Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Nj ch. 145

Njáls saga 145 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Nj ch. 145)

Anonymous íslendingasögurNjáls saga
144145146

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Snorri goði spyr nú hvar komið er málunum. Tekur hann þá að
fylkja liði sínu fyrir neðan Almannagjá millum og Hlaðbúðar
og sagði fyrir áður sínum mönnum hvað þeir skyldu að gera.



Sendimaðurinn kemur nú til Þórhalls Ásgrímssonar og segir
honum hvar þá var komið að þeir Mörður Valgarðsson mundu
sekir gervir allir en eytt öllu vígsmálinu. En er hann heyrði
þetta brá honum svo við að hann mátti eigi orði upp koma. Hann
spratt þá upp úr rúminu og þreif tveim höndum spjótið
Skarphéðinsnaut og rak í gegnum fótinn á sér. Var þar á
holdið og kveisunaglinn á spjótinu því að hann skar út úr
fætinum en blóðfossinn fellur og vogföllin svo að lækur féll
eftir gólfinu. Hann gekk nú út úr búðinni óhaltur og fór svo
hart að sendimaðurinn fékk ekki fylgt honum. Fer hann nú þar
til er hann kemur til fimmtardómsins. Þar mætti hann Grími
hinum rauða frænda Flosa og jafnskjótt sem þeir fundust lagði
Þórhallur til hans spjótinu og kom í skjöldinn og klofnaði
hann í sundur en spjótið hljóp í gegnum hann svo að oddurinn
kom út á milli herðanna. Þórhallur kastaði honum dauðum af
spjótinu.



Kári Sölmundarson gat séð þetta og mælti við Ásgrím: "Hér er
kominn Þórhallur son þinn og hefir vegið víg nú þegar og er
þetta skömm mikil ef hann einn skal hug til hafa að hefna
brennunnar."



"Það skal og eigi vera," segir Ásgrímur, "og snúum vér nú að
þeim."



Var þá kall mikið um allan herinn og síðan var æpt heróp.



Þeir Flosi snerust þá við og eggjuðust nú fast hvorirtveggju.



Kári Sölmundarson sneri nú þar að sem fyrir var Árni Kolsson
og Hallbjörn hinn sterki. Og þegar er Hallbjörn sá Kára hjó
hann til hans og stefndi á fótinn en Kári hljóp í loft upp og
missti Hallbjörn hans. Kári sneri að Árna Kolssyni og hjó til
hans og kom á öxlina og tók í sundur axlarbeinið og viðbeinað
og hljóp allt ofan í brjóstið. Féll Árni þegar dauður til
jarðar. Síðan hjó hann til Hallbjarnar og kom í skjöldinn og
gekk í gegnum skjöldinn og svo ofan af honum þumaltána.
Hólmsteinn skaut spjóti til Kára en hann tók á lofti spjótið
og sendi aftur og verð það manns bani í liði Flosa.



Þorgeir skorargeir kom að þar er fyrir var Hallbjörn hinn
sterki. Þorgeir lagði til hans svo fast með annarri hendi að
Hallbjörn féll fyrir og komst nauðulega á fætur og sneri
þegar undan. Þá mætti Þorgeir Þorvaldi Þrum-Ketilssyni og hjó
þegar til hans með öxinni Rimmugýgi er átt hafði Skarphéðinn.
Þorvaldur kom fyrir sig skildinum. Þorgeir hjó í skjöldinn og
klauf allan en hyrnan sú hin fremri rann í brjóstið og gekk á
hol og féll Þorvaldur þegar og var dauður.



Nú er að segja frá því að Ásgrímur Elliða-Grímsson og
Þórhallur son hans, Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti sóttu
að þar sem fyrir var Flosi og Sigfússynir og aðrir
brennumenn. Var þar allharður bardagi og laukst með því að
þeir Ásgrímur gengu að svo fast að þeir Flosi hrukku undan.



Guðmundur hinn ríki og Mörður Valgarðsson og Kári
Sölmundarson og Þorgeir skorargeir sóttu þar að er fyrir voru
Öxfirðingar og Austfirðingar og Reykdælir. Var þar allharður
bardagi.



Kári Sölmundarson kom að þar er fyrir var Bjarni
Brodd-Helgason. Kári þreif upp spjót og lagði til hans og
kom í skjöldinn. Bjarni skaut hjá sér skildinum ella hefði
spjótið staðið í gegnum hann. Hann hjó þá til Kára og stefndi
á fótinn. Kári kippir fætinum og snerist undan á hæli og
missti Bjarni hans. Kári hjó þegar til hans. Þá hljóp maður
fram og skaut skildi fyrir Bjarna. Kári klauf ofan allan
skjöldinn og nam blóðrefillinn lærið og reist ofan allan
fótinn. Sá maður féll þegar og varð aldrei örkumlalaus meðan
hann lifði. Kári þreif þá tveim höndum spjótið og snerist að
Bjarna og lagði til hans. Hann sá engan sinn kost annan en
hann lét fallast þvers undan laginu. En þegar er Bjarni kemst
á fætur hrökk hann undan. Þorgeir skorargeir sótti þá að þar er
fyrir var Hólmsteinn Spak-Bersason og Þorkell Geitisson. Lauk
svo með þeim að þeir Hólmsteinn hrukku undan. Varð þá óp
mikið að þeim af mönnum Guðmundar ríka.



Þorvarður Tjörvason frá Ljósavatni fékk sár mikið. Hann var
skotinn í handlegg og ætluðu menn að skotið hefði Halldór son
Guðmundar hins ríka og hafði hann þetta sár bótalaust alla
ævi síðan.



Var þar nú þröng mikil. En þó að hér sé sagt frá nokkurum
atburðum þá eru hinir þó miklu fleiri er menn hafa engar
frásagnir af.



Flosi hafði það sagt sínum mönnum að þeir skyldu leita til
vígis í Almannagjá ef þeir yrðu forviða því að þar mátti
einum megum að sækja.



En flokkur sá er Síðu-Hallur hafði og Ljótur son hans höfðu
hörfað frá í braut fyrir atgöngu þeirra feðga Ásgríms og
Þórhalls. Sneru þeir ofan fyrir austan Öxará.



Hallur mælti þá: "Hér slær í allmikil óefni er allur
þingheimur berst. Vildi eg Ljótur frændi að við bæðum okkur
liðs að skilja menn þó að okkur sé það til orðs lagið af
nokkurum mönnum. Skalt þú bíða við brúarsporðinn en eg mun
ganga í búðir og biðja mér liðs.



Ljótur mælti: "Ef eg sé að þeir Flosi þurfa liðs af mönnum
vorum þá mun eg þegar hlaupa til með þeim."



"Það munt þú gera sem þér líkar," segir Hallur, "en biðja vil
eg þig að þú bíðir mín."



Nú brestur flótti í liði Flosa og flýja þeir allir vestur um
Öxará en þeir Ásgrímur og Gissur hvíti gengu eftir og allur
herinn. Þeir Flosi hörfuðu neðan milli Virkisbúðar og
Hlaðbúðar. Snorri goði hafði þar fylkt fyrir liði sínu svo
þykkt að þeim gekk eigi þar að fara.



Snorri goði kallað þá á Flosa: "Hví farið þér svo geystir eða
hverjir elta yður?"



Flosi svarar: "Ekki spyrð þú þessa af því er eigi vitir þú
það áður. En hvort veldur þú því er vér megum eigi sækja til
vígis í Almannagjá?"



"Eigi vel eg því," segir Snorri, "en hitt er satt að eg veit
hverjir valda og mun eg segja þér ef þú vilt að þeir valda
því að Þorvaldur kroppinskeggi og Kolur."



Þeir voru þá báðir dauðir og höfðu verið hin mestu illmenni í
liði Flosa.



Í annan stað mælti Snorri til sinna manna: "Gerið þér nú
hvorttveggja að þér höggvið og leggið til þeirra og keyrið þá
í braut héðan. Munu þeir þá skamma stund hér við haldast er
hinir sækja að neðan. Skuluð þér þá ekki eftir ganga og láta
þá sjálfa á sjást."



Skafta Þóroddssyni var sagt að Þorsteinn holmunnur son hans
var í bardaga með Guðmundi hinum ríka mági sínum. Og þegar
Skafti vissi þetta gekk hann til búðar Snorra goða og ætlaði
að biðja Snorra að hann gengi til að skilja þá með honum. En
er hann var eigi allt kominn að búðardyrunum Snorra þá var
bardaginn sem óðastur. Þeir Ásgrímur og hans menn gengu þar
þá að neðan.



Þá mælti Þórhallur við Ásgrím föður sinn: "Þar er hann Skafti
Þóroddsson nú faðir."



Ásgrímur mælti: "Sé eg það frændi."



Skaut hann þá spjóti til Skafta og kom fyrir neðan það er kálfi
var digrastur og svo í gengum báða fæturna. Skafti féll við
skotið og fékk eigi upp staðið. Fengu þeir það eina ráðs
tekið er hjá voru að þeir drógu Skafta inn í búð sverðskriða
nokkurs flatan.



Þeir Ásgrímur gengu þá að svo fast að Flosi og hans menn hrukku
undan suður með ánni til Möðruvellingabúðar. Þar var maður
úti hjá búð nokkurri er Sölvi hét. Hann sauð í katli miklum
og hafði þá upp fært úr katlinum en vellan var sem áköfust.
Sölvi gat að líta hvar þeir flýðu Austfirðingarnir og voru þá
komnir mjög svo þar gegnt.



Hann mælti þá: "Hvort munu þessir allir ragir
Austfirðingarnir er hér flýja? Og jafnvel rennur hann Þorkell
Geitisson og er allmjög logið frá honum er margir hafa það
sagt að hann væri hugur einn en nú rennur engi harðara en
hann."



Hallbjörn hinn sterki var þar nær staddur og mælti: "Eigi
skalt þú það eiga til að segja að vér séum allir ragir" og
þreif til hans og brá honum á loft og rak hann að höfði í
soðketilinn. Dó Sölvi þegar. Var þá og sótt að Hallbirni og
varð hann þá undan að leita.



Flosi skaut spjóti til Brúna Hafliðasonar og kom á hann
miðjan og varð það hans bani. Hann var í liði Guðmundar hins
ríka. Þorsteinn Hlennason tók spjótið úr sárinu og skaut
aftur að Flosa og kom á fótinn og fékk hann sár mikið og féll
við. Hann stóð upp þegar. Hörfuðu þeir þá til
Vatnsfirðingabúðar.



Þeir Ljótur og Hallur gengu þá austan yfir á með flokk sinn
allan. Og þá er þeir komu á hraunið var skotið spjóti úr liði
Guðmundar hins ríka og kom það á Ljót miðjan. Féll hann þegar
dauður niður og varð aldrei uppvíst hver þetta víg hafði
vegið.



Þeir Flosi hörfuðu nú upp um Vatnsfirðingabúð.



Þorgeir skorargeir mælti þá við Kára Sölmundarson: "Þar er
hann nú Eyjólfur Bölverksson ef þú vilt launa honum
hringinn."



"Eg ætla það nú eigi fjarri," segir Kári og þreif spjót af
manni og skaut til Eyjólfs og kom það á hann miðjan og gekk
í gengum hann. Féll Eyjólfur þegar dauður til jarðar.



Þá varð hvíld nokkur á um bardagann. Snorri goði kom þá að
með flokk sinn. Var þar þá Skafti í liði með honum og hljópu
þegar í milli þeirra. Náðu þeir þá eigi að berjast. Hallur
gekk þá í lið með þeim og vildi skilja þá. Voru þá sett grið
og skyldu þau haldast um þingið. Var þá búið um lík og færð
til kirkju en bundin sár þeirra manna er særðir voru.



Annan dag eftir gengu menn til Lögbergs. Hallur af Síðu stóð
upp og kvaddi sér hljóðs og fékkst þegar.



Hann mælti svo: "Hér hafa orðið harðir atburðir í mannaláti
og málasóknum. Mun eg enn sýna það er eg er lítilmenni. Eg
vil nú biðja Ásgrím og þá menn aðra er fyrir málum þessum eru
að þeir unni oss jafnsættis."



Fór hann þar um mörgum fögrum orðum.



Kári Sölmundarson mælti: "Þó að allir sættist aðrir á sín mál þá
skal eg eigi sættast á mín mál því að þér munuð vilja virða
víg þessi í móti brennunni en vér þolum það eigi."



Slíkt hið sama mælti Þorgeir skorargeir.



Þá stóð upp Skafti Þóroddsson og mælti: "Betra hefði þér
verið Kári að renna eigi frá mágum þínum og skerast nú eigi
úr sáttum við góða menn."



Kári kvað þá vísur þrjár:



Hvað skaltu, runnr, þótt rynnum,

randlinns, of sök minni

hagl dreif skarpt á Sköglar

skýjum, oss að frýja,

hinn er hélt, þá er hjalta

hátungur mjög sungu,

brynju meiðr til búðar

blauðr með skeggið rauða.



Varð, þá er víga Njörðu

vilja þraut að skilja,

lítt gekk skáld fyrir skjöldu,

Skafta margt að hafti,

er matsjóðar Móða

málmrógs flatan drógu,

slíkt er allt af æðru,

inn í búð að trúðar.



Höfðu Gríms að gamni

græðis elgs og Helga,

rétt unnut þá runnar,

rennendr Níals brennu.

Nú mun börgs í björgum

baugs hnykkjöndum þykkja

lyngs að loknu þingi

ljóts annan veg þjóta.



Þá varð hlátur mikill.



Snorri goði brosti að og kvað þetta fyrir munni sér svo þó að
margir heyrðu:



Vel kann Skafti skilja,

skaut Ásgrímr spjóti.

Villat Hólmsteinn flýja,

vegr Þorketill nauðigr.


Hlógu menn nú allmjög.



Hallur af Síðu mælti: "Allir menn vita hvern harm eg hefi
beðið um lát Ljóts sonar míns. Munu það margir ætla að hann
muni dýrstur ger af þeim mönnum er hér hafa látist. En eg vil
það vinna til sátta manna að leggja son minn ógildan og ganga
þó til að veita þeim bæði tryggðir og grið er mínir
mótstöðumenn eru. Bið eg þig Snorri goði og aðra hina bestu
menn að þér komið því til leiðar að sættir verði með oss."



Síðan settist Hallur niður og var ger að máli hans mikill
rómur og góður og lofuðu allir mjög hans góðgirnd.



Snorri goði stóð þá upp og talaði langt erindi og snjallt og
bað Ásgrím og Gissur og aðra þá menn er fyrir málum voru
þaðan að, að þeir skyldu sættast.



Ásgrímur mælti: "Það ætlaði eg þá er Flosi reið heim að mér
að eg mundi við hann aldrei sættast en nú vil eg, Snorri
goði, sættast fyrir orð þín og annarra vina vorra."



Slíkt hið sama mæltu þeir Þorleifur krákur og Þorgrímur hinn
mikli að þeir mundu sættast og fýstu í öllu Þorgeir skorargeir
bróður sinn að sættast en hann skarst undan og kvaðst aldrei
við Kára skyldu skiljast.



Þá mælti Gissur hvíti: "Nú má Flosi sjá sinn kost hvort hann
vill sættast til þess að sumir séu utan sætta."



Flosi kveðst sættast vilja "og þykir mér því betur," segir
hann, "er eg hefi færri góða menn í móti mér."



Guðmundur hinn ríki mælti: "Það vil eg bjóða að handsala
fyrir víg þau er hér hafa orðið á þinginu að mínum hluta til
þess að ekki falli niður brennumálið."



Slíkt hið sama mæltu þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason,
Ásgrímur Elliða-Grímsson og Mörður Valgarðsson. Við þetta
gekk saman sættin.



Var þá handsalað í tólf manna dóm og var Snorri goði fyrir
gerðinni og aðrir góðir menn með honum. Var þá jafnað saman
vígum en bættir þeir menn sem umfram voru. Þeir gerðu og um
brennumálin. Skyldi Njál bæta þrennum manngjöldum en Bergþóru
tvennum. Víg Skarphéðins skyldi jafnt og víg Höskulds
Hvítanesgoða. Tvennum manngjöldum skyldi bæta hvorn þeirra
Gríms og Helga. Þá skyldu ein manngjöld koma fyrir hvern hinna er
inni höfðu brunnið. Á vígið Þórðar Kárasonar var ekki sæst.
Flosi var og ger utan og allir brennumenn og skyldu eigi fara
samsumars nema þeir vildu. En ef þeir færu eigi utan um það er
þrír vetur væru liðnir þá skyldi hann og allir brennumenn
vera sekir skógarmenn. Og var svo mælt að lýsa skyldi sekt
þeirra á haustþingi eða vorþingi hvort sem heldur vildi. Flosi
skyldi vera þó utan þrjá vetur. Gunnar Lambason og Grani
Gunnarsson, Glúmur Hildisson, Kolur Þorsteinsson, þeir skyldu
aldrei útkvæmt eiga. Þá var Flosi spurður ef hann vildi láta
dæma fyrir sár sitt en hann kveðst ekki vilja taka fémútur á
sér. Eyjólfur Bölverksson var lagður ógildur fyrir ójöfnuð
sinn og rangindi. Var þessi sætt nú handsöluð og efndist öll.



Þeir Ásgrímur gáfu Snorra goða góðar gjafar. Hafði hann
virðing mikla af málum þessum.



Skafta var engu bættur áverkinn.



Þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason og Ásgrímur
Elliða-Grímsson buðu heim Guðmundi hinum ríka. Hann þá
heimboðin og gaf sinn gullhring hver þeirra honum. Ríður
Guðmundur nú norður heim og hafði allra manna lof fyrir það
hversu hann kom sér við í þessum málum.



Þorgeir skorargeir bauð Kára með sér að fara en þó riðu þeir
fyrst með Guðmundi allt norður á fjall. Kári gaf Guðmundi
gullsylgju en Þorgeir silfurbelti og var hvorttveggja hinn
besti gripur. Skildu þeir með hinni mestu vináttu. Reið
Guðmundur þá heim og er hann úr sögu þessi. Þeir Kári riðu
suður af fjallinu og ofan í Hreppa og svo til Þjórsár.



Flosi og brennumenn allir með honum riðu austur til
Fljótshlíðar. Lét hann þá Sigfússonu skipa til búa sinna. Þá
frétti Flosi að Þorgeir og Kári höfðu riðið norður með
Guðmundi hinum ríka og ætluðu menn nú að þeir mundu vera
fyrir norðan land. Þá beiddu Sigfússynir að fara austur undir
Eyjafjöll að fjárheimtum sínum því að þeir áttu fjárheimtur
austur að Höfðabrekku. Flosi leyfði þeim það og bað þá þó
vera vara um sig og vera sem skemmst. Flosi reið þá upp um
Goðaland og svo á fjall og fyrir norðan Eyjafjallajökul og
létti eigi fyrr en hann kom heim austur til Svínafells.



Nú verður að segja frá því að Hallur af Síðu hafði lagið
ógildan son sinn og vann það til sætta. Þá bætti honum allur
þingheimurinn og varð það eigi minna fé en átta hundruð silfurs
en það voru fern manngjöld. En allir þeir aðrir er með Flosa
höfðu verið fengu engar bætur fyrir vansa sinn og undu við
hið versta.



Sigfússynir dvöldust heima tvær nætur en hinn þriðja dag riðu
þeir austur til Raufarfells og voru þar um nóttina. Þeir voru
saman fimmtán og uggðu alls ekki að sér. Þeir riðu þaðan síð
og ætluðu til Höfðabrekku um kveldið. Þeir áðu í Kerlingardal
og tóku þar á sig svefn mikinn.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.