Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Gr ch. 45

Grettis saga Ásmundarsonar 45 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Gr ch. 45)

Anonymous íslendingasögurGrettis saga Ásmundarsonar
444546

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Sá maður var með Þorbirni öxnamegin er Áli hét. Hann var
húskarl og heldur ógæfur og vinnulítill. Þorbjörn bað hann
starfa betur ella kveðst hann mundu lemja hann. Áli kvað þess
öngan fýst hafa og var hinn kífnasti í móti. Þorbjörn þoldi
honum eigi og rak hann niður undir sig og fór með hann illa.



Eftir það fór Áli brott úr vistinni og fór norður yfir háls
til Miðfjarðar. Létti eigi fyrr en hann kom til Bjargs. Atli
var heima og spurði hvert hann skyldi fara. Hann kvaðst leita
sér vistar.



"Ertu eigi vinnumaður Þorbjarnar?" kvað Atli.



"Ei fór það svo keypilega með okkur," segir Áli. "Eg var þar
ekki lengi en mér þótti illt meðan eg var. Skildum við svo að
mér þótti hann ekki vel syngja að kverkum mér og mun eg
þangað aldrei fara til vistar hvað sem annað verður af mér.
Er það og satt að mikill munur er hvorum ykkar verður betur
til hjóna sinna. Vildi eg gjarna nú vinna hjá þér ef þess
væri kostur."



Atli svarar: "Nóga hefi eg vinnumenn þó að ekki seilist eg í
hendur Þorbirni til þeirra manna er hann hefir ráðið en mér
þykir þú þollaus og far aftur til hans."



Áli mælti: "Þar kem eg eigi ónauðigur."



Nú dvaldist Áli þar um stund. Einn morgun fór hann til verks
með þeim húskörlum Atla og vann svo að hvaðanæva voru á honum
hendurnar. Lét Áli svo ganga fram á sumarið. Atli lagði ekki
til hans en lét þó gefa honum mat því að honum líkaði
starfinn vel.



Þorbjörn fréttir nú að Áli er á Bjargi. Hann reið þá til
Bjargs við þriðja mann og kallaði Atla til tals við sig. Atli
gekk út og heilsaði þeim.



Þorbjörn mælti: "Enn viltu endurnýja við mig Atli um mótgang
og áleitni. Eða því hefir þú tekið vinnumann minn og er slíkt
óskilríkilega gert?"



Atli svarar: "Ekki er mér það sýnt að hann sé þinn
vinnumaður. En ekki vil eg á honum halda ef þú sýnir skilríki
til að hann sé þitt hjón. En ekki nenni eg draga hann úr
húsum út."



"Þú munt ráða að sinni," sagði Þorbjörn, "en kref eg mannsins
og fyrirbýð eg vinnu hans. En koma mun eg annað sinn og er
eigi víst að við skiljumst þá betri vinir en nú."



Atli svarar: "Heima mun eg bíða og taka við því sem að höndum
kemur."



Síðan reið Þorbjörn heim. En er verkmenn komu heim um kveldið
segir Atli þá viðurtal þeirra Þorbjarnar og bað Ála fara leið
sína og sagðist ekki vildu dvelja vist hans.



Áli svarar: "Satt er hið fornkveðna, ofleyfingarnir bregðast
mér mest. Og ætlaði eg það eigi að þú mundir nú reka mig á
brottu þar sem eg hefi unnið hér til sprengs í sumar og vonað
til þess að þú mundir mér nokkura forstöðu veita en þann veg
farið þér þó að þér látið allgóðvættlega. Nú skal mig hér
lemja fyrir augum þér ef þú vilt mér öngva forstöðu veita eða
hjálp."



Atla gekkst hugur við um tal hans og nennti nú eigi að reka
hann á brottu frá sér. Leið nú þar til er menn tóku til
sláttar.



Það var einn dag nokkuru fyrir miðsumar að Þorbjörn öxnamegin
reið til Bjargs. Hann var svo búinn að hann hafði hjálm á
höfði og gyrður við sverð og spjót í hendi. Það var
fjaðraspjót og breið mjög fjöðurin. Væta var úti um daginn.
Atli hafði sent húskarla sína til sláttar en menn hans sumir
voru norður við Horn til afla. Atli var heima og fáir menn
aðrir.



Þorbjörn kom þar nær hádegi um daginn. Hann var einn í ferð
og reið að útidyrum. Aftur var hurð en öngvir menn úti.
Þorbjörn drap á dyr og fór síðan á bak húsum svo að mátti
ekki sjá hann frá dyrunum heiman. Menn heyrðu að barið var og
gekk út kona ein. Þorbjörn hafði svip af konunni og lét ekki
sjá sig því að hann ætlaði annað að vinna. Hún kom í stofu.
Atli spurði hvað komið var. Hún kvaðst ekki hafa séð komið
úti. Og er þau töluðu þetta þá laust Þorbjörn mikið högg á
dyrnar.



Þá mælti Atli: "Mig vill sjá finna og mun hann eiga erindið
við mig hversu þarft sem er."



Gekk hann þá fram og út í dyrnar. Hann sá öngvan úti. Væta
var úti mikil og því gekk hann eigi út og hélt sinni hendi í
hvorn dyrastafinn og litast svo um.



Í því bili snaraði Þorbjörn fram fyrir dyrnar og lagði tveim
höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo stóð í gegnum
hann.



Atli mælti við er hann fékk lagið: "Þau tíðkast hin breiðu
spjótin," segir hann.



Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu fram konur er í
stofunni höfðu verið. Þær sáu að Atli var dauður. Þá var
Þorbjörn á bak kominn og lýsti víginu á hendur sér og reið
heim eftir það.



Ásdís húsfreyja sendir eftir mönnum og var búið um lík Atla
og var hann jarðaður hjá föður sínum.



Hann var mjög harmdauður því hann hafði verið bæði vitur og
vinsæll. Engi komu fram fégjöld fyrir víg Atla enda beiddist
engi bóta því að Grettir átti eftirmálið ef hann kæmi út.
Stóðu þessi mál kyrr um sumarið. Varð Þorbjörn lítt þokkaður
af þessu verki og sat þó um kyrrt í búi sínu.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.