Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Þórð ch. 4

Þórðar saga hreðu 4 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Þórð ch. 4)

Anonymous íslendingasögurÞórðar saga hreðu
345

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þeir Þórður og Eiður riðu til skips jafnfram Skeggja því að
Eiður bað Þórð þess. Og er þeir komu til skips tjölduðu þeir
eina búð báðir.



Sá maður kemur til sögunnar er Jón hét. Hann bjó að
Hvassafelli í Norðurárdal. Hann var vel fjáður og engi
jafnaðarmaður og óvinsæll. Guðrún hét kona hans, ofláti
mikill og metnaðarfull. Bróðir hennar hét Auðólfur. Glúmur
hét faðir þeirra. Hann bjó að Skarðshömrum. Þeir ætluðu að
ríða til skips í þann tíma er þeir Þórður og Skeggi voru við
skip. Og er þeir riðu heiman mælti Guðrún við bónda sinn að
hann skyldi kaupa henni skikkju nokkura góða því að hún var
áburðarkona. Þessu heitir bóndi. Þeir ríða nú leið sína þar
til er þeir koma á Hvítárvöllu. Þá var kaupstefna sem mest.



Þeir Jón og Auðólfur gengu um búðir. Þeir komu í búð þess
manns er Þórir hinn auðgi hét og föluðu skikkju ef til væri.



Hann segir, kvað til vera skikkju "og mun ykkur bóndi þykja
dýr."



Jón segir: "Lát heyra hvað gilda skal."



Austmaður mat skikkjuna. Jóni þótti of dýr. Auðólfur vildi
kaupa láta og bauð að leggja til af sínu. Jón gekk frá.



Og er þeir komu út eggjaði Auðólfur að kaupa skikkjuna "og
hét eg því systur minni."



"Hví skaltu eigi ráða?" segir Jón, "og göngum heim eftir
verðinu."



Og varð þetta dvöl nokkur.



Það er sagt að þeir Þórður og Eiður gengu um búðir og föluðu
varning. Þeir komu í búð Þóris ríka og föluðu skikkjuna að
Þóri.



Þórir kveðst kenna Þórð og hans foreldra "og vil eg eigi meta
við þig heldur vil eg að þú þiggir skikkjuna."



Þórður þakkaði honum "og vil eg þetta þiggja og lát hér
liggja meðan eg geng eftir verðinu."



"Það vildi eg," segir Þórir, "að þú hefðir með þér."



"Engu mun það varða," segir Þórður og gengu þeir Eiður að
sækja verðið.



Og er Þórður var í burt koma þeir Jón og Auðólfur inn í
búðina og báðu Austmanninn þá láta til skikkjuna.



Hann kvað þá selda skikkjuna "því að þú vildir eigi þvílíkt
við gefa sem eg mat."



Jón kveðst þá hafa skyldu. Og í því komu þeir Þórður og Eiður
í búðina með skikkjuverðið. Þórður greip til skikkjunnar.
Auðólfur brá sverði og vildi höggva til Þórðar. Jón hljóp og
að honum Þórði og vildi höggva til hans. Þórður brá skjótt
sverðinu og snerist að Auðólfi og hjó í höfuðið. Féll hann
þegar dauður á gólfið. Eiður hljóp fyrir hann Þórð er hann sá
tilræðið Jóns og brá fyrir hann skildinum en tók skikkjuna
undir hönd sér. Þetta sér Þórður og slæmir til hans með
sverðinu og kom á hann miðjan og tók í sundur fyrir ofan
mjaðmirnar. Förunautar þeirra Jóns sóttu þá að honum. Þórður
hopaði út úr búðinni og hljóp á einn raftabulung og varðist
þaðan vel og skörulega. Drifu þá til héraðsmenn og
Borgfirðingar og vildu hefna þeirra Auðólfs. Eiður fer þá að
finna föður sinn og biður hann að veita Þórði lið með sínum
mönnum.



Skeggi segir: "Hvað hefir Þórður að hafst þess að hann er
eigi einhlítur?"



Eiður segir: "Hann hefir vegið tvo menn."



"Hverjir eru þeir?" segir Skeggi.



"Auðólfur og Jón," segir Eiður.



"Hvað varð til?" segir Skeggi.



Eiður segir: "Þeir vildu ræna hann skikkju þeirri er hann
hafði keypt og annar þeirra vildi drepa hann áður en eg
hlífði honum. Og láttu eigi þá fæð sem á millum ykkar hefir
verið svo ríkt ganga að þú virðir meira en það að hann er úr
því héraði sem þú ert. Hann er og minn lífgjafi og fóstri."



Þá svaraði Skeggi engu. Eiður gekk þá á burt og þar til sem
þeir sóttu að Þórði og brá saxinu.



Og er Þórður sá Eið fóstra sinn mælti hann: "Hafðu þig ekki í
hættu fyrir mig."



En er Eiður var út genginn úr tjaldi föður síns þá stóð
Skeggi upp og mælti: "Rýta mun gölturinn ef grísinn er
drepinn."



Tók hann þá Sköfnung og gekk þangað til sem þeir sóttu að
Þórði. Hafði hann varist svo drengilega að þeir höfðu engu
sári á hann komið en hann hafði sært marga menn. Og er Skeggi
kom til gekk hann svo hart að að þeir hurfu frá er áður höfðu
sótt að Þórði. Síðan kom Skeggi á sættum með þeim. Skyldi
hann einn gera um öll málin. Hann lauk þegar upp gerðinni.
Skyldi Þórður greiða tvö hundruð silfurs fyrir víg Jóns en
Auðólfur falla óheilagur fyrir fjörráð og tilræði við Þórð.
Þeir menn sem sárir höfðu orðið fyrir Þórði skyldu hafa sár
sín bótalaus fyrir fjörráð og atsókn. Og með þessu skildu
þeir.



Reið Skeggi heim þá er hann var búinn. Þórður reið jafnfram
norður og Eiður með honum og töluðust þeir Skeggi og Þórður
ekki við á allri þessi leið. Þeir ríða þar til er þeir koma
að Miðfjarðará.



Þá mælti Skeggi: "Hér munum vér af baki stíga því að eg á við
þig Þórður erindi."



Og svo gerðu þeir.



Þá mælti Skeggi: "Ásbjörn frændi minn bað mig vekja bónorð
fyrir hans hönd og vill hann láta biðja Sigríðar systur
þinnar fyrir hans hönd og vil eg nú vita hversu þú vilt
þessum málum svara."



Þórður segir: "Litla vináttu á eg við Ásbjörn. Hefir þú og
mér verið engi vin hér til og ekki kom mér það í hug að þú
mundir hingað leita tengda fyrir frændur þína. En veit eg að
Ásbjörn er stórborinn maður og ríkur og mikilmenni af sjálfum
sér. En eigi veit eg hversu bræðrum mínum eða henni er þetta
kaup gefið."



Skeggi svarar: "Því kveð eg þig að málinu heldur en bræður
þína að eg veit að þeir vilja þínum ráðum hlíta bæði um þetta
og allt annað."



Þórður svarar: "Líklegir þykja mér þeir til vera að gera
eftir mínum vilja. En ekki gef eg hana nokkurum manni utan
hennar samþykki sé til. En von þykir mér að ekki brjóti hún
það á bak er eg ræð."



Þá segir Eiður: "Það vildi eg fóstri minn að vel svarir þú
föður mínum um bónorðið og virðir mikils hans flutning."



Þórður segir: "Svo skal vera því að mikla liðsemd veitti
Skeggi mér í þessi ferð og það mun eg nú láta á sjá því að eg
mun gera kost á um bónorðið fyrir þinn flutning Skeggi. Hún
skal sitja í festum þrjá vetur og ef Ásbjörn kemur eigi út
innan þeirra þriggja vetra þá eru laus þessi mál. Kemur hann
fyrri til lands þá er hann kominn til ráðahags með Sigríði."



Þessu játar Skeggi. Réttir Þórður þá fram höndina og tekur
Skeggi handsöl. Voru þegar vottar að heitorði.



Þá mælti Skeggi: "Nú hefir þér vel farið Þórður. En hagskipti
var það er systir þín fékk skikkjuna heldur en kona Jóns.
Þykir mér og meiri von að Borgfirðingar megi minni til reka
hver yðar fundur varð. Mun eg lengja nafn þitt og kalla þig
Þórð hreðu."



Þórður sagði: "Vel líkar mér það þó að þeir hafi nokkurar
mínar menjar og svo þykir mér og engi forþokki á nafni þessu.
En svo segir mér hugur um að sjaldan muni hreðulaust í þessu
héraði."



Eftir þetta riðu þeir heim. Og er Þórður kom heim var honum
vel fagnað. Hann var spurður tíðinda. Hann sagði af hið
ljósasta. Síðan kallaði hann systkin sín til tals við sig og
sagði þeim heitorðið.



Sigríður svarar: "Bráðráðið þykir mér þú bróðir gert hafa um
heitorðið mitt er eg var ekki að frétt áður."



Þórður segir: "Það kaup skal ekki framar en þú vilt
samþykkja."



"Þess var mér von að þér. Vil eg og þinni forsjá hlíta hér
um."



Þórður bað hana hafa þökk fyrir andsvörin. Síðan fékk hann
henni skikkjuna og sagði henni um viðskipti þeirra Jóns og
Auðólfs og kvað vísu:



Tvo lét eg Fáfnis fitjar

falla þar til jarðar

ýta, Leifnis lautar

lind fagrvita, kindar.

Áðr vildu þeir, öldu,

eitrþvengs bana veita,

brands, með benja vöndum

brúðr, mærar við, kærust.


"Slíks var að von," segir hún.



Hér eftir situr Þórður heima um kyrrt og var Eiður jafnan með
honum.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.