Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ísls ch. 161

Íslendinga saga 161 — ed. Guðrún Nordal

Not published: do not cite (Ísls ch. 161)

Anonymous SturlungaÍslendinga saga
160161162

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Frá ferð Órækju er það að segja að hann kom til Laugarvatns um dagseturs skeið. Þar bjó sá maður er Sokki hét. Hann taka þeir til sín og hafa af honum sannar sögur. Sagði hann þeim að Gissur var í Skálaholti en kveðst eigi vita hve margmennur hann var en sagði vera liðsdrátt um allt hérað. Þeim Órækju þóttu þetta vera ill frétt en réðu það af að halda fram sinni ferð. Ríða síðan austur yfir á um nóttina að Reykjavaði, fara síðan sem leið liggur til Skálaholts, koma þar í öndverða dagan, stíga af baki norður í stöðlum, búa sig þá sem hvatlegast til atgöngu. Ganga þeir nú heim með garðinum allir í einum dún snúðigt og þó hljóðlega. Og er þeir koma heim að geilagarðshliðinu verða þeir Gissur varir við þá og hlaupa út á kirkjugarðinn, slá upp herópi og berja vopnum á skjöldu. Órækju menn þeir er síðar fóru hyggja nú að þeir Gissur hlaupi út á þá, bregða vopnum og berjast nú sjálfir. Þar varð sár mjög Kjartan Helgason og fleiri menn urðu þar sárir og allir hlaupa þeir austur með garðinum. En er þeir er vitrari voru sáu hvað títt var, hlaupa þeir til og fengu stöðvað þá, gengu síðan inn á túnið og biðu þar til þess er ljóst var. Gissurar menn vildu nú hlaupa út eftir þeim og reka flóttann. Gissur bannaði þeim það og kvað þetta prett þeirra. Einn Órækju maður hét Þorkell breiðlingur. Hann hafði einn gengið undir kirkjugarðinn vestur þar sem Grímsnesingar voru fyrir og spurði hljóðlega hvort Órækja væri þar fyrir í kirkjugarðinum. Þeir sögðu hann þar vera og buðu honum þangað. Hann rétti hendur á móti þeim og bað þá draga sig upp. Þeir gerðu svo og drógu hann upp, flettu hann og bundu síðan og færðu hann upp undir kirkjuna og lá hann þar um daginn. Sigvarður biskup gerði nú til Órækju presta tvo að vita hvort nokkuð skyldi tjá að leita um sættir eða grið. Þeir vildu eigi grið selja en vel líkaði þeim að biskup færi í milli og leitaði um sættir. Bauð Órækja að Gissur biskupsson skyldi þangað fara í gísling en Svarthöfði Dufgusson færi heim þangað í kirkjugarðinn. Svarthöfði skynjar hvað liðs var fyrir og svo hvar hverjum var skipað til varnar. Biskup fór nú á milli og bauð Órækja öll mál óskoruð í hans dóm en Gissur bauð í dóm Hákonar konungs öll mál og utanferð sína þegar um sumarið og gengu við það aftur gíslarnir. Biskup kemur þá og skjótt og sagði vísa von atgöngu og bað menn herða hugi sína og verjast drengilega, lofaði og öllum lærðum mönnum að berjast með Gissuri. Hann kveðst og vega skyldu með þeim vopnum sem hann hafði til. Gekk hann þá í kirkju og klerkar hans og skrýddist. Sveitir Gissurar gengu nú þangað hver sem hann hafði skipað. Órækja skipaði nú sínum mönnum til atsóknar. Skal hann þar að ganga með sína sveit sem Gissur Þorvaldsson var fyrir, Sturla með sína sveit skyldi þar að ganga sem þeir Ketill Þorvaldsson og Ólafur tottur voru fyrir, Svarthöfði og bræður hans gengu að söðlabúri þar er Grímsnesingar voru fyrir. Þá er þeir Órækja voru komnir austan á völlinn mjög að kirkjunni og garðinum koma prestar á mót þeim og sögðu að þá hafði Gissur játað sættum þeim er Órækja bauð. Sagði hann þá Sturlu hvar komið var. Sturla spurði hvern hann vildi upp taka. Órækja svarar: Freista skulum vér þeirra fyrst um hríð. Eftir það æpa þeir heróp og ganga að hverjir þar sem skipað var. Og lýstur þar fyrst í bardaga er þeir sækja að Sturla og Svarthöfði. Gera þeir harða grjóthríð úr garðinum. Hvorirtveggju koma þar spjótalögum á aðra og verða hvorirtveggju sárir. Skillítill strákur var í garðinum er Birgir hét. Hann fór óvarlega út á garðinn. Hann fékk lag af spjóti í vangann og lét hann þegar lífið. Björn Beinisson hét maður. Hann barðist alldjarflega og hafði staur einn og barði spjótin af sköftum og var hlífarlaus. Lauk svo að hann fékk mörg sár og stór og varð óvígur. Þeir Svarthöfði sóttu að söðlabúrinu djarflega. Voru brotnar mjög af þeim hlífarnar með grjóti. Órækja gekk sunnan á húsin með meginliðið, sóttu svo norður eftir forskálanum þeim sem til kirkju er. Þeir Gissur höfðu borið vatn á forskálann og var hált á þekjunni. Flestir Órækju menn höfðu skóbrodda en máttu fáir jafnfram ganga. Gengu þeir fyrstir Sigmundur Gunnarsson og Jón Ófeigsson, Játvarður Guðlaugsson. Þeir gengu vestan eftir forskálanum. Gísli af Sandi gekk austan að forskálanum. Hann var í brynju og grám kufli og hafði gyrðan sig með álu. Önundur biskupsfrændi lagði til hans með spjóti. Varð Gísla hált og féll hann á þekjunni. Stóðu á honum spjótin og tóku tæpt til hans en hann komst eigi upp áður Teitur son hans tók til hans og reisti hann upp. Þá kom Jón Ófeigsson að og sagði hann fara óvarlega, gamlan mann og stirnaðan. Gísli svarar: Þar skulum vér enn hvergi koma að eg gangi verr en þú. Gísli var lítt sár. Sigvarður biskup kom nú að og klerkar hans. Hleypur hann þegar út yfir viðuna. Hann var skrýddur og hafði mítur á höfði en bagal í hendi, bók og kerti í annarri. Hefur hann nú upp bannsetning við Órækju og hans menn alla. Slævar þetta þá heldur bardagann er hvorirtveggju vildu hlífast við að gera biskupi mein né klerkum hans. Nú kallar Órækja á biskup, kveðst eigi vilja sættum níta ef þær eru boðnar er honum líka. Biskup biður nú stöðvast bardagann og fóru menn þá um allan kirkjugarðinn og sögðu að Órækja vill eigi berjast láta. Kallar þá engi meir en Eiríkur birkibeinn og hleypur fyrir framan kirkjugarðinn. Þá flýgur steinn úr kirkjugarðinum og kemur við eyra honum svo að þegar kastaði fótunum fram yfir höfuðið og var lokið hans kalli að sinni. Í þann tíma kom biskup að söðlabúrinu og hljóp þegar upp á mæninn og fló grjótið á hvorutveggju hlið honum og yfir höfuðið sem í drífu sæi. En er menn kenndu vildu öngvir honum mein gera og stöðvaðist þá bardaginn. Gengu þeir Sturla þá til Órækju. Var þá talað um sættir og var á það sæst sem Órækja bauð að biskup einn skyldi gera um öll óskoruð mál. Þessi sætt játaði Gissur. Ganga nú hans menn frá víginu en Órækju menn ganga í kirkjugarðinn til móts við Gissur og takast þeir í hendur og handsalast við sættina og full grið og föst hvor öðrum fyrir alla sína menn. Eftir það ganga þeir í kirkju allir Órækju menn og leysir biskup þá alla menn úr banni. Síðan var Gissuri færður kross er í var lignum vitae og sór hann eið að halda þessa sætt. Talast þeir nú við um hríð og falla allar ræður til hófs með þeim. Órækja beiddist nú birgða nokkurra af biskupi því að lið hans var allt matlaust. Biskup býður þeim öllum í Miklaholt og hafa þaðan slíkt er hann vildi. Oddur brattur hét maður er sár var af Órækju mönnum svo að eigi var fær, annar en Kjartan, og sá biskup fyrir þeim. Hann skriftaði þeim öllum að vatna fyrir Þorláksmessur báðar og gefa sex hundrað til staðarins. Eftir það stigu þeir Órækja á bak og riðu á braut. Og er Gísli af Sandi reið fram með kirkjugarðinum þá spurði Gissur hver þar væri. Gísli nefndi sig. Langt hafa slíkir til sótt, sagði Gissur. Nauðsyn þótti á vera, sagði Gísli. Far eigi oftar að mér, sagði Gissur, því að þú munt ekki standa yfir höfuðsvörðum mínum. Meiri von að satt sé, kvað Gísli. Órækja ríður nú í brott og í ofanverðan dal um kveldið, síðan til Borgarfjarðar og dvaldist þar um hríð. Þá handsala þau Helga honum í annað sinn arf Snorra, mjög með þeim skildögum sem Gissur hafði haft. Þá gifti hann Margrétu Brandsdóttur Þórði Bjarnarsyni. Fer Órækja eftir það vestur í fjörðu og situr um kyrrt. Gissur gaf þeim Guttormi og Þorgilsi orlof og fóru þeir heim vestur til Staðar. Var nú tíðindalaust um veturinn.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.