Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ljósv ch. 23

Ljósvetninga saga 23 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Ljósv ch. 23)

Anonymous íslendingasögurLjósvetninga saga
222324

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Síðan fór Ísólfur heim og leið veturinn. Og einmánuð
öndverðan var samkoma að Hálsi í Fnjóskadal. En nú var hún í
Kaupangi undir eins og kom Eyjólfur því seint þangað og var
þar lokið öllum samkomumálum er hann kom. Var Þorvarður í
brottu og bændur. Eyjólfur spurði hvað títt var um ferðir
Þorvarðs en honum var sagt að hann var heim farinn.



Eyjólfur segir: "Það er oss engi gæfa eða hvort er hér
Þorkell Hallgilsson?"



"Hér em eg," kvað hann.



Eyjólfur mælti: "Við höfum vel hist að málum. Eða hversu vilt
þú svara málum þeirra Ísólfs og Friðgerðar er menn kalla yður
taki félaga? Er mér sagt að þú eigir sókn og vörn mála þeirra
er við eru kenndir Brandur og Höskuldur. Nú mun eg eigi
mikilþægur að um yfirbætur ef vel er svarað."



Þorkell svarar: "Þetta ber breytilega til er þú hefir að
ganga eftir kvittan óvísra manna. Nú mun eg eigi veita
fóstbræðrum mínum ólið eða sanna þá að því máli er allir eru
jafnlíklegir til samlags við Friðgerði. Nú mun eg eigi svara
betur en vita hver sannindi til eru af þeim er þér kennið
málið."



Eyjólfur svarar: "Þá eruð þér tregari en vér mundum vilja en
eg mun hóglega til mæla. Viltu handsala lögréttu og skíri hún
sig og handsala faðerni ef hún verður skír?"



Þorkell svarar: "Þungur verður hluturinn vor ef eg handsala
faðerni en annar verður sannur að. En skírslunnar mun eg eigi
varna. Sumir kveða þó langstaðið. Og vil eg handsala rétt
presti þeim er skírslu gerir."



Eyjólfur svarar: "Það mun í lýsast að eg vil sættast og kýs
eg þetta af."



Síðan gerði Þorkell svo, að hann handsalaði presti rétt ef
hún yrði skír og eindaga á fénu.



Skírsla skyldi vera í Laufási. En sá prestur hét Ketill er
gerði skírsluna er kallaður var Möðruvellingaprestur. Þá var
í Skálaholti Ísleifur biskup. Síðan fastaði hún.



En Eyjólfur bauðst nú til að sjá skírsluna og kvað auðvelt að
þeir vildu enn tefja málið "og skal því meira hug á leggja
eftir að sjá."



Þorkell kom þar og var nú leyst til handarinnar. Prestur
veitti eigi skjót atkvæði.



Þá mælti Þorkell: "Hví ert þú svo mikill verrfeðrungur að
segja eigi að hún er brunnin?" og nefndi sér votta að því.



Prestur mælti: "Nú fer óliðlega er þið dæmið og takið málið
fyrir hendur mér fram er eg á atkvæðið að veita og skal vera
enn tilraun önnur skírari."



Eyjólfur svarar: "Eigi má skírari vera en fyrir fjandskap
þinn og mútur er þú hefir til tekið þá skal eg heimta sem
föðurarf minn."



Þorkell svarar: "Vitum vér það Ljósvetningar að ósparir hafið
þér lengi verið við oss um fjandskapinn."



Eyjólfur svarar: "Þér hófuð fyrri fjandskapinn en komuð niður
hart eftir verðleikum."



Þorkell svarar: "Fyrir þessa sök skal eg annaðhvort láta allt
fé mitt eða ekki."



Eyjólfur svarar: "Eigi mundi Þorvarður svo svara frændi
þinn."



Síðan skildu þeir að því.



Þá kom skip að Gásum og voru þar á fóstbræður, Brandur og
Höskuldur.



Þorkell hitti þá brátt og mælti: "Heimil mun vist með mér sem
fyrr þótt vant sé."



Þeir þágu það og fóru til Veisu.



Þá mælti Þorkell: "Svo er nú málavöxtur Brandur að Eyjólfur
vill bera þig sökum með þeim hætti að þú hafir legið dóttur
Ísólfs og mælt svo ferlega að hann mundi svo heimta rétt
hennar sem arfinn eftir Guðmund föður sinn. En eg ætla að
hann geri það lítt eftir sannri raun því að skírslur hygg eg
að henni gangi æ til smánar. Sá eg hönd hennar ófegri en áður
og sýndist í því fjöllyndi hennar. En Eyjólfur vill enn vekja
forna óhæfu við oss frændur."



Brandur svarar: "Engan greiða mun eg á því gera að eg sé þar
í meiri venslum en aðrir menn."



Þorkell mælti: "Hverja meðferð viljið þér hafa? Því að
frændur vorir vilja allir með Eyjólfi vera nema Hrafn
Þorkelsson frá Ljósavatni" hann bjó þá að Lundarbrekku í
Bárðardal - "hann vænti eg að oss sinni eigi síður. Hann
skortir eigi vit" - kona Hrafns var ættuð úr Goðdölum - "nú
vænti eg að hann fái til nokkuð ráð að vér höfum hærra hlut.
Og yrði svo vel að Eyjólfur réðist norður hingað væri gott að
hann hefði skapnaðar erindi."



Höskuldur mælti: "Auðsýnt er að vér stöndum við."



Síðan hittu þeir Hrafn og bar Höskuldur málið upp fyrir honum
og mælti: "Spurt munt þú hafa óþykktarsvip Ísólfs og Eyjólfs
til vor enn að nýju. Nú viljum vér í móti rísa með þínu
ráði."



Hann svarar: "Þú segir satt. Eyjólfur vill nú ganga yfir alla
þjóð en þeim þykir ekki til vor koma nema til Þorvarðs eins.
Og er mér til nokkurs? En farið nú til Óðslu og hittið Ótrygg
og bindið hann í liði með yður og til vina vorra í
Fnjóskadal. Því að eg kenni ofsa Eyjólfs að hann mun norður
hingað leita. Verum þá við búnir og leynum Þorvarð."



Það er sagt það sumar að Eyjólfur átti samkomu í héraði og
mælti: "Það mun yður kunnigt að eg em kallaður höfðingi
yðvar. Nú þykir mér sem það muni sannlegt kaup með oss að
hvorir veiti öðrum að réttum málum og að þér styrkið oss til
móts við mína ágangsmenn en eg sé yðvar liðsinnismaður í
yðrum nauðsynjum."



Mönnum þótti þetta vel sagt. Síðan reið Eyjólfur til
Hrafnagils til Einars Arnórssonar. Hann var virðingamaður og
vinur Eyjólfs.



Þá mælti Eyjólfur: "Svo er því máli háttað er eg vil ræða við
þig. Mér er nú að sækja eindagann. En ef eg fer fjölmennur þá
mun eg við leita að þrengja að þeim með fjandskap en
Þorvarður einn er vægðar verður."



Hann svarar: "Gamall maður er hann nú víst og góður drengur
er hann því að hann barðist við Gyrð þá er hann var með
Þórólfi. Er honum vel farið. Hann er varúðigur og mikill
fyrir sér. Og því að eins dugir þeim frændum ef hann sest
fyrir málið. Er það mitt ráð að þú farir með átjánda mann og
seg að þú farir eftir fangi til Flateyjardals."



Síðan bjóst Eyjólfur og með honum Þorsteinn hinn rammi af
Arnarstöðum og Þórir sonur Finnboga hins ramma, heimamaður
hans. Veður var hvasst er þeir riðu á Vöðlaheiði. Þeir komu á
Draflastaði til Atla bónda. Hann var maður auðigur og
þingmaður Eyjólfs. Þeir komu síð og var vel við þeim tekið.
Bóndi spurði um ferðir Eyjólfs.



Hann kvaðst ætla út til Flateyjardals "og skalt þú vita hvað
undir býr. Eg vil að þú gerir mann yfir til Veisu að vita
hvað þar er manna heima."



Bóndi var fámáligur.



Eyjólfur mælti: "Hví ert þú svo fálátur?"



Atli svarar: "Eg væri glaðari ef þú værir við hundrað manns."



Eyjólfur svarar: "Vel er það mælt eða veistu nokkuð til
tíðinda frá Veisu?"



Hann svarar: "Ekki nema kyrrt en eigi er þeim um þig."



Eyjólfur bað hann senda húskarl sinn til Veisu og vita hvað
til tíðinda var. Hann gerði svo. Húskarlinn kom til Veisu.



Höskuldur stóð úti í dyrum og mælti: "Snemma ertu á fótum
félagi" og brá honum til glímu og kvað hann hafa "vanda til
að glepja konur vorar" og tók hann að reika á fótunum.



Hann ætlaði þá að ganga að öðrum dyrum og var Brandur þar
fyrir og mælti: "Eigi muntu hér inn ganga. Sofa vill hún."



En þeir reiddu hann aftur og fram eftir vellinum og rifu af
honum klæðin. Varð hann því feginn að hann komst á braut.
Síðan fór hann heim og spurði Eyjólfur að um ferðina.



Hann lét hana illa orðna, "voru þeir fóstbræður úti og ætla
eg að þeir hafi grunað mig og gerðu þeir mér aðfarar margar
og rifu af mér klæðin. Og voru hurðir aftur fyrst er eg kom
og fékk eg þó séð frá hurðinni hvað títt var inni og gruna eg
að fjölmenni muni fyrir og að þeir hafi njósn af um ferðir
þínar."



Eyjólfur svarar: "Eigi er það ólíklegt."



Það var síðan vanur að mæla Þorvarður Þorgeirsson þá er hark
var haft: "Höfum nú Veisubragð."



Atli mælti: "Slíkt grunaði mig."



Eyjólfur segir: "Eigi er förin góð svo búið."



Atli svarar: "Eg býð þér tíu menn vel búna og far aftur og
legg eigi menn þína í hættu."

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.