Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Nj ch. 87

Njáls saga 87 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Nj ch. 87)

Anonymous íslendingasögurNjáls saga
868788

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Kolbeinn hét maður og var kallaður Arnljótarson. Hann var
þrænskur maður. Hann sigldi það sumar út til Íslands er
Þráinn og Njálssynir fóru utan. Hann var þann vetur í
Breiðdal austur. En um sumarið eftir bjó hann skip sitt í
Gautavík. Og þá er þeir voru mjög búnir reri að þeim maður á
báti og festi bátinn við skipið en gekk síðan upp á skipið
til fundar við Kolbein. Kolbeinn spurði þenna mann að nafni.



"Hrappur heiti eg," segir hann.



"Hvers son ert þú?" segir Kolbeinn.



Hrappur svarar: "Eg er son Örgumleiða Geirólfssonar gerpis."



"Hvað vilt þú mér?" segir Kolbeinn.



"Eg vil biðja þig," segir Hrappur, "að þú flytjir mig um haf."



Kolbeinn spyr: "Hver nauðsyn er þér á?"



"Eg hefi vegið víg eitt," segir Hrappur.



"Hvert víg er það," segir Kolbeinn, "eða hverjir eru til
eftirmáls?"



Hrappur svarar: "Eg hefi vegið Örlyg Ölvisson Hróðgeirssonar
hins hvíta en til eftirmáls eru Vopnfirðingar."



"Þess get eg að sá hafi verr er þig flytur," segir Kolbeinn.



Hrappur mælti: "Vinur er eg vinar míns en geld eg það er illa
er til mín gert enda skortir mig eigi fé til að leggja fyrir
farið."



Síðan tók Kolbeinn við Hrappi.



Litlu síðar gaf byr og sigla þeir í haf. Hrapp þraut vistir í
hafi. Settist hann þá að með þeim er næstir voru. Þeir
spruttu upp með illyrðum og svo kom að þeir ráðast á og hefir
Hrappur þá þegar undir tvo menn. Þá var sagt Kolbeini og bauð
hann Hrappi í mötuneyti sitt og hann þá það.



Þeir koma af hafi og leggja utan við Agðanes. Þá spyr
Kolbeinn Hrapp: "Hvar er fé það er þú bauðst í leigu undir
þig?"



"Það er út á Íslandi," segir Hrappur.



Kolbeinn mælti: "Vera munt þú fleirum prettóttur en mér en þó
vil eg þér nú upp gefa alla leiguna."



Hrappur bað hann hafa þökk fyrir "eða hvað leggur þú nú til
ráðs með mér?"



"Það fyrst," segir Kolbeinn, "að þú far sem bráðast frá skipi
því að allir Austmenn munu illa túlka fyrir þér en þó ræð eg þér
það annað heilræði að þú svík aldrei lánardrottinn þinn."



Síðan gekk Hrappur á land upp með vopnum sínum og hafði öxi
eina mikla í hendi, vafinskeftu. Hann fer þar til er hann
kemur til Guðbrands í Dala. Hann var hinn mesti vin Hákonar
jarls. Þeir áttu hof báðir saman og var því aldrei upp lokið
nema þá er jarl kom þangað. Það var annað mest hof í Noregi
en annað á Hlöðum. Þrándur hét sonur Guðbrands en Guðrún
dóttir. Hrappur gekk fyrir Guðbrand og kvaddi hann vel.
Guðbrandur spyr hvað manna hann væri. Hrappur sagði til nafns
síns og það með að hann væri utan af Íslandi. Síðan biður
hann Guðbrand að hann taki við honum.



Guðbrandur mælti: "Ekki líst mér svo á þig sem þú munir
gæfumaður vera."



"Mjög þykir mér og logið frá þér," segir Hrappur, "er það var
sagt að þú tækir við öllum þeim er þig bæðu og engi maður
væri jafnágætur sem þú. Mun eg því í móti mæla ef þú tekur
eigi við mér."



Guðbrandur mælti: "Hér munt þú vera hljóta."



"Hvar vísar þú mér til sess?" segir Hrappur.



"Á hinn óæðra bekk," segir Guðbrandur, "gegnt öndvegi mínu."



Hrappur fór í sæti sitt. Hann kunni frá mörgu að segja. Var
það fyrst að Guðbrandi þótti gaman að og mörgum öðrum en þó kom
svo að mörgum þótti ofkerski.



Og þar kom að hann slóst á tal við Guðrúnu dóttur Guðbrands
svo að það töluðu menn að hann mundi fífla hana. En er
Guðbrandur varð þess var taldi hann á hana mjög er hún átti
tal við Hrapp og bað hana að varast að mæla nokkuð við hann
svo að eigi heyrðu allir menn. Hún hét góðu um fyrst en þó dró
til vanda um tal þeirra. Þá setti Guðbrandur til Ásvarð
verkstjóra sinn að ganga með henni hvert er hún færi.



Einu hverju sinni var það að hún beiddist að fara á hnotskóg
að skemmta sér og fylgdi Ásvarður henni. Hrappur leitar eftir
þeim og finnur þau á hnotskóginum. Hann tók í hönd Guðrúnu og
leiddi hana eina saman. Síðan fór Ásvarður að leita hennar og
fann þau í runni einum liggja bæði saman. Hann hleypur að með
öxi reidda og hjó til fótar Hrapps en Hrappur brást við fast
og missti Ásvarður hans. Hrappur spratt á fætur sem skjótast
og þreif öxi sína. Síðan vildi Ásvarður undan snúast. Hrappur
höggur í sundur í honum hrygginn.



Þá mælti Guðrún: "Nú hefir þú unnið er þú munt eigi með föður
mínum lengur vera. En þó er það sumt er honum mun enn verr
þykja því að eg fer með barni."



Hrappur svarar: "Eigi skal hann þetta af öðrum spyrja og skal
eg fara heim og segja honum hvorttveggja."



"Þá munt þú eigi með fjörvi í braut komast," segir hún.



"Á það skal hætta," segir hann.



Eftir það fylgir hann henni til kvenna annarra en hann fór
heim.



Guðbrandur sat í öndvegi og var fátt manna í stofunni.
Hrappur gekk fyrir hann og bar hátt öxina.



Guðbrandur spurði: "Hví er blóðug öx þín?"



"Eg gerði að bakverk Ásvarðar verkstjóra þíns," segir Hrappur.



"Það mun eigi af góðu," segir Guðbrandur. "Þú munt hafa vegið
hann."



"Svo er víst," segir Hrappur.



"Hvað var til saka?" segir Guðbrandur.



"Lítið mundi yður þykja," segir Hrappur. "Hann vildi höggva
af mér fótinn."



"Hvað hafðir þú til gert áður?" segir Guðbrandur.



"Það er hann átti enga sök á," segir Hrappur.



"Þó mátt þú segja hvað það var," segir Guðbrandur.



Hrappur mælti: "Ef þú vilt það vita þá lá eg hjá Guðrúnu
dóttur þinni og þótti honum það illa."



Guðbrandur mælti: "Standi menn upp og taki hann og skal hann
drepa."



"Alllítt lætur þú mig njóta mágsemdar," segir Hrappur, "en
eigi hefir þú það mannval að þetta muni skjótlega gera."



Þeir stóðu upp en hann hopaði út undan. Þeir hlaupa eftir en
hann kemst á skóg undan og höfðu þeir hans ekki. Guðbrandur
safnar liði og lét kanna skóginn og finna þeir hann eigi því
að skógurinn var mikill og þröngur.



Hrappur fer um skóginn þar til er hann kom í rjóður nokkurt.
Þar fann hann húsabæ og mann úti og klauf skíð. Hann spurði
þenna mann að nafni og nefndist hann Tófi. Tófi spurði að
hans nafni og nefndist Hrappur sem hann hét. Hrappur spyr hví
bóndi byggi svo fjarri öðrum mönnum.



"Því," sagði hann, "að eg þykist hér lítt þurfa að amast við
aðra menn."



"Við förum kynlega með okkur um málin," segir Hrappur, "og
mun eg fyrri segja þér hver eg er. Eg hefi verið með
Guðbrandi í Dölum og stökk eg þaðan fyrir það er eg drap
verkstjóra hans. En eg veit að við erum báðir illmenni því að
þú mundir ekki hér kominn frá öðrum mönnum nema þú værir
nokkurs manns útlagi. Og geri eg þér tvo kosti að eg mun
segja til þín eða við njótum báðir jafnt þess er hér er."



Bóndi mælti: "Þetta er jafnt sem þú segir. Eg nam konu þessa
er hér er hjá mér og hefir margur maður eftir mér leitað."



Síðan leiddi hann Hrapp inn með sér. Þar voru hús lítil og
vel ger. Bóndi sagði húsfreyju sinni að hann hafði Hrapp
ráðið með sér.



"Flestir munu af manni þessum illt hljóta," segir hún, "en
þó munt þú ráða vilja."



Síðan var Hrappur þar. Hann var förull mjög og var aldrei
heima. Hann fær náð fundi Guðrúnar jafnan. Þeir sátu um hann
feðgar, Þrándur og Guðbrandur, og varð það aldrei að þeir
fengju færi á honum. Og fór svo fram öll þau misseri.



Guðbrandur lét segja Hákoni jarli hver vandræði hann hafði af
Hrappi. Jarl lét dæma Hrapp útlaga og lagði fé til höfuðs
honum en hét þá að fara sjálfur að leita eftir honum en það
fórst þó fyrir og þótti jarli þeim sjálfrátt að taka hann er
hann fór svo óvarlega.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.