Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ljósv ch. 24

Ljósvetninga saga 24 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Ljósv ch. 24)

Anonymous íslendingasögurLjósvetninga saga
232425

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Síðan riðu þeir Eyjólfur að ánni. Þá sjá þeir að menn riðu
frá húsunum eigi færri en sjö tigir og létu þeir þegar drífa
á þá grjót og voru þeir menn Eyjólfs dumpaðir illa um
herðarnar og sneru þeir aftur. Atli kvað farið hafa sem hann
grunaði.



Eyjólfur mælti: "Nú skal senda eftir Odda Grímssyni í Höfða
vin vorum."



Og svo var gert. Menn voru og sendir til fjarðarins eftir
mönnum.



Og er þeir Koðrán og Þóroddur heyrðu þetta mælti Hlenni:
"Langsær hefir Eyjólfur verið nú."



Og snerust menn vel við og voru mönnum meiri vonir á
harðfengi en fjölda. Oddi brást þegar við og fór við tíunda
mann og reið Eyjólfur þegar í móti honum.



Þá mælti Oddi: "Hvort gera Ljósvetningar þér eigi greiðfært
um vöðin eða hver er ætlan þín um ferð þína er svo er
stofnuð?"



Eyjólfur svarar: "Eg ætla að þeim aftur á land og eigast þar
við."



Oddi svarar: "Mikilmannlegt er það og eigi ráðlegt. Mun þeim
eigi þykja þungt falla að svo búnu."



Eyjólfur mælti: "Hvað leggur þú til?"



Oddi mælti: "Ríðum hart fram að ánni en þá skulum vér snúa
upp til Hestavaðs. Þar er mikið djúp að landi."



Þetta var allt fyrr en þeir Koðrán komu.



Og ríða þeir nú til vaðsins. Þetta sjá Veisumenn og réðust í
móti og þröngdust að vaðinu. En þeir sneru þá hestunum upp
með ánni.



Þá mælti Hrafn: "Bragð hitta þeir nú í."



Höskuldur svarar: "Látum það fyrir lítið koma og rennum upp í
móti."



Og svo gerðu þeir. Snúa Ljósvetningar nú að og ríða út á ána
en hinir ríða undan. Skaust hestur Eyjólfs í kaf en þeir
Þorsteinn og Þórir tóku sínum megin í brjóstgjörðina hvor og
hófu svo upp hestinn undir Eyjólfi og sneru aftur.



Þá mælti Oddi: "Eigi gengur nú fram Eyjólfur og snúum aftur."



Eyjólfur svarar: "Aldrei skulum vér undan fara."



Höskuldur sneri að Odda örðigum er þeir sneru hestunum og nam
öxarhyrnan í milli herða honum. Komust þeir svo aftur til
sama lands.



Þá mælti Oddi: "Eigi sækist nú skjótt reiðin."



Eyjólfur mælti: "Eigi munum vér enn skildir."



Þá var mönnum hleypt til liðsbónar á hvern bæ.



Síðan báru Ljósvetningar ráð saman.



Þá mælti Höskuldur til Hrafns: "Hvað leggur þú nú til frændi
eða þykir þér eigi ráð að vér förum í móti þeim til
Þriðjungavaðs því að þangað munu þeir leita?"



Hrafn svarar: "Til er slíkt. En þess get eg að nú leiti þeir
þangað til er þeir hafa meira traust en nú. Það er nú ráð
mitt að gera njósnarmenn til Þriðjungavaðs og á Þingmannaleið
að sjá ferðir manna."



Höskuldur svarar: "Það munum við Brandur gera fóstbræður."



En þá var víða skógi vaxið.



Þeir sjá að menn fóru að Bíldsárskarði, sneru aftur síðan og
sögðu mönnum sínum.



Þá mælti Hrafn: "Nú erum vér farnir nema Þorvarður ráðist í."



Höskuldur mælti: "Það mun yður ráð í þykja að eg fari á
Fornastaði og biðji Þorvarð liðs."



Hann gerir nú svo og kom á Fornastaði. Hann gekk inn í stofu.
Hún var skipuð öll af mönnum. Það voru frændur og vinir
Þorvarðs.



Höskuldur mælti: "Skjótt er mitt erindi. Liðs er þörf. Vér
munum skjótt ofurliði bornir af Eyjólfi nema vér njótum þín
við" og sagði honum allt hversu farið hafði.



Þorvarður svarar: "Síð hefi eg að þessum málum kvaddur verið.
Mundi vera hóglegar að farið ef eg réði. Nú fýsi eg eigi mína
menn að fara í heimsku þessa."



Höskuldur mælti: "Eigi skal lengi lítils biðja þig og munt þú
lítið veita og óhallkvæmt. En aldrei skal eg við þá
skiljast."



Þá tók kona Þorvarðs til orða: "Hitt er á að líta að til þín
mun koma þykja ef Höskuldur er drepinn og er þá eigi betra
eftir að mæla."



Þorvarður svarar: "Veit eg ákafa kvenna en gott mun að hefta
vandræði þetta."



Hún svarar: "Þú munt illa mæla eftir hann dauðan er þú veitir
honum eigi lifanda. En eigi skal eg þá annan ala son ef þú
selur þenna undir vopn."



Þorvarður svarar: "Er eigi það ólíklegt að oft standist ráð
yður kvenna og látið búinn náttverð nokkurum mönnum í kveld"
og spratt upp.



Hún svarar: "Eg skal það annast."



En Þorvarður sendi mann á fund Gunnsteins og svo til Ótryggs
er átti Guðrúnu dóttur Þorkels háks.



Hallur Ótryggsson var að Þverá í Fnjóskadal með konu þeirri
er Þorgerður hét og gekk að sauðum þann morgun og hafði skipt
verkum við þann er fjár geymdi því að hann var oft á
Grýtubakka í Höfðahverfi og hafði þar sláttu. Hann fór upp í
dalinn. Ótryggur faðir hans var þá gamall og þó hinn
vaskasti. Honum komu orð Þorvarðs að nýju. Og er sendimaður
kom var hann að höfuðþvætti og kvaðst eigi búinn.



Þá mælti Guðrún: "Satt var það að Þorkell hákur var mér
skyldur en eigi þér enda skal eg og fara."



Ótryggur svarar: "Mér sómir förin enda skal eg og fara."



Fór hann þá síðan til Þorvarðs. Gunnsteinn fór og til fundar
við Þorvarð. Þá kom þar þræll hans og bað að hann mætti fara.



Gunnsteinn mælti: "Þú skalt heima vera og halda híbýlum upp."



Þrællinn svarar: "Hvað sérð þú það á mér að eg skuli heima
vera? Nú mun eg þó fara og hirða ekki um fé þitt."



"Svo skal vera," segir Gunnsteinn.



Þeir Þorvarður fóru nú við sjö tigu manna og fóru tveim megin
árinnar. Nú var eigi varið Eyfirðingum vaðið. Þeir Koðrán
komu þá, Þóroddur hjálmur og Einar Arnórssynir, og höfðu
mikið lið. Þeir komu til hóls þess er kallaður var
Kakalahóll. Þar var mýri blaut og lækjarfall og stöðvaði þar
fyrst áhlaup manna. Á aðra hönd Eyjólfi stóð Oddi Grímsson.
Hann var sköllóttur og gamall. Koðrán hafði einn sér lið.
Þeir Þorsteinn hinn rammi fylgdu Eyjólfi allra fastast en
Eyjólfur veik undan á mýrina og lá hestur hans í feni. Hljóp
hann þá af baki og snýr að Þorvarði og tóku þeir til að
berjast í sólarupprás. Ótryggur sneri þegar að fram.
Þorvarður virti svo sem Eyjólfur vildi þar að eins til snúa
sem honum þætti næst standa hefndinni. Eyjólfur íhugaði að
Þorvarður hefði vitað óþokkann þeirra í milli.



Þá mælti Ótryggur: "Hjálmur hinn ungi hver skal hér í dag
fyrstur víg vekja?"



"Hver nema þú Háks mágur?" sagði hann.



Síðan tókust áhlaup mikil. Ótryggur lét sem hann sæi engan
mann nema Eyjólf. Þorvarður var eigi í fyrstu bráðorður.
Ótryggur lagði spjóti til Eyjólfs en Eyjólfur var í
skarlatskyrtli rauðum. Hafði hann drepið upp skautunum en
Ótryggur lagði í felina. En Þorsteinn hinn rammi laust á ofan
öxarhamrinum svo hart að fal eggina spjótsins. Ótryggur laut
eftir. En er Eyjólfur sá það þá lagði hann Ótrygg í gegnum
með spjóti. En hann snaraðist við, féll í lækinn og dó þar.
Þá frýðu menn eigi Þorvarði fram.



Starri hét maður er með var Þorvarði. Hann átti Herdísi
dóttur Halldórs Guðmundarsonar, bróður Eyjólfs. Hann var
sonur Þorgerðar Tjörvadóttur og var hann beggja vinur.



Þorvarður gekk hart fram og bar hann yfir Ótrygg. Þá rann
Starri á hann og hélt honum. Í því hjó Eyjólfur á
þumalfingurinn Þorvarði og loddi köggullinn við í sinunum. Þá
mælti Þorvarður til Odda frá Mývatni að hann veitti honum.
Hann var sonur Þorgeirs öxarstafs Grenjaðarsonar og kominn
frá Fjall-Oddi. Hann átti Vigdísi systur Þorvarðs. Síðan
hljóp Oddi að Starra og gaf honum öxarhamarshögg svo að
fæturnir horfðu upp. Þorvarði hrumdi sárið og vildi snara af
sér fingurinn.



Þá mælti Oddi: "Lát lafa, muna þeir mein er þiggja, er þú
kemur heim jafnan."



Og svo gerði hann.



Höskuldur Þorvarðsson gekk í móti Odda frá Höfða og áttust
þeir við.



Þá mælti Gunnsteinn: "Fremstur vill Höskuldur frændi vor vera
og er því ráð að fylgja honum vel er þó er margur um einn."



Þá mælti Þorsteinn heimamaður Gunnsteins: "Eigi er í
hættlegra lagi hjá þér í dag bóndi er þú berst við hann
Þveræing, Einar Járn-Skeggjason. Nú mun eg ráðast fyrst í
brott."



Síðan snýr hann að með húskarla fjóra og setur öxarhamar í
höfuð Odda og var það svöðusár í enninu og blæddi mikið.



Þá spratt hann upp og mælti: "Búinn em eg að berjast."



Þá mælti Þorsteinn skuldarmaður: "Nú mun eg í brott
Höskuldur. Ver nú hendur þínar og þið Þórálfur héðan frá."



Brandur gekk og vel fram Gunnsteinsson.



Nú er að segja frá Halli Ótryggssyni. Hann kom til Ness og
var jökulbarinn. Hann spurði hvort sauðamaður væri heima.



Konur svöruðu: "Hvað mun þér undir um smalamann? Viltu eigi
til ráða er frændur þínir berjast ef þú þorir?"



Hallur mælti hratt: "Fáið mér heldur vopn nokkuð."



Síðan tóku þær viðaröxi eina og fengu honum.



Og er hann kom til orustunnar stóð hann og mælti: "Hvað er
hér tíðinda?"



Maður nokkur svarar: "Sérð þú eigi að faðir þinn er veginn og
liggur hér fyrir fótum þér? Eyjólfur Guðmundarson vó hann."



Síðan gekk Hallur fram.



En Koðrán gekk í kvína og skildi menn og var þá svo komið að
þeir einir menn börðust er sakar áttust við. Stóðu þá flestir
kyrrir og þurfti engi meir að skilja þá. En Koðrán tók sinni
hendi hvorn þeirra og skaut þeim svo tveggja vega frá sér. Og
í því hjó Hallur í höfuð honum.



Þá kallaði maður: "Þar fór nú einn besti maður úr Eyjafirði,"
segir hann.



Hallur mælti: "Og var Guðmundarson þó að góður væri."



Koðrán var þá borinn í brott á skildi og bundið sár hans því
að Ljósvetningar voru við skóg nokkurn. Eyjólfur eggjaði nú
fast að hver dygði sem mætti.



Þá svarar Þóroddur hjálmur: "Það hugsar þú nú Eyjólfur hvað
gert er en miður hyggur þú að hægja bróður þínum. Er nú og
veginn húskarl Einars að Þverá."



Eyjólfur svarar: "Tjaldið um Koðrán. Eigi nenni eg að leita
honum hér lækningar og skal færa hann til Svalbarðs til
Þorvarðs læknis."



Þá sögðu menn að Hrafn gætti eigi miður skógarins en
fundarins og mælti Hrafn: "Það er nú ráð að fela sig í
skóginum og það annað að segja Þorvarð sáran til ólífis."



Höskuldur svarar: "Það er öruggt ráð og þó fjarri skapi föður
míns. En ræða má eg þetta við hann" og svo gerði hann.



Þorvarður svarar: "Seg þú honum þau mín orð að hann segi sig
svo veslan sem hann vill en ljúgi ekki á mig því að þar
liggur á mín reiði."



Nú var framorðið dagsins en Eyjólfur eggjaði atgöngu. Hrafn
hafði verið um nóttina á Hálsi og kom utan úr Flateyjardal.
Og var það meir af atburð en að honum þætti þar allgott.



Hrafn fann Eyjólf og mælti: "Sjá fundur hefir harður verið,
Koðrán sár mjög en Þorvarður óvígur og er einsætt að hætta."



Þá mælti Koðrán: "Já skiljið nú. Ekki mun mig saka."



Síðan skildust þeir. Eyjólfur vissi eigi hversu mjög Koðrán
var sár.



Og er Þorvarður spyr þetta mælti hann: "Heyr á endemi að
ljúga til sára manna. Verði fundur sjá sem auðnar. Erum vér
jafnan seinir til óhæfu en skiljum eigi nú fyrr en öðrum
þykir mál."



Eigi urðu menn til þess að segja Eyjólfi þessi orð.



En þeir Eyjólfur fóru til Svalbarðs og fundu Þorvarð lækni og
leystu til sársins. Eyjólfur spyr hversu honum segði hugur
um.



Hann svarar: "Ef Koðrán hefði kyrr verið þá væri von í en nú
er engi."



Eyjólfur sagði að honum mætti á einum fingri dreyra vekja.



Síðan var eldur ger og afklæddust þeir við. Eyjólfur mátti
eigi komast af kyrtli þeim er hann var í. Svo var hann
þrútinn. En Koðrán andaðist um nóttina og hörmuðu menn það
mjög. Hann var færður inn til Eyjafjarðar og búið vel um hans
líkama.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.