Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ísls ch. 38

Íslendinga saga 38 — ed. Guðrún Nordal

Not published: do not cite (Ísls ch. 38)

Anonymous SturlungaÍslendinga saga
373839

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Þessu næst eða litlu fyrr voru skærur þeirra vestur í sveitum Miðfirðinga og Víðdæla. Þá bjó á Breiðabólstað í Vatnsdal Eyjólfur Kársson, son Kárs munks og Arnleifar dóttur Jóns Húnröðarsonar. Hann var mikill maður vexti og knár og hinn vaskasti um alla hluti. Tvo bræður átti hann sammæðra, Jón og Eyjólf. Voru þeir Ófeigssynir. Þá bjó Þórður móðurbróðir þeirra að Ásgeirsá en Illugi Bergþórsson að Þorkelshvoli, Þorsteinn Hjálmsson á Breiðabólstað í Vesturhópi frændi þeirra og í hverju húsi voru Húnröðlingar í þann tíma. En á Mel í Miðfirði bjó Þorgísl Kálfsson. Hann átti Þórunni Magnúsdóttur, Ólafssonar og Guðrúnar móðursystur Sturlusona. Þar á Mel voru bræður Þórunnar, Ólafur og Koðrán, Egill, miklir menn og sterkir. Gísl Bergsson bjó að Reykjum. Hans synir voru þeir Kálfur og Guðmundur, Steingrímur, Eiríkur og Úlfhéðinn en dætur hans Þórhildur, móðir Guðrúnar frillu Bjarnar Sæmundarsonar, og Vigdís frilla Sturlu Sighvatssonar. Þorbjörn Bergsson bjó að Ósi, faðir Teits og Margrétar. Margt var þá röskra manna í Miðfirði. Þórhildur Gíslsdóttir var þá ekkja og var það mælt að Eyjólfur Kársson slægi á nokkuð marglæti við hana en bræðrum hennar líkaði það illa og var því óþykkt mikil milli sveitanna. Sá maður var í Miðfirði er Tannur hét, son Bjarna Kálfssonar. Hann var orðillur og orti og níðskár. Engi var hann mannasættir. Vísa þessi kom upp í Miðfirði er kveðin var til Gíslssona: Fyrir þessa vísu vógu Gíslssynir mann. Eftir þetta hófst af nýju ófagnaður og orðasukk. Þá hófu Víðdælir það spott er þeir kölluðust gera meri úr Miðfirðingum. Og var Þorbjörn Bergsson hryggurinn í merinni en Gísl bróðir hans gregurinn en synir Gísls fæturnir, Ólafur Magnússon lærið en Tannur Bjarnason arsinn. Hann sögðu þeir skíta á alla þá er við hann áttu af hrópi sínu. En af þessum orðasveim og mörgum öðrum er meðal fór gerðist svo mikill fjandskapur að eigi var óhætt með þeim. En Snorri Sturluson átti flesta þingmenn í hvorratveggju héraði og þótti mönnum til hans koma að sætta þá. Reið Snorri þá til og þeir fáir saman og gerði þá orð til Víðidals og stefndi þeim öllum til Miðfjarðar á Mel, Eyjólfi Kárssyni, Þorsteini Hjálmssyni, Þórði og Bergþóri. Þeir komu til Miðfjarðar. Voru nær sjö tigir manna. Miðfirðingar komu til Mels og höfðu fjölmennt. Leitaði Snorri um sættir við þá en þeir tóku því seinlega. En þá er Víðdælir komu og stigu af hestum sínum gengu þeir heim á völlinn. Miðfirðingar hlaupa þegar á móti þeim og slær þar þegar í bardaga og voru hvorirtveggju allákafir. Snorri hét á þá að þeir skyldu eigi berjast. Engi hirti hvað er hann sagði. Þá gekk Þorljótur frá Bretalæk til Snorra og bað hann miðil ganga. Snorri kveðst eigi hafa lið til þess við heimsku þeirra og ákafa. Þorljótur veitti Snorra hörð orð. Síðan hljóp Þorljótur millum hrossanna og leysti og rak millum þeirra. Þá héldu Víðdælir undan ofan eftir vellinum og ofan fyrir melinn. Þeir náðu þá hestum sínum og riðu yfir ána. Í bardaganum féll Þorbjörn Bergsson. Bergþór hét sá er hann vó. Svo sögðu Víðdælir að merin ysi því er hryggurinn væri í sundur í henni. Illugi Bergþórsson lét fót sinn. Sárir urðu hvorirtveggju nokkurir menn. Þar kalla Miðfirðingar Þorsteinsstig er hann hljóp ofan fyrir melinn en Girðinefsgötu þar er Þórður hljóp ofan. Miðfirðingar eggjuðu þá Snorra til eftirreiðar og veitti Teitur honum mikið ámæli er hann vildi eigi auka vandræði þeirra. Eftir það voru dylgjur miklar millum sveitanna en aðfaralaust þaðan frá. Maður hét Þórarinn er bjó í Snóksdal, son Gríms Eldjárnssonar, góður bóndi. Hann átti Steinunni dóttur Brands frá Fellsenda. Þórarinn var vin og frændi Gíslunga og gaf þeim til setunnar mat mikinn og léði þeim vopna og gerði sig beran í liðveislu við frændur sína. Snorri fékk sætta Miðfirðinga og Víðdæli og gerði of sakar allar er gerst höfðu á Mel og meðal þeirra voru, bæði um víg og áverka. En eftir það réðst Eyjólfur Kársson vestur í fjörðu og fékk Herdísar Hrafnsdóttur Sveinbjarnarsonar. Henni fylgdi heiman land að Stökkum á Rauðasandi. Þá er Eyjólfur var á Eyri með mágum sínum fýstist hann að fara norður í Víðidal að erindum sínum. Hann hafði sveit manna. Sveinbjörn mágur hans var við honum. Þeir fóru norðan Haukadalsskarð og dvaldist fyrir neðan garð í Snóksdal. Þá sendi Eyjólfur heim eftir Gelli presti Höskuldssyni er þar söng. Eyjólfur kallaði á tal við sig Þorberg fylgdarmann sinn og talaði við hann einmæli. Síðan bað hann þá fara heim og biðja Þórarin bónda hrossa út á Hólmlátur. Þeir ætluðu að fara út á Eyri og þaðan vestur á skipum. Sveinbjörn Hrafnsson fór með honum og annar norðlenskur maður og enn var hinn fjórði. Og er þeir komu heim kalla þeir út Þórarin bónda. Hann gekk út og Helgi djákni son Einars Bjarnasonar frá Kvennabrekku. Þorbergur bað Þórarin hestanna en hann sagði vera upp á háls. Þorbergur hljóp af baki og bað vísa sér til hrossanna. Þórarinn gekk fyrir vegginn og hafði öxi í hendi. Hann rétti höndina til hestanna. En Þorbergur hjó af höndina fyrir framan olbogann. Hljóp öxin á nárann fyrir ofan mjaðmarhöfuðið og þar á hol. Þá hljóp djákni til og vildi duga bónda. Hann hafði sverð og buklara. Guðmundur Norðlendingur lagði til hans og kom í buklarann og renndi í brjóstið fyrir ofan geirvörtuna. Sneru þeir þá inn. En þeir Þorbergur sneru ofan til móts við Eyjólf og sögðu presti að bónda þætti mál að hann kæmi heim. Riðu þeir Eyjólfur á brott. En þeir Þórarinn höfðu prestsfund og létust báðir um daginn og lifði Þórarinn lengur. Steinunn kona Þórarins sótti Þórð Sturluson að eftirmáli of víg Þórarins og fal honum á hendi sjálfa sig því að Sighvatur var þá norður en Sturla og Tumi voru þá ungir. Dufgus Þorleifsson átti bú að Sauðafelli og var illa með þeim Þórarni. Þórður lét búa mál til alþingis og urðu þeir báðir sekir Þorbergur og Guðmundur. Sveinbjörn vann eið að hann hefði eigi vitað vígið en Eyjólfur galt fyrir það er honum voru fjörráð kennd. Sighvatur var heldur andstreymur um eftirmálið því að honum þótti verr er Þórður hlutdeildi og hann kom Þorbergi utan austur í fjörðum. Þetta vor gerði Eyjólfur bú að Stökkum á Rauðasandi. Þá var Guðmundur hinn seki fylgdarmaður hans og annar Uxi, norðlenskur maður. Á Rauðasandi í Saurbæ bjó þá Gísli Markússon og lagðist lítt á með þeim Eyjólfi. Varð þeim margt til í byggðarlagi um fjárbeitir og annað. Gísla þóttu fylgdarmenn Eyjólfs glepja konur þær er honum gast eigi að og gerðist með þeim hinn mesti fjandskapur. Það var á jólum er Stakkamenn komu til tíða. Þá var Gísla sagt að þeir voru í kirkju. Þá sendi hann til mann að læsa kirkjunni. Var Eyjólfur þar en Guðmundur í skotinu. Hann átti eigi kirkjugengt. Gísli og hans menn hljópu til vopna og fóru til kirkju. Bað Eyjólfur þá griða en þess var varnað. Guðmundur gekk út úr skotinu og færði Gísla höfuð sitt en Gísli lést þiggja mundu og kvaddi heimamann sinn, þann er Guðmundur hafði áður illa leikið og glapið konu fyrir, að hann skyldi drepa hann. Þá leiddu þeir hann upp um garð og drápu hann þar. Eyjólfur komst út um glerglugg austur úr kirkjunni og hljóp út til Stakka og í kastala er hann átti þar. Þeir Gísli fóru út þangað og sóttu hann í kastalann. Þar var húskarl hans í hjá honum er Þorsteinn stami hét og griðkona er Þorbjörg hét. Eyjólfur varðist alldrengilega en Þorsteinn spurði hvort hann skyldi eigi gefa nautum. Eyjólfur bað hann fara hvert er hann vildi og tók hann orlof. Þar um er þetta kveðið: Eyjólfur varð eigi sóttur og hurfu þeir frá Gísli og hans menn. Grið fengu menn Eyjólfs, þeir er í kirkju voru. Eftir þetta fór Eyjólfur norður á Eyri til mága sinna og voru þá dylgjur miklar millum þeirra. Var þá leitað um sættir með þeim og var lagður sáttarfundurinn um vorið í Tálknafirði og voru grið sett þar til er hvorirtveggju kæmu heim. En ekki urðu þeir sáttir. Hljópu þeir Gísli upp og fóru heim en Eyjólfur og hans menn fóru eftir þeim og út á Sand. Og er þeir komu í Saurbæ höfðu þeir Gísli fyrir búist á húsum uppi og gert sér þar gott vígi með viðum. Fengu þeir Eyjólfur lítt atsókn við komið og settust þeir um virkið. Komu menn þá til og leituðu um sættir með þeim. Þeir Eyjólfur höfðu matfátt og fóru til fjóss og ætluðu að taka naut nokkuð. Gekk Jón Ófeigsson bróðir Eyjólfs fyrst í fjósið. Þar var fyrir nautamaður Gísla og stóð í uxabási. Þá hjó hann á mót Jóni og kom á kinnina og rauf á hvoftinum og úr jaxlana tvo. Féll hann þá út í fang sínum mönnum. En nautamaður hljóp innar eftir fjósinu og út í hlöðuvindauga og svo upp í virkið. Og er það mál manna að þeir hafi ólíkast borið sig nautamaður þeirra Gísla eða Eyjólfs. Eftir þetta fékk Steinólfur prestur sætta þá. Skyldi Snorri Sturluson gera um málin og áverka Jóns. En eftir sætt þeirra réðst Eyjólfur brott af Rauðasandi og kaupir Flatey á Breiðafirði og fór þangað að búa. Þar kom til hans Aron Hjörleifsson og Sigríðar Hafþórsdóttur Aronssonar Bárðarsonar hins svarta. Herdís kona Eyjólfs var Hrafnsdóttir Sveinbjarnarsonar Bárðarsonar hins svarta. Aron hafði vaxið upp að fóstri með ágætum manni, Þorláki Ketilssyni í Hítardal. Voru þeir Sturla Sighvatsson fóstbræður þar til er Sturla fór á brott úr Hítardal fimmtán vetra gamall til föður síns en Aron í Flatey til Eyjólfs. Urðu þá í greinir nokkurar áður þeir skildu. Þeir Aron voru bræður og Ólafur er síðan var ábóti að Helgafelli.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.