Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Gr ch. 59

Grettis saga Ásmundarsonar 59 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Gr ch. 59)

Anonymous íslendingasögurGrettis saga Ásmundarsonar
585960

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Maður hét Gísli. Hann var sonur Þorsteins sem Snorri goði lét
drepa. Gísli var mikill maður og sterkur og afburðarmaður í
vopnum og klæðum og gerði um sig mikið og nokkuð sjálfhælinn.
Hann var siglingamaður og kom það sumar út í Hvítá er Grettir
hafði einn vetur verið í fjallinu. Þórður Kolbeinsson reið
til skips. Gísli fagnaði honum vel og bauð honum varning sinn
sem hann vildi. Þórður þá það og tóku þeir tal með sér.



Gísli mælti: "Er það satt sem mér er sagt að þér verður
ráðfátt að koma í burt skógarmanni þeim er yður gerir margt
mein?"



Þórður sagði: "Ekki höfum vér til reynt en mörgum líst hann
torsóttlegur vera og hefir að því mörgum orðið."



"Von þykir mér að yður veiti þungt við Björn er þér rekið
eigi þenna af yður. Er því verr að eg mun of fjarri í vetur
að eg mætti bæta að þessu ráði."



"Spyrja mun þér best þykja við hann að eiga."



"Eigi þarftu að segja mér frá Gretti," sagði Gísli. "Reynt
hefi eg brattara þá er eg var í herförum með Knúti konungi
hinum ríka og fyrir vestan haf og þótti eg verja mitt rúm. Og
kæmi eg í færi við hann þá treysti eg mér og vopnum mínum."



Þórður svarar, kvað hann eigi til einskis vinna skyldu ef
hann réði Gretti af "er og meira fé lagt til höfuðs honum en
nokkrum öðrum skógarmanni og voru áður sex merkur silfurs en
í sumar lagði til Þórir úr Garði þrjár merkur og ætla menn að
sá muni nóg til vinna er hlýtur."



"Allt verður til fjárins unnið," sagði Gísli, "og er oss eigi
síst kaupmönnum. En nú skulum við hljótt fara með þessu tali.
Kann vera að hann sé varari um sig," sagði hann, "þegar hann
veit að eg er í ráðum með þér og yður. Eg ætla að vera í
vetur út á Ölduhrygg eða er nokkuð bæli hans á veginum? Mun
hann eigi við þessu sjá. Skal eg ekki fjölmenni draga að
honum."



Þórði líkaði vel þessi ráðagerð. Reið hann heim síðan og lét
kyrrt um þetta.



Hér fór sem mælt er að oft er í holti heyrandi nær. Þeir menn
höfðu verið hjá viðurtali þeirra Gísla sem voru vinir Bjarnar
í Hítardal og sögðu honum innilega frá. En er þeir Grettir
fundust gat Björn um fyrir honum, sagði nú reyna mundu hversu
hann stæði á móti.



"Væri eigi ógaman," segir Björn, "þó að þú hrektir fyrir
honum en drepir hann eigi ef þú mátt annað."



Grettir glotti við og gaf sér fátt um.



Nær réttum um haustið fór Grettir ofan í Flysjuhverfi og
sótti sér sauði. Hann gat náð fjórum geldingum. Bændur urðu
varir við ferð hans og fóru eftir honum. Það var mjög
jafnsnemma að hann komst undir hlíðina og hinir komust að og
vildu elta frá honum en ekki báru þeir vopn á hann. Þeir voru
sex saman og flæktust á veginn fyrir hann. Honum gerði hermt
við sauðina og þreif tvo og kastaði forbrekkis svo þeir lágu
í óviti. Og er hinir sáu það gengu þeir að ódjarflega.
Grettir tók sauðina og krækti saman á hornunum og kastaði um
sína öxl sínum tveimur, gekk síðan upp í bæli sitt. Bændur
hurfu aftur og þóttust illt hafa af fengið og undu þeir nú
verr en áður sínum hlut.



Gísli sat við skip um haustið þar til er því var til hlunns
ráðið. Bar honum margt til dvala og var af því síðbúinn og
reið litlu fyrir veturnætur. Fór hann þá sunnan og gisti
undir Hrauni fyrir sunnan Hítará.



Um morguninn áður Gísli reið þaðan talaði hann til
fylgdarmanna sinna: "Nú skulum vér ríða í litklæðum í dag og
látum skógarmanninn það sjá að vér erum eigi sem aðrir
förumenn er hér rekast daglega."



Þeir voru þrír saman og gerðu svo. Og er þeir komu út yfir
ána þá talaði hann enn til: "Hér er mér sagt til
skógarmannsins upp í tindunum þessum og ekki er hér
greiðgengt. Eða mun honum eigi vel líka að finna oss og sjá
þing vor?"



Þeir kveða hann jafnan vanan þess.



Þenna morgun hafði Grettir snemma upp staðið í bæli sínu.
Veður var kalt og frjósanda og fallinn að snjór og þó lítill.
Hann sá að þrír menn riðu sunnan yfir Hítará og skein á
skrúðklæðin og smelta skjölduna. Gretti kom nú í hug hverjir
vera mundu og þykist munu þurfa að fá sér eitthvert plagg af
þessum. Var honum forvitni á að finna þá er svo mikið
gömbruðu, tekur nú vopn sín og hleypur nú ofan í skriðuna.



Og er Gísli heyrði til að grjótið sarglaði mælti hann svo:
"Maður fer þar ofan úr hlíðinni og heldur mikill og sá vill
oss finna. Verðum nú við rösklega því að hér ber veiði í
hendur."



Fylgdarmenn hans sögðu þenna eigi mundu hlaupa í hendur þeim
ef hann treysti sér eigi "og er vel að sá hafi brek er
beiðist."



Eftir það hlaupa þeir af baki.



Grettir kom að í því og tók til klæðsekks er Gísli hafði
fyrir aftan sig við söðul sinn og mælti: "Þetta mun eg hafa.
Eg lýt oft að litlu."



Gísli svarar: "Eigi skal það vera eða veist þú eigi við hvern
er þú átt um."



Grettir svarar: "Eigi er mér það svo glöggt um. Mun eg og
ekki að þessu mannamun gera síðan eg mæli til svo lítils."



"Vera má að þér þyki lítið," segir hann, "en heldur vil eg
láta þrjá tigu hundraða. En ofarlega mun liggja ójafnaður í
þér og sækjum að honum piltar og sjáum hvað hann má."



Þeir gerðu svo. Grettir lét hefjast fyrir og veik að steini
þeim er þar stendur við götuna og Grettishaf er kallað og
varðist þaðan. Gísli eggjaði fast fylgdarmenn sína. Grettir
sá nú að hann var ekki slíkur fullhugi sem hann lést því að
hann stóð jafnan á baki mönnum sínum. Gretti leiddist nú
þófið og sveipaði til saxinu og hjó annan fylgdarmann Gísla
banahögg og hljóp nú frá steininum og sótti svo fast að Gísli
hrökk fyrir allt út með fjallinu. Þá féll annar förunautur
Gísla.



Grettir mælti þá: "Það sér lítt á að þú hefir víða vel fram
gengið og illa skilst þú við þína félaga."



Gísli svarar: "Sá er eldurinn heitastur er á sjálfum liggur
og er illt að fást við heljarmanninn."



Skiptust þeir þá fám höggum við áður en Gísli kastaði
vopnunum og hefir á rás undan út með fjallinu. Grettir gefur
honum tóm til að kasta því sem honum líkar og í hvert sinn er
Gísli sér ráðrúm til kastaði hann einhverju klæði. Fór
Grettir aldrei harðara eftir en sund var í milli þeirra. Allt
hljóp Gísli út yfir fjallið og svo um þveran Kaldárdal og svo
um Áslaugarhlíð og fyrir ofan Kolbeinsstaði og svo út í
Borgarhraun. Þá var Gísli í línklæðum einum og gerðist nú
ákaflega móður. Grettir fór eftir og var jafnan í hendingu
með þeim. Hann reif þá upp hríslu mikla. En Gísli létti eigi
fyrr en hann kom út að Haffjarðará. Hún var gengin upp og ill
yfirferðar. Gísli ætlaði þegar út á ána. Grettir snaraði þá
eftir honum og greip hann og kenndi þá aflsmunar.



Rak Grettir hann þá niður undir sig og mælti: "Ertu Gísli sá
er finna vildir Gretti Ásmundarson?"



Gísli svarar: "Eg hefi nú fundið hann en eigi veit eg hversu
við skiljumst og haf nú það sem þú hefir fengið en lát mig
fara lausan."



Grettir mælti: "Ekki mun þér skiljast það sem eg segi þér og
verð eg nú að gera þér áminning" rekur síðan skyrtuna fram
yfir höfuð honum og lætur ganga límann um bak honum og báðar
síðurnar. En Gísla fýsti jafnan að snúa sér undir. Afhýðir
Grettir hann með öllu og lét hann síðan lausan. Hugsaði Gísli
það að fyrr vildi hann ekki læra af Gretti en hafa slíka
flenging aðra. Vann hann og aldrei oftar til slíkrar
húðstroku.



En þegar Gísli kom fótum undir sig hljóp hann út á hyl einn
mikinn og svimaði þar yfir ána og kom um nóttina á þann bæ er
í Hrossholti heitir og var þá mjög þrekaður. Þar lá hann viku
og hljóp blástur í búkinn. Eftir það fór hann til vistar
sinnar.



Grettir sneri aftur og tók upp þing hans sem Gísli hafði
niður kastað og færði heim til sín og fékk Gísli ekki af þeim
síðan.



Mörgum þótti þetta maklega gert við Gísla fyrir umfang sitt
og raup er hann hafði af sér gert.



Grettir kvað þetta um sameign þeirra:



Rennr, sá er rispar tönnum

raunlítt er skal bítast,

marr, né mæðist fyrri,

mest fyr öðrum hesti.

En fyr mér um Mýrar

margnenninn dag þenna,

fremd er hann firrðr og sæmdum,

físandi rann Gísli.


Eftir um vorið bjóst Gísli til skips og bauð á því mestan
varnað að nokkur hlutur færi suður með fjalli, það sem hann
ætti, kvað þar sjálfan fjandann fyrir vera. Gísli reið suður
með sjó alla leið til skips og fundust þeir Grettir aldrei
síðan og þótti öngvum til hans koma upp frá því og er hann úr
sögunni.



Enn versnaði með þeim Þórði Kolbeinssyni og Gretti. Setti
Þórður nú mörg ráð til að Grettir yrði á burt komið eða
drepinn ella.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.