Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ísls ch. 143

Íslendinga saga 143 — ed. Guðrún Nordal

Not published: do not cite (Ísls ch. 143)

Anonymous SturlungaÍslendinga saga
142143144

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Sturla vaknaði þá er skammt var sól farin. Hann settist upp og var sveittur um andlitið. Hann strauk fast hendinni um kinnina og mælti: Ekki er mark að draumum. Síðan gekk hann af sæng og Illugi prestur með honum. En er hann kom aftur lá hann litla hríð áður maður kom í skálann og kallaði: Nú ríður flokkurinn Sunnlendinga og er her manna. Hljópu menn þá þegar upp og til vopna. En er Sturla kom út í dyr og sá lið Gissurar þá mælti hann: Ekki er það svo fátt sem það er smátt og komum vér allvel liði að oss og fari hestasveinar og reki undan hrossin. Þau voru um allar mýrar ofan til árinnar. Sturla gekk þá til kirkju og tók rollu úr pungi sínum og söng af bænir sínar og söng Ágústínusbæn meðan liðið bjóst. Síðan gengu þeir upp úr garði og stefndu til Víðivalla hið efra. Þá er Sunnlendingar riðu að Jökulsá féll maður þeirra af baki er Þorleifur spaði hét, hann bjó suður á Hrútsstöðum, og æptu menn að. Gissur bað það óp eigi leggja og varð það að herópi. Þeir Sturla þögðu þar til er Kolbeinn kom í mót þeim með sína sveit. Þá æptu þeir allir og sneru upp í gerði það er heitir á Örlygsstöðum. Sauðahús stóð í gerðinu. En garðurinn var lágur svo að það var öllu ekki vígi. Sturla nam stað er hann kom suður um húsið á milli og garðsins. Hann var í blárri úlpu áður en Hallur Arason steypti yfir hann mórendri flekku og ermar á og litla brynju. Menn Sturlu nokkurir gengu fram að garðinum og námu þar stað og var þar völlur í milli og þess er Sturla stóð. Skildir voru bundnir í klyfjar og urðu þeir eigi leystir. Einn skjöldur var laus er á var markað krucifixum. Sá var Sturlu ætlaður en hann tók eigi við. Gissur með sína sveit reið á Víðivöllu og stigu þar af hestum sínum og gengu. Kolbeinn ungi reið og mestur hluti liðsins og fóru þeir nær hlíðinni. Sighvatur reið þá ofan með hlíðinni og fjallinu með sitt lið. Þeir Gissur og menn hans námu staðar í útsuður frá gerðinu en þeir Kolbeinn ungi riðu að gerðinu mjög áður þeir hljópu af hestunum. Þá mælti einn maður er stóð við garðinn til Sturlu: Skulum vér nú eigi hlaupa á þá meðan er þeir stíga af baki? Eigi, sagði Sturla, hér skulum vér bíða og renna ekki héðan. En þó runnu þá nokkurir út af gerðinu í mót þeim, Svarthöfði Dufgusson og synir Skarð-Snorra, Bárður og Sigmundur, Ormur kistill, Hallur af Jörfa. Sjö voru þeir saman. Brátt hurfu þeir aftur. Kolbeins menn sneru djarflega á mót þeim og hljóp Mörður Eiríksson fyrstur á garðinn. Þá fylgdu honum margir og eggjuðust að fast að reka fáa menn af sér. Í þann tíma reið Sighvatur ofan í gerðið og vógu Kolbeins menn tvo menn hans áður á hrossbaki þá er síðast riðu, Þórð Kollsson heimamann hans. Sigurður Eldjárnsson vó hann. Þá sneru þeir Kolbeinn upp með garðinum og fylgdarmenn hans fyrstir með honum, Einar dragi Illugason, Þorsteinn göltur bróðir hans, Jón kjappi, Ólafur Höskuldarson chaim, Sigurður Eldjárnsson, Þórálfur Bjarnason og margir aðrir og veittu harða atgöngu. Kolbeinn mælti þá er hann gekk að garðinum í fyrstunni: Gangi nú að guðs vilja og að málaefnum, sagði hann. Þeir Kolbeinn sneru svo fremi upp með garðinum að þá voru þar öngvir menn eftir er þeir höfðu í fyrstu að gengið og best var við horft. Gissur gekk af útsuðri að gerðinu og sneru þá Sturlu menn á mót þeim og varð þar hart viðurnám. Tók Sturla þá upp stein er Kolbeins menn höfðu kastað í gerðið og varp í mót þeim Gissuri. Varð fyrir Narfi Svartsson og kom á stálhúfuna fyrir ofan hausinn og féll hann á bak aftur svo snöggt að nær kastaði fótunum fram yfir höfuðið. Hann spratt skjótt upp því að hausinn var eigi sakaður og var þá hinn ákafasti. Maður einn mælti í liði Gissurar: Það skyldi Borgfirðingurinn vita áður sól gengi undir í kveld hvort Sunnlendingurinn væri ragur eða eigi. Eiríkur birkibeinn var í hvítum pansara. Hann varp steini að þessum manni og brá hann við buklara og féll á bak aftur. Hann stóð skjótt upp og snaraði að Sturlu mönnum. Þá unnu margir á honum og féll hann þar. Gissurar menn grýttu á lið Sturlu í fyrstu. Þá mælti Gissur: Kastið þér eigi grjóti í lið þeirra því að þér takið stór högg af því sama grjóti þá er þeir senda það aftur. Áskell son Skeggja Árnasonar hafði verið með Sturlu og farið til hrossa um morguninn. Hann varð svo nauðulega staddur að hann hljóp í flokkinn Sunnlendinga og fór með þeim til bardagans. En er saman laust liðinu komst hann til sinna manna og hitti þar félaga sinn er Þorkell hét og mælti: Nú eru brögð við. Eg hefi verið í liði Sunnlendinga svo að þeir hafa eigi vitað. Þá mælti einn sunnlenskur maður: Eigi skyldir þú lengi eiga að hælast við oss. Stálhúfan var hölluð á höfði Áskatli og lausar kinnbjargirnar. Þorkell mælti: Settu betur húfu þína en eg mun hlífa þér meðan. Þá kom Þorkatli steinshögg og snerist hann þá við óvinum sínum. Þá lagði maður til hans með spjóti og hjó hann það af skafti. Þá brá hinn sverði en Þorkell hjó á hönd honum og fleiri unnu á honum. Þorkell komst heill á braut en Áskell féll þar. Í þenna tíma var kallað á Sturlu menn að óvinir þeirra væru komnir á bak þeim og voru þeir Kolbeinn þar. Þá sneru Sturlu menn á mót þeim og urðu þá í kvínni og drógu sig úr norður í gerðið. Þar féll Ögmundur Kolbeinsson í kvínni. En þá var Kolbeinn Sighvatsson og hans menn komnir á flótta upp úr gerðinu. En Eyfirðingar voru þá komnir í gerðið og lagði Guðmundur Gilsson til Halls úr Glaumbæ Þorsteinssonar svo að hann féll. Sighvatur gekk þá suður eftir gerðinu á mót Skagfirðingum. Hann var í blám kyrtli og hafði stálhúfu á höfði en öxi forna og rekna í hendi er Stjarna hét. Hann hélt um skaftið fyrir neðan augað og sneri frá sér egginni en veifði skaftinu. Maður mælti til hans sá er gekk úr kvínni: Gakktu eigi þar fram Sighvatur. Þar eru óvinir fyrir. Hann svarar öngu og gekk sem áður. Þorvarður úr Saurbæ gekk með honum og Sighvatur Runólfsson og Sámur húskarl hans Þorvarðs. Árni Auðunarson gekk fram með Sighvati og hjó til beggja handa. Kolbeins menn spurðu hví hann léti svo, lítill maður og gamall. Eg ætla mér ekki á braut, sagði hann. Þeir Sighvatur fjórir féllu suður af gerðinu. Þá kom að Björn Leifsson úr Ási og skaut skildi yfir Sighvat en studdi höndum að höfði honum því að hann var þrotinn af mæði en lítt sár eða ekki. Þá kom Kolbeinn ungi að og spurði: Hver húkir þar undir garðinum? Sighvatur, sögðu þeir. Hví drepið þér hann eigi? sagði Kolbeinn. Því að Björn hlífir honum, sögðu þeir. Drepið þér hann þá fyrst, sagði Kolbeinn. Björn hrökk þá í brott þaðan. Kolbeinn lagði til Sighvats með spjóti þar er mættist hálsinn og herðarnar og varð það lítið sár því að oddurinn var af spjótinu. Sighvatur mælti: Höfumst orð við. Þér munuð nú ráða skiptum vorum. Þá hljóp að Einar dragi og hjó í höfuð Sighvati og var það ærið banasár en þó unnu þá fleiri menn á honum. En er Sighvatur djákni sá þetta þá lagðist hann ofan á nafna sinn og var þar veginn. Sighvatur Sturluson hafði sautján sár. Þá var hann á hinu átta ári hins sjöunda tigar. Árni Auðunarson lést þar við mikinn orðstír. Þorvarður úr Saurbæ var í brynju þeirri er Fulltrúi hét og gengu ekki spjótalög á hana. Það gaf honum líf en Kolbeinn þá er hann kom til. Sámur lést þar. Árni var á átta tigi. Þeir flettu Sighvat öllum klæðum nema stuttbrókum. Jafnframt þessu er að segja frá Sturlu. Hann hafði mikla atsókn og varðist alldrengilega. Markús Þorgilsson hét ungur maður. Hann hljóp úr flokki Sturlu ofan á garðinn snemma fundarins. Hann var lagður með spjóti í gegnum og varðist síðan sem best. Þá fékk hann annað lag í gegnum svo að út féllu iðrin og þá féll hann. Sturla hörfaði út úr gerðinu og fyrir neðan húsið og svo vestur um. Lauga-Snorri gekk fyrir Sturlu og hlífði honum með buklara og hafði sverðið undir buklaranum sem þá er menn skylmast. Sturla hafði sinn buklara yfir höfði honum. Þá var mikil atsókn að Sturlu en Snorri hlífði honum en ekki sér sjálfum og fékk hann því mörg sár og stór áður hann féll. Sturla varðist með spjóti því er Grásíða hét, fornt og ekki vel stinnt málaspjót. Hann lagði svo hart með því jafnan að menn féllu fyrir en spjótið lagðist og brá hann því undir fót sér nokkurum sinnum. Húnröður son Magnúss Húnröðarsonar lagði spjóti til Sturlu en hann lagði á mót svo að Húnröður féll. Hann var lítill maður og hafði góða brynju og varð ekki sár. Þá sótti Koðrán Svarthöfðason að Sturlu og lagði til hans með spjóti. Sturla mælti til hans: Ertu þar enn fjandinn? Koðrán svarar: Hvar væri hans meiri von? Það segja fleiri menn að Sturla skeindist eigi á því lagi. Þá stóð Húnröður upp og lagði spjóti í hægri kinn Sturlu og nam í beini stað. Þá mælti Sturla: Og nú vinna smádjöflar á mér, sagði hann. Þá lögðu tveir menn senn til Sturlu. Hjalti biskupsson lagði í vinstri kinn honum og skar spjótið út úr tungu og var sárið beinfast. Böðvar kampi son Einars nautbælings lagði spjóti í kverkur Sturlu og renndi upp í munninn. Sturla lagði til Hjálms á Víðivöllum og féll hann við. Þá er Sturla var sár sjö sárum mælti hann til Hjalta: Grið frændi, sagði hann. Grið skaltu af mér hafa, sagði Hjalti. Sturla var þá þrotinn af mæði og blóðrás. Hann studdi þá höndunum á herðar Hjalta og gengu þeir svo út af gerðinu. Hjalti tók þá annarri hendi aftur á bak sér og studdi hann svo. Sturla kastaði sér þá niður er hann kom skammt frá gerðinu. Mál hans var þá óskýrt og þótti Hjalta sem hann beiddist prestsfundar. Hjalti gekk þá í braut en yfir honum stóð Ólafur tottur mágur Flosa prests. Hann skaut skildi yfir Sturlu en Játgeir Teitsson mágur Gissurar kastaði buklara yfir hann. Þá kom Gissur til og kastaði af honum hlífunum og svo stálhúfunni. Hann mælti: Hér skal eg að vinna. Hann tók breiða öxi úr hendi Þórði Valdasyni og hjó í höfuð Sturlu vinstra megin fyrir aftan eyrað mikið sár og hljóp lítt í sundur. Það segja menn þeir er hjá voru að Gissur hljóp báðum fótum upp við er hann hjó Sturlu svo að loft sá milli fótanna og jarðarinnar. Þá lagði Klængur Bjarnarson í kverkur Sturlu í það sár er þar var áður og upp í munninn. Var allt sárið svo mikið að stinga mátti í þremur fingrum. Þá kom Einar Þorvaldsson þar og sagði lát Sighvats. Ekki tel eg að því, segir Gissur. Önundur biskupsfrændi skar pung af Sturlu og fékk Gissuri. Annar maður dró gull af fingri honum það er átt hafði Sæmundur í Odda, dökkur steinn í og grafið á innsigli. Gissur tók gullið og vopn Sturlu. Markús Marðarson lagði spjóti í kvið Sturlu hægra megin upp frá nafla. Þrjú sár hafði hann á bringunni vinstra megin. Naddur hét maður er hjó á barka Sturlu. Engi sár blæddu þau er hann fékk síðan er Gissur vann á honum. Þórarinn Sveinsson var jafnan nær Sturlu og bar sig vel en Gissur gaf honum grið þá er hann kenndi hann fyrir sakir frændsemi við Gró konu Gissurar. Þórarinn þó líki Sturlu og saumaði um en þeir höfðu áður flett líkið svo að bert var. Marteinn Þorkelsson féll skammt frá Sturlu. Kolbeinn Sighvatsson og meginflóttinn nam staðar undir hlíðinni á grjóthörg nokkurum. Þar kom til Gísli af Sandi með sína sveit og voru þeir á hestum og eggjuðu menn hann ofan að hjálpa þeim í tröðinni og hann bað Vestfirðinga eggja sína menn. Og þá kom Máni úr Gnúpufelli neðan að og sagði að þeir voru báðir fallnir Sighvatur og Sturla og bað hann Kolbein forða sér sem honum þætti líkast. Kolbeinn hljóp þá til kirkju á Miklabæ og allur flokkurinn, sumir í kirkju en sumir í húsin. Þeir Gissur komu litlu síðar að kirkjunni. Gísli af Rauðasandi og Tumi Sighvatsson flýðu í fjallið upp og margt manna með þeim og svo til Eyjafjarðar. Markús Sighvatsson var særður til ólífis í gerðinu. Síðan var hann færður til Víðivalla og lagðist á grúfu og var húslaður. Brandur Úlfhéðinsson sat yfir honum. Þá sendi Gissur til Símon knút og Gissur glaða að drepa hann. Börkur son Þorbjarnar Sigurðarsonar stóls vó að honum. Þórður Guðmundarson varðist úr húsdyrum á Miklabæ þar til er leitað var til laundyra á bak honum. Þá hopaði hann í stofu og varðist þar lengi vel og drengilega áður hann yrði sóttur. Gissur glaði hjó báðar hendur af honum. Það var banasár. Þá er Gissur kom til kirkjunnar voru mönnum grið boðin, fyrst Eyfirðingum. Þeir Gissur og Klængur buðu Sturlu Þórðarsyni grið en hann skildi Ásgrím Bergþórsson til griða með sér og var því skjótt játað. Dufgussonum voru grið gefin fyrir flutning Ólafs Svartssonar. Þeir voru á kirkju uppi Svarthöfði Dufgusson og Kolbeinn grön. En þar kom að öllum voru grið gefin og játað friði nema sex. Sturla spurði Kolbein Sighvatsson hvort hann vildi að þeir gengju út en Kolbeinn bað þá út ganga og sagði það helst til hjálpar ef nokkuð rýmdist í kirkjunni því að fólkinu hélt við spreng. Kolbeinn bað þá biðja sér griða er þeir kæmu út og bjóða það allt fyrir hann er honum sómdi til lífs að vinna. Hann bauð utanferð sína og koma aldrei út. En ekki var á það litið. Þeir heituðust að brenna kirkjuna og kváðu óvígða ef þeir gengju eigi út. Þar voru þeir til sólarfalls um kveldið. Þá bað Kolbeinn að þeir skyldu leyfa að þeir gengju til náðhúss og var því játað. Þá var rökkvið er þeir gengu út úr kirkjunni. Þeir gengu um skálann og var hann skipaður af sárum mönnum og þeim er grið voru gefin. Þeir fögnuðu er þeir Kolbeinn voru þar komnir heilir. Kolbeinn svarar: Víst er það vel en þó höfum vér eigi griðin fengið. En er þeir höfðu setið um hríð þá gengu þeir út. Kolbeinn mælti til þeirra er inni voru: Viljið þér út ganga og sjá högg stór? Þeim varð ekki á munni. Kolbeinn mælti til Gissurar er hann kom út: Það vildi eg að þú létir mig fyrr höggva en Þórð bróður minn. Gissur kvað svo vera skyldu. Þá hjó Einar kollur Kolbein. Þá var Þórður til höggs leiddur. Þá mælti maður við Kolbein unga: Viltu árna sveininum griða, Þórði frænda þínum? Kolbeinn mælti: Fór sá er skaði meiri var að. Brandur Þorleifsson vó Þórð. Þá voru þeir Hrafnssynir vegnir Krákur og Sveinbjörn. Hersteinn son Bergs prests vó að þeim. Þóri jökul vó sá maður er hefna þóttist bróður síns er Þórir hafði vegið í Bæjarbardaga. Þórir kvað vísu þessa áður hann lagðist undir höggið: Þá var til höggs leiddur Hermundur Hermundarson. Hann var manna best hærður og mælti að hann vildi kneppa hári sínu svo að það yrði eigi blóðugt og svo gerði hann. Hann horfði í loft upp er Geirmundur þjófur vó hann. Klængur fékk hann til. Allir voru þeir vegnir með öxi Sighvats, Stjörnu. Lík Sighvats, Markúss og Sturlu og Þórðar voru færð til Þverár en Kolbeins lík á Grenjaðarstaði. Þessir menn létust á Örlygsstaðafundi með þeim er úr sárum dóu: Sturla Sighvatsson vestan, Árni Auðunarson, Snorri Þórðarson, Vigfús Ívarsson, Ormur Halldórsson, Marteinn Þorkelsson, Markús Þorgilsson, Gissur Þórarinsson, Hermundur Hermundarson, Þórir Steinfinnsson, Valdi og Áskell Skeggjasynir, Bersi Þorsteinsson; úr Vestfjörðum: Krákur og Sveinbjörn Hrafnssynir, Markús Magnússon, Helgi Sveinsson, Þórður Guðmundarson, Indriði smiður, Þórður Hallkelsson og Ámundi, Ögmundur Kolbeinsson, Jón kaupi, Dálkur Þorgilsson, en norðan: Sighvatur Sturluson, Þórður og Markús synir hans, Sighvatur Runólfsson, Ingjaldur stami, Þórður daufi, Einar Ingjaldsson, Björn Gissurarson, Björn Þórarinsson, Eyjólfur, Guðmundur Halldórsson, Sámur, Þórður Eysteinsson, Eiríkur Þorsteinsson, Björn Þorgrímsson, en lengra norðan: Kolbeinn Sighvatsson, Páll Magnússon, Þorgeir Bjarnarson, Oddur Kárason, Skeggi Hallsson, Sigurður Guðmundarson, Brandur Þorkelsson, Brandur Einarsson, Ljótur, Loðinn Helgason. Þessir létust af Gissuri: Játgeir Þórarinsson, Sigfús Tófason, Þorlákur Barkarson, Þorgils Steinason, Þórður Snorrason, Þorbjörn, Þóroddur húskarl Teits Þorvaldssonar.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.