Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Nj ch. 3

Njáls saga 3 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Nj ch. 3)

Anonymous íslendingasögurNjáls saga
234

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Haraldur gráfeldur réð fyrir Noregi. Hann var sonur Eiríks
blóðöxar Haraldssonar hins hárfagra. Gunnhildur hét móðir
hans og var dóttir Össurar tota. Þau höfðu aðsetur austur í
Konungahellu.



Nú spurðist skipkoman austur þangað til Víkurinnar. Og þegar
er þetta fréttir Gunnhildur spurði hún eftir hvað íslenskra
manna væri á skipi. Henni var sagt að Hrútur hét maður og var
bróðursonur Össurar.



Gunnhildur mælti: "Eg veit gjörla. Hann mun heimta erfð sína
en sá maður hefir að varðveita er Sóti heitir."



Síðan kallar hún á einn herbergissvein sinn er Ögmundur hét:
"Eg vil senda þig norður í Víkina á fund Össurar og Hrúts og
seg að eg býð þeim báðum til mín í vetur og eg vil vera vinur
þeirra. Og ef Hrútur fer mínum ráðum fram þá skal eg sjá um
fémál hans og um það annað er hann tekur að henda. Eg skal og
koma honum fram við konunginn."



Síðan fór Ögmundur og kom á fund þeirra. En þegar er þeir
vissu að hann var sveinn Gunnhildar tóku þeir við honum sem
best. Hann sagði þeim erindi sín af hljóði.



Síðan töluðu þeir ráðagerðir sínar frændur leynilega og ræddi
Össur við Hrút: "Svo líst mér frændi sem nú munum við hafa
gert ráð okkað því að eg kann skapi Gunnhildar. Jafnskjótt
sem við viljum eigi fara til hennar mun hún reka okkur úr
landi en taka fé okkað allt með ráni. En ef við förum til
hennar þá mun hún gera okkur sæmd slíka sem hún hefir
heitið."



Ögmundur fór heim. Og er hann fann Gunnhildi sagði hann henni
erindislok sín og það að þeir mundu koma.



Gunnhildur mælti: "Slíks var von því að Hrútur er vitur maður
og vel að sér. En nú haf þú njósn af nær er þeir koma til
bæjarins og seg mér."



Þeir Hrútur fóru austur til Konungahellu. En er þeir komu þar
gengu í mót þeim frændur og vinir og fögnuðu þeim vel. Þeir
spurðu hvort konungur var í bænum. Þeim var sagt að hann var
þar. Síðan mættu þeir Ögmundi.



Hann sagði þeim kveðju Gunnhildar og það með að hún mundi
eigi bjóða þeim fyrr en þeir hefðu fundið konung fyrir orðs
sakir: "að svo þyki sem eg grípi gulli á við þá. En eg mun þó
til leggja slíkt er mér sýnist og veri Hrútur djarfmæltur við
konung og biðji hann hirðvistar. Eru hér og klæði er
drottningin sendir þér og skalt þú í þeim ganga fyrir
konunginn."



Síðan fór Ögmundur aftur.



Annan dag eftir mælti Hrútur við Össur: "Göngum við nú fyrir
konung."



"Það má vel," sagði Össur.



Þeir gengu tólf saman og voru þeir allir frændur þeirra og
vinir. Þeir komu í höllina er konungur sat yfir drykkju. Gekk
Hrútur fyrstur og kvaddi konunginn. Konungur hugði vandlega
að manninum er vel var búinn og spurði hann að nafni. Hann
nefnir sig.



"Ert þú íslenskur maður?" sagði konungur.



Hann sagði að svo var.



"Hvað hvatti þig hingað á vorn fund?"



"Að sjá tign yðra herra og það annað að eg á erfðamál mikið
hér í landi og mun eg yðvar verða við að njóta að eg fái rétt
af."



Konungur mælti: "Hverjum manni hefi eg heitið lögum hér í
landi eða hver eru fleiri erindi þín á vorn fund?"



"Herra," sagði Hrútur, "eg vil biðja yður hirðvistar og
gerast yðvar maður."



Konungur þagnar við.



Gunnhildur mælti: "Svo líst mér sem sjá maður bjóði yður hina
mestu sæmd því að mér líst svo ef slíkir væru margir innan
hirðar sem þá væri vel skipað."



"Er hann vitur maður?" sagði konungur.



"Bæði er hann vitur og framgjarn," segir hún.



"Svo þykir mér sem móðir mín vilji að þú fáir nafnbót slíka
sem þú mælir til. En fyrir tignar sakir vorrar og landssiðar
þá kom þú til vor á hálfs mánaðar fresti. Skalt þú þá gerast
hirðmaður minn en móðir mín haldi þér kost þar til og kom
síðan á minn fund."



Gunnhildur mælti við Ögmund: "Fylg þeim til húsa minna og ger
þeim þar góða veislu."



Ögmundur gekk út og þeir með honum og fylgdi hann þeim í eina
steinhöll. Þar var tjaldað hinum fegursta borða. Þar var og
hásæti Gunnhildar.



Þá mælti Ögmundur: "Nú mun það sannast er eg sagði þér frá
Gunnhildi. Hér er hásæti hennar og skalt þú í setjast og
halda mátt þú þessu sæti þó að hún komi sjálf til."



Síðan veitti hann þeim veislu. Þeir höfðu skamma hríð setið
áður þar kom Gunnhildur. Hrútur vildi upp spretta og fagna
henni.



"Sit þú," segir hún, "og skalt þú jafnan þessu sæti halda þá
er þú ert í boði mínu."



Síðan settist hún hjá Hrúti og drukku þau. Og um kveldið
mælti hún: "Þú skalt sofa í lofti hjá mér í nótt og við tvö
saman."



"Þér skuluð ráða," sagði hann.



Síðan gengu þau til svefns og læsti hún þegar loftinu innan
og sváfu þau þar um nóttina. Um morguninn eftir fóru þau til
drykkju. Og allan þann hálfan mánuð lágu þau í loftinu tvö
ein.



Þá mælti Gunnhildur við þá menn er þar voru: "Þér skuluð engu
fyrir týna nema lífinu ef þér segið nokkurum frá um hagi
vora."



Hrútur gaf henni hundrað álna hafnarvoðar og tólf vararfeldi.
Gunnhildur þakkaði honum gjöfina. Hrútur gekk í braut og
minntist við hana áður og þakkaði henni. Hún bað hann vel
fara.



Um daginn eftir gekk Hrútur fyrir konung við þrjá tigu manna
og kvaddi konung.



Konungur mælti: "Nú munt þú vilja að eg efni við þig Hrútur
það sem eg hét þér."



Gerði konungur þá Hrút hirðmann sinn.



Hrútur mælti þá: "Hvar vísið þér mér til sætis?"



"Móðir mín skal því ráða," sagði konungur.



Síðan fékk hún honum hinn sæmilegasta sess og var hann með
konungi um veturinn vel metinn.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.