Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Vatn ch. 44

Vatnsdœla saga 44 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Vatn ch. 44)

Anonymous íslendingasögurVatnsdœla saga
434445

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þorgils hét maður er bjó að Svínavatni. Hann átti sér
húsfreyju og með henni fjóra sonu og eru tveir nefndir,
Þorvaldur og Ormur. Glæðir hét bróðurson Þorgils en hann var
systurson Guðmundar hins ríka á Möðruvöllum. Glæðir var
áburðarmaður mikill, málugur og óvitur og hinn mesti gapuxi.



Þeir feðgar Þorgils og Þorvaldur fóru til Klakka-Orms að
biðja Sigríðar dóttur hans. Var því vel svarað og ákveðin
brúðhlaupsstefna að veturnóttum í Forsæludal. Þar var fámennt
heima en starf mikið fyrir höndum, bæði að sækja á fjall
sauði og svín og mart annað að gera. Þorkell bauðst til að
fara með verkmönnum á fjall. Ormur kvaðst það vilja. Þeir
fóru síðan og sóttist þeim seint því að féið var styggt.
Sótti engi knálegar en Þorkell. Það þótti torsóttlegast að
eiga við svínin. Þorkell var óhlífinn og bauðst jafnan til
þess er öðrum þótti verra að gera.



Og er þeir skyldu búa sér vistir mælti Þorkell: "Mun eigi vel
fallið að taka oss grísinn nokkurn til matar?"



Þorkell tók einn og bjó til borðs. Allir urðu á það sáttir að
Þorkell var fyrir þeim um alla liðsemd. Þeir komu heim.



Ávaldi hét maður er var með Klakka-Ormi. Hann var
Ingjaldsson. Hann var umsýslumaður en Hildur kona hans fyrir
innan stokk. Hún var dóttir Eyvindar sörkvis.



Litlu áður en brúðhlaupið skyldi vera kom Glæðir austan úr
Fjörðum og frétti nú þessi tíðindi og ráðastofnun.



Glæðir kvaðst hafa og spurt önnur tíðindi "en það er
fjallferð Þorkels kröflu, að hann var valiður til
svínagæslu," kvað hann það og maklegast um ambáttarsoninn og
kvað hann drepið hafa grísinn þann er drukkið hafði spenann
um nóttina áður og legið hjá galta "því að hann kól sem aðra
hundtík."



Þorgils mælti: "Þetta er heimsklegt gaman er þú hefir og er
svo sagt að Þorkell hafi svo farið að þannig sami best, bæði
þar og annars staðar."



"Auvirðlega þykir mér honum tekist hafa," segir Glæðir.



Nú koma menn til brúðhlaups.



Þá mælti Þorkell til Orms fóstra síns: "Eg mun vinna mönnum
beina og vera fyrir starfi og til ætlanar."



Ormur kvaðst það gjarna vilja þiggja. Þorkell veitti vel og
stórmannlega. Þeir Ormur sátu í öndvegi en Þorgrímur hinum
óæðra megin og hans menn. Þorkell gekk mjög um beina og var
lítillátur í sinni þjónustu. Þeir úr Svínadal hlógu að honum
mjög og kváðu ærið stóran vera ambáttarsoninn. Þorkell kvað
meiri kurteisi að láta gleði og gamanræður koma í mót
beinleika en skaup eða atyrði.



Glæðir kvað hann mörg stórvirki unnið hafa "og máttu af því
stórlega láta. Það nú fyrir skemmstu er þú drapst grísinn
þann er eina nótt hafði drukkið spenann. Er það og þín iðn."



Þorkell svarar: "Fá eru mín stórvirki Glæðir en þó munu þau
fleiri en þín og er þér óskylt um þetta að tala."



Glæðir hló að Þorkeli fyrir Þorvaldi og kvað hann fimastan
við matreiðuna. Þorvaldur kvað Glæði óviturlega mæla. Og um
kveldið fóru menn að sofa.



Um morguninn gekk Þorkell í útibúr og hvatti öxina jarlsnaut
og gekk síðan í anddyri. Þá var Glæðir þar og tók laugar. Þá
gengu menn hjá honum með sláturtrog.



Glæðir mælti til Þorkels: "Nær muntu verið hafa búverkunum í
morgun og munum vér skulu nú njóta hans galta og lát það
feitast er fyrir oss kumpána kemur. Það hæfir vel
ambáttarsyni."



"Mun eigi vel fallið að brytja fyrst höfuðið," kvað Þorkell,
"og velja stykkin fyrir þig og aldrei veit eg að þú sért nú
svo frekur að torsótt sé að fylla þig."



Þann dag skyldi frá boðinu ríða. Þorgils spurði hvort búinn
væri dagverður. Þorkell kvað búinn þegar soðið var og kvað
skammt til þess og gekk út verkmanna dyr og inn aðrar dyr og
tók öxi sína er stóð hjá dyrum. Og er Glæðir gekk út gekk
Þorkell eftir honum og hjó til hans í höfuðið og hafði Glæðir
þegar bana. Þorkell hljóp til norðurdyra því að þeir voru
fyrir suðurdyrum. Matur stóð um allt húsið. Þorgils var
fjölmennur og hlupu menn hans um húsið og hyggja Þorkel eigi
skulu út komast og ætla að hafa hendur á honum. Þorkell hljóp
um sætin. Skot voru um húsið og lokhvílur og úr einni lokhvílu
mátti hlaupa í skotið. Hann leitar þangað sem konur sátu og
földuðu sér. Hann hljóp þar að er Hildur var fyrir. Hún
spurði hví hann færi svo hart. Þorkell segir sem var. Hún bað
hann fara í skotið hjá sér og þar komst hann út.



Þorgils mælti: "Snúum þar að er konurnar eru því að mér þótti
maðurinn þangað hlaupa."



Hildur tók öxi í hönd sér og kvað eigi skyldu einn þeirra af
sér taka. Þorgils hyggur Þorkel þar nú vera munu og biður
bera klæði að þeim. Og var svo gert og fannst Þorkell eigi.
Þorgils sá nú að þetta var eigi utan prettur og dvöl og fóru
út síðan. Og er þeir komu út þóttust þeir sjá svip manns
niður við ána. Þorgils bað leita þangað og svo var gert og
fannst hann eigi. Þorkell vissi að þar var hellir við ána er
nú heitir Kröfluhellir og þar var hann.



Þeir Þórormur og Klakka-Ormur leituðu um sættir. Eigi vildi
Þorgils bætur taka en brugðu eigi ráðahag þessum og kváðu
mannhefndir skyldu fyrir koma víg Glæðis. Þórormur leiddi
brúðmenn úr garði og leitaði jafnan um sættir og fékk eigi og
skildu að því.



Þorkell var ýmist þann vetur á Kárnsá með bræðrum sínum eða
með öðrum frændum sínum því að allir vildu honum veita
nokkura ásjá og hugðu gott til að nokkur þroski yrði hans í
þeirri sveit svo að eigi settust þar utanhéraðsmenn yfir þá.
Þeir fóru Vatnsdælir að leita honum trausts til Þórdísar
spákonu er bjó að Spákonufelli. Hún var mikils verð og margs
kunnandi og báðu hana ásjá og fulltings um mál Þorkels og
kváðu þar allmikið undir þykja að hún legði til nokkuð ráð.
Hún kvað og svo vera skyldu.



Þorgils fór að hitta Guðmund ríka og kvað honum skyldast vera
að mæla eftir frænda sinn "en eg mun að fylgja."



Guðmundur mælti: "Eigi þykir mér málið svo hægt því að eg
hygg að Þorkell verði mikilmenni en margur frændi til
aðstoðar en mér hefir svo til spurst að eigi sé fyrir
sakleysi tiltekt Þorkels. Nú bú þú til málið en eg mun við
taka í sumar á þingi."



Um vorið bjó Þorgils málið til alþingis. Vatnsdælir
fjölmenntu mjög og svo hvorirtveggju. Þorgils reið til þings
með mikla sveit manna. Þorkell reið og til þings með frændum
sínum. Þar reið með þeim Þórdís spákona og átti ein sér búð
og hennar menn. Tók þá Guðmundur við málinu. Þeir Vatnsdælir
buðu sættir en þeir Guðmundur vildu ekki utan sektir.
Þórormur hitti Þórdísi og ræðst um við hana því að hún var
forvitra og framsýn og var tekin til þess að gera um stórmál.



Hún mælti þá: "Fari Þorkell hingað til búðar minnar og sjáum
hvað í gerist."



Svo gerði Þorkell.



Þórdís mælti við Þórorm: "Far þú og bjóð Guðmundi sættir en
eg geri um málið."



Þorkell gaf Þórdísi tvö hundruð silfurs. Þórormur bauð dóm
Þórdísar á málinu en Guðmundur nítti og kvaðst eigi vilja
taka fébætur.



Þórdís mælti: "Eg ætla mér og engan vanda við Guðmund."



Síðan mælti hún við Þorkel: "Far þú nú í kufl minn hinn
svarta og tak stafsprotann í hönd þér er Högnuður heitir. Eða
muntu þora að ganga í flokk Guðmundar við svo búið?"



Hann kvaðst þora mundu með hennar ráði.



Hún svarar: "Hættum nú til þessa. Nú skaltu ganga til
Guðmundar og drepa sprotanum þrisvar sinnum á hina vinstri
kinn honum og eigi sýnist mér þú bráðfeiglegur og vænti eg að
dugi."



Hann kom í flokkinn Guðmundar og sá engi maður til hans. Hann
kom að Guðmundi og gat á leið komið því sem honum boðið var.
Nú frestaðist þeim sókn sakarinnar og dvelst málið.



Þorgils mælti: "Hví gengur eigi fram málið?"



Guðmundur kvað brátt greiðast mundu en það varð eigi og
dvaldist stundin svo að ónýtt varð málið til sóknar.



Þórdís hitti Vatnsdæli og bað þá ganga að dómum og bjóða nú
fé fyrir manninn "og má vera að nú taki þeir og lúkist svo
málið."



Þeir gerðu svo, gengu til dóma og hittu Guðmund og buðu
sættir og fébætur.



Guðmundur svarar: "Eg veit eigi hvað þér viljið bjóða en
mikils vil eg það virða í málinu að sá er veginn var hafði
mælt sér til óhelgi."



Þeir kváðust vel vilja bjóða fyrir hans sakir og báðu hann um
mæla. Og er hann skildi í hvert efni komið var málinu og eigi
mátti sækja til laga þá tók hann sjálfdæmi af Þórormi að gera
fé slíkt sem hann vildi að undanskildum utanferðum og
héraðssektum. Var þá handsalað niðurfall að sökum. Þá sendi
Þórdís Þorkel í annað sinn til Guðmundar að láta koma
stafsprotann við hægri kinn honum og svo gerði hann. Þá tók
Guðmundur minnið og þótti kynlegt að það hafði frá honum
horfið. Guðmundur gerði hundrað silfurs fyrir víg Glæðis og
féllu þá niður gagnsakir og guldu þau Þórormur og Þórdís allt
féið og skildust sáttir. Þorkell fór til Spákonufells með
Þórdísi heim.



Þorgils mælti til Guðmundar: "Hví skipaðist svo skjótt hugur
þinn um málin í dag?"



Guðmundur svarar: "Því, að eg kunni eigi orð að mæla frá
munni og því var eg tregur og má vera að við ramman væri reip
að draga."



Fóru nú heim af þingi.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.