Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ísls ch. 276

Íslendinga saga 276 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Ísls ch. 276)

Anonymous SturlungaÍslendinga saga
275276277

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Oddur sat í Geldingaholti sem fyrr var ritið. Hann sendi menn geisladag ofan á Hafsteinsstaði til Jórunnar Kálfsdóttur er þar bjó og lét fala að henni naut nokkuð til sláturs og matar mönnum um kveldið. Þá var frjádagur eftir. Jórunn sendi honum uxa rauðan fimm vetra gamlan. Var hann drepinn og etinn þegar um kveldið. Oddur lá í almannastofu um nóttina og margt manna svo að stofan var alskipuð. Oddur svaf lítið um nóttina og söng lengi og las saltara sinn. Þeir Hrafn og Eyjólfur riðu með flokk sinn upp eftir ísunum. Og er þeir riðu utan að vellinum reið Svarthöfði Dufgusson í fyrra lagi og Jón járnbúkur og nokkurir menn með þeim. Hestur Svarthöfða rasaði er hann reið að túngarðinum og stökk hann af baki og hljóp skjótt á hestinn fyrir aftan söðulinn og reið svo heim í túnið. Einn maður af Odds liði sá er Tósti hét hafði farið til hesta um nóttina út á völlinn. Hann varð fyrstur fyrir liði þeirra Eyjólfs. Sveinn Eyjólfsson lagði hann til bana með spjóti. Eftir það riðu þeir heim á bæinn og hljópu af hestum millum kirkjugarðs og útibúrs þess er stóð í túninu út og ofan frá brandadurum. Þeir gengu þá hljóðlega heim að brandadurum og voru allir menn þeirra með dregluðum stálhúfum. Kona hét Öngul-Þóra. Hún varð fyrst vör við ófriðinn og gekk skjótt til stofunnar. Voru menn þá margir vaknaðir í stofunni og töluðu um með sér hvar norður í sveitum þeir mundu finna þá Hrafn og Eyjólf. Hún svarar Þóra og segir að eigi mundi langt að leita þeirra, kvað komna vera nokkura menn í túnið með dregluðum húfum. Hljópu þeir þá upp skjótt og tóku menn vopn sín er þar héngu í stofunni og hljópu fram til útidyranna. Eyjólfur og Hrafn gengu að brandadurum og fylgdarmannasveit þeirra. Ásgrímur gekk að eldhúsdurum og Svarfdælir með honum, Svarthöfði Dufgusson að hinum synnstum durum og sveit manna með honum. Jón járnbúkur hljóp fyrstur upp að durunum og þeir Kvistungar. Jón dúði spjótið inn í dyrnar og spurði hvort skolli væri inni. Þeir Oddur hljópu nú í dyrin og fylgdarmannasveit hans með honum og margt annarra manna: Halla-Geir og Sumarliði sterki, Indriði Þormóðsson, Már Eyjólfsson og Hjálmur af Víðivöllum, Einar úr Hvammi Steingrímsson. Þessir eru nefndir með Oddi í brandadurum. Skipaði Oddur þar til varnar sínum mönnum. Þórir tottur og sveit manna með honum hljóp í eldhússdyr og varði þar. Steinólfur Þórarinsson bróðir Odds varði hin synnstu dyr og sveit manna með honum. Nú vörðu þar hverjir sem skipað var en að sóttu þar hverjir sem fyrr var sagt. Tekst nú harður bardagi. Veita þeir Oddur og hans menn góða vörn langa hríð en sumir hlífðust mjög við. Þá mundi lifa þriðjungur nætur er þeir tóku að berjast. Þröngt varð þeim Oddi í durunum og óhægt vörn við að koma. Eyjólfur Þorsteinsson hljóp brátt upp á húsin og nokkurir menn með honum og rifu af þakið húsunum, lögðu þar inn og grýttu. Varð þeim Oddi það skeinisamt. Urðu þá margir sárir bæði af grjóti og vopnum. Þórir tottur veitti harða vörn um hríð. Hann var í pansara digrum og stálhúfa norræn á höfði og spjót mikið í hendi og lagði því bæði hart og tíðum. Þórir var skamma hríð í vörninni og stökk úr durum eldahússins og nokkurir menn með honum. Þórir komst í kirkju. Eigi þykjast menn það séð hafa hverju faraldi hann komst í kirkju. Með honum hljóp út Þórarinn grautnefur. Og er hann kom ofan að kirkjugarðinum mælti hann: Strauk hann yður þar Grautnefur, segir hann. Þá var kastað eftir honum buklara og kom hann í knésbætur Grautnef og féll hann á bak aftur. Hljópu menn þá til af liði Eyjólfs og drápu hann. Þá var og veginn Þórir rödd. Þeir voru báðir Fagranessmenn. Og er þeir Þórir voru út gengnir þá var gengið í eldhúsið. Gekk þar inn Hrafn Oddsson og sveit manna með honum. Þessir eru nefndir að með honum voru: Ólafur Ólafsson, Guttormur körtur, Auðun Tómasson og Snörtur bróðir hans, Ari Ingimundarson, Halldór greppur og Erlingur bróðir hans. Hrafn eggjaði þá menn sína að þeir skyldu ryðja trúlega skálann er þeir komust í hann. Þá varð fyrir þeim í skálanum Þorbjörn Þórólfsson af Ríp og var hann lagður með spjóti til bana. Már Eyjólfsson var þá í skálanum. Hann hljóp upp í stafnrekkju við hinar syðri skáladyr og varðist þaðan vel og drengilega svo að vörn hans hafa margir við brugðið þeir er kunnast var. Hrafn hjó til hans og hjó í setstokkinn en Már hjó um þverar herðar Hrafni í því er hann laut niður er hann vildi ná sverðinu úr stokkinum og varð höggið lítið er honum var óhægt að höggva um bríkina og varð Hrafn ekki sár. Már hljóp þá úr hvílunni fram og komst í anddyrið til Odds. Þorbjörn Sælendingur Snorrason varði brandadyr með Oddi og var þá enn eigi eftirbátur vaskra manna þar er karlmennsku skyldi fremja. Þorbjörn stóð í durunum hjá Oddi og var í pansara ermlausum og hafði skjöld fyrir sér í hinni vinstri hendi en vó með sverði hinni hægri hendi. Auðun Seldæll hjó með sverði til Þorbjarnar og kom á vinstri hönd Þorbirni fyrir ofan aflvöðvann og varð það mikill áverki. Auðun mælti: Skall þar einum, segir hann. Þorbjörn svarar: Lítt var það, segir hann. En Þorbjörn hafði vegið Þórarin bróður hans á Haugsnessfundi en þó kenndi Auðun eigi Þorbjörn en Þorbjörn vissi gerva hver á honum vann. Sagði Þorbjörn svo síðan að hann var af honum maklegastur allra þeirra manna er þar voru að taka áverka. Nú varð þröngt að þeim Oddi mjög í anddyrinu, rofin húsin yfir þeim en sótt að þeim harðfenglega öllum megin. Oddur mælti við menn sína þá er honum voru næstir að þeir mundu leita út: Mun eg hlaupa fyrstur út, segir hann, en þér fylgið mér vel og eru þá mörg góð að ef vér komumst út á víðan völl og látum aldrei stanga oss hér inni svo auvirðlega. Margir hétu góðu um að fylgja honum. Oddur hljóp út úr durunum. Hann hafði sverð og skjöld og stálhúfu. Hann var í grænum kyrtli. Svo var sem kólfi skyti er hann hljóp út. Hann komst langt ofan frá durunum. Skjöldinn hafði hann yfir höfði sér en sveiflaði sverðinu í hring um sig. Hann var manna fimastur við skjöld og sverð þeirra allra er þá voru á Íslandi. Már Eyjólfsson hljóp út eftir honum og komst ofan í túnið hjá honum. Og er Oddur gat séð hann Má mælti hann: Og þú ert þar hinn góði félagi, segir hann. Þá skildi með þeim og voru þá margir um einn. Már hrökk upp að vegginum og féll þar fyrir vopnum og var þó lítt sár. Skaut hann yfir sig skildinum og kreppti upp undir fæturna. Voru honum þá grið gefin og bergur hverjum eitthvað er eigi er feigur. Nú er Oddi veitt atsókn af mörgum mönnum og komu þeir lítt sárum á hann meðan hann stóð upp. Hlífði hann sér með skildinum en vó með sverðinu eða sveiflaði því um sig. Hann varðist svo fræknlega að varla finnast dæmi til á þeim tímum að einn maður hafi betur varist svo lengi á rúmlendi fyrir jafn margra manna atsókn úti á víðum velli. Eyjólfur Þorsteinsson var uppi á húsunum og sá vörn Odds. Hann eggjaði mjög sína menn og segir þeim skömm mikla í því að þeir sóttu einn mann svo margir eða... Nikulás Þórarinsson. Illugi svartakollur son Jóns Markússonar, hann lagðist til fóta Oddi og gerði hefting að fótum hans og þá féll Oddur því að... ekki mjög sár. Og þá mælti hann: Prestsfund vildi eg í guðs nafni, segir hann. Þetta heyrði Svarthöfði Dufgusson. Hann sat á kirkjustéttinni og margir aðrir. Var þá unnið á Oddi. Nikulás Þórarinsson hjó í höfuð honum og var það banasár. Hallbjörn hali Jónsson vann og á honum. Lét Oddur þar líf sitt við mikla hreysti og drengskap. Þá var lýst nokkuð er Oddur lést. Eigi flettu þeir hann. Var þá skotið skildi yfir líkið þar í túninu. Oddur var mikill maður vexti. Eigi mátti hann sterkan kalla að afli en þó var hann hinn knásti og hinn fimasti og best að íþróttum búinn, manna mjúkastur með Þorvarði bróður sínum og Kolbeini. Oddur var ljósjarpur á hár og vel andlitsfarinn, bláeygur og manna best á sig kominn, blíður og góður við alþýðu, ör af fé. Manna var hann vopnfimastur og svo sagði Þorvarður bróðir hans að það var engis manns færi eins á Íslandi að skipta vopnum við Odd. Þótti öllum mönnum mestur skaði um hann þeim er hann var kunnastur. Eiríkur hét austfirskur maður er ljómi var kallaður. Hann var veginn í útibúri því er stóð norður frá branda durum. Var þar atsókn mikil um nóttina. Fleiri menn voru þar særðir í útibúrinu. Halla-Geir var mjög sár, bæði í höfði og annars staðar. Brandur hét maður hrúga. Hann lagði höndina upp á þilið hina hægri. Þá var höggið á höndina og tók af fjóra fingur við þilinu allt uppi við hnefann. Kenna flestir Hámundi vorbelg þenna áverka. Átta menn létust í Geldingaholti með Oddi: Kollsveinn kröbbungur, Þorbjörn Þórólfsson, Tósti, Þórarinn grautnefur, Þórir rödd. Tvo nefni eg eigi. Flestum mönnum voru grið gefin þegar Oddur var fallinn. Oddur var nær hálfþrítugur er hann féll. Menn Odds fluttu líkama hans upp til Seylu og grafinn þar síðan undir kirkjugarðinum, en þó var engi gröftur að þeirri kirkju, og svo langt inn undir kirkjugarðinn. Þeir Hrafn og Eyjólfur riðu norður skjótlega og settust enn á Grund og höfðu þar fjölmennt. Nú fréttust þessi tíðindi, fall Odds, og þótti Þorvarði bróður hans mikill skaði og mörgum öðrum þó að þeir bræður bæru eigi með öllu auðnu til samþykkis. Randalín Filippusdóttir er Oddur hafði átt hélt búi sínu á Valþjófsstöðum. Óxu þar upp börn þeirra Odds með henni, Guðmundur er grís var kallaður og Rikisa dóttir. Þau voru bæði mannvænleg. Nú leið veturinn af hendi og vorið. Ekki hafði Þorvarður málatilbúnað eftir Odd bróður sinn.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.