Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Gr ch. 19

Grettis saga Ásmundarsonar 19 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Gr ch. 19)

Anonymous íslendingasögurGrettis saga Ásmundarsonar
181920

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þetta sumar hið næsta bjóst Eiríkur jarl Hákonarson úr landi
vestur til Englands á fund Knúts konungs hins ríka mágs síns
en hann setti eftir til ríkis í Noregi Hákon jarl son sinn og
fékk hann í hendur Sveini jarli bróður sínum til forsjá og
ríkisstjórnar því að Hákon var barn að aldri.



En áður Eiríkur jarl fór úr landi stefndi hann til sín lendum
mönnum og ríkum bóndum. Töluðu þeir mart um lög og
landsskipun því að Eiríkur jarl var stjórnsamur. Þótti mönnum
það mikill ósiður í landinu að úthlaupsmenn eða berserkir
skoruðu á hólm göfgum mönnum til fjár eða kvenna. Skyldu
hvorir ógildir falla sem féllu fyrir öðrum. Fengu margir af
þessu smán og fjármissu en sumir líftjón með öllu og því tók
Eiríkur jarl af allar hólmgöngur í Noregi. Hann gerði og
útlaga alla ránsmenn og berserki þá sem með óspektir fóru.
Var í þessari skipan og ráðagerð með jarli Þorfinnur Kársson
úr Háramarsey því að hann var vitur maður og kær vinur jarla.



Tveir bræður eru nefndir til að verstir voru. Hét annar Þórir
þömb en annar Ögmundur illi. Þeir voru háleyskir að ætt,
meiri og sterkari en aðrir menn. Þeir gengu berserksgang og
eirðu öngu þegar þeir reiddust. Þeir tóku á burt konur manna
og höfðu við hönd sér viku eða hálfan mánuð og færðu síðan
aftur þeim sem áttu. Þeir rændu hvar sem þeir koma eða gerðu
aðrar óspektir. Eiríkur jarl gerði þá útlæga fyrir endilangan
Noreg. Gekk Þorfinnur mest manna fyrir sekt þeirra. Þóttust
þeir honum eiga fullan fjandskap að gjalda. Síðan fór jarl úr
landi sem segir í sögu hans en Sveinn jarl hafði yfirvald í
Noregi og ríki.



Þorfinnur fór heim til bús síns og sat heima mjög til jóla
sem fyrr er sagt. Í móti jólum býst Þorfinnur að fara til bús
síns þangað sem hét í Slysfirði. Það er á meginlandi. Hafði
hann boðað þangað mörgum vinum sínum. Húsfreyja Þorfinns
mátti eigi fara með bónda því að dóttir þeirra frumvaxta lá
sjúk og voru þær báðar heima. Grettir var heima og húskarlar
átta. Þorfinnur fór nú við þrjá tigu frelsingja til
jólaveislunnar. Var þar hinn mesti mannfagnaður og gleði.



Nú kemur aðfangadagur jóla. Þá var veður bjart og kyrrt.
Grettir var lengstum úti um daginn og sá að skip fór suður og
norður með landi því að hver sótti til annars þangað sem
samdrykkjan var sett. Bóndadóttur var þá batnað svo að hún
gekk með móður sinni. Leið nú á daginn.



Þá sá Grettir að skip reri að eynni. Það var ekki mikið og
skarað skjöldum milli stafna. Skipið var steint fyrir ofan
sjá. Þeir reru knálega og stefndu að naustum Þorfinns. Og er
skipið kenndi niður hljópu þeir fyrir borð sem á voru.
Grettir hafði tölu á mönnum þessum að þeir voru tólf saman.
Ekki þótti honum þeir friðlega láta. Þeir tóku upp skip sitt
og báru af sjó. Eftir það hlupu þeir að naustinu. Þar stóð
inni karfinn Þorfinns sá hinn stóri. Hann settu aldrei færri
menn á sjó en þrír tigir en þeir tólf rykktu honum þegar fram
á fjörugrjótið. Síðan tóku þeir upp sitt skip og báru inn í
naustið.



Þá þóttist Grettir sjá að þeir mundu ætla að bjóða sér
sjálfir beina. Hann gekk þá til móts við þá og fagnaði þeim
vel og spyr hverjir þeir væru eða hversu formaður þeirra hét.



Sá svarar skjótt er til var mælt og kvaðst heita Þórir og
kallaður þömb, og bróðir hans Ögmundur og aðrir kompánar
þeirra.



"Vænti eg," segir Þórir, "að Þorfinnur húsbóndi yðvar hafi
heyrt vor getið eða hvort er hann heima?"



Grettir svarar: "Gæfumenn miklir munuð þér vera því að þér
hafið hér góða aðkomu ef þeir eru mennirnir sem eg ætla.
Bóndi er heiman farinn með alla heimamenn þá sem frjálsir eru
og ætlar eigi heim fyrr en að bak jólunum. Húsfreyja er heima
og bóndadóttir. Og ef eg þættist nokkurn mótgang eiga að
gjalda þá vildi eg þann veg að koma því að hér er hvetvetna
það er hafa þarf, bæði öl og annar fagnaður."



Þórir þagði meðan Grettir lét ganga töluna. Síðan mælti hann
til Ögmundar: "Fór nokkuð fjarri því sem eg gat til?" sagði
hann, "og væri mér það í hug að hefna Þorfinni er hann hefir
gert oss útlaga. Er þessi maður og góður af tíðindum. Þurfum
vér eigi að togast eftir orðum við hann."



"Orða sinna á hver ráð," sagði Grettir, "og gera skal eg yður
slíkan forbeina sem eg má og gangið heim með mér."



Þeir báðu hann hafa þökk fyrir, kváðust hans boði hlíta
mundu. En er þeir komu heim að bænum tók Grettir í hönd Þóri
og leidd hann til stofu. Grettir var þá málreifur mjög.
Húsfreyja var í stofunni og lét tjalda hana og búast um vel.
En er hún heyrði til Grettis nam hún staðar á gólfinu og
spurði hverjum Grettir fagnaði svo alvarlega.



Grettir svarar: "Það er ráð húsfreyja að taka vel við gestum.
Hér er kominn Þórir bóndi þömb og þeir tólf saman og ætla hér
að sitja um jólin. Er það allgott því að vér áttum heldur
fámennt áður."



Hún svarar: "Eigi tel eg þá með bóndum eða góðum mönnum því
að þeir eru hinir verstu ránsmenn og illvirkjar. Vildi eg
gjarna hafa gefið til mikinn hlut eigu minnar að þeir hefðu
hér eigi komið í þetta sinn. Launar þú og illa Þorfinni fyrir
það er hann tók þig af skipbroti félausan og hefir haldið þig
í vetur sem frjálsan mann."



Grettir svarar: "Réttar er nú fyrst að taka vosklæði af
gestunum en að ámæla mér. Þess mun lengi kostur."



Þórir mælti þá: "Ver eigi stygg húsfreyja. Enginn missir skal
þér í verða þó að bóndi sé eigi heima því að fá skal mann í
stað hans og svo dóttur þinni og öllum heimakonum."



"Slíkt er karlmannlega talað," segir Grettir, "mega þær þá
eigi yfir sinn hlut sjá."



Nú stukku fram konur allar og sló á þær óhug miklum og gráti.



Grettir mælti til berserkja: "Seljið mér það í hendur sem þér
viljið af leggja, vopn og vosklæði, því að eigi mun oss
fólkið stýrilátt meðan það er óhrætt."



Þórir kvaðst eigi hirða hvað konur nögguðu "en mikinn mun
eigum vér að gera þín eða annarra heimamanna. Líst mér sem
vér munum þig hafa að trúnaðarmanni."



"Sjáið þér fyrir því," sagði Grettir, "en eigi geri eg mér
alla menn jafna."



Síðan lögðu þeir af flest öll vopn.



Eftir það mælti Grettir: "Ráðlegt þykir mér að þér farið til
borðs og drekkið nokkuð því að yður mun þyrsta af róðri."



Þeir kváðust þess albúnir en sögðu sér ókunnigt til kjallara.
Grettir spurði hvort þeir vildu hlíta hans forsjá og umgangi.
Berserkir létust það gjarna vilja. Grettir fer til og sækir
öl og gefur þeim að drekka. Þeir voru mjög móðir og sulgu
stórum. Lætur hann óspart ölið, það er áfengast var til, og
gekk því lengi. Hann segir þeim og margar kátlegar sögur.
Varð af þessu öllu saman háreysti til þeirra að heyra. Eigi
fýsti heimamenn til þeirra að koma.



Þá mælti Þórir: "Eigi hefi eg þann mann fundið ókunnan er svo
vel vildi við oss gera sem þessi maður eða hver laun viltu af
oss félögum þiggja fyrir þína þjónustu?"



Grettir svarar: "Eigi ætla eg hér til launa fyrir að svo
gervu en ef vér erum þvílíkir vinir þá er þér farið á burt
sem nú horfist þá mun eg ráðast til lags með yður. En þó að
eg megi minna en einnhver yðvar þá mun eg eigi letja
stórræðanna."



Þeir urðu mjög glaðir við og vildu þegar binda félag sitt með
fastmælum.



Grettir kvað það eigi skyldu "því að það er satt sem mælt er
að öl er annar maður og skal eigi bráðabug að þessu gera
framar en áður hef eg sagt. Erum vér litlir skapdeildarmenn
hvorirtveggju."



Þeir sögðust eigi ætla þessu að bregða. Leið nú á kveldið svo
að mjög tók að myrkva. Þá sér Grettir að þeir gerast mæddir
nokkuð af drykknum.



Hann mælti þá: "Þykir yður eigi mál að fara til svefns?"



Þórir kvað svo vera skyldu "og skal efna það er eg hét
húsfreyju."



Grettir gekk fram og mælti hátt: "Gangið til sængur, konur,"
segir hann, "svo vill Þórir bóndi skipa."



Þær báðu honum ills á móti. Var hinn mesti úlfaþytur til
þeirra að heyra. Berserkir komu fram í þessu.



Grettir mælti: "Göngum vér út og mun eg sýna yður fatabúr
Þorfinns."



Þeir létu það leiðast. Komu þeir að útibúri ákaflega stóru.
Þar voru á útidyr og sterkur lás fyrir. Það var allsterkt
hús. Þar var hjá salerni mikið og sterkt og eitt skjaldþili
milli húsanna. Húsin stóðu hátt og var nokkurt rið upp að
ganga. Berserkir gerðust nú umfangsmiklir og stokuðu Gretti.
Hann fór undan í flæmingi og er þeim var minnst von hljóp
hann út úr húsinu og greip í hespuna og rekur aftur húsið og
setur lás fyrir. Þórir og hans félagar ætluðu fyrst að
svarfast mundi aftur hafa hurðin og gáfu sér ekki að. Þeir
höfðu ljós hjá sér því að Grettir hafði sýnt þeim marga gripi
þá er Þorfinnur átti. Litu þeir þar á um stund. Grettir
flýtir ferðinni heim að bænum og þegar hann kemur í dyrnar
kallar hann hátt og spyr hvar húsfreyja væri. Hún þagði því
að hún þorði eigi að svara.



Hann mælti: "Hér er næsta veiðarefni eða eru nokkur vopn þau
sem neyt eru?"



Hún svarar: "Eru vopnin en eigi veit eg til hvers þér koma."



"Tölum síðar um það," segir hann. "Dugi nú hver sem má. Eigi
mun síðar vænna."



Húsfreyja mælti: "Nú væri guð í garði ef nokkuð mætti um
bætast vorn hag. Yfir sæng Þorfinns hangir krókaspjótið stóra
er átt hefir Kár hinn gamli. Þar er og hjálmur og brynja og
saxið góða og munu eigi bila vopnin ef þér dugir hugurinn."



Grettir þrífur hjálminn og spjótið en gyrðir sig með saxinu
og gengur út skjótt. Húsfreyja kallar á húskarla og bað þá
fylgja svo góðum dreng. Þeir hlupu til vopna fjórir en aðrir
fjórir þorðu hvergi nær að koma.



Nú er að segja frá berserkjunum að þeim þótti Gretti dveljast
afturkoman. Grunar þá nú hvort eigi munu vera svik í. Hlaupa
þeir á hurðina og finna að hún var læst, treysta nú á
timburveggina svo brakar í hverju tré. Hér kemur um síðir að
þeir fá brotið skjaldþilið og komust svo fram í gangrúmið og
þar út á riðið. Kemur á þá berserksgangur og grenja sem
hundar.



Í því bili kom Grettir að. Hann tvíhenti spjótið á Þóri
miðjum er hann ætlaði ofan fyrir riðið svo þegar gekk í
gegnum hann. Fjöðurin var bæði löng og breið á spjótinu.
Ögmundur illi gekk næst Þóri og hratt honum á lagið svo allt
gekk upp að krókunum. Stóð þá spjótið út um herðarnar á Þóri
og svo framan í brjóstið að Ögmundi. Steyptust þeir báðir
dauðir af spjótinu.



Þá hljóp þar hver út af riðinu sem komið var. Grettir sótti
að sérhverjum, gerði ýmist að hann hjó með saxinu eða lagði
með spjótinu en þeir vörðust með trjám er lágu á vellinum og
öllu því er þeir fengu til. Var það hin mesta mannhætta að
fást við þá fyrir afls sakir þó að þeir hefðu eigi vopn.
Grettir drap þá tvo af Háleygjum þar í túninu. Húskarlar
fjórir komu þá út. Höfðu þeir ekki ásáttir á orðið hver vopn
að hvergi skyldi hafa, sóttu þá að þegar berserkirnir hörfuðu
undan en er þeir snerust á mót hrukku húskarlar upp undir
húsin.



Sex féllu þar víkingar og varð Grettir banamaður allra. Síðan
leituðu aðrir sex undan. Bárust þeir þá ofan að naustinu og
inn í naustið. Vörðust þeir þá með árum. Fékk Grettir þá stór
högg af þeim svo að við meiðingum var búið.



Húskarlar fóru þá heim og sögðu mikið af framgöngu sinni.
Húsfreyja bað þá vita hvað af Gretti yrði en það fékkst ekki
af þeim.



Tvo drap Grettir í naustinu en fjórir komust út hjá honum.
Fóru þá sinn veg hvorir tveir. Hann eltir þá sem nær honum
voru. Gerði nú myrkt af nótt. Þeir hlupu í kornhlöðu nokkura
á þeim bæ sem fyrr var nefndur er á Vindheimi hét. Þar áttust
þeir lengi við en um síðir drap Grettir báða. Var þá ákaflega
móður og stirður en mikið var af nótt. Veður gerði kalt mjög
með fjúki. Nennti hann þá ekki að leita víkinganna, þeirra
tveggja er þá voru eftir. Gekk hann nú heim til bæjar.



Húsfreyja lét kveikja ljós í hinum efstum loftum við gluggana
að hann hefði það til leiðarvísis. Var og svo að hann fat af
því heim er hann sá ljósið.



En er hann kom í dyrnar gekk húsfreyja að honum og bað hann
vera velkominn "og hefir þú," segir hún, "mikla frægð unnið
og leyst mig og hjú mín frá þeirri skemmd er vér hefðum
aldrei bót fengið nema þú hefðir borgið oss."



Grettir segir: "Eg þykist nú mjög hinn sami og í kveld er þér
töluðuð hraklegar við mig."



Húsfreyja mælti svo: "Vér vissum eigi að þú værir slíkur
afreksmaður sem nú höfum vér reynt. Skal þér allt sjálfboðið
innan bæjar það sem hæfir að veita en þér sæmd í að þiggja.
En mig varir að Þorfinnur launi þér þó betur er hann kemur
heim."



Grettir svarar: "Lítils mun nú við þurfa fyrst um launin en
þiggja mun eg boð þitt þar til er bóndi kemur heim. En þess
væntir mig að þér megið sofa í náðum fyrir berserkjunum."



Grettir drakk lítið um kveldið og lá með vopnum sínum um
nóttina. Um morguninn þegar lýsa tók var mönnum saman stefnt
um eyna. Var þá farið að leita berserkjanna, þeirra sem undan
höfðu komist um kveldið. Þeir fundust að áliðnum degi undir
einum steini og voru þá dauðir af kulda og sárum. Síðan voru
þeir færðir í flæðarurð eina og dysjaðir þar. Eftir það fóru
þeir heim og þóttust eyjarskeggjar í frið þegnir.



Grettir kvað vísu þessa er hann kom heim til húsfreyju:



Tólf höfum gröf hjá gjálfri

gunnelds búið runnum.

Einn nam eg öllum vinna

ótrauðr beran dauða.

Hver munu gild um gjörvast,

gulls vel borin selja,

verk, þau er einn fær orkað,

ítr, ef slík eru lítil.


Húsfreyja mælti: "Víst ertu fárra manna líki, þeirra sem nú
eru til."



Setur hún hann í öndugi og gerði til hans alla hluti vel.
Leið nú svo fram uns Þorfinns var heim von.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.