Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Gunnl ch. 12

Gunnlaugs saga ormstungu 12 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Gunnl ch. 12)

Anonymous íslendingasögurGunnlaugs saga ormstungu
111213

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Nú er að segja frá Hrafni að hann bjó skip sitt í
Leiruvogum. Tveir menn eru þeir nefndir er fóru með Hrafni,
systursynir Önundar föður hans. Hét annar Grímur en annar
Ólafur og voru báðir gildir menn. Öllum frændum Hrafns þótti
mikill svipur er hann fór í brott en hann sagði svo, kvaðst
því Gunnlaug á hólm skorað hafa að hann kvaðst öngvar nytjar
hafa Helgu og kvað annan hvorn verða að hníga fyrir öðrum.



Síðan sigldi Hrafn í haf er þeim gaf byr og komu skipi sínu í
Þrándheim og var þar of veturinn og frétti ekki til
Gunnlaugs á þeim vetri og þar beið hann Gunnlaugs um sumarið.
Og enn annan vetur var hann í Þrándheimi þar sem heitir í
Lifangri.



Gunnlaugur ormstunga réðst til skips með Hallfreði
vandræðaskáldi norður á Sléttu og urðu þeir síðbúnir mjög og
sigldu þeir í haf þegar byr gaf og komu við Orkneyjar litlu
fyrir vetur.



Sigurður jarl Hlöðvisson réð þá fyrir eyjunum og fór
Gunnlaugur til hans og var þar um veturinn og virti jarl hann
vel. Og um vorið bjóst jarl í hernað. Gunnlaugur bjóst til
ferðar með honum og herjuðu um sumarið víða um Suðureyjar og
Skotlandsfjörðu og áttu margar orustur og reyndist Gunnlaugur
hinn hraustasti og hinn vaskasti drengur og hinn harðasti
karlmaður hvar sem þeir komu. Sigurður jarl snerist
snemmendis sumars aftur en Gunnlaugur sté þá á skip með
kaupmönnum þeim er sigldu til Noregs og skildu þeir Sigurður
jarl með mikilli vináttu.



Gunnlaugur fór norður til Þrándheims á Hlaðir á fund Eiríks
jarls og var þar öndverðan vetur og tók jarl vel við honum og
bauð honum með sér að vera og það þekktist hann. Frétt hafði
jarl áður viðskipti þeirra Hrafns svo sem var og segir
Gunnlaugi að hann lagði bann fyrir að þeir berðust þar í hans
ríki. Gunnlaugur kvað hann slíku ráða mundu og var
Gunnlaugur þar um veturinn og jafnan fálátur.



Og um vorið einn dag gekk Gunnlaugur úti og Þorkell frændi
hans með honum. Þeir gengu í brott frá bænum og á völlum
fyrir þeim var mannhringur. Og í hringinum innan voru tveir
menn með vopnum og skylmdust. Var þar annar nefndur Hrafn en
annar Gunnlaugur. Þeir mæltu er hjá stóðu að Íslendingar
hyggi smátt og væru seinir til að muna orð sín. Gunnlaugur
fann að hér fylgdi mikið háð og hér var mikið spott að dregið
og gekk Gunnlaugur í brott þegjandi.



Og litlu síðar eftir þetta segir hann jarli að hann kveðst
eigi lengur nenna að þola háð og spott hirðmanna hans um mál
þeirra Hrafns og beiddi jarl fá sér leiðtoga inn í Lifangur.
Jarli var sagt áður að Hrafn var í brottu úr Lifangri og
farinn austur til Svíþjóðar og því gaf hann Gunnlaugi orlof
að fara og fékk honum leiðtoga tvo til ferðarinnar.



Nú fer Gunnlaugur af Hlöðum við sjöunda mann inn í Lifangur
og þann mogun hafði Hrafn farið þaðan með fimmta mann er
Gunnlaugur kom þar um kveldið. Þaðan fór Gunnlaugur í Veradal
og kom þar að kveldi jafnan sem Hrafn hafði áður verið um
nóttina. Gunnlaugur fer til þess er hann kom á efsta bæ í
dalnum er á Súlu hét og hafði Hrafn þaðan farið um moguninn.
Gunnlaugur dvaldi þá ekki ferðina og fór þegar um nóttina. Og
um morguninn í sólarroð þá sáu hvorir aðra. Hrafn var þar
kominn sem voru vötn tvö og á meðal vatnanna voru vellir
sléttir. Það heita Gleipnisvellir. En fram í vatnið annað gekk
nes lítið er heitir Dinganes. Þar námu þeir Hrafn við í
nesinu og voru fimm saman. Þeir voru þar með Hrafni frændur
hans, Grímur og Ólafur.



Og er þeir mættust þá mælti Gunnlaugur: "Það er nú vel er við
höfum fundist."



Hrafn kvaðst það ekki lasta mundu "og er nú kostur hvor er þú
vilt," segir Hrafn, "að vér berjumst allir eða við tveir og
séu jafnmargir hvorir."



Gunnlaugi kveðst vel líka hvort að heldur er. Þá mæltu þeir
frændur Hrafns, Grímur og Ólafur, kváðust eigi vilja standa
hjá er þeir berðust. Svo mælti og Þorkell svarti frændi
Gunnlaugs.



Þá mælti Gunnlaugur við leiðtogana jarls: "Þið skuluð sitja
hjá og veita hvorigum og vera til frásagnar um fund vorn."



Og svo gerðu þeir.



Síðan gengust þeir að, börðust fræknlega allir. Þeir Grímur
og Ólafur gengu báðir í mót Gunnlaugi einum og lauk svo
þeirra viðskipti að hann drap þá báða en hann varð ekki sár.



Þetta sannar Þórður Kolbeinsson í kvæði því er hann orti um
Gunnlaug ormstungu:



Hlóð, áðr Hrafni næði,

hugreifum Óleifi

Göndlar þeys og Grími

Gunnlaugr með hjör þungum.

Hann varð hvatra manna

hugmóðr drifinn blóði,

Ullr réð ýta falli

unnviggs, bani þriggja.


Þeir Hrafn sóttust meðan og Þorkell svarti frændi Gunnlaugs
og féll Þorkell fyrir Hrafni og lét líf sitt. Og allir féllu
förunautar þeirra að lyktum. Og þá börðust þeir tveir með
stórum höggum og öruggum atgangi er hvor veitti öðrum og
sóttust einart í ákafa. Gunnlaugur hafði þá sverðið
Aðalráðsnaut og var það hið besta vopn. Gunnlaugur hjó þá um
síðir til Hrafns mikið högg með sverðinu og undan Hrafni
fótinn. Hrafn féll þó eigi að heldur og hnekkti þá að stofni
einum og studdi þar á stúfinum.



Þá mælti Gunnlaugur: "Nú ertu óvígur," segir hann, "og vil eg
eigi lengur berjast við þig örkumlaðan mann."



Hrafn svaraði: "Svo er það," segir hann, "að mjög hefir á
leikist minn hluta en þó mundi mér enn vel duga ef eg fengi
að drekka nokkuð."



Gunnlaugur svarar: "Svík mig þá ei," segir hann, "ef eg færi
þér vatn í hjálmi mínum."



Hrafn svarar: "Ei mun eg svíkja þig," segir hann.



Síðan gekk Gunnlaugur til lækjar eins og sótti í hjálminum og
færði Hrafni. En hann seildist í mót hinni vinstri hendinni
en hjó í höfuð Gunnlaugi með sverðinu hinni hægri hendi og
varð það allmikið sár.



Þá mælti Gunnlaugur: "Illa sveikstu mig nú og ódrengilega fór
þér þar sem eg trúði þér."



Hrafn svarar: "Satt er það," segir hann, "en það gekk mér til
þess að eg ann þér eigi faðmlagsins Helgu hinnar fögru."



Og þá börðust þeir enn í ákafa en svo lauk að lyktum að
Gunnlaugur bar af Hrafni og lét Hrafn þar líf sitt. Þá gengu
fram leiðtogar jarls og bundu höfuðsárið Gunnlaugs.



Hann sat þá meðan og kvað þá vísu þessa:



Oss gekk mætr á móti

mótrunnr í dyn spjóta

hríðgjörvandi hjörva

Hrafn framlega jafnan.

Hér varð mörg í morgun

málmflaug um Gunnlaugi,

hergerðandi á Hörða

hringþollr, nesi Dinga.


Síðan bjuggu þeir um dauða menn og færðu Gunnlaug á hest sinn
eftir það og komust með hann allt ofan í Lifangur. Og þar lá
hann þrjár nætur og fékk alla þjónustu af presti og andaðist
síðan og var þar jarðaður að kirkju.



Öllum þótti mikill skaði að um hvorntveggja þeirra, Gunnlaug
og Hrafn, með þeim atburðum sem varð um líflát þeirra.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.