Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ljósv ch. 13

Ljósvetninga saga 13 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Ljósv ch. 13)

Anonymous íslendingasögurLjósvetninga saga
121314

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Guðmundur hinn ríki átti Þórlaugu dóttur Atla hins ramma.
Herdís hét móðir Þórlaugar, dóttir Þórðar frá Höfða. Þar óx
sá maður upp með Guðmundi er Þorsteinn hét og gerðist
verkstjóri. Ekki var hann stórrar ættar en mannaðist vel.



Þá bjó Þórir Helgason Valþjófssonar Helgasonar hins magra að
Laugalandi í Hörgárdal. Hann var goðorðsmaður og garpur
mikill. Geirlaug hét kona hans. Hún var skörungur mikill og
vel mennt.



Einar bjó þá að Þverá, spekingur mikill og vinur Þóris
Helgasonar. Þeir veittust að öllum málum. Fátt var með þeim
bræðrum Einari og Guðmundi því að Guðmundur sat mjög yfir
metorðum manna norður þar.



Þorkell hákur, sonur Þorgeirs lögsögumanns, bjó þá að Öxará í
Ljósavatnsskarði. Hann var einlyndur og hetja mikil. Hann
hafði fátt hjóna og átti þó sökótt.



Brúni hét maður er bjó í Gnúpufelli. Eilífur hét bróðir hans
og var kallaður skyti, mikill og vaskur maður. Þeir höfðu
goðorð og voru komnir frá Helga hinum magra.



Það er frá sagt að Þorsteinn kom að máli við Guðmund og
mælti: "Svo er með vexti að eg hefi hér upp sest að þér og
tekið hér þrifnað. Nú vildi eg leita mér kvonfangs og hafa
þar til yðvart liðsinni."



Guðmundur mælti: "Þú munt þetta áður hugsað hafa hvar niður
skal koma en heimil munu þar til vor orð."



Hann svarar: "Rétt getur þú. Hugfest hefi eg þetta. Kona
heitir Guðrún og er frændkona bóndans að Bægisá og er þar
matselja fyrir búi. Hennar vildi eg að þú bæðir mér til
handa. Þín orð munu þar meira metin fá en mín mörg."



Guðmundur svarar: "Eg kalla það jafnlegt og vel leitað. En
lítið er mér um að fara í sveit Þóris Helgasonar og að hann
eigi meiri afla en eg. En er hestaþing er á Oddeyri í
Hörgárdal þá mun eg vekja til en gera eigi að því ferðir
mínar einvirðulega."



Síðan var hestaþingið og kom þar mart manna.



Og þar kom Guðmundur og brá bónda þegar á eintal, frá Bægisá,
og mælti: "Þorsteinn heitir maður er upp hefir fæðst með oss
og höfum vér hann að góðu reynt. Hann vill mæla til ráðahags
við Guðrúnu frændkonu þína. Viljum vér flytja mál mannsins."



Bóndi svarar: "Allvel er maðurinn til fenginn að flytja hans
mál og munum vér mikils meta þín orð."



Síðan hitti hann konuna og spurði hversu henni var um gefið
en hún bað hann gera sem hann vildi. Síðan var á kveðið um
brullaupsstefnu og skal vera að Bægisá.



Þorsteinn mælti þá: "Nú er ætlað að eg muni fara til
brullaups míns en eg vil biðja þig til ferðar með mér því að
mér er mestur sómi að þér."



Hann svarar: "Þetta em eg ófús að veita þér og færð þú ærna
menn til þessa."



Þorsteinn svarar: "Meiri sæmd er að þér einum en að mörgum
öðrum og mun dælt við mig þykja ef þú ert eigi í för."



Guðmundur mælti: "Eg mun og fara en fyrir þykir mér."



Guðmundur sat í öndvegi en Þórir Helgason gagnvert honum en
konur sátu á palli. Ljós brunnu björt og voru borð fram sett.
Brúður sat á miðjan pall og Þórlaug á aðra hönd en Geirlaug á
aðra. Kona fór með vatn fyrir pallinn og hafði dúk á öxl og
fór fyrir Geirlaugu því að hún hafði verið með henni hinn
fyrra veturinn.



Geirlaug tók til orða: "Þú ferð með góðum vilja en eigi með
nógum álitum. Færðu Þórlaugu fyrr vatnið. Svo á að vera."



Hún gerði nú svo.



Þórlaug drap við hendi öfugri og mælti: "Of ger eigi beinann
Geirlaug því að sjá kona gerir rétt. Eigi býr það í mínu
skapi að mér leiki á þessu öfund. Er sýnt að önnur sé kona
göfugri en þú í héraðinu?" sagði hún.



Geirlaug mælti: "Gerður er beininn Þórlaug. En hefir þú
metnað til að vera mest metin. Hefi eg engan hlut til jafns
við þig nema gjaforð."



Þórlaug svarar: "Víst hygg eg þig vel gefna en nú er þar
komið að eg veit eigi aðra framar gifta en mig."



Geirlaug svarar: "Þá værir þú vel gefin ef þar væri einmælt
um að bóndi þinn væri vel hugaður eða snjallur."



Þórlaug svarar: "Þetta er illa mælt og muntu fyrst manna
mæla."



Hún svarar: "Satt mun það fyrir því að fleiri mæla hið sama
en Þorkell hákur hefir haft þetta fyrst fyrir mér og þeir
Þórir bóndi minn en hver maður mælir það sama er tungu
hrærir."



Þórlaug mælti: "Ber hingað vatnið kona og hættum tali þessu."



Síðan hneig hún upp að þilinu og mataðist ekki.



En er menn voru að boðinu þá hvíldu hvorir sér konur og
karlar. Og um morguninn er menn risu upp og fóru til kirkju
er að messum kom sá Guðmundur að Þórlaug var eigi í
kvennaliðinu. Hann spurði konu eina hverju það sætti en hún
kvað hana hafa tekið sótt.



Guðmundur mælti: "Sitjið þér hér eftir en einhver gangi með
mér."



Hann gekk að rúminu.



"Ertu sjúk Þórlaug?" segir hann.



Hún kvað að ósýnt var um heilsuna "en þó vildi eg í brott
héðan í dag og leggjast eigi hér."



Guðmundur mælti: "Þetta er mér mikill skaði en fúsari væri eg
að kyrrt væri meðan boð þetta stæði."



Hún svarar: "Engi hlutur má mér í hald koma ef eg em hér. Og
ef eg hefi nokkuð vel til þín gert þá lát þú þetta eftir
mér."



Guðmundur mælti: "Mikils krefur þú nú hvað sem þér í brjósti
býr" og gekk svo í brott.



En er tíðum var lokið og dagverði þá mælti Guðmundur: "Nú
skal taka hesta vora og vil eg heim fara því að Þórlaug er
sjúk."



Þorsteinn mælti: "Gerðu það eigi Guðmundur að þú farir heim
þegar."



En hann svarar: "Bið þú nú eigi framar en eg vil veita þér
því að það mun eigi stoða."



Síðan riðu þau á brott.



Og er þau komu í skógana hjá Laugalandi þá veik Guðmundur
hestinum aftur og mælti við þann mann er fylgdi hesti
Þórlaugar: "Ríð þú nú fyrir en eg mun fylgja Þórlaugu."



Og svo var.



Síðan mælti Guðmundur: "Við þig vil eg tala Þórlaug því að eg
sé að þú ert eigi sjúk og seg mér hverju þetta gegnir."



Hún svarar: "Eg mun svo gera. En sjaldan hefi eg það mælt
fyrir þér er þér megi verr líka en áður. En nú eru þau efni í
er eg má eigi leyna þig."



Síðan sagði hún honum hvað þær höfðu talað og fjandmæli manna
við hann.



Guðmundur mælti: "Nú þætti mér eg betur hafa ráðið að við
hefðum hvergi farið og væri þá óhættara við orðum manna. En
af verður að ráða nokkuð hverju vandræði og heim munum við
fara. Og skaltu nú fyrst liggja viku og láttu þér þá enn
batna hægt. Að jöfnu skal eg við þig tala. En eigi þykir mér
það ráðið hvort oss verður þetta að engu."



Þaðan riðu þau og komu heim og fór sem Guðmundur gerði ráð
fyrir.



Síðan ríður Guðmundur norður í Reykjadal á fund Einars
Konálssonar fóstra síns og hins besta vinar. Einar var
spekingur mikill.



Síðan mælti Guðmundur: "Svo er mál með vexti Einar að eg vil
segja þér fjandmæli þau er menn hafa frammi við mig, Þorkell
hákur og Þórir Helgason. Vissi eg eigi af óvingan þeirra til
mín svo gjörla sem nú."



Einar mælti: "Illa er slíkt gert við göfga menn. En eg vil
biðja þig að þú hafir þrótt við. Og verði því meiri hefndin
sem lengur er."



Guðmundur svarar: "Eigi er þess að leita. Hefna skal hvort
sem það verður fyrr eða síðar."



Einar mælti: "Þá vil eg til hlutast með þér og svo ráð setja
að þú takir sök hverja er þú færð á hönd þingmönnum Þóris
Helgasonar og mun það fé brátt safnast."



Guðmundur þakkar honum þessi ráð og fleiri önnur og fer síðan
á brott. Líða nú eigi langar stundir áður Guðmundur hendir
sakar á þingmönnum Þóris.



Þórir hét maður og var kallaður Akraskeggur. Hann var
þingmaður Þóris Helgasonar, auðigur en eigi vinsæll og slægur
í kaupum við menn.



Skip kom í Eyjafjörð og átti sá maður er Helgi hét og var
Arnsteinsson, farmaður mikill, og var ávallt með Guðmundi
hinum ríka er hann var út hér, mikils virður.



Guðmundur reið til skips og mælti: "Það er mitt erindi hingað
Helgi að bjóða þér heim til mín hvert sinn sem þú ert hér á
Íslandi."



Hann svarar: "Það mun eg þiggja Guðmundur og kunna þér þökk
fyrir."



Hann var með Guðmundi um veturinn og fór með þeim
vingjarnlega.



Þórir Akraskeggur kom til skips, hitti Helga og kvaðst vilja
kaupa að honum vöru. Helgi lét það vel mega og tók upp
varning og seldi honum. Voru þar mæltir fyrir vararfeldir og
skilið á hversu þykkröggvaðir vera skyldu.



Helgi bjó skip sitt um vorið. En er hann var albúinn reið
hann á Möðruvöllu og hitti Guðmund.



Síðan mælti hann við Guðmund: "Nú er hér að líta á
vistarlaunin þó að minni séu en þú værir verður."



Það var skikkja, pell dregin yfir skinnin og gullbönd á
tyglinum og var hin mesta gersemi.



Guðmundur mælti: "Haf þökk fyrir og hefi eg eigi betra grip
þegið."



Skildust þeir nú góðir vinir. Síðan fór Helgi til skips.
Héldu þeir mjög til flýtis og var mjög borið á skip. Þórir
hafði eigi ofan komið.



Og einn dag sjá þeir að maður reið af landi ofan til skips.
Það var Þórir Akraskeggur. Hann hitti Helga og bað hann taka
við gjaldinu en Helgi kastaði því inn í tjaldið því að honum
var annt og leit eigi til en kvað hann síð komið hafa. Þórir
kvaðst fleira eiga að sýsla en sjá upp á kaupmenn og fór í
brott. En þeir drógu upp segl og sigldu út til Hríseyjar. Tók
þá af vindinn og hlóðu þeir seglum. Þá leysti Helgi baggana
og fann þar í feldi þá er á voru illar og margar raufar.



"Þetta eru mikil svik og skal honum að illu verða."



Síðan reri Helgi þaðan til lands, fékk sér hest og reið á
Möðruvöllu. Hann kom þar snemma dags og heimti Guðmund á tal
við sig.



Hann fagnaði honum vel "eða hvað er tíðinda?"



Hann lést engi tíðindi hafa "en orðið hefir þó í prettur
nokkur við oss."



Guðmundur mælti: "Hvað er í því?"



Helgi segir honum hversu farið hafði með þeim Þóri Akraskegg
"og vil eg að þú Guðmundur takir við málinu því að eg vil
sigla."



Guðmundur mælti: "Oft hefir þú mér hallkvæmur verið en eigi
mun nú smæstu ráða. Og má mér þetta koma að miklu haldi."



Heimti Guðmundur þá til sín tvo menn og tók nú sök á hönd
Þóri Akraskegg. Gaf Guðmundur Helga góðar gjafar og skildust
að því. Fóru þeir Helgi síðan utan og byrjaði þeim vel.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.