Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Laxd ch. 49

Laxdœla saga 49 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Laxd ch. 49)

Anonymous íslendingasögurLaxdœla saga
484950

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Nú ríður Kjartan suður eftir dalnum og þeir þrír saman, Án
svarti og Þórarinn.



Þorkell hét maður er bjó að Hafratindum í Svínadal. Þar er nú
auðn. Hann hafði farið til hrossa sinna um daginn og
smalasveinn hans með honum. Þeir sáu hvoratveggju, Laugamenn
í fyrirsátinni og þá Kjartan er þeir riðu eftir dalnum þrír
saman. Þá mælti smalasveinn að þeir mundu snúa til móts við
þá Kjartan, kvað þeim það mikið happ ef þeir mættu skirra
vandræðum svo miklum sem þá var til stefnt.



Þorkell mælti: "Þegi skjótt," segir hann. "Mun fóli þinn
nokkurum manni líf gefa ef bana verður auðið? Er það og satt
að segja að eg spari hvoriga til að þeir eigi nú svo illt
saman sem þeim líkar. Sýnist mér það betra ráð að við komum
okkur þar að okkur sé við engu hætt en við megum sem gerst
sjá fundinn og höfum gaman af leik þeirra því að það ágæta
allir að Kjartan sé vígur hverjum manni betur. Væntir mig og
að hann þurfi nú þess því að okkur er það kunnigt að ærinn er
liðsmunur."



Og varð svo að vera sem Þorkell vildi.



Þeir Kjartan ríða fram að Hafragili.



En í annan stað gruna þeir Ósvífurssynir hví Bolli mun sér
hafa þar svo staðar leitað er hann mátti vel sjá þá er menn
riðu vestan. Þeir gera nú ráð sitt og þótti sem Bolli mundi
þeim eigi vera trúr, ganga að honum upp í brekkuna og brugðu
á glímu og á glens og tóku í fætur honum og drógu hann ofan
fyrir brekkuna.



En þá Kjartan bar brátt að er þeir riðu hart og er þeir komu
suður yfir gilið þá sáu þeir fyrirsátina og kenndu mennina.
Kjartan spratt þegar af baki og sneri í móti þeim
Ósvífurssonum. Þar stóð steinn einn mikill. Þar bað Kjartan
þá við taka. En áður þeir mættust skaut Kjartan spjótinu og
kom í skjöld Þórólfs fyrir ofan mundriðann og bar að honum
skjöldinn við. Spjótið gekk í gegnum skjöldinn og handlegginn
fyrir ofan olboga og tók þar í sundur aflvöðvann. Lét
Þórólfur þá lausan skjöldinn og var honum ónýt höndin um
daginn. Síðan brá Kjartan sverðinu og hafði eigi konungsnaut.
Þórhöllusynir runnu á Þórarin því að þeim var það hlutverk
ætlað. Var sá atgangur harður því að Þórarinn var rammur að
afli. Þeir voru og vel knáir. Mátti þar og varla í milli sjá
hvorir þar mundu drjúgari verða. Þá sóttu þeir Ósvífurssynir
að Kjartani og Guðlaugur. Voru þeir sex en þeir Kjartan og Án
tveir. Án varðist vel og vildi æ ganga fram fyrir Kjartan.
Bolli stóð hjá með Fótbít. Kjartan hjó stórt en sverðið dugði
illa. Brá hann því jafnan undir fót sér. Urðu þá hvorirtveggju
sárir, Ósvífurssynir og Án, en Kjartan var þá enn ekki sár.
Kjartan barðist svo snart og hraustlega að þeir Ósvífurssynir
hopuðu undan og sneru þá þar að sem Án var. Þá féll Án og hafði
hann þó barist um hríð svo að úti lágu iðrin. Í þessi svipan hjó
Kjartan fót af Guðlaugi fyrir ofan kné og var honum sá áverki
ærinn til bana. Þá sækja þeir Ósvífurssynir fjórir Kjartan og
varðist hann svo hraustlega að hvergi fór hann á hæl fyrir
þeim.



Þá mælti Kjartan: "Bolli frændi, hví fórstu heiman ef þú
vildir kyrr standa hjá? Og er þér nú það vænst að veita öðrum
hvorum og reyna nú hversu Fótbítur dugi."



Bolli lét sem hann heyrði eigi.



Og er Óspakur sá að þeir mundu eigi bera af Kjartani þá
eggjar hann Bolla á alla vega, kvað hann eigi mundu vilja
vita þá skömm eftir sér að hafa heitið þeim vígsgangi og
veita nú ekki "og var Kjartan oss þá þungur í skiptum er vér
höfðum eigi jafnstórt til gert. Og ef Kjartan skal nú undan
rekast þá mun þér Bolli svo sem oss skammt til afarkosta."



Þá brá Bolli Fótbít og snýr nú að Kjartani.



Þá mælti Kjartan til Bolla: "Víst ætlar þú nú frændi
níðingsverk að gera en miklu þykir mér betra að þiggja banorð
af þér frændi en veita þér það."



Síðan kastaði Kjartan vopnum og vildi þá eigi verja sig en þó
var hann lítt sár en ákaflega vígmóður. Engi veitti Bolli
svör máli Kjartans en þó veitti hann honum banasár. Bolli
settist þegar undir herðar honum og andaðist Kjartan í knjám
Bolla. Iðraðist Bolli þegar verksins og lýsti vígi á hendur
sér. Bolli sendi þá Ósvífurssonu til héraðs en hann var eftir
og Þórarinn hjá líkunum.



Og er þeir Ósvífurssynir komu til Lauga þá sögðu þeir
tíðindin. Guðrún lét vel yfir og var þá bundið um höndina
Þórólfs. Greri hún seint og varð honum aldregi meinlaus. Lík
Kjartans var fært heim í Tungu. Síðan reið Bolli heim til
Lauga. Guðrún gekk í móti honum og spurði hversu framorðið
væri. Bolli kvað þá vera nær nóni dags þess.



Þá mælti Guðrún: "Misjöfn verða morgunverkin. Eg hefi spunnið
tólf alna garn en þú hefir vegið Kjartan."



Bolli svarar: "Þó mætti mér það óhapp seint úr hug ganga þótt
þú minntir mig ekki á það."



Guðrún mælti: "Ekki tel eg slíkt með óhöppum. Þótti mér sem
þú hefðir meiri metorð þann vetur er Kjartan var í Noregi en
nú er hann trað yður undir fótum þegar hann kom til Íslands.
En eg tel það þó síðast er mér þykir mest vert að Hrefna mun
eigi ganga hlæjandi að sænginni í kveld."



Þá segir Bolli og var mjög reiður: "Ósýnt þykir mér að hún
fölni meir við þessi tíðindi en þú og það grunar mig að þú
brygðir þér minnur við þó að vér lægjum eftir á vígvellinum
en Kjartan segði frá tíðindum."



Guðrún fann þá að Bolli reiddist og mælti: "Haf ekki slíkt
við því að eg kann þér mikla þökk fyrir verkið. Þykir mér nú
það vitað að þú vilt ekki gera í móti skapi mínu."



Síðan gengu þeir Ósvífurssynir í jarðhús það er þeim var búið
á laun en þeir Þórhöllusynir voru sendir út til Helgafells að
segja Snorra goða þessi tíðindi og það með að þau báðu hann
senda sér skjótan styrk til liðveislu á móti Ólafi og þeim
mönnum er eftirmál áttu eftir Kjartan.



Það varð til tíðinda í Sælingsdalstungu þá nótt er vígið
hafði orðið um daginn að Án settist upp er allir hugðu að
dauður væri. Urðu þeir hræddir er vöktu yfir líkunum og þótti
þetta undur mikið.



Þá mælti Án til þeirra: "Eg bið yður í guðs nafni að þér
hræðist mig eigi því að eg hefi lifað og haft vit mitt allt
til þeirrar stundar að rann á mig ómeginshöfgi. Þá dreymdi
mig hin sama kona og fyrr og þótti mér hún nú taka hrísið úr
maganum en lét koma innyflin í staðinn og varð mér gott við
það skipti."



Síðan voru bundin sár þau er Án hafði og varð hann heill og
var síðan kallaður Án hrísmagi.



En er Ólafur Höskuldsson spurði þessi tíðindi þá þótti honum
mikið að um víg Kjartans en þó bar hann drengilega. Þeir
synir hans vildu þegar fara að Bolla og drepa hann.



Ólafur segir: "Það skal fjarri fara. Er mér ekki sonur minn
að bættri þó að Bolli sé drepinn. Og unni eg Kjartani um alla
menn fram en eigi mátti eg vita mein Bolla. En sé eg yður
maklegri sýslu. Farið þér til móts við Þórhöllusonu er þeir
eru sendir til Helgafells að stefna liði að oss. Vel líkar
mér þótt þér skapið þeim slíkt víti sem yður líkar."



Síðan snarast þeir til ferðar Ólafssynir og gengu á ferju er
Ólafur átti. Voru þeir sjö saman, róa út eftir Hvammsfirði og
sækja knálega ferðina. Þeir hafa veður lítið og hagstætt.
Þeir róa undir seglinu þar til er þeir koma undir Skorrey og
eiga þar dvöl nokkura og spyrjast þar fyrir um ferðir manna.
Og litlu síðar sjá þeir skip róa vestan um fjörðinn. Kenndu
þeir brátt mennina. Voru þar Þórhöllusynir. Leggja þeir
Halldór þegar að þeim. Þar varð engi viðtaka því að þeir
Ólafssynir hljópu þegar út á skipið að þeim. Urðu þeir Steinn
handteknir og höggnir fyrir borð. Þeir Ólafssynir snúa aftur
og þótti þeirra ferð allsköruleg vera.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.