Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Gr ch. 17

Grettis saga Ásmundarsonar 17 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Gr ch. 17)

Anonymous íslendingasögurGrettis saga Ásmundarsonar
161718

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Hafliði hét maður er bjó á Reyðarfelli á Hvítársíðu. Hann var
siglingamaður og átti skip í förum. Það stóð uppi í Hvítá. Sá
maður var á skipi með honum er Bárður hét. Hann átti konu
unga og fríða.



Ásmundur sendi mann til Hafliða að hann skyldi taka við
Gretti og sjá um með honum. Hafliði kvað sér sagt að maðurinn
væri vanstilltur en fyrir sakir vináttu þeirra Ásmundar tók
hann við Gretti. Bjóst hann þá til utanferðar. Engin vildi
Ásmundur fararefni fá honum utan hafnest og lítið af
vaðmálum. Grettir bað hann fá sér vopn nokkuð.



Ásmundur segir: "Ekki hefir þú mér hlýðinn verið. Veit eg og
eigi hvað þú munir það með vopnum vinna er þarft er. Mun eg
og þau ekki til láta."



Grettir mælti: "Þá er eigi það að launa sem eigi er gert."



Síðan skildu þeir feðgar með litlum kærleikum. Margir báðu
hann vel fara en fáir aftur koma.



Móðir hans fylgdi honum á leið. Og áður þau skildu mælti hún
svo: "Eigi ertu svo af garði ger frændi sem eg vildi svo vel
borinn maður sem þú ert. Þykir mér það mest á skorta að þú
hefir ekki vopn það er neytt sé en mér segir svo hugur um að
þú munir þeirra við þurfa."



Hún tók þá undan skikkju sinni sverð búið. Það var allgóður
gripur.



Hún mælti þá: "Sverð þetta átti Jökull föðurfaðir minn og
hinir fyrri Vatnsdælir og var þeim sigursælt. Vil eg nú gefa
þér sverðið og njót vel."



Grettir þakkaði henni vel gjöfina og kvað sér þetta betra
þykja en aðrir fémunir þótt meiri væru. Síðan fór hann veg
sinn en Ásdís bað honum margra hluta.



Grettir reið suður um heiði og létti eigi fyrr en hann kom
suður yfir heiði. Hafliði tók vel við honum. Fann hann Gretti
og spurði að fararefnum hans.



Grettir kvað vísu:



Hygg eg að heiman byggi

heldr auðigir snauðan,

blakkþollr byrjar skikkju,

beiðendr móins leiðar.

Enn réð orðskvið sanna

auðnorn við mig fornan

ern, að best er barni,

benskóðs fyr gjöf, móðir.


Hafliði kvað það sýnt að henni var mest um hann hugað.



Létu þeir í haf þegar þeir voru búnir og byr gaf. Og er þeir
komu út yfir grunn öll undu þeir segl. Grettir gerði sér gróf
undir bátinum og vildi þaðan hvergi hræra sig, hvorki til
austra né að segli að vinna, og ekki starfa það sem hann átti
að skipi að gera til jafnaðar við aðra menn. Eigi vildi hann
og kaupa af sér.



Þeir sigldu suður um Reykjarnes og svo suður fyrir land. Og
er landið var horfið fengu þeir rétt mikinn. Skipið var
heldur lekt og þoldi illa réttinn. Fengu þeir vos mikið.
Grettir lét þá fjúka í kviðlinga. Það líkaði mönnum stórilla.



Einn dag var það að veður var bæði hvasst og kalt. Þá kölluðu
sveinar, báðu Gretti nú duga "því að oss kólnar á klónum."



Grettir leit upp og mælti:



Happ er það ef hér skal kroppna

hver fingr á kyrpingum.


Ekki fengu þeir af honum starfann en líkaði nú verr en áður
og kváðu hann skyldu taka gjöld á sjálfum sér fyrir níð sitt
og lögleysu þá er hann gerði.



"Þykir þér betra," sögðu þeir, "að klappa um kviðinn á konu
Bárðar stýrimanns en að gera skyldu þína á skipi og slíkt er
óþolanda."



Veðrið gekk upp að eins. Stóðu þeir þá í austri svo að dægrum
skipti. Þeir heituðust þá við Gretti.



Og er Hafliði heyrði þetta gekk hann þar að er Grettir lá og
mælti: "Eigi þykir mér samkeypi yðvart kaupmanna gott. Þú
gerir þeim ólög en níðir þá á svo gert ofan en þeir heitast
að steypa þér fyrir borð. Nú er slíkt ótiltækilegt."



"Því munu þeir eigi ráða tiltektum sínum?" kvað Grettir, "en
það vildi eg að eftir dveldist einn eða tveir hjá mér áður en
eg gangi fyrir borð."



"Slíkt er ógeranda," sagði Hafliði. "Mun oss aldrei vel gefa
ef þér berist þetta fyrir. Mun eg leggja ráð til með þér."



"Hvert er það?" sagði Grettir.



"Þeir finna að við þig að þú níðir þá. Nú vil eg," sagði
Hafliði, "að þú kveðir til mín nokkra níðvísu og má vera að
þeir umberi betur við þig."



"Aldrei kveð eg til þín," sagði Grettir, "utan gott. Geri eg
þig ekki líkan kyrpingum."



Hafliði mælti: "Kveða má svo að fegri sé vísan ef grafin er
þótt fyrst sé eigi allfögur."



"Þetta hefi eg og nægst til," sagði Grettir.



Hafliði fór til þeirra skipverja og mælti: "Mikið er erfiði
yðvart og von að yður líki illa við Gretti."



"Verri þykja oss kviðlingar hans en hvetvetna annað," segja
þeir.



Hafliði mælti þá hátt: "Hann mun og illa af því fara um
síðir."



En er Grettir heyrir Hafliða ámæla sér kvað Grettir vísu:



Annað var þá er inni

át Hafliði drafla,

hann þóttist þá heima,

hvellr að Reyðarfelli.

Nú dagverðar darra

dóms skreytandi neytir

tvisvar Tveggja nesja

takhreins degi einum.


Kaupmönnum þótti allilla og sögðu að hann skyldi eigi til
einskis gera að níða Hafliða bónda.



Hafliði mælti þá: "Nóga hefir Grettir verðleika til þess þótt
þér gerðuð honum nokkra smán en eigi vil eg hafa sæmd mína í
veði til móts við illgirni hans og forsjáleysi. Nú munum vér
þessa ekki að sinni hefna meðan vér erum í svo miklum háska
staddir en minnist þessa þá er þér komið á land ef yður
líkar."



Þeir segja: "Mun oss eigi mega sem þér? Hvað mun oss heldur
bíta níð en þig?"



Hafliði bað þá svo gera. Þaðan frá vönduðu skipmenn miklu
miður um kviðlinga en áður. Þeir höfðu harða útivist og
langa. Komu þá lekar að skipinu. Tóku menn þá að lýjast mjög
á erfiði.



Stýrimannskona sú hin unga var því jafnan vön að sauma að
höndum Gretti og höfðu skipverjar það mjög í fleymingi við
hann.



Hafliði gekk þar til er Grettir lá og kvað vísu:



Stattu upp úr gróf, Grettir,

grefr knörr hola vörru.

Minnstu á mál við svanna

meginkátr hinn glaðláta.

Fast hefir hrund að höndum,

hör-Nauma, þér saumað.

Skorð vill að vel verðir

viðr meðan land er niðri.


Grettir stóð skjótt upp og kvað:



Stöndum upp þó að undir

alltíðum skip ríði.

Veit eg að víf mun láta

verr ef eg ligg á knerri.

Því mun öllungis illa

aldygg kona hyggja

hvít ef hér skal láta

hvert sinn fyr mig vinna.


Síðan hljóp hann aftur til þar er þeir voru að austrinum og
spurði hvað þeir vildu að hann gerði. Þeir sögðu hann lítið
gott gera mundu.



Hann segir: "Munur er að mannsliði."



Hafliði bað þá eigi neita liði hans "má vera að hann þykist
leysa sínar hendur ef hann býður lið sitt."



Þá var ekki dæluaustur á hafskipum. Kölluðu menn það
byttuaustur eða stampaustur. Hann var bæði vossamur og
erfiður. Skyldi þar hafa byttur tvær. Fór þá önnur niður er
önnur fór upp. Sveinar báðu að Grettir skyldi sökkva
byttunum, kváðu nú reyna skyldu hvað hann mætti. Hann segir
að lítil raun mundi best um það. Fer hann þá niður og sökkti
byttunum og voru þá fengnir til tveir að ausa móts við hann.
Héldust þeir eigi lengi við áður þeir voru yfirkomnir af
mæði. Þá gengu til fjórir og allt á sömu leið. Svo segja
sumir menn að átta jusu þeir við hann áður en lauk. Var þá og
upp ausið skipið. Þaðan af skiptist mjög um orðalag kaupmanna
við Gretti því að þeir sáu hvað hann átti undir sér fyrir
afls sakir. Var hann og þaðan frá hinn fræknasti til liðs,
hvers sem við þurfti.



Ber þá nú austur í haf. Lágu á myrkur mikil. Fundu þeir eigi
fyrr eina nótt en þeir sigldu upp á sker skipinu svo að undan
gekk undirhluturinn. Var þá hrundið bátnum og fluttar af
konur og allt það er laust var. Þar var hólmur lítil skammt
frá þeim og færðu þangað föng sín sem þeir komust við um
nóttina.



En er lýsa tók áttu þeir um að tala hvar þeir voru komnir.
Kenndust þeir þá við sem áður höfðu farið milli landa að þeir
voru komnir að Sunnmæri í Noregi. Þar var ein ey skammt frá
þeim til meginlands er heitir Háramarsey. Þar var byggð mikil
í eyjunni. Þar var og lends manns ból.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.