Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Snegl ch. Mork

Sneglu-Halla þáttr - Mork 1 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Snegl ch. Mork)

Anonymous íslendingaþættirSneglu-Halla þáttr - MorkMork

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Eitt sumar kom skip af Íslandi og var þar á Sneglu-Halli.
Hann var norðlenskur að ætt. Honum var svo farið að hann var
skáld og foryfldist heldur fás í orðum sínum.



Þeir komu við Agðanes og héldu inn eftir firðinum og brunuðu
í móti þeim langskip og stóð maður upp á drekanum er fyrir
fór í rauðum kyrtli og mælti: "Hver stýrir skipinu eða hvar
voruð þér í vor eða hvaðan ýttuð þér eða hvar komuð þér við
land eða hvar voruð þér í nótt?"



Halli svarar: "Sigurður heitir stýrimaðurinn en vér vorum í
vetur á Íslandi en ýttum frá Gásum en komum við Hítrar og
vorum í nótt við Agðanes."



Maðurinn mælti: "Sarð hann yður eigi þá Agði?"



Halli svarar: "Eigi enna."



Maðurinn mælti: "Var þó nokkuð til ráðs um?"



"Já herra," svarar Halli, "beið hann að betri manna, vænti
þín þangað í kveld."



Þar var Haraldur konungur er orðum skipti við Halla.



Nú koma þeir í bæinn og fer Halli á fund konungs og kveður
hann "og vildum vér herra," segir hann, "til yðar fara."



Konungur segir: "Vant verður það útlendum mönnum og ábyrgst
þig sjálfur en eigi spara eg mat við þig."



Nú fór Halli þangað og var með hirðinni. Þar var og Þjóðólfur
skáld með konungi og þótti vera nokkuð öfundsjúkur við þá
menn er komu til hirðarinnar.



Og einn dag er Þjóðólfur gekk að stræti með konungi komu þeir
fyrir loft nokkur og heyra deild manna og því næst áflog. Þar
var skinnari og járnsmiður.



"Göngum braut héðan," segir konungur. "Yrk nú Þjóðólfur of
deild."



Hann mælti: "Óskylt er það herra."



"Ger sem eg mæli," segir konungur, "og er nakkverju meiri
vandinn á en þú ætlar. Þú skalt gera af þeim nakkvað aðra
menn en þeir eru. Lát annan vera Geirröð jötun en annan Þór."



Hann kvað vísu:



Varp úr þrætu þorpi

Þórr smiðbelgja stórra

hvatt eldingum höldnum

hafra kjöts að jötni.

Hljóðgreipum tók húða

hrökkviskafls úr afli

glaðr við galdra smiðju

Geirröðr síu þeirri.


Konungur mælti: "Þessi vísa er góð og vel ort. Og nú skaltu
yrkja aðra. Lát nú vera annan þeirra Sigurð Fáfnisbana en
annan Fáfni en kenn þó hvorn til sinnar iðnar."



Hann kvað enn vísu:



Sigurðr eggjaði sleggju

snák válegrar brákar

en skafdreki skinna

skreið of leista heiði.

Menn sáust orm áðr ynni

ilvegs búinn kilju,

nautaleðrs á naðri

neflangr konungr tangar.


Konungur mælti: "Gott skáld ertu Þjóðólfur" og gaf honum
þegar eitt fingurgull.



Og of kveldið var tíðrætt of vísurnar og segja þeir hirðmenn
að Halli mundi eigi yrkja slíkar vísur.



Hann svarar: "Eigi em eg jafngott skáld sem Þjóðólfur en þá
mun mér firrst of fara ef eg em eigi við staddur."



Sá maður var með Haraldi konungi er Túta hét, frískur maður,
og var þar til sýnis. Hann var lágur sem dvergur og digur.



Og eitt kveld lét konungur hann taka vopn sín, brynjuna Emmu
og hjálm og sverð, og bað hann ganga fyrir hirðina í
drykkjustofu þá er menn sátu undir borðum. Kom hann inn með
þessum búnaði og hlæja menn að honum og þótti maður
undarlegur.



Þá mælti konungur: "Sá maður er nú yrkir um hann þar sem hann
stendur skal þiggja af mér hníf þenna og belti."



Það var gersemar.



Þá kvað maður vísu á bekkinn og var þar Halli:



Færðr sýndist mér frændi

Frísa kyns í brynju.

Gengr með hirð í hringum

hjálmfaldinn kurfaldi.

Flærat eld í ári

úthlaupi vanr Túta.

Sék á síðu leika

sverð rúghleifa skerði.


"Vel er þetta kveðið," segir konungur og sendir honum
gjöfina.



Þjóðólfi fannst fátt um.



Nakkverju síðar gekk konungur að stræti og hirðin með honum.
Var þá Halli í förinni og er þeim voru minnstar vonir þá
hljóp hann Halli fram fyrir þá.



Konungur mælti:



"Hvert stillir þú Halli?"


Hann svarar:



"Hleyp eg fram að skyrkaupi."


Konungur mælti:



"Graut muntu gerva láta?"


Halli svarar:



"Gjör matr er það, smjörvan."


Hleypur síðan í garð einn af strætinu og þar sem kona hafði
uppi ketil og var í grautur. Hann tekur ofan ketilinn og
gengur út með og sest niður úti hjá loftinu og etur grautinn.



Og er konungur saknar hans í fylgdinni þá mælir hann: "Nú eru
eigi góðs efni í. Nú er hann Halli braut hlaupinn. Förum nú
og leitum hans."



Þeir skipa síðan til og voru sex hvorir og finna hann síðan
þar er hann sat og hóf grautinn.



Þá mælti konungur við hann stygglega: "Hvað skyldir þú fara
utan af Íslandi til ríkra manna og gerast svo að undrum?"



"Ver eigi reiður herra," svarar Halli, "þiggja viljum vér
fagnað er í hendur ber og jafnan sé eg yður á kveldum ekki
drepa hendi við góðum sendingum."



Konungur gekk í brott en Halli stóð upp og kastar niður
katlinum og skall haddan.



Þá kvað Halli þetta:



Haddan skall en Halli

hlaut offylli grautar.

Hornspánu kveð eg hánum

hlýða betr en prýði.


Konungur er reiður Halla og þykir Þjóðólfi þetta hlæglegt er
Halli hefir til tekið.



Og of kveldið lætur konungur setja fyrir Halla grautartrog og
biður hann úr eta. Halli lést eta mundu graut og lét sér hann
þykja megingóðan. Matast hann og hættir þá er honum þykir
fallið. Konungur biður hann eta enn.



"Nei herra," svarar Halli, "það geri eg eigi. Kost áttu að
láta drepa mig ef þú vilt en eigi skal eg af þessu hljóta
bana."



Og nú of kveldið lét konungur taka af borði sínu grís einn
steiktan og fær í hendur Tútu og mælti: "Fær þetta Halla,"
segir hann, "og seg honum að hann hafi ort vísu áður en þú
kemur fyrir hann og mæl það þá er þú kemur á mitt gólfið og
ef eigi er þá ort sér hann bana sinn."



Túta svarar: "Herra, eigi vildi eg þetta gera."



Konungur segir: "Góð þykir þér vísan. Muntu og gjörla heyra
kunna."



Síðan tók hann við grísinum og gekk á mitt gólf og mælti:
"Yrk vísu skáld," segir hann, "að boði konungs og lát sem líf
þitt liggi við."



Og er Túta kemur fyrir Halla þá réttir hann Halli hendur í
móti grísinum og kvað vísu:



Grís þá greppr að ræsi

gruntrauðustum dauðan.

Njörðr sér börg á borði

bauglands fyrir sér standa.

Runa síðr lít eg rauðar.

Ræð eg skjóttgervu kvæði.

Rana hefir seggr á svíni,

send heill konungr, brenndan.


Þá mælti konungur: "Upp mun nú gefin sökin við þig Halli,"
segir hann, "og er allgóð vísa."



Hann er nú með hirðinni vel haldinn.



Og er kemur jólaaftann gengur Halli fyrir konung og kveður
hann. Konungur tók vel máli Halla.



Þá mælti Halli: "Herra, kvæði hefi eg ort of yður. Eg vildi
að þér hlýdduð."



Konungur mælti: "Hefir þú nakkvað kvæði fyrr ort?"



Hann svarar: "Ekki herra."



Konungur mælti: "Það mun þá sumra manna mál að þú takist
mikið í fang fyrsta sinni, slík skáld sem of mig hafa ort.
Eða hvað sýnist þér ráð Þjóðólfur?"



Hann svarar: "Ekki kann eg þér ráða ráðin herra," segir hann,
"hitt mun nær fara að eg kunni ráða Halla heilræði."



Konungur segir: "Hver eru þau?"



Þjóðólfur segir: "Að hann ljúgi eigi að yður."



Konungur mælti: "Hvað lýgur hann?"



"Það þá herra að hann hafi ekki kvæði ort en eg ætla hann ort
hafa."



"Hvert er það?" segir konungur.



Þjóðólfur svarar: "Það heita Kolluvísur er hann orti of kýr
út á Íslandi er hann gætti."



Þá mælti konungur: "Er það satt Halli er hann segir?"



"Satt er það herra," svarar Halli.



Konungur mælti: "Hví sagðir þú það að þú hefðir ekki kvæði
ort fyrr en of mig?"



"Því herra," svarar Halli, "að eg vænti að mönnum muni lítil
kvæðismynd á því þykja ef það kæmi á loft."



"Kveð það fyrst þá," segir konungur.



Halli svarar: "Skemmta mun þá fleira skulu herra."



"Hverju þá?" segir konungur.



"Kveða skal Þjóðólfur Sóptrogsvísur er hann orti út á
Íslandi."



Konungur segir: "Hvernig er það kvæði?"



Halli svarar: "Þjóðólfur hafði það verk er hann var heima að
hann bar út ösku með öðru ungmenni og þótti til einkis annars
fær og varð þó að að hyggja að eigi væri eldur svo að mein
yrði að."



"Er það satt Þjóðólfur?" segir konungur.



"Satt er það herra," svarar Þjóðólfur.



Konungur mælti: "Hví hafðir þú svo óvirðilegt verk?"



"Það bar til herra," svarar hann, "að vér vorum mörg börnin
og tók eg undir með þeim of verkið og flýtti eg þeim svo til
leika."



"Heyra vil eg hvorttveggja kvæðið," segir konungur.



Svo var nú gert að þeir kveða kvæðin og er lokið var þá mælti
konungur: "Hvorttveggja er kvæðið ófengilegt og munu og lítil
verið hafa yrkisefnin og það er þó enn fengminna Þjóðólfur er
þú ortir."



Þá svarar Þjóðólfur: "Halli er orðhvass maður en það væri
honum eigi óskyldra að kasta ekki ónýtum orðum á mig og hefna
föður síns."



Konungur mælti: "Er það satt Halli að þú hefir eigi hefnt
föður þíns?"



"Satt er það herra," svarar Halli.



Konungur mælti: "Hví fórstu við það til Noregs?"



"Það bar til herra," svarar Halli, "að eg var þá barn að
aldri er hann var veginn og tóku frændur málið og sættust á
fyrir mína hönd. En það nafn þykir ekki vel sama með oss að
heita griðníðingur."



Konungur mælti: "Besta er úr þessu leyst en það er að er þú
svarar engu Þjóðólfur."



Halli mælti: "Herra," segir hann, "Þjóðólfur má því um slíka
hluti djarflega ræða því að öngan veit eg síns
föður jafngreyplega hefnt hafa."



"Hvað er að merkjum of það," segir konungur, "að hann hafi
það miklu framar gert en aðrir menn?"



"Það þá herra," svarar Halli, "að Þjóðólfur hefir etið
föðurbana sinn."



Konungur mælti: "Hví megi svo vera?"



"Því herra," svarar Halli, "að Arnór faðir hans bjó fyr
norðan land á Íslandi. Hann var maður félítill og ónógur sér
of það er hann þyrfti nema það að hann átti mart barna og
hafði það hyski hans að mestum hluta er héraðsmenn fengu
honum. Og á einu hausti áttu héraðsmenn fund að of fátækja
menn, hver tillög vera skyldu við þá, og var eigi annar fyrr
til nefndur en faðir Þjóðólfs og varð einn maður, herra, svo
stórlátur að hann gaf kálf sumargamlan. Fór hann síðan eftir
kálfinum og þótti það mest nauðsyn að sækja þangað fyrst til
beinann er mestur var. Fer hann heim síðan og leiðir eftir
sér kálfinn og hefir á honum taug langa og rammlega og var
eygð taugin sem snara og hafði hann þeim endanum smeygt á
háls sér en hélt síðan höndunum of taugina. Og er hann kom að
garðinum þá var hann utan eigi allhár en fyrir innan garðinn
var gröftur djúpur og er hann steig á garðinn og lætur sígast
af inn þá verður hærra en hann mundi vara og tóku eigi niður
fæturnir hans en kálfurinn braust öðrum megin garðsins. Þá
hefir hann eigi gáð að smeygja tauginni af hálsi sér og fékk
hann af því bana. Og er börnin sáu það hljópu þau til og
drógu heim kálfinn og ætla eg það herra," segir Halli, "að
Þjóðólfur snæddi þann kálf að sínum hluta."



Konungur mælti: "Það mundi jafnt hæfilega."



Þjóðólfur hleypur nú upp og vildi höggva til Halla og varð
hann stöðvaður.



Þá mælti konungur: "Eg skal sætta ykkur að hvorigum ykkrum
skal hlýða að gera öðrum mein og þú vaktir þetta mál
Þjóðólfur fyrri og var þér það óskylt."



Er þetta nú kyrrt og færir Halli kvæðið. Er það gott og vel
ort og er Haraldur konungur vel til Halla.



Það er sagt að von er til konungs Einars flugu og var þá
vingan þeirra góð þó að það léki nakkvað á ýmsu. Hann hafði
þá finnför af konungs hendi. Og áður en hann kæmi ræddi
hirðmaður einn um svo að Halli heyrði að Einar væri mikill
höfðingi og ójafnaðarmaður og hann bætti öngum sína frændur
þó að hann dræpi.



Þá segir Halli: "Meiri von að hann bæti mér minn frænda ef eg
kref."



Hann svaraði hirðmaður, kvað hann eigi bæta mundu og lét hann
engan mann bættan hafa. Þar til þreyttu þeir þetta mál er
þeir veðjuðu of. Lagði hirðmaður við gullhring en Halli höfuð
sitt.



Og nú kom Einar til konungs og setur konungur hann hið næsta
sér og var það eftir hinn átta dag er Einar kom. Og eitt
kveld er þeir drukku eftir borð spurði konungur hversu til
hefði tekist of finnferðina.



Hann svarar: "Næstum herra er vér vorum norður þá hittum vér
Íslandsfar eitt og bárum vér á hendur þeim að þeir mundu kaup
hafa átt við Finna fyrir vort leyfi fram. Og er þeir vildu
verja málið fannst á orðum þeirra að þeir mundu eigi skírir
til lykta og lögðum að þeim síðan en þeir vörðu sig og eigi
léttum vér fyrr en þeir urðu sóttir. Einn maður var sá þar er
miklu varðist best og seint mundi sótt verða ef slíkir væru
margir."



Þá gekk Halli til rúmsins og var hljóður og spyr hirðmaður
hvað honum væri að ógleði.



Hann lét sök til þess vera: "Eg hefi spurt dráp frænda míns
er þeir Einar fluga hafa drepið. Kann vera að nú gefi til að
leita eftir bótunum við hann."



Hirðmaðurinn segir: "Það vildi eg að þú ræddir ekki um og sé
kyrr veðjun þessi."



Halli lést eftir mundu leita.



"Þitt ráð er það," segir hirðmaðurinn.



Og of morguninn gekk Halli fyrir Einar og mælti: "Þér sögðuð
tíðindi hið fyrra kveldið þau er mig tók enda í aftaki frænda
míns. Vildi eg vita ef þér vilduð nakkverju bæta."



Einar svarar: "Hefir þú eigi heyrt það að eg bæti engan mann?
Sé eg þess ekki á þér að þú þiggir bætur af oss heldur en
aðrir menn og þykir öðrum þegar skylt er einum er bætt."



Halli mælti: "Þér megið verja til eigi meira en yður sé eigi
skaði í en mér þó huggan við að taka."



Einar bað hann braut fara og ræða það ekki lengur og svo var
að hann gekk til rúms síns. Spyr hirðmaðurinn ef hann vildi
nakkverju bæta honum. Halli kvað eigi það vera.



Hirðmaðurinn mælti: "Það vissi eg áður," segir hann. "Látum
lausa enn veðjunina og vek eigi til oftar."



Halli svarar: "Til skal enn vekja öðru sinni."



Og of morguninn hittir Halli Einar og ræðir þá enn sama mál.



"Vil eg enn vita," segir hann, "ef þér viljið bæta mér frænda
minn."



Einar svarar: "Seinþreyttur ertu og ef þú dregst eigi braut
muntu vera drepinn."



Hann gekk til rúmsins.



Hirðmaður mælti: "Hversu gekk nú eftirleitun við Einar?"



Halli svarar að nú var heitun fyrir bætur.



"Þess varði mig jafnt," segir hann, "og vil eg enn gefa þér
upp veðjunina og vekir þú eigi til oftar."



Þá svarar Halli: "Vel fer þér," segir hann, "en ræða skal
málið hið þriðja sinn. Þá þykir mér reynt til fulls."



Og nú gekk Halli fyrir konung og kvaddi hann.



"Heill herra," segir hann.



"Velkominn Halli," segir konungur, "eða hvað viltu?"



"Herra," segir Halli, "eg vil segja þér draum minn. Þú ert
maður draumspakur. Eg þóttist vera allur annar maður en eg
em. Eg þóttist vera Þorleifur skáld en Einar fluga þótti mér
vera Hákon jarl og þóttist eg níða hann og mundi eg sumt í er
eg vaknaði" og þokar þá frá hásætinu og umlar við fyrir munni
sér svo að eigi nam orðaskilin en allir heyrðu að hann
muðlaði nakkvað.



Þá mælti konungur: "Ger svo vel Einar sem eg bið, bæt honum
nakkverju. Hann svífst einkis og er þér verri einn kviðlingur
ef eftir verður munaðar, sem hætt er ef upp kemur að eigi
falli niður, slíkur maður sem þú ert því að við megum sjá
hverja setning hann hefir á. Og er þetta engi draumur er hann
sagði því að þetta mun hann enda og eru dæmi til þess að
níðið hefir bitið enn ríkari menn en þú ert og mun það aldrei
niður falla meðan Norðurlönd eru byggð. Ger þetta nú fyrir
mínar sakar."



Einar svarar: "Þér skuluð ráða herra," segir hann, "taki hann
af féhirði mínum þrjár merkur silfurs. Hann mun greiða
honum."



Þá mælti Halli: "Haf þökk fyrir og gest mér nú vel að,"
hittir féhirðinn og segir honum.



Hann lét að þar væru fjórar merkur í sjóði saman.



"Þrjár skal eg hafa þó," segir Halli.



Og nú vega þeir Halli þrjár merkur jafnt svo að ekki er um
fram því að hann vill svo. Og eftir það gengur Halli fyrir
Einar og segir honum að hann hefir þá féið.



"Hvort hafðir þú það sem í sjóðnum var?" segir Einar.



"Eigi var það," segir Halli, "annan veg muntu verða að fá mér
banasökina en eg gerist þjófur á fé þínu og sá eg bragð þitt
þetta og munum við nú skilja."



En það hafði Einar hugað honum jafnt sem hann sagði og þó var
nú kyrrt. Gengur Halli nú til rúmsins.



Þá mælti hirðmaður: "Nú áttu veðféið."



"Sjálfur skaltu hafa fé þitt," svarar Halli. "Þú hafðir
drenglega af við mig um málið og ekki gekk mér annað til
þrætunnar við þig fyrir öndurðu en reyna hvort eg næði fénu
af Einari eða eigi og aldrei átti eg skylt við mann þenna svo
að eg viti og öngan þann er Einar drap."



Nú fer Einar brott síðan frá hirðinni.



Eftir það bað Halli leyfis að konungur leyfði honum að fara
til Danmerkur suður of sumarið. Konungur lést mundu leyfa
honum ef hann kæmi brátt aftur og bað hann fara varlega fyrir
þær sakir að hann lést vita að Einar fluga mundi illan hug á
honum hafa ef þeir fyndust, lét að fás staðar hefði þannig
til skipst sem með þeim að Einar bætti fé fyrir víg og kvað
hann illa mundu við una.



Nú fer Halli of sumarið til Danmerkur og er þar með einum
ríkjum manni. Og eitt sinn er þing er fjölmennt þá fer Halli
til þingsins með höfðingjanum. Og er menn mæltu þar málum
sínum þá varð þar háreysti mikið.



Þá mælti höfðinginn: "Sá væri ráðleitinn maður er ráð hitti
til að gera svo að lýður þessi þagnaði allur."



Þá svarar Halli: "Eg fæ það gert að allir menn munu hér
þagna."



"Nei," segir höfðinginn, "það mun vera eigi."



Og loksins setja þeir veð. Leggur höfðinginn við gullhring en
Halli höfuð sitt.



Og annan dag er þeir koma á þingið þá er þar eigi minni gnýr
en fyrr og hlamm og óp og hvers kyns skall og kliður.



Og þá er minnst varir sprettur hann Halli upp og mælti hátt:
"Hlýði allir menn. Mér er mikil máls þörf. Eg skal kæra of
óðindælu mína sjálfs. Mér er horfin hein og heinarsufl, nál
og skreppa og allt skjóðuskrúð það er betra er að hafa en
missa."



Síðan varð hljótt og tvist því að sumir ætla að maðurinn sé
ær orðinn og sumir hugðu að hann mundi þá tala erindið og var
forvitni á að heyra. Þóttu þannig orðatiltök hans í fyrstunni
nakkvað breytileg. En Halli sest nú niður, þykist nú á leið
því hafa komið er hann hafði mælt að menn gáfu hljóð.



Nú fara menn af þinginu og fær Halli veðféið og kemst á brott
á laun.



Síðan fór hann til Englands og ætlaði þaðan til Noregs. Og er
þeir voru búnir er til Noregs ætluðu fer Halli á fund
konungs og lést ort hafa um hann kvæði. En þar var sá maður
fyrir með konungi er Rauður hét og var skáld.



Og þá er lokið var kvæðinu spyr konungur Rauð hvernig væri
kveðið en hann kvað vel vera. Þá bauð konungur Halla með sér
að vera og næmu menn kvæðið.



"Eigi má svo vera herra," segir Halli. "Eg hefi búið ferð
mína í brott og má eg nú öngva dvöl hér eiga."



Þá mælti konungur: "Eftir því munu þá verða hallkvæmleg laun
kvæðisins sem vér njótum þess. Sestu nú niður og mun eg láta
hella silfri í höfuð þér og haf það síðan er í hárinu loðir."



Hann lést þá verða að ganga á braut líttað fyrir nauðsynja
sakir og svo gerir hann og fékk sér tjöru og bar í höfuð sér
og skrýfði hárinu sem mest og gekk þegar aftur í stofuna og
settist niður og kvað sér títt of ferðina. Konungur lét þá
það gera er hann hét að hellt var silfrinu í höfuð honum og
loddi þar nú í góður fengur fjár. En kvæði þetta var
endilausa ein og kvað hann það fram af munni sér. Fór Halli
síðan til skips.



En þá höfðu þar ráðist til suðurmenn margir með þungavarnað
og fékk hann nú eigi farið en þó létu stýrimenn sem þeir
vildu gjarna við honum taka ef hann sæi nokkur efni í að koma
suðurmönnum í brott og var stýrimaður vel til Halla.



Og nótt eina lét Halli illa í svefni og var hann vakiður og
spurðu þeir hvað hann dreymdi. Hann svarar og kvað sér þess
meiri von þykja að þeim færist þungt, segir að honum þótti
maður koma að sér ógurlegur og kveða þetta:



Hröng er þars hávan þöngul

helt um, síð er fjör seldag.

Sýn er að eg sitk að Ránar.

Sumir ró í búð með humrum.

Ljóst er lýsu að gista.

Lönd á eg út fyr ströndu.

Því sit eg bleikr í brúki.

Blakir mér þari of hnakka,

blakir mér þari of hnakka.


Eigi þótti vísan allóþessleg að þeim mundi óslétt farast og
varð ógurlegt fyrir augum að koma í þann háska og báru margir
fé sitt af skipinu og réðust brott í frá.



En Halli gengur á skip þetta og ferst þeim besta. Komu þeir
við Noreg og fer Halli síðan á fund konungs og var hann nú
þar of hríð með konungi.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.