Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Svarfd ch. 10

Svarfdœla saga 10 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Svarfd ch. 10)

Anonymous íslendingasögurSvarfdœla saga
91011

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Það var einn tíma er þeir voru tveir á tali, jarl og
Þorsteinn, og spurði jarl hver laun Þorsteinn vildi hafa
fyrir það mikla þrekvirki er hann hafði unnið "og er oss
orðin mikil sæmd að þér í öllu."


Þorsteinn sagði: "Það viljum vér af yður þiggja sem þér
viljið frammi láta en varla er von að vér fáum það sem
hugurinn stendur til fyrir mannvirðingar sakir," sagði hann.


Jarl mælti: "Raunmjög mun undir þér vera hvers þú beiðist því
það skal til reiðu af mér sem þú beiðir."


Þorsteinn sagði: "Auðkveðin eru þá launin ef eg skal ráða.
Það er Ingibjörg dóttir yðar með þvílíkri heimanfylgju sem
henni sómir og yður úti að láta."


Jarl sagði: "Fyrir löngu vissi eg það og hefur lengur
frestast en eg hugði. Skal eg allt efna við þig það eg hefi
heitið en þó vil eg mæla nokkuð mínu máli þar um og þínu. Mun
eg auka þína sæmd í því og að þú ráðir ríki þessu eftir minn
dag og komir aldrei til Noregs."


Þorsteinn sagði: "Því vil eg heita að vera hér þrjá vetur en
eftir það vil eg kjósa hvort eg vil hafa jarldóm fyrir því þá
mun eg sjá hvort eg þá þykist mega halda ríkið eða eigi."


"Viturlega er kjörið," sagði jarl, "og mun eg því samþykkur
verða ef Ingibjörg vill sem eg."


Þorsteinn kvaðst ei mundu bekkjast til þess ef henni væri
eigi ljúft. Þeir gengu nú til tals með hana og sögðu henni
sína fyrirætlan og spurðu hversu henni væri um gefið en hún
sagði að faðir hennar skyldi fyrir ráða, kvað sér það vel
mundu gegna. Var þetta nú að ráði gert og var búin til
sæmileg veisla og mörgum mönnum til boðið. Sátu menn að
veislu til þess að lokið var. Leiddi Þorsteinn menn í burt
með góðum gjöfum og varð hann af því vinsæll og víðfrægur.


Nú situr Þorsteinn þar um veturinn og gátu þau sér barn þegar
það mátti verða. Og er að þeirri stundu kom sem hún skyldi
léttari verða ól hún sveinbarn og var hann vatni ausinn og
kallaður Þórólfur. Hann óx þar upp og var allbráðger og líkur
hinum fyrra Þórólfi.


En er Þorsteinn hafði þar verið þrjá vetur sagði hann jarli:
"Nú hefi eg hér verið alla þá stund sem eg hef heitið og mér
er hugur á."


Jarl sagði: "Ekki megum vér halda á þér ef þú vilt burtu fara
og far þú hvert er þú vilt."


Þá lét jarl búa skip með þeim farmi sem Þorsteinn hafa vildi
til Noregs og leiddi dóttur sína út með sæmdum miklum.


Þorsteinn mælti: "Þess beiði eg yður herra ef svo ber við að
yðvar missi við að mínir erfingjar af dóttur yðvarri til
komnir taki lönd og lausa aura eftir yður ef eg sendi þá
til."


Jarl segir það skuli svo vera sem hann vildi að væri...





(Erfitt er að ráða í hvað staðið hafi í stórri eyðu sem hér
er í söguna. Í skýringum Björns á Skarðsá við fornyrði
lögbókar er tvisvar vitnað til Svarfdælu og kann það að vera
sótt í þennan hluta sögunnar. Þær skýringar eru á þessa leið
samkvæmt eiginhandarriti Björns, AM 216cß 4to.)





Hérað: Item Svarfdæla: Þér hafið ókænlega haldið hér að
óbyggðum því mitt hérað er inn frá (það var Svarfaðardalur).


Kaldakol: Hann hafði nú farið eldi og arni um lendur sínar.


Les Svarfdælu:


Þegar þessir allir eldar eru slökktir þá er kaldakol, etc.





(Hér fylgir eyðufylling úr handritinu Rask 37. Kaflatal er
eins og þar.)





Eftir það bjóst Þorsteinn til brottferðar og fylgdi jarl
honum til strandar.


Hann mælti þá við Þorstein: "Svo kveð eg að orði sem þú hafir
hér mestur maður komið á Gautland síðan eg til vissi. Get eg
að við munum ei oftar sjást og er það mikill harmur að missa
þín af ættjörðu vorri en alls staðar muntu mesti maður þykja
hvar sem þú ferð og uppi mun nafn þitt meðan heimurinn er
byggður og far þú heill og vel."


Eftir það skildu þeir og hélt Þorsteinn skipi sínu norður til
Noregs og kom að hausti í Naumudal. Og sem Þorgnýr vissi komu
sonar síns fór hann á móti honum og varð þar hinn mesti
fagnaðarfundur. Bauð Þorgnýr syni sínum heim með konu hans og
alla fylgdarmenn. Var þar ger hin besta veisla og að henni
var mest til skemmtunar haft að Þorsteinn sagði frá ferðum
sínum og hreystiverkum. Mátti þar heyra mörg afreksverk hans.
Þorgnýr frétti mjög að um Þórúlf son sinn, hversu hann hefði
varist mót Ljóti.


En Þorsteinn sagði allt sem farið hafði: "Þótti mér sem eg
mundi verða yfirbugaður af Ljóti," sagði hann, "þá hann hafði
fellda alla menn mína utan tólf en eg var sár og hlífarlaus
fyrir honum."


Þorgnýr mælti: "Mjög var þá sem eg gat til að þú mundir fá
þig fullreyndan fyrir Ljóti bleika og hefur mjög að svorfið
fyrir ykkur báðum. Mun eg nú auka við nafn þitt sem siður er
til við stórmenni og mun eg kalla þig Þorstein svarfað og
gefa þér að nafnfesti bæ þenna og bú og þar með umráð þau er
eg hefi haft yfir Naumudölum. Er eg nú mjög að elli kominn og
ei fær til umsýslu en þú virðist mér vel til þess fallinn
fyrir hvervetna sakir."


Þorsteinn þakkaði föður sínum með mörgum fögrum orðum og var
með honum um vetrin.


En að vori komanda tók hann við búi og umsýslu og gerðist
brátt vinsæll og góður forstjóri. Hann átti annan son við
konu sinni en Þórúlf og var sá nefndur Karl og sem hann
eltist gaf faðir hans honum auknafn og kallaði hann Karl hinn
rauða. Dóttur áttu þau er Guðrún hét (eða Þórarna). Öll voru
börn þeirra efnileg.





13. kafli




Tveim vetrum síðar en Þorsteinn tók við búi tók Þorgnýr sótt
og andaðist. Þorsteinn lét efla haug og lagði þar í föður
sinn og mikið fé hjá honum. Síðan drakk hann erfi eftir föður
sinn og bauð til mörgu stórmenni og að henni liðinni leysti
hann alla menn út með gjöfum því hann var hinn mesti
rausnarmaður. Átti hann og gnótt fjár síðan er hann felldi
Ljót hinn bleika og eignaðist allt hans góss.


Þar eftir bjó Þorsteinn nokkur ár að föðurleifð sinni og óx æ
meir og meir virðing hans. En er hann hafði lengi búið þá tók
Ingibjörg kona Þorsteins þunga sótt og lá ei lengi áður hún
andaðist. Þótti Þorsteini það hinn mesti skaði sem von var
að. Lét hann leggja hana í haug hjá föður sínum. Harmaði
Þorsteinn hana mjög og bar þar ei yndi síðan og fýstist brott
þaðan fyrir þessa skuld. Höfðu þá margir tignir menn í Noregi
flúið óðul sín undan ofríki Haralds konungs hárfagra og fóru
sumir vestur um haf til Hetlands og Orkneyja og byggðu þar en
margir fóru til Íslands og tók það nú að verða mjög albyggt.
Og fyrir því Þorsteinn þóttist ei verða varhluta
skuldalúkningar og hlýðni að Haraldi konungi, þess og annars
að hann undi ei eftir dauða konu sinnar, þá bjó hann skip
sitt til Íslandsferðar. Börn hans voru þá fullþroskuð. Réðst
Karl hinn rauði til ferðar með föður sínum en menn segja hann
sendi Þórúlf son sinn til Gautlands og að hann hafi tekið þar
ríki litlu eftir dauða Herrauðs móðurföður síns og aukið þar
kyn sitt.


Ljótur hinn bleiki hafði áttan son þann er Hafþór (Snækollur)
hét. Hann var víkingur og er Þorsteinn svarfaður var búinn
til Íslandsferðar og var að ráðstafa eignum sínum kom hann
til bæjar Þorsteins og hertók þaðan Þórörnu dóttur hans og
rændi fé miklu. En er Þorsteinn kom heim þá vissi hann ekki
hvert Snækollur hafði haldið og varð ei af neinni eftirför.
Hélt Snækollur síðan við Þórörnu og átti við henni tvö börn.
Verður frá þeim sagt síðar í sögunni.


Þorsteinn lét í haf eftir þetta. Byrjaði honum seint og bar
norður fyrir Ísland og tóku land vestanvert við Eyjafjörð og
réðu skipi sínu til hlunns.





14. kafli




Helgi hinn magri son Eyvindar austmanns Bjarnarsonar
Hrólfssonar frá Ánu bjó þá að Kristnesi í Eyjafirði. Hann var
höfðingi yfir öllu því héraði og mikils virður. Hann hafði
komið út hingað vestan um haf. Var hann uppalinn í Suðureyjum
og síðan á Írlandi af móðurföður sínum Kjarvali Írakonungi.
En þá hann var í Suðureyjum að fóstri var hann sveltur og sá
ei á honum hold og sem faðir hans og móðir komu þar kölluðu
þau hann Helga hinn magra. Helgi var prímsigndur og trúði á
Krist og kenndi við hann bæ sinn en þó hét hann á Þór til
allra stórræða. Helgi átti tvo sonu, Hrólf og Ingjald, og
eina dóttur er hét Ingunn. Hana átti Hámundur heljarskinn.


En er Helgi frá útkomu Þorsteins reið hann til skips með
marga menn og bauð Þorsteini til sín. Var þá mjög komið að
vetri. Þorsteinn tók þessu boði með þökkum og fór heim til
Helga og voru þeir Þorsteinn og Karl með honum um veturinn í
góðu yfirlæti en hásetar vistuðust þar nærri um fjörðinn.





15. kafli




Um vorið bað Þorsteinn Helga vísa sér bústað.


Helgi mælti: "Mjög er nú albyggt um hérað og veit eg ei
annarstaðar ónumið en í dal þeim er liggur upp í land fyrir
utan Hrísey. Er það mikið hérað. En þar hefur tekið sér
bústað Ljótúlfur goði er út kom austur í Sandvík með
Hróðgeiri hvíta Hrappssyni frænda sínum" - en svo voru þeir
skyldir að Hróðgeir var bróðir Alreks föður Ljótúlfs - "og
það ætla eg hann muni vilja helga sér dalinn og verja hann
fyrir búsetu stórmenna."


"Ei munum vér að því fara," segir Þorsteinn.


Og eftir þetta fara þeir Þorsteinn og Karl með sínum mönnum
út til dalsins og tóku menn að efna sér til bæja. Byggði
Þorsteinn sér þar bæ sem hann kallaði að Grund en Karl hinn
rauði tók sér bústað að Karlsá. Fór hann síðan landa á milli
hvert sumar en hélt þó ávallt bú. Þetta var þeim megin ár er
Ljótúlfur átti ei byggð en það hét að Hofi er hann bjó. Honum
líkaði stórilla aðgerðir þeirra Þorsteins og Karls og amaðist
við þeim. Gerðist hér af óvinskapur þeirra á millum.


Það var einn tíma er Þorsteinn hafði farið að sækja varnað
sinn en Karl son hans og fylgdarmenn þeirra nokkrir voru að
skógarhöggi í dalverpi einu litlu. Voru þá menn gervir af
hendi Ljótúlfs að ráða að þeim. Hét sá Björn digri er að þeim
fór með marga menn en þar voru ei hjá þeim utan bolaxir
þeirra og höfðu menn ekki vopn nema lurka og börðust með
þeim.





(Styttri eyðufylling er í handritinu Lbs. 266 fol.)





Þorsteinn svörfuður, son Rauðs ruggu, átti Hildi
Þráinsdóttur, þeirra son Karl rauði. Þeir feðgar fóru til
Íslands, námu Svarfaðardal og bjuggu á Grund. Ljótólfur goði
bjó að Hofi. Amaðist hann við Þorsteini og börðust þeir sem
hér segir. Karl gerði bú að Karlsá.



sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.