Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Háv ch. 4

Hávarðar saga Ísfirðings 4 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Háv ch. 4)

Anonymous íslendingaþættirHávarðar saga Ísfirðings
345

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þorbjörn Þjóðreksson reið hvert sumar til þings með menn
sína. Var hann höfðingi mikill, ættstór og frændmargur.



Í þann tíma bjó Gestur Oddleifsson í Haga á Barðaströnd. Var
hann spekingur mikill, vitur og vinsæll og manna framsýnastur
og hafði margt mannaforráð.



Þetta hið sama sumar er þeir feðgar færðu bústað sinn reið
Þorbjörn til þings og hóf bónorð sitt og bað systur Gests
Oddleifssonar. Gestur tók þessu máli seinlega og sagði sér
lítið um Þorbjörn fyrir ójöfnuð hans og ofbeldi. En með því
að margir voru veitendur að málinu með Þorbirni þá gerði
Gestur kost á að þessi ráð skyldu takast ef Þorbjörn héti
honum því með handtaki að láta af ójöfnuði og rangindum,
bjóða hverjum manni það er á og halda lög og rétt. En ef hann
vildi ekki ganga að þessu þá skyldi Gestur brigða bónorðið og
gera skilnað þeirra. Þessu játar Þorbjörn og kaupa að svo
mæltu. Þá reið Þorbjörn með Gesti af þinginu heim á
Barðaströnd og tókust þar þessi ráð um sumarið. Var þar hin
besta veisla.



Og er þessi tíðindi spurðust til Ísafjarðar þá tekur Sigríður
það ráð og Þórálfur frændi hennar að kveðja til bændur og
láta virða Sigríði allt sitt fé af Laugabóli. Fór hún til
Þórálfs á Lónseyri. Og er Þorbjörn kom heim á Laugaból varð
hann stórlega reiður er Sigríður var í brott, hét þeim
afarkostum og reiði bændunum er þeir höfðu virt féið, gerist
þá þegar hinn harðasti og þóttist nú enn vaxið hafa af þessum
mægðum.



Fé Hávarðar bónda var mjög óspakt um sumarið og einn morgun
snemma kom smalamaður heim og spurði Ólafur hversu að færi.



"Svo fer að," segir hann, "að vantar fjölda fjár. Get eg eigi
hvorttveggja gert að leita þess er vantar enda gæta hins er
fundið er."



Ólafur svarar: "Vertu kátur félagi. Geym þess er fundið er en
eg skal leita þess er vantar."



Hann gerist þá hinn efnilegasti maður og manna fríðastur
sýnum, mikill og sterkur. Hann var þá átján vetra gamall.



Hann tekur nú öxi í hönd sér, gengur síðan út með firðinum
allt þar til er hann kemur á Lónseyri. Hann sér hvar féið er
allt komið þar sem það hafði verið flutt. Ólafur snýr þá til
bæjarins. Var það snemma morguns. Hann barði á dyrnar. Þá
gekk Sigríður til duranna og fagnaði vel Ólafi. Hann tók vel
kveðju hennar.



Og sem þau höfðu nokkura stund skrafað þá mælti Sigríður:
"Skip fer þar handan yfir fjörðinn og sé eg gerla að þar er
Þorbjörn Þjóðreksson og Vakur frændi hans. Eg sé að vopn
þeirra liggja í stafni fram. Þar er og Gunnlogi, sverðið
Þorbjarnar, og er annaðhvort að hann hefir illt gert eða
ætlar hann og vil eg Ólafur að þú finnir ekki Þorbjörn. Hefir
lengi fátt verið með ykkur en þó ætla eg að nú hafi ekki um
batnað er þér virtuð mér féið á Laugabóli."



Ólafur svarar: "Ekki óttast eg Þorbjörn á meðan eg hefi ekki
gert til saka við hann. Mun eg og skammt renna fyrir honum
einum."



Hún svarar: "Þetta er hraustlega mælt að þú átján vetra
mundir eigi undan leita þeim manni er jafnvígur er hverjum
manni. Hann hefir og það sverð er hvergi nemur í höggi stað.
Ætla eg og það ef þeir vilja þig finna, sem mér segir hugur
um að sé, að Vakur, illmennið, muni eigi sitja hjá ef þið
berjist."



Ólafur svarar: "Eg á ekki erindi við Þorbjörn. Mun eg ekki
finna þá en ef vér finnumst skaltu nokkuð hraustlegt eiga til
að spyrja ef þess þarf."



Sigríður svarar og kveðst ekki mundu að spyrja. Ólafur spratt
upp skjótt og bað hana vel lifa en hún bað hann vel fara.



Hann gekk þá ofan á eyrina því að þar lá féið. Þeir Þorbjörn
voru þá að landi komnir þar gegnt. Gekk hann þá ofan að
skipinu og tók í móti og kippti upp undir þeim á eyrina.
Þorbjörn fagnaði þá vel Ólafi. Tók Ólafur kveðju hans og
spurði hvert hann ætlaði.



Hann kveðst ætla að finna systur sína Þórdísi "og munum vér
fara allir saman."



Ólafur svarar: "Ekki er það samfært af því að eg verð að reka
heim fé mitt. Væri það sanntalað að þá stækkist sauðrekarnir
um Ísafjörð ef þú lægðir þig svo."



"Ekki fer eg að því," segir Þorbjörn.



Var viðarbulungur mikill á eyrinni og þar á ofan lá forkur
einn mikill og var brotið af endanum. Ólafur tók upp forkinn
og hafði í hendi sér, stökkur nú fénu fyrir sér. Ganga þeir
allir saman. Talar Þorbjörn við Ólaf og var hinn kátasti.
Hann fann að þeir vildu jafnan ganga síðar en hann sá við því
og fóru jafnan fram allir og allt fram fyrir hólinn. Skildust
þar vegirnir.



Þorbjörn snerist þá við og mælti: "Vakur frændi, ekki þarf að
seinka því er ætlað er."



Ólafur sér þá hvað þeir ætla. Snýr hann þá upp í brekkuna en
þeir sækja að neðan. Ólafur verst með forkinum en Þorbjörn
höggur hart og tíðum með sverðinu Gunnloga og skýfði svo
forkinn sem hvannir. Fengu þeir þó stór högg af forkinum
meðan til vannst. Og er hann var sundur sniðinn tók Ólafur
öxi sína og varðist þá svo vel að þeim þótti ósýnt hversu
fara mundi með þeim. Urðu þeir og allir sárir.



Þórdís systir Þorbjarnar gekk út þann morgun er þeir börðust
og heyrði til en mátti ekki sjá. Hún sendi skósvein sinn að
forvitnast til. Hann gerði svo og sagði Þórdísi að þeir
berðust Þorbjörn bróðir hennar, Vakur sonur hennar og Ólafur
Hávarðsson. Hún snýr þá inn og fann Skarf son sinn og segir
honum þessi tíðindi og bað hann til fara og veita frændum
sínum.



Hann mælti: "Eg em ráðinn að berjast með Ólafi og í mót þeim.
Þykir mér og skömm að þrír gangi að einum manni með því að
þeirra er eigi óvænna en fjögurra annarra. Mun eg hvergi
fara."



Þórdís svarar: "Það ætlaði eg að eg mundi eiga tvo sonu vel
hugaða. Er það satt að mælt er að margt leynist lengi. Nú
veit eg að þú ert dóttir heldur en sonur er þú þorir eigi að
verja frændur þína. Skal nú og raun til gera að eg er vaskari
dóttir en þú sonur."



Hún gekk þá brott en hann reiddist ákaflega og spratt upp og
þreif öxi sína. Hann hljóp út og ofan fyrir brekkuna og þar
til er þeir börðust. Þorbjörn sá hann og sótti í ákafa en
Ólafur sá hann ekki. Og þegar er Skarfur kemur í höggfæri við
Ólaf þá hjó hann tveim höndum milli herða honum svo að þegar
stóð á kafi. Ólafur hafði ætlað að höggva til Þorbjarnar. Og
er Ólafur fékk höggið snarast hann við. Skarfi varð laus öxin
en Ólafur hafði reidda öxina og hjó hann í höfuð Skarfi svo
að þegar stóð í heilanum. Og í því var Þorbjörn upp kominn
hjá þeim og hjó í fang Ólafi. Var það og nóg banasár og falla
þeir báðir. Þorbjörn gekk þá að Ólaf og höggur um þvert
andlitið svo að úr stukku tennurnar og jaxlarnir.



Vakur spurði: "Hví gerir þú þetta við dauðan mann?"



Hann kvað enn það mundu koma til nokkurs. Þorbjörn tók þá
skauta einn og knýtti þar í tennurnar og varðveitti. Eftir
það gengu þeir upp til bæjarins og sögðu Þórdísi tíðindin.
Voru þeir báðir stórmjög sárir. Hún varð nú stórlega hrygg
við þessa sögu og harmaði er hún hafði eggjað son sinn svo
mjög, veitti þeim nú þó beina og hjúkun.



Spyrjast nú þessi tíðindi um allan Ísafjörð og þótti öllum
hinn mesti skaði að Ólafi með þeirri vörn er menn heyrðu hann
haft hafa. Fór Þorbirni og vel að hann sagði jafnt frá sem
farið hafði og bar vel Ólafi söguna. Þeir fóru heim þegar er
þeir þóttust mega og mæði rann af þeim.



Þorbjörn kom á Lónseyri og spurði að Sigríði. Honum var sagt
að hún hefði ekki fundist síðan hún gekk í brott með Ólafi um
morguninn hinn. Var hennar þar víða leitað og er svo sagt að
aldrei fannst hún síðan. Fór Þorbjörn þá heim og settist um
kyrrt í búi sínu.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.