er hann ríður á brott með fénu, á Skútu heitir bær fyrir ofan Laugaland, þeir koma þar og hittir Guðmundur sauðamann Þóris er Oddur hét. Hann mælti og tók svo til orða: «Drjúgir verða þér Guðmundur þingmenn Þóris til fjárins og mundi mikið um vert ef þú hefðir fengið allt féið af Þóri.» Guðmundur segir: «Hvað skortir að?» Oddur mælti: «Hafra þá tíu er inni standa að Þóris.» Guðmundur mælti: «Það mundi eg helst kjósa að Þórir gerði skóggangssök á hendur sér. En þér Oddur mun verða annaðhvort að þessu gifta eða ógæfa.» Og snúa þeir hestunum og ríða á Laugaland og koma að húsinu þar er Oddur sagði hafrana inni vera. Hafrar hlaupa út þegar þeir láta upp hurðina. Guðmundur mælti: «Fjár mun þetta vert» og ríða nú heim á bæinn og var Þórir úti. Guðmundur mælti: «Seint er slíka að tryggja. Eg hugði Þórir að þú værir heiðvirður maður.» Þórir sagði: «Eigi vissi eg þetta. En nú er og bæði að þú ferð að geystur enda má vera að eigi hafi vel verið til gert.» Guðmundur mælti: «Svo verður nú að vera sem þú hafir vitað» og nefnir sér votta að honum væri féið óheimilt og skildu að því. Nú er kyrrt um sumarið. Og einn morgun var Guðmundur snemma á fótum. Hann mælti við smalamann að hann skyldi taka hest hans. Hann gerir svo. Og er hestur er búinn stígur Guðmundur á bak og ríður á brott einn saman og hafði með sér skikkju þá er Ingjaldur austmaður hafði gefið honum. Hann ríður til Þverár að finna Einar bróður sinn. En þar var jafnan ekki mikið með þeim bræðrum en Þórir var mikill vinur Einars. Nú kemur Guðmundur til Þverár og drepur á dyr. Smalamaður kemur út og heilsar Guðmundi. Guðmundur spurði hvort Einar bróðir hans var upp risinn. Hann segir: «Eigi er það.» Guðmundur mælti: «Bið hann upp standa og seg að Guðmundur bróðir hans er kominn og vill finna hann.» Hann fer inn og vekur Einar og segir honum að Guðmundur bróðir hans er kominn og vill finna hann. Einar stendur upp og gengur út og fagnar vel bróður sínum. Guðmundur tók því vel og var allkátur. Guðmundur mælti: «Illa þykir mér það er með okkur er svo fátt og em eg nú til þess kominn að eg vildi að betur væri í okkarri frændsemi héðan frá en hér til hefir verið. Og þætti mér okkur það betur sama frændi að við værum jafnan báðir að einu máli.» Einar mælti: «Víst væri þessa vel leitað ef það væri ráðið að hugur fylgdi máli.» Guðmundur mælti: «Það mun eg sýna að mér þykir mikið undir að okkart vinfengi sé gott» og tekur nú skikkjuna og sýnir honum og mælti: «Það vil eg að þú hafir hana að gjöf af mér.» Einar mælti: «Þetta er góður gripur og að vísu vil eg þiggja.» «Það vildi eg,» segir Guðmundur, «að við byndum þetta með fastmælum með okkur að nú gerðum við af nýju okkarn félagsskap.» Einar segir: «Ekki þykir mér við þess þurfa að binda okkar á meðal þótt vinfengi sé með okkur.» Guðmundur mælti: «Víst er það líklegt að það muni allt vel endast er þú heitir. En ekki mun það spilla til,» segir Guðmundur. Einar segir: «Eigi mun þar of mikið þykja koma í mót skikkjugjöfinni þótt þú ráðir þessu.» Guðmundur mælti: «Ekki munum við strit fyrir hafa að kalla aðra menn að þessu og munum við takast í hendur og nefna guð í vitni að við skulum að einu máli vera báðir héðan frá.» Og svo gerðu þeir og vissi þetta engi maður nema þeir einir. Nú ríður Guðmundur heim en Einar gengur inn. Það er nú að segja hvað er til hafði orðið með bræðrum þá er þeir voru ungir sveinar, að Guðmundur átti sér fóstra og unni hann honum mikið. Og einn dag svaf hann úti í skini en sveinninn sat undir höfðum honum en mý settist á skallann honum. En Guðmundur sópaði af með hendi sinni og þótti honum sem fóstra hans mundi mein að vera. En Einar gekk hjá og mælti: «Sérð þú eigi bróðir að þér vinnur þetta ekki því að það sest jafnskjótt aftur á? Og skara heldur til öxarhyrnunni er þú hefir hjá þér.» Hann gerir svo, veik til öxarhyrnunni í höfuð honum fóstra sínum en mýið lyftist á brott en skallinn blæddi. Karl vaknaði og mælti: «Ertu ær er þú vinnur á mér?» Guðmundur mælti: «Nú hið fyrsta finn eg það að eigi eru ráðin Einars bróður míns heil við mig.» Og af þessu eldi lengi síðan. Nú er kyrrt um öndvert sumarið. En er á leið ríður Guðmundur með tuttuganda mann út á Laugaland að stefna Þóri um sauðalaunin. Nú var leitað um sættir. Guðmundur vill ekki sættast og lést nú reyna skyldu hvor þeirra röskvari væri. Hann ríður nú heim á leið. Þetta var snemma morguns. Einar bróðir hans var því vanur að rísa upp snemma og hitta sauðamann sinn. Þetta var enn í það mund er Guðmundur hafði heiman farið. Einar mælti að hann skyldi vís verða þess er þeir færu heim aftur. En er á líður daginn kom sauðamaður og sagði Einari að þá voru þeir utan á leið. Einar mælti að hann skyldi taka hest hans og leggja á söðul og svo gerir hann. Einar stígur á bak og ríður fyrir þá og hittir þá fyrir ofan Hrafnagil. Guðmundur fagnar vel bróður sínum. Hann tók því vel. Einar spurði: «Hvert hafið þér riðið í morgun Guðmundur frændi er þú hefir svo snemma að verið?» Guðmundur svarar: «Mörg eru erindi mín hérna um byggð.» Einar mælti: «Ekki ertu vanur að ríða svo fjölmennur hér um byggðir ef lítil erindi væru og seg mér hvert þú hefir riðið.» Guðmundur mælti: «Eg reið út á Laugaland að stefna Þóri um hafralaunin, þeim er hann leyndi af fé Þorgils, en eg átti sektarfé að taka eftir hann.» Einar segir: «Þó hefir þetta leynilega farið.» Guðmundur mælti: «Ekki hefir þú tíðindafróður verið. En þess vil eg biðja þig að þú veitir mér að þessum málum.» Einar mælti: «Í því vil eg hlut eiga að þið sættist.» Guðmundur mælti: «Það ætlaði eg að nú skyldum við reyna með okkur hvor ríkari væri.» Þeir bræður skildu nú að þessu og fór Einar heim til Þverár. Guðmundur reið og heim með sína menn. En nokkuru síðar fór Þórir að finna Einar og sagði honum hvar komið var um mál þeirra Guðmundar og bað Þórir Einar ásjá og liðveislu. Einar segir: «Mér er vant við Guðmund bróður minn fyrir frændsemi sakar og svo þess að við höfum bundið fastmælum með okkur að hvorgi okkar skyldi í mót öðrum vera.» Þórir mælti: «Sjá máttu þó að hann vill einn yfir öllum sæmdum sitja.» Einar mælti: «Mikið er til þess haft að einn vill hann öllu ráða og einskis vill hann virða orð manna þegar ef honum líkar annan veg betur. En leita mun eg um sættir með ykkur. En ef það stoðar ekki og vill hann einskis virða mín orð þá mun eg og ekki hirða um hans þokka. Og munum við þá báðir saman til þings ríða.» Þórir ríður heim og er nú kyrrt um hríð. Eitthvert sinn bað Einar taka hest sinn og kveðst vilja ríða upp á Möðruvöllu að finna Guðmund bróður sinn. Og er hann kemur þar ríður hann upp að dyrunum og drepur á dyrnar. Þar gengur út maður. Einar mælti að hann skyldi kalla á Guðmund «og seg að eg vil finna hann.» Hann fer og segir Guðmundi að Einar var kominn og vill finna hann. Guðmundur gengur út í dyr og heilsar Einari bróður sínum. Hann tók því vel. Einar vildi ekki af baki stíga en Guðmundur gekk eigi út úr dyrunum og töluðust þeir svo við. Einar tók til orða og spurði hvort nokkuð skyldi stoða að leita um sættir með þeim Þóri. Guðmundur segir að þeir mundu ekki sættast nema Þórir legði allt á hans vald «og er honum það þó fullgott.» Einar segir að hann vildi þessu máli mjög ... ... til kapps halda «og muntu lítils virða orð mín.» «Fyrir mun það ganga,» segir Guðmundur, «og vil eg einn ráða.» Einar mælti: «Þá ætla eg mér sé ekki meiri vandi við þig ef þú vilt eigi minn vilja gera.» Guðmundur mælti: «Gera mun eg þinn vilja um önnur mál en sjálfur vil eg þessu einn ráða.» Einar mælti: «Þá vil eg aftur gefa skikkjuna og eigi munum við oftar gjöfum við skiptast.» Guðmundur mælti: «Þú munt því ráða.» Einar kastar þá niður skikkjunni. Guðmundur svarar: «Engi skal hana hér upp taka minna manna og missir þú bæði drengskapar míns og skikkjunnar.» Og fór oft heldur lítt með þeim bræðrum. En um sumarið riðu menn til þings og fjölmenntu hvorirtveggju og var Guðmundur fjölmennari. Þorkell Geitisson var þar og leitaði um sættir með þeim en Guðmundur vill eigi sættast. Eitt sinn mælti Einar við Þóri og frétti hversu hann vildi með fara við Guðmund. Þórir svarar: «Það hefi eg hugað að eg muni skora Guðmundi bróður þínum á hólm.» Einar mælti: «Mikið ráð er það. Nær ætlar þú þetta upp að bera?» Þórir mælti: «Eigi þarftu mig að þessu spyrja fyrr en fram kemur.» Nú ríða menn heim af þinginu og voru eigi sáttir að því sinni og þóttist Þórir afráð gjalda ... ... afráð goldið sinna orða og kom nú í hug að nú mundi fé ærið að bæta einnhvern mann. Og að þinglausnum kom einn maður að Guðmundi er Þorsteinn nefndist og var kallaður rindill. Hann skoraði á Guðmund til vistar. Guðmundur spurði hvar hann var sveitarmaður. Hann kveðst vera sunnlenskur maður. Guðmundur mælti: «Hví er þér betra í ókunnri sveit en kunnigri?» Hann kveðst vera sekur maður. Guðmundur mælti: «Ertu nokkur verkmaður?» Hann kvað það satt vera og til margs vel fallinn. Guðmundur mælti: «Eigi værir þú alóskotbragðlegur eða hví mundi eg ei við þér taka?» Og fór hann með Guðmundi af þinginu. Nú er að segja frá Þóri að hann fór utan um sumarið er á leið og var hann á Hjaltlandi þann vetur. En um vorið fór hann út og hafði góða kaupferð og réð sér hjón og var heima um sumarið. En um haustið fór hann utan og var í Orkneyjum um veturinn. En um vorið fór hann út og hafði bæði mjöl og annan varning. Og er hann kemur heim réð hann sér hjón og var heima um sumarið og annaðist um bú sitt. En um haustið fór hann utan og var þá í Noregi þann vetur. Þá var Ólafur konungur Haraldsson konungur yfir Noregi. En um vorið fór hann út og átti mikið í skipi og hafði þá mikið fé og þótti hann skörulega farið hafa og sest hann nú í bú sitt. Og lýkur þar nú frá honum að segja. Það var um sumarið að Guðmundur vildi láta slá í túni sínu. Þá mælti hann við Rindil að hann mundi til taka að slá um hús og fékk honum ljá í hönd. Hann tók til og sló. En Guðmundur stóð hjá og mælti: «Ófimlega ferð þú að þessu verki og mun þér annað betur hent. Er þér vildara að ríða með mér um daga til laugar og vinna ekki?» Hann kvað sér það betur fallið. Guðmundur kvað honum mundu betur hentar sendiferðir «og má þó vera að þú metist eigi til ómaga.» En um morguninn riðu þeir til laugar og töluðu mart. Guðmundur mælti: «Nú mun eg trúa þér vel og mun eg segja þér þá hluti er stórræði fylgja. Og mun þér verða að því annaðhvort gæfa eða höfuðbrot og hafa vil eg nokkuð fyrir gott yfirlæti.» Þorsteinn mælti: «Trúr mun eg þér vera í orðum og sendiferðum en eigi em eg öruggur til áræðis.» Guðmundur mælti: «Þó mun að gagni koma. Og nú mun eg segja þér trúnað minn.» Þorsteinn mælti: «Eg mun eiga traust og hop undir þér en send mig hvert er þú vilt.» Guðmundur mælti: «Eg hefi fjandskap lagið á Þorkel hák. Nú vildi eg þig þangað senda að skynja hans háttu með mínu umstilli.» Rindill mælti: «Legg til ráðið en eg mun fram fylgja.» Guðmundur mælti: «Á þessu hausti ætla eg að sækja heim Þorkel hák. Nú máttu mér meira að veita í slægð en áræði en líf þitt er í veði ef þú bregður af.» Þorsteinn mælti: «Lifi eg fyrir þá sök.» Guðmundur mælti: «Nú er á hallæri mikið en hvalrekstur norður á Tjörnesi og sækja þangað margir vestan héðan úr sveitum. Þú skalt fara norður Vöðlaheiði og fara með hesta tvo óvandaða og lást vera vestan úr Hálfdanartungu því að þeim ertu líkastur er þaðan koma. Og lát sem þú farir þangað að hvalkaupum og haf kláfa á hrossinu og far upp úr Kaupangi og Reykjaskarð og svo Hellugnúpsskarð til Bárðardals austan og síðan til Þorkels háks. En haf því buginn að bær Þorkels verði á leið þinni en hitt er alþýðuvegurinn að fara Ljósavatnsskarð til Tjörva. En Þorkell er illur viðtakna og ekki samþykkur við aðra menn. Get eg að einn maður sé úti er þú kemur þar og ver framfærinn og tak af hestum þínum að eigi reki hann þig í brott og hafst þar við. En vörnuð býð eg á brottför þinni. Og ef þú náir þar vist þá lúk upp hurðina um nóttina og tak steina jafnmarga og legg á vegginn sem menn eru inni og höfum vér það til marks.» Nú er það sumar kyrrt og ríður Þorsteinn með Guðmundi oft til laugarinnar. Og fannst mönnum mjög orð um það og þóttust vita að nokkuð mundi undir búa. En um sjö vikna skeið hvarf Rindill í brott og fór norður sem ráð var til sett. En Þorkell hafði fátt hjóna og einn húskarl og var hann brautu til verks. Rindill kom til húss í vosviðri miklu, tók af hestum og færði þá í Arnarárgil. Og er hann kom heim gó hundur að honum og gekk út kona og hvarf inn aftur og sagði Þorkatli að maður var kominn úti og hafði tekið af hestunum og fært þá. Þorkell spratt upp og kvað hann furðu djarfan. Og í því bili kom Rindill inn og rann úr hverju hans klæði er hann var í. Þorkell spyr hver hann sé «eða hví komstu hér?» Rindill mælti: «Mér þótti mál að hvílast.» Þorkell mælti: «Ókunnur ertu mér og heldur ertu ósællegur.» Rindill mælti: «Ekki hagar nú svo til að maður sé svo kurteis. Eða hvort viltu veita mér húsin eða eigi?» Þorkell mælti: «Sjá vil eg fargagn þitt.» «Já,» segir Rindill, «það má vel.» Þorkell sá þar ull og vorgærur og smá osthleifa og sér að hestarnir eru mjög fótsárir og bakvana. «Satt muntu segja,» segir Þorkell, «og far inn.» En eldur var á arni og sat húsfreyja við eld og mælti: «Hvern leiðir þú þar eftir eða hvort er þér á honum nokkur vandi?» Hann segir: «Ókunnur maður er mér hann en ósællegur þótti mér vera og vísaði eg honum því eigi á brott.» Hún mælti: «Illt varð mér við er eg sá hann.» Þorkell mælti: «Eigi veit eg hverju það gegnir.» Hún segir: «Síðar veistu það gerr.» Rindill mælti: «Hvort þykist þú framvís eða hví mundi eg eigi hlíta löð bónda, Þorkels Þorgeirssonar lögsögumanns, er réttur forstjóri má heita bús síns? Og mun eg það að engu hafa sem kona sjá geipar.» En Þorkell lætur eigi sem hann heyri viðræðu þeirra. Þorkell var beinn við hann. En húskarl Þorkels vann þar sem heitir að Landamóti að heyverki. En um aftaninn er borð voru upp tekin mælti Þorkell við Rindil: «Sit hér armi,» segir hann. Rindill sat þar og hirti ekki þótt konur væru eigi beinar. En Þorkell hvíldi í lokrekkju en Rindill innstur í seti. Þorkell sofnaði brátt. En slagbrandur var settur innan við hurðina. Rindill stóð upp og gekk út. Hann tók steina tvo og lagði upp á vegginn og lét lokur frá hurðum. En ekki þótti honum gagn í er konurnar voru á gangi ef þeir Guðmundur kæmu. En Þorkell hafði lokið aftur lokrekkjuna. Síðan sofnaði Þorkell. Húsfreyja gekk eftir gólfi utar í öndina og mælti: «Var svo þó» og lét fyrir lokurnar. Og vaknaði Þorkell við og mælti: «Hvað er nú húsfreyja?» «Slíkt sem grunaði að gesturinn vill svíkja þig og hefir látið frá lokur.» Rindill mælti: «Mikinn fjandskap sýnir þú við mig nær sem að gjöldum kemur.» Þorkell mælti: «Eigi mun gát hafa verið að setja fyrir lokurnar.» Síðan sofnaði hann. Og er stund leið þá skreiddist Rindill úr rúmi sínu og skaut frá lokum og heyrði þá hundgá og að menn riðu að bænum. Hann hljóp út þegar og hafði klæði sín í fangi sér en sjálfur var hann nökkviður og fór úti í klæðin. Síðan drifu menn að bænum og inn í húsin. Var þar kominn Guðmundur og þeir tuttugu saman. Og við gnýinn og vopnabrak vaknaði Þorkell og varð eigi ráðrúm til að fara í brynju sína en höggspjót tók hann í hönd sér en setti hjálm á höfuð sér. Mjólkurketill stóð í húsinu og var þröngt. Þá mælti Guðmundur: «Það er nú ráð Þorkell að sýna sig Guðmundi og skríða eigi í hreysi.» Þorkell svaraði: «Nú skal eg víst sýna mig þér Guðmundur. Og eigi komstu fyrr en eg ætlaði. Eða hverja leið fóruð þér hingað?» Hann svarar: «Eg fór Grímubrekkur og Hellugnúpsskarð.» Þorkell mælti: «Þú hafðir bratta leið og erfiða og trautt kann eg að ætla hversu rassinn mundi sveitast og erfitt hafa orðið í þessi ferð.» Síðan hljóp hann fram með brugðið sverð og hjó þegar til Guðmundar en hann hopaði undan. Þorkell lét sem hann sæi engan nema Guðmund í atsókninni. Menn báru vopn á Þorkel en hann varðist hraustlega og fengu menn sár af honum. Þorsteinn hét maður og kallaður hinn rammi. Hann gekk mest í móti Þorkatli og varð hann sár mjög því að margir voru um einn. Hann var eigi að óákafari þó að iðrin lægju úti. Guðmundur hopaði undan og hrataði í mjólkurketilinn. Það sá Þorkell og hló að og mælti: «Nú kveð eg rassinn þinn hafi freistað áður flestra klækjanna annarra en mjólkina hygg eg hann eigi fyrr drukkið hafa. Enda ráðst þú nú hingað Guðmundur. Úti liggja nú iðrin mín.» Síðan drápu þeir hann. Þá mælti Guðmundur: «Vill húsfreyja tilbeina vorn að Þorkell sé jarðaður?» Hún svaraði: «Það vil eg víst eigi og verðið á brottu sem fyrst og betra þykir mér hjá honum dauðum en hjá yður lífs.» Síðan fóru þeir á brott og hittu Einar Konálsson. Hann fagnaði Guðmundi vel og spurði tíðinda. Guðmundur mælti: «Veginn segi eg Þorkel hák.» Einar svarar: «Eigi þarf að sökum að spyrja. Ætla eg nú að þú munt taka með fé þínu og bjóða Ljósvetningum fébætur.» Og síðan var fundur settur og kom þar Guðmundur og Einar Konálsson og þeir synir Þorgeirs, Tjörvi og Höskuldur. Einar mælti: «Spurt munuð þér nú hafa líflát Þorkels og munu það margir kalla eigi fyrir sakleysi. En Guðmundur vill yður bætur bjóða og stinn manngjöld en ekki er þess að vænta að Guðmundur flýi land sitt. Mun hann og um kyrrt sitja.» Höskuldur sagði: «Það er nú fram komið er þér hafið lengi um setið. Og ótrúlegar munu sættir vorar verða þótt Guðmundur hafi nú ríki mikið.» Tjörvi svaraði: «Eigi er það mitt ráð að neita fébótunum.» Síðan greiddi Guðmundur fram féið og voru sáttir að kalla. Rindill fór heim með Guðmundi og lét hann vel yfir honum. Ekki var hann þó þokkaður af alþýðu. Þeir bræður í Gnúpufelli voru bundnir í tengdum við Þorkel hák. Eilífur átti Þórdísi skáldkonu. Hann var maður mikill og sterkur og bogmaður góður. Laungetinn var hann. Brúni átti Álfdísi Koðránsdóttur og voru þær bræðrungar og Þórlaug kona Guðmundar, Atladóttir. En móðir Þorkels háks var Guðríður er Þorgeir goði átti og hennar móðir var dóttir Hrólfs Ingjaldssonar í Gnúpufelli. Og var frændsemi með þeim Þorkatli og þeim bræðrum í Gnúpufelli. Hlenni hinn skakki bjó í Saurbæ. Þeir voru bræðrasynir og Þorgeir goði. Hlenni var þá blindur og gamall. Þar kom að að menn riðu til leiðar. Guðmundur var vanur að ríða fjölmennur. Hann fór út frá garði. En þeir er ofan riðu fóru hið efra með ánni og hittust í ákveðnum stað. Menn voru þá mettir og voru rekin heim hross og kom eigi hestur Rindils. Guðmundur bað leita hestsins. Rindill svaraði: «Það hæfir að aðrir menn leiti hests míns en eg veit hvar er og ríðið fyrir.» Guðmundur hafði virðing mikla á honum og hélt hann vel og mælti: «Far þú sem eg vil.» En engi vildi sinn hest láta fyrir honum. Þeir Guðmundur riðu fyrir en Rindill var eftir og maður einn hjá honum og fóru til matar þegar hesturinn var fundinn. Rindill hafði skyr og mataðist skjótt því að skyrið var þunnt og riðu síðan út frá garði og svo í skóginn. Þá hleyptu menn í móti þeim og var þar kominn Eilífur og maður með honum, þar varð fátt af kveðjum, og setti þegar kesjuna á Rindil miðjan en skyrið sprændi úr honum og upp á Eilíf. En förunautur Rindils sagði Guðmundi. Hann varð við óður og sneri þegar ferðinni eftir þeim en fékk mann til að helga leið. Þeir Brúni urðu varir við og sneru aftur en þeir Eilífur sneru í Saurbæ. Hlenni var úti og bjó ferð húskarls síns en hann skyldi fara í Seljadal með kálfa. Þeir sögðu honum hvað þeir höfðu gert og biðja hann ásjá «því að Guðmundur vill hafa líf okkart og ríða hér eftir.» Hlenni mælti: «Eg má lítið traust veita en þó gangið þið inn og verjist innan.» Og svo gerðu þeir. Síðan komu þeir Guðmundur í túnið og kvöddust þeir Guðmundur og Hlenni. Guðmundur mælti: «Eru þeir hér ódáðamennirnir hjá þér Hlenni, Eilífur og förunautur hans?» «Hér eru þeir,» segir hann, «og þykir mér engi harmsaga þótt Rindill sé dauður.» Guðmundur mælti: «Ger þú annaðhvort að þú sel þá fram ella munum vér brenna upp bæinn. Engum skal hlýða að drepa heimamenn mína.» Svaraði Hlenni enn: «Verið mundi það hafa fyrr meir að fjölrætt mundi í héraðinu ef þú gerðir mér óvirðing. En þann veg er mér um gefið að betra þykir mér að þeir séu eigi fyrir augum mér drepnir nú og vil eg senda þá í Eyrarskóg.» Guðmundur segir: «Viltu því heita að þeir komi þar? Þá mun eg þann kost taka því að jafnt þykir mér heit þín sem handsöl annarra manna.» Síðan gekk Hlenni inn og mælti: «Nú er Guðmundur hér kominn og vill hafa líf þitt en eg hefi enga mótstöðu.» Eilífur svarar: «Slíks er að von og skal eg út ganga.» Þá mælti Hlenni: «Þú skalt eigi hvata að því. En lítið mun verða undanbragð. Nú skuluð þið fara yfir í Eyrarskóg með þeim hætti að í sínu hripi skal vera hvor ykkar og bera á ykkur gras en þá skal liggja kálfur á hvorum ykkrum. En þó má vera að Guðmundur sjái eigi þetta undanbragð fyrir reiði sakar. En ef þig ber skjótt fram hjá þá kipp þú þegar knappinum úr hripsgrindinni. Enn mun auðna ráða.» Og er hann kom yfir á og í skóginn þá drifu þeir Guðmundur í móti þeim. Þá mælti Guðmundur: «Hví eru þeir Eilífur svo seinir?» Hann svarar: «Eg ætla að þeim þyki eigi til öls boðið en þó voru þeir búnir er eg fór.» Og er hann kom fram hjá þeim þá hljóp hann þegar aftur hjá hestinum og hleypti þeim niður úr hripunum en þeir hlupu þegar í skóginn og til Gnúpufells. Þá mælti Guðmundur: «Nú erum vér stilltir. Þeir hafa verið í hripunum. Og sé eg nú eftir hversu hesturinn sté fast að grjótinu er hófarnir lögðust fyrir. Nú mun Hlenni eigi þykjast logið hafa og er hann vitur maður. Enda snúum nú eftir þeim.» Síðan komu þeir í Gnúpufell og gengu að dyrum. En hurðir voru aftur og stóð Eilífur fyrir innan hurð með skeyti sín. Þá mælti Guðmundur: «Sel þú fram, Brúni, Eilíf ódáðamanninn ella munum vér leggja eld að bænum.» Hann svarar: «Þá skal hart eftir ganga og kynlegt er að þér sýnist að hafa stórvirki á vorum frændum og leita eftir svo frekt um menn slíka er einskis eru verðir.» Guðmundur mælti að eldinn skyldi að bera. Þá var svo gert. Þá gekk kona til hurðarinnar og mælti: «Má Guðmundur heyra mál mitt?» Hann kveðst heyra «eða er Þórlaug þar? Og er einsætt að ganga út.» Hún svarar: «Eigi mun eg skilja við Álfdísi frændkonu mína en hún mun eigi skilja við Brúna.» «Ef þú vilt kjósa heldur að deyja við skömm hér en lifa með mér með sæmd og virðingu þá skal þó verkið eigi fyrir farast.» Þá gekk maður í dyrnar ungur og mælti: «Hvort má Guðmundur heyra mál mitt?» Hann kvaðst heyra «eða er Halldór þar sonur minn?» Hann kvað svo vera. Guðmundur mælti: «Gakk þú út frændi.» Hann svarar: «Eigi þarftu þess mig að eggja því að þér skal engi verri en eg ef móðir mín brennur hér inni.» Síðan áttu menn hlut að við Guðmund að hann gerði eigi svo mikla óhæfu. Og svo varð að hann lét teljast og fór í brottu. Síðan varð aldrei vel með þeim. Guðmundur sat yfir metorðum mestum í héraðinu. Það barst að eitt sinn að Guðmund dreymdi draum mikinn. Síðan fór hann á fund Drauma-Finna norður í Kaldakinn undir Fell og mælti: «Draum vil eg segja þér er fyrir mig bar.» Hann svarar: «Óþökk er mér á öllum komum þínum fyrir sakar harma vorra.» Guðmundur mælti: «Engi kemur grimmd til þessa og þigg að mér fingurgull.» Hann tók við og mælti: «Hvað dreymdi þig?» Hann svaraði: «Eg þóttist ríða norður um Ljósavatnsskarð og er eg kom gagnvert bænum þá sýndist mér höfuð Þorkels háks á aðra hönd hjá mér þá er að bænum vissi. Og er eg reið norðan sat höfuðið á annarri öxl mér þeirri er þá horfði við bænum. Nú stendur mér ótti af þessu.» Finni mælti: «Sjá þykist eg fyrirburð þenna. Það hygg eg að hvert sinn er þú ríður norður og norðan komi þér í hug víg Þorkels háks en frændur hans sitja hér í hverju húsi og mun þér ótti af því standa. En því skiptist það á öxlum þér að svo ber bæinn við. Og ekki kemur mér það á óvart að nær stýrt verði nokkurum þínum frændum.» Síðan reið Guðmundur á brott og norður í sveitir til þingmanna sinna og gisti á Tjörnesi og var honum skipað í öndvegi en innar frá honum var skipað Ófeigi Járngerðarsyni. Og er borðin komu fram þá setti Ófeigur hnefann á borðið og mælti: «Hversu mikill þykir þér hnefi sjá Guðmundur?» Hann mælti: «Víst mikill.» Ófeigur mælti: «Það mundi eg ætla að afl mundi í vera.» Guðmundur mælti: «Eg ætla það víst.» Ófeigur segir: «Mikið muntu ætla að högg verði af?» Guðmundur segir: «Stórum mikið.» Ófeigur segir: «Það muntu ætla að saka muni?» Guðmundur mælti: «Beinbrot eða bani.» Ófeigur svarar: «Hversu mundi þér sá dauðdagi þykja?» Guðmundur mælti: «Stórillur og eigi mundi eg vilja þann fá.» Ófeigur mælti: «Sittu þá eigi í rúmi mínu.» Guðmundur segir: «Það skal og vera» og settist öðrum megin. Það fannst á að Ófeigur vildi þar mest vera metinn en skipaði áður öndvegið en sveifst einskis sjálfur þess er honum í hug kom. Kona hét Þórhildur og kölluð Vaðlaekkja og bjó að Naustum. Hún var forn í lund og vinur Guðmundar mikill. Guðmundur fór á fund hennar og mælti: «Forvitni er mér á því mikil hvort nokkur mannhefnd mun fram koma fyrir Þorkel hák.» Hún svarar: «Kom þú í öðru sinni að hitta mig eina saman.» Síðan liðu stundir. Og einn morgun reið Guðmundur heiman snemma einn saman til Vaðla og var Þórhildur úti og gyrð í brækur og hafði hjálm á höfði og öx í hendi. Síðan mælti hún: «Far þú nú með mér Guðmundur.» Hún fór ofan til fjarðarins og gerðist heldur þrýstileg. Hún óð út á vaðlana og hjó hún fram öxinni á sjóinn og þótti Guðmundi það enga skipan taka. Síðan kom hún aftur og mælti: «Eigi ætla eg að menn verði til að slá í mannhefndir við þig og muntu sitja mega í sæmd þinni.» Guðmundur mælti: «Nú vildi eg að þú vissir hvort synir mínir munu undan komast.» Hún segir: «Nú gerir þú mér meira fyrir.» Síðan óð hún út á vaðlana og hjó hún í sjóinn og varð af brestur mikill og blóðigur allur sjórinn. Síðan mælti hún: «Það ætla eg Guðmundur að nær stýrt verði einhverjum syni þínum. Og mun eg þó nú eigi oftar þraut til gera því að engan veg kostar mig það lítið og munu hvorki tjóa við ógnir né blíðmæli.» Guðmundur mælti: «Eigi mun eg þessa þraut oftar fyrir þig leggja.» Síðan fór Guðmundur heim og sat í virðingu sinni. Og er leið á ævi hans þá er þess getið að maður hét Þórhallur, góður bóndi. Hann bjó þar í Eyjafirði. Hann dreymdi draum og fór norður á fund Finna. Hann var í dyrum úti. Þórhallur mælti: «Draum vildi eg að þú réðir Finni þann er mig hefir dreymt.» Finni mælti: «Far þú í brott sem skjótast og vil eg eigi heyra draum þinn» og rak aftur hurðina og mælti: «Far þú og seg Guðmundi á Möðruvöllum ellegar skal þig með vopnum brott reka.» Síðan fór hann í brott og á Möðruvöllu. En Guðmundur var riðinn um daginn út eftir héraði og var heim von um kveldið. Einar bróðir hans lagðist niður og sofnaði. Hann dreymdi það að oxi gengi upp eftir héraðinu, skrautlegur og hyrndur mjög, og kom á Möðruvöllu og gekk til ...

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.