Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Laxd ch. 37

Laxdœla saga 37 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Laxd ch. 37)

Anonymous íslendingasögurLaxdœla saga
363738

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):





Það var eitt sumar á þingi er Þorleikur sat í búð sinni að maður einn mikill gekk í búðina inn. Sá kvaddi Þorleik en hann tók kveðju þessa manns og spurði hver hann væri eða hvað hann héti. Hann kvaðst Eldgrímur heita og búa í Borgarfirði á þeim bæ er heita Eldgrímsstaðir en sá bær er í dal þeim er skerst vestur í fjöll milli Múla og Grísartungu. Sá er nú kallaður Grímsdalur.



Þorleikur segir: "Heyrt hefi eg þín getið að því að þú sért ekki lítilmenni."



Eldgrímur mælti: "Það er erindi mitt hingað að eg vil kaupa að þér stóðhrossin þau hin dýru er Kotkell gaf þér í fyrra sumar."



Þorleikur svarar: "Eigi eru föl hrossin."



Eldgrímur mælti: "Eg býð þér jafnmörg stóðhross við og meðalauka nokkurn og munu margir mæla að eg bjóði við tvenn verð."



Þorleikur mælti: "Engi er eg mangsmaður því að þessi hross færð þú aldregi þótt þú bjóðir við þrenn verð."



Eldgrímur mælti: "Eigi mun það logið að þú munt vera stór og einráður. Mundi eg það og vilja að þú hefðir óríflegra verðið en nú hefi eg þér boðið og létir þú hrossin eigi að síður."



Þorleikur roðnaði mjög við þessi orð og mælti: "Þurfa muntu Eldgrímur að ganga nær ef þú skalt kúga af mér hrossin."



Eldgrímur mælti: "Ólíklegt þykir þér það að þú munir verða halloki fyrir mér. En þetta sumar mun eg fara að sjá hrossin hvor okkar sem þá hlýtur þau að eiga þaðan í frá."



Þorleikur segir: "Ger sem þú heitir og bjóð mér engan liðsmun."



Síðan skilja þeir talið.



Það mæltu menn er heyrðu að hér væri maklega á komið um þeirra skipti. Síðan fóru menn heim af þingi og var allt tíðindalaust.



Það var einn morgun snemma að maður sá út á Hrútsstöðum að Hrúts bónda Herjólfssonar. En er hann kom inn spurði Hrútur tíðinda. Sá kveðst engi tíðindi kunna að segja önnur en hann kveðst sjá mann ríða handan um vaðla og þar til er hross Þorleiks voru "og sté maðurinn af baki og höndlaði hrossin."



Hrútur spurði hvar hrossin væru þá.



Húskarl mælti: "Vel höfðu þau enn haldið haganum. Þau stóðu í engjum þínum fyrir neðan garð."



Hrútur svarar: "Það er satt að Þorleikur frændi er jafnan ómeskinn um beitingar og enn þykir mér líkara að eigi séu að hans ráði hrossin rekin á brott."



Síðan spratt Hrútur upp í skyrtu og línbrókum og kastaði yfir sig grám feldi og hafði í hendi bryntröll gullrekið er Haraldur konungur gaf honum. Hann gekk út nokkuð snúðigt og sá að maður reið að hrossum fyrir neðan garð. Hrútur gekk í móti honum og sá að Eldgrímur rak hrossin. Hrútur heilsaði honum. Eldgrímur tók kveðju hans og heldur seint. Hrútur spurði hvert hann skyldi reka hrossin.



Eldgrímur svarar: "Ekki skal þig því leyna. En veit eg frændsemi með ykkur Þorleiki. En svo er eg eftir hrossunum kominn að eg ætla honum þau aldrei síðan. Hefi eg og það efnt sem eg hét honum á þingi að eg hefi ekki með fjölmenni farið eftir hrossunum."



Hrútur segir: "Engi er það frami þótt þú takir hross í brott en Þorleikur liggi í rekkju sinni og sofi. Efnir þú það þá best er þið urðuð á sáttir ef þú hittir hann áður þú ríður úr héraði með hrossin."



Eldgrímur mælti: "Ger þú Þorleik varan við ef þú vilt því að þú mátt sjá að eg hefi svo heiman búist að mér þótti vel að fund okkarn Þorleiks bæri saman" og hristi krókaspjótið er hann hafði í hendi.



Hann hafði og hjálm á höfði og var gyrður sverði, skjöld á hlið. Hann var í brynju.



Hrútur mælti: "Heldur mun eg annars á leita en fara á Kambsnes því að mér er fótur þungur. En eigi mun eg láta ræna Þorleik ef eg hefi föng á því þótt eigi sé margt í frændsemi okkarri."



Eldgrímur mælti: "Er eigi það að þú ætlir að taka af mér hrossin?"



Hrútur svarar: "Gefa vil eg þér önnur stóðhross til þess að þú látir þessi laus þótt þau séu eigi jafngóð sem þessi."



Eldgrímur mælti: "Besta talar þú Hrútur en með því að eg hefi komið höndum á hrossin Þorleiks þá muntu þau hvorki plokka af mér með mútugjöfum né heitan."



Þá svarar Hrútur: "Það hygg eg að þú kjósir þann hlut til handa báðum okkur er verr muni gegna."



Eldgrímur vill nú skilja og hrökkvir hestinn. En er Hrútur sá það reiddi hann upp bryntröllið og setur milli herða Eldgrími svo að þegar slitnaði brynjan fyrir en bryntröllið hljóp út um bringuna. Féll Eldgrímur dauður af hestinum sem von var. Síðan huldi Hrútur hræ hans. Þar heitir Eldgrímsholt, suður frá Kambsnesi.



Eftir þetta ríður Hrútur ofan á Kambsnes og segir Þorleiki þessi tíðindi. Hann brást reiður við og þóttist vera mjög svívirður í þessu tilbragði en Hrútur þóttist hafa sýnt við hann mikinn vinskap. Þorleikur kvað það bæði vera að honum hafði illt til gengið enda mundi eigi gott í móti koma. Hrútur kvað hann mundu því ráða. Skiljast þeir með engri blíðu. Hrútur var þá áttræður er hann drap Eldgrím og þótti hann mikið hafa vaxið af þessu verki. Ekki þótti Þorleiki Hrútur því betra af verður að hann væri miklaður af þessu verki. Þóttist hann glöggt skilja að hann mundi hafa borið af Eldgrími ef þeir hefðu reynt með sér svo lítið sem fyrir hann lagðist.



Fór Þorleikur nú á fund landseta sinna, Kotkels og Grímu, og bað þau gera nokkurn hlut þann er Hrúti væri svívirðing að. Þau tóku undir þetta léttlega og kváðust þess vera albúin. Síðan fer Þorleikur heim.



En litlu síðar gera þau heimanferð sína Kotkell og Gríma og synir þeirra. Það var um nótt. Þau fóru á bæ Hrúts og gerðu þar seið mikinn. En er seiðlætin komu upp þá þóttust þeir eigi skilja er inni voru hverju gegna mundi. En fögur var sú kveðandi að heyra. Hrútur einn kenndi þessi læti og bað engan mann út sjá á þeirri nótt "og haldi hver vöku sinni er má og mun oss þá ekki til saka ef svo er með farið."



En þó sofnuðu allir menn. Hrútur vakti lengst og sofnaði þó.



Kári hét son Hrúts er þá var tólf vetra gamall og var hann efnilegastur sona Hrúts. Hann unni honum mikið. Kári sofnaði nær ekki því að til hans var leikur ger. Honum gerðist ekki mjög vært. Kári spratt upp og sá út. Hann gekk á seiðinn og féll þegar dauður niður.



Hrútur vaknaði um morguninn og hans heimamenn og saknaði sonar síns. Fannst hann örendur skammt frá durum. Þetta þótti Hrúti hinn mesti skaði og lét verpa haug eftir Kára. Síðan ríður hann á fund Ólafs Höskuldssonar og segir honum þau tíðindi er þar höfðu gerst. Ólafur varð óður við þessi tíðindi og segir verið hafa mikla vanhyggju er þeir höfðu látið sitja slík illmenni hið næsta sér sem þau Kotkell voru, sagði og Þorleik hafa sér illan hlut af deilt af málum við Hrút en kvað þó meira að orðið en hann mundi vilja. Ólafur kvað þá þegar skyldu drepa þau Kotkel og konu hans og sonu "er þó ofseinað nú."



Þeir Ólafur og Hrútur fara með fimmtán menn. En er þau Kotkell sjá mannareið að bæ sínum þá taka þau undan í fjall upp. Þar varð Hallbjörn slíkisteinsauga tekinn og dreginn belgur á höfuð honum. Þegar voru þá fengnir menn til gæslu við hann en sumir sóttu eftir þeim Kotkatli og Grímu og Stíganda upp á fjallið. Þau Kotkell og Gríma urðu áhend á hálsinum milli Haukadals og Laxárdals. Voru þau þar barin grjóti í hel og var þar ger að þeim dys úr grjóti og sér þess merki og heitir það Skrattavarði. Stígandi tók undan suður af hálsinum til Haukadals og þar hvarf hann þeim. Hrútur og synir hans fóru til sjávar með Hallbjörn. Þeir settu fram skip og reru frá landi með hann. Síðan tóku þeir belg af höfði honum en bundu stein við hálsinn. Hallbjörn rak þá skyggnur á landið og var augnalag hans ekki gott.



Þá mælti Hallbjörn: "Ekki var oss það tímadagur er vér frændur komum á Kambsnes þetta til móts við Þorleik. Það mæli eg um," segir hann, "að Þorleikur eigi þar fá skemmtanardaga héðan í frá og öllum verði þungbýlt þeim sem í hans rúm setjast."



Mjög þykir þetta atkvæði á hafa hrinið.



Síðan drekktu þeir honum og reru til lands.



Litlu síðar fer Hrútur á fund Ólafs frænda síns og segir honum að hann vill eigi hafa svo búið við Þorleik og bað hann fá sér menn til að sækja heim Þorleik.



Ólafur svarar: "Þetta samir eigi að þér frændur leggist hendur á. Hefir þetta tekist ógiftusamlega Þorleiki til handar. Viljum vér heldur leita um sættir með ykkur. Hefir þú oft þíns hluta beðið vel og lengi."



Hrútur segir: "Ekki er slíks að leita. Aldrei mun um heilt með okkur gróa og það mundi eg vilja að eigi byggjum við báðir lengi í Laxárdal héðan í frá."



Ólafur svarar: "Eigi mun þér það verða hlýðisamt að ganga framar á hendur Þorleiki en mitt leyfi er til. En ef þú gerir það þá er eigi ólíklegt að mæti dalur hóli."



Hrútur þykist nú skilja að fast mun fyrir vera, fer heim og líkar stórilla. Og er kyrrt að kalla. Og sitja menn um kyrrt þau misseri.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.