Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Laxd ch. 35

Laxdœla saga 35 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Laxd ch. 35)

Anonymous íslendingasögurLaxdœla saga
343536

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Kotkell hét maður er þá hafði út komið fyrir litlu. Gríma hét
kona hans. Þeirra synir voru þeir Hallbjörn slíkisteinsauga
og Stígandi. Þessir menn voru suðureyskir. Öll voru þau mjög
fjölkunnig og hinir mestu seiðmenn. Hallsteinn goði tók við
þeim og setti þau niður að Urðum í Skálmarfirði og var þeirra
byggð ekki vinsæl.



Þetta sumar fór Gestur til þings og fór á skipi til Saurbæjar
sem hann var vanur. Hann gisti á Hóli í Saurbæ. Þeir mágar
léðu honum hesta sem fyrr var vant. Þórður Ingunnarson var þá
í för með Gesti og kom til Lauga í Sælingsdal. Guðrún
Ósvífursdóttir reið til þings og fylgdi henni Þórður
Ingunnarson.



Það var einn dag er þau riðu yfir Bláskógaheiði, var á veður
gott.



Þá mælti Guðrún: "Hvort er það satt Þórður að Auður kona þín
er jafnan í brókum og setgeiri í en vafið spjörum mjög í skúa
niður?"



Hann kvaðst ekki hafa til þess fundið.



"Lítið bragð mun þá að," segir Guðrún, "ef þú finnur eigi og
fyrir hvað skal hún þá heita Bróka-Auður?"



Þórður mælti: "Vér ætlum hana litla hríð svo hafa verið
kallaða."



Guðrún svarar: "Hitt skiptir hana enn meira að hún eigi þetta
nafn lengi síðan."



Eftir það komu menn til þings. Er þar allt tíðindalaust.
Þórður var löngum í búð Gests og talaði jafnan við Guðrúnu.
Einn dag spurði Þórður Ingunnarson Guðrúnu hvað konu varðaði
ef hún væri í brókum jafnan svo sem karlar.



Guðrún svarar: "Slíkt víti á konum að skapa fyrir það á sitt
hóf sem karlmanni ef hann hefir höfuðsmátt svo mikla að sjái
geirvörtur hans berar, brautgangssök hvorttveggja."



Þá mælti Þórður: "Hvort ræður þú mér að eg segi skilið við
Auði hér á þingi eða í héraði og geri eg það við fleiri manna
ráð því að menn eru skapstórir þeir er sér mun þykja misboðið
í þessu?"



Guðrún svarar stundu síðar: "Aftans bíður óframs sök."



Þá spratt Þórður þegar upp og gekk til Lögbergs og nefndi sér
votta að hann segir skilið við Auði og fann það til saka að
hún skarst í setgeirabrækur sem karlkonur.



Bræðrum Auðar líkar illa og er þó kyrrt. Þórður ríður af
þingi með þeim Ósvífurssonum.



En er Auður spyr þessi tíðindi þá mælti hún:



Vel er eg veit það

var eg ein um látin.


Síðan reið Þórður til féskiptis vestur til Saurbæjar með
tólfta mann og gekk það greitt því að Þórði var óspart um
hversu fénu var skipt. Þórður rak vestan til Lauga margt
búfé. Síðan bað hann Guðrúnar. Var honum það mál auðsótt við
Ósvífur en Guðrún mælti ekki í móti. Brullaup skyldi vera að
Laugum að tíu vikum sumars. Var sú veisla allsköruleg. Samför
þeirra Þórðar og Guðrúnar var góð. Það eitt hélt til að
Þorkell hvelpur og Knútur fóru eigi málum á hendur Þórði
Ingunnarsyni að þeir fengu eigi styrk til.



Annað sumar eftir höfðu Hólsmenn selför í Hvammsdal. Var
Auður að seli. Laugamenn höfðu selför í Lambadal. Sá gengur
vestur í fjöll af Sælingsdal. Auður spyr þann mann er smalans
gætti hversu oft hann fyndi smalamann frá Laugum. Hann kvað
það jafnan vera sem líklegt var því að háls einn var á milli
seljanna.



Þá mælti Auður: "Þú skalt hitta í dag smalamann frá Laugum og
máttu segja mér hvað manna er að veturhúsum eða í seli og ræð
allt vingjarnlega til Þórðar sem þú átt að gera."



Sveinninn heitir að gera svo sem hún mælti. En um kveldið er
smalamaður kom heim spyr Auður tíðinda.



Smalamaðurinn svarar: "Spurt hefi eg þau tíðindi er þér munu
þykja góð að nú er breitt hvílugólf milli rúma þeirra Þórðar
og Guðrúnar því að hún er í seli en hann heljast á skálasmíð
og eru þeir Ósvífur tveir að veturhúsum."



"Vel hefir þú njósnað," segir hún, "og haf söðlað hesta tvo
er menn fara að sofa."



Smalasveinn gerði sem hún bauð og nokkuru fyrir sólarfall sté
Auður á bak og var hún þá að vísu í brókum. Smalasveinn reið
öðrum hesti og gat varla fylgt henni, svo knúði hún fast
reiðina. Hún reið suður yfir Sælingsdalsheiði og nam eigi
staðar fyrr en undir túngarði að Laugum. Þá sté hún af baki
en bað smalasveininn gæta hestanna meðan hún gengi til húss.
Auður gekk að durum og var opin hurð. Hún gekk til eldhúss og
að lokrekkju þeirri er Þórður lá í og svaf. Var hurðin fallin
aftur en eigi lokan fyrir. Hún gekk í lokrekkjuna en Þórður
svaf og horfði í loft upp. Þá vakti Auður Þórð en hann
snerist á hliðina er hann sá að maður var kominn. Hún brá þá
saxi og lagði á Þórði og veitti honum áverka mikla og kom á
höndina hægri. Varð hann sár á báðum geirvörtum. Svo lagði
hún til fast að saxið nam í beðinum staðar. Síðan gekk Auður
brott og til hests og hljóp á bak og reið heim eftir það.
Þórður vildi upp spretta er hann fékk áverkann og varð það
ekki því að hann mæddi blóðrás. Við þetta vaknaði Ósvífur og
spyr hvað títt væri en Þórður kvaðst orðinn fyrir áverkum
nokkurum. Ósvífur spyr ef hann vissi hver á honum hefði unnið
og stóð upp og batt um sár hans. Þórður kvaðst ætla að það
hefði Auður gert. Ósvífur bauð að ríða eftir henni, kvað hana
fámenna til mundu hafa farið og væri henni skapað víti.
Þórður kvað það fjarri skyldu fara, sagði hana slíkt hafa að
gert sem hún átti.



Auður kom heim í sólarupprás og spurðu þeir bræður hennar
hvert hún hefði farið. Auður kvaðst farið hafa til Lauga og
sagði þeim hvað til tíðinda hafði gerst í förum hennar. Þeir
létu vel yfir og kváðu of lítið mundu að orðið. Þórður lá
lengi í sárum og greru vel bringusárin en sú höndin varð
honum hvergi betri til taks en áður. Kyrrt var nú um
veturinn.



En eftir um vorið kom Ingunn móðir Þórðar vestan af
Skálmarnesi. Hann tók vel við henni. Hún kvaðst vilja ráðast
undir áraburð Þórðar. Kvað hún Kotkel og konu hans og sonu
gera sér óvært í fjárránum og fjölkynngi en hafa mikið traust
af Hallsteini goða. Þórður veikst skjótt við þetta mál og
kvaðst hafa skyldu rétt af þjófum þeim þótt Hallsteinn væri
að móti, snarast þegar til ferðar við tíunda mann. Ingunn fór
og vestur með honum. Hann hafði ferju úr Tjaldanesi. Síðan
héldu þau vestur til Skálmarness.



Þórður lét flytja til skips allt lausafé það er móðir hans
átti þar en smala skyldi reka fyrir innan fjörðu. Tólf voru
þau alls á skipi. Þar var Ingunn og önnur kona. Þórður kom
til bæjar Kotkels með tíunda mann. Synir þeirra Kotkels voru
eigi heima. Síðan stefndi hann þeim Kotkeli og Grímu og sonum
þeirra um þjófnað og fjölkynngi og lét varða skóggang. Hann
stefndi sökum þeim til alþingis og fór til skips eftir það.
Þá komu þeir Hallbjörn og Stígandi heim er Þórður var kominn
frá landi og þó skammt. Sagði Kotkell þá sonum sínum hvað þar
hafði í gerst. Þeir bræður urðu óðir við þetta og kváðu menn
ekki hafa fyrr gengið í berhögg við þau um svo mikinn
fjandskap. Síðan lét Kotkell gera seiðhjall mikinn. Þau
færðust þar á upp öll. Þau kváðu þar fræði sín en það voru
galdrar. Því næst laust á hríð mikilli.



Það fann Þórður Ingunnarson og hans förunautar þar sem hann
var á sæ staddur og til hans var gert veðrið. Keyrir skipið
vestur fyrir Skálmarnes. Þórður sýndi mikinn hraustleik í
sæliði. Það sáu þeir menn er á landi voru að hann kastaði því
öllu er til þunga var utan mönnum. Væntu þeir menn er á landi
voru Þórði þá landtöku því að þá var af farið það sem
skerjóttast var. Síðan reis boði skammt frá landi sá er engi
maður mundi að fyrri hefði uppi verið og laust skipið svo að
þegar horfði upp kjölurinn. Þar drukknaði Þórður og allt
föruneyti hans en skipið braut í spón og rak þar kjölinn er
síðan heitir Kjalarey. Skjöld Þórðar rak í þá ey er
Skjaldarey er kölluð. Lík Þórðar rak þar þegar á land og hans
förunauta. Var þar haugur orpinn að líkum þeirra þar er síðan
heitir Haugsnes.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.