Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Nj ch. 124

Njáls saga 124 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Nj ch. 124)

Anonymous íslendingasögurNjáls saga
123124125

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Flosi stefndi öllum sínum mönnum upp í Almannagjá og gekk
þangað sjálfur. Þá voru þar komnir allir hans menn og voru það
tíu tigir manna.



Flosi mælti til Sigfússona: "Hversu veiti eg yður þess að
málum að yður sé skapfelldlegast?"



Gunnar Lambason mælti: "Ekki líkar oss fyrr en þeir bræður
eru allir drepnir, Njálssynir."



Flosi mælti: "Því vil eg heita Sigfússonum að skiljast eigi
fyrr við þetta mál en aðrir hvorir hníga fyrir öðrum. Vil eg
og það vita hvort nokkur er sá hér að oss vilji eigi veita að þessu
máli."



En allir kváðust þeim veita vilja.



Flosi mælti: "Gangi nú allir til mín og sverji eiða að engi
skerist úr þessu máli."



Gengu þá allir til Flosa og sóru honum eiða.



Flosi mælti: "Vér skulum og allir hafa handtak að því að sá
skal hver hafa fyrirgert fé og fjörvi er úr þessu máli gengur
fyrr en yfir lýkur.



Þessir voru höfðingjar með Flosa: Kolur son Þorsteins
breiðmaga, bróðurson Halls af Síðu, Hróaldur Össurarson frá
Breiðá, Össur Önundarson töskubaks, Þorsteinn hinn fagri
Geirleifsson, Glúmur Hildisson hins gamla, Móðólfur Ketilsson,
Þórir son Þórðar illuga úr Mörtungu, frændur Flosa Kolbeinn og
Egill, Ketill Sigfússon og Mörður bróðir hans, Þorkell og
Lambi, Grani Gunnarsson, Gunnar Lambason og Sigurður bróðir
hans, Ingjaldur frá Keldum, Hróar Hámundarson.



Flosi mælti til Sigfússona: "Takið þér yður nú höfðingja þann
er yður þykir best til fallinn því að einhver mun fyrir þurfa
að vera málinu."



Ketill úr Mörk svaraði: "Ef undir oss bræður skal koma kjörið
þá munum vér það skjótt kjósa að þú sért fyrir. Heldur þar
margt til þess. Þú ert maður ættstór og höfðingi mikill,
harðdrægur og vitur. Virðum vér og svo að þú setjist fyrir vora
nauðsyn í málið."



Flosi mælti: "Það er líkast að eg játist undir þetta sem bæn
yður stendur til. Mun eg nú og ákveða hverja aðferð vér
skulum hafa. Og er það mitt ráð að hver maður ríði heim af
þingi og sjái um bú sitt í sumar meðan töður manna eru undir.
Eg mun og heim ríða og vera heima í sumar. En drottinsdag,
þann er átta vikur eru til vetrar, þá mun eg láta syngja mér
messu heima og ríða síðan vestur yfir Lómagnúpssand. Hver vor
skal hafa tvo hesta. Ekki mun eg lið auka úr því sem nú
hefir til eiða gengið því að vér höfum það ærið margt ef oss
kemur það vel að haldi. Eg mun ríða drottinsdaginn og svo
nóttina með. En annan dag vikunnar mun eg kominn á
Þríhyrningshálsa fyrir miðjan aftan. Skuluð þér þá þar allir
komnir er eiðsvarar eruð við þetta mál. En ef nokkur er sá þá
eigi þar kominn er í mál þessi hefir gengið þá skal engu fyrir týna
nema lífinu ef vér megum ráða."



Ketill mælti: "Hversu má það saman fara að þú ríðir
drottinsdag heiman en komir annan dag vikunnar á
Þríhyrningshálsa?"



Flosi mælti: "Eg mun ríða upp úr Skaftártungu og fyrir norðan
Eyjafjallajökul og ofan í Goðaland og mun þetta endast ef eg
ríð hvatlega. Mun eg nú og segja yður alla mína fyrirætlan að þá
er vér komum þar saman skulum vér ríða til Bergþórshvols með
öllu liðinu og sækja Njálssonu með eldi og járni og ganga
eigi fyrr frá en þeir eru allir dauðir. Skuluð þér þessi
ráðagerð leyna því að líf vort allra liggur við. Munum vér nú
láta taka hesta vora og ríða heim.



Gengu þeir þá allir til búða sinna.



Síðan lét Flosi söðla hesta sína og biðu engra manna og ríða
síðan heim. Flosi vildi eigi finna Hall mág sinn því að hann
þóttist vita að Hallur mundi letja allra stórvirkja.



Njáll reið heim af þingi og synir hans og voru þeir heima
allir um sumarið. Njáll spurði Kára mág sinn hvort hann mundi
nokkuð ríða austur til Dyrhólma til bús síns.



Kári svaraði: "Ekki skal eg austur ríða því að eitt skal
ganga yfir mig og sonu þína."



Njáll þakkaði honum og kvað slíks að honum von. Þar var
jafnan nær þrem tigum vígra karla með húskörlum.



Það var einu hverju sinni að Hróðný Höskuldsdóttir, móðir
Höskulds Njálssonar, kom til Keldna. Ingjaldur bróðir hennar
fagnaði henni vel. Hún tók ekki kveðju hans en bað hann þó
ganga út með sér. Ingjaldur gerði svo að hann gekk út með
henni og gengu úr garði bæði saman. Síðan þreif hún til hans
og settust þau niður bæði.



Hróðný mælti: "Hvort er það satt að þú hefir svarið eið að
fara að Njáli og drepa hann og sonu hans?"



Hann svaraði: "Satt er það."



"Allmikill níðingur ert þú," segir hún, "þar sem Njáll hefir
þrisvar leyst þig úr skógi."



"Svo er nú þó komið," segir Ingjaldur, "að líf mitt liggur við
ef eg geri eigi þetta."



"Eigi mun það," segir hún, "lifa munt þú allt að einu og
heita góður maður ef þú svíkur eigi þann er þú átt bestur að
vera."



Hún tók þá línhúfu úr pússi sínu alblóðga og raufótta og
mælti: "Þessa húfu hafði Höskuldur Njálsson og systurson þinn
á höfði sér þá er þeir vógu hann. Þykir mér þér því verr fara
að veita þeim er þaðan standa að."



Ingjaldur svarar: "Svo mun nú og fara að eg mun eigi vera í
móti Njáli hvað sem á bak kemur. En þó veit eg að þeir munu að
mér snúa vandræðum."



Hróðný mælti: "Þá mátt þú nú mikið lið veita Njáli og sonum
hans ef þú segir honum þessa ráðagerð alla."



"Það mun eg eigi gera," segir Ingjaldur, "því að þá er eg
hvers manns níðingur ef eg segi það er þeir trúðu mér
til. En það er karlmannlegt bragð að skiljast við þetta mál
þar sem eg veit vísrar hefndar von. En seg það Njáli og sonum
hans að þeir séu varir um sig þetta sumar allt því að það er
þeim heilræði og hafi margt manna."



Síðan fór hún til Bergþórshvols og sagði Njáli þessa
viðræðu alla.



Njáll þakkaði henni og kvað hana vel hafa gert "því að honum
mundi helst misgert í vera að fara að mér allra manna."



Hún fór þá heim en Njáll sagði þetta sonum sínum.



Kerling var sú að Bergþórshvoli er Sæunn hét. Hún var fróð að
mörgu og framsýn en þá var hún gömul mjög og kölluðu
Njálssynir hana gamalæra er hún mælti margt en þó gekk það
flest eftir. Það var einn dag að hún þreif lurk í hönd sér og
gekk upp um hús eftir og að arfasátu einni er þar stóð. Hún
laust arfasátuna og bað hana aldrei þrífst svo vesöl sem hún
var. Skarphéðinn hló að og spurði hví hún abbaðist upp á
arfasátuna.



Kerlingin mælti: "Þessi arfasáta mun vera tekin og kveiktur
við eldur þá er Njáll bóndi er inni brenndur og Bergþóra
fóstra mín. Og berið þér hana á vatn," segir hún, "eða
brennið hana upp sem skjótast."



"Eigi munum vér það gera," segir Skarphéðinn, "því að fást mun
annað til eldkveikna ef þess verður auðið þó að hún sé eigi."



Kerling klifaði allt sumarið um arfasátuna að inn skyldi bera
en þó fórst það fyrir ávallt.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.