Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Gr ch. 14

Grettis saga Ásmundarsonar 14 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Gr ch. 14)

Anonymous íslendingasögurGrettis saga Ásmundarsonar
131415

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Ásmundur hærulangur setti bú að Bjargi, mikið og reisulegt,
og hafði mannmargt með sér. Hann var vinsæll maður.



Þessi voru börn þeirra Ásdísar. Atli var elstur. Hann var
gegn maður og gæfur, hægur og hógvær. Við hann líkaði hverjum
manni vel. Annan son áttu þau er Grettir var kallaður. Hann
var mjög ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn
bæði í orðum og tiltektum. Ekki hafði hann ástríki mikið af
Ásmundi föður sínum en móðir hans unni honum mikið. Grettir
Ásmundarson var fríður maður sýnum, breiðleitur og
skammleitur, rauðhærður og næsta freknóttur, ekki bráðger
meðan hann var á barnsaldri. Þórdís hét dóttir Ásmundar er
síðan átti Glúmur son Óspaks Kjallakssonar af Skriðinsenni.
Rannveig hét önnur dóttir Ásmundar. Hana átti Gamli
Þórhallsson Vínlendings. Þau bjuggu á Melum í Hrútafirði.
Þeirra son var Grímur. Sonur Glúms og Þórdísar Ásmundardóttur
var Óspakur, er deildi við Odd Ófeigsson sem segir í
Bandamanna sögu.



Grettir óx upp að Bjargi þar til er hann var tíu vetra
gamall. Hann tók þá heldur við að gangast. Ásmundur bað hann
starfa nokkuð. Grettir sagði sér það eigi mundu vera vel hent
og spurði þó að hvað hann skyldi gera.



Ásmundur svarar: "Þú skalt gæta heimgása minna."



Grettir svarar og mælti: "Lítið verk og löðurmannlegt."



Ásmundur svarar: "Leys þú þetta vel af hendi og mun þá batna
með okkur."



Síðan tók Grettir við heimgásunum. Þær voru fimm tigir og með
kjúklingar margir. Eigi leið langt áður honum þóttu þær
heldur bágrækar en kjúklingar seinfærir. Honum gerði mjög
hermt við þessu því að hann var lítill skapdeildarmaður.
Nokkuru síðar fundu förumenn kjúklinga dauða úti og heimgæs
vængbrotnar. Þetta var um haustið. Ásmundi líkaði stórilla og
spurði hvort Grettir hefði drepið fuglana.



Hann glotti að og svarar:



Það geri eg víst, er vetrar,

vind eg háls á kjúklingum.

Enn þótt eldri finnist

einn ber eg af sérhverri.


"Og skaltu eigi lengur af þeim bera," sagði Ásmundur.



"Vinur er sá annars er ills varnar, sagði Grettir.



"Fást mun þér verk annað," sagði Ásmundur.



"Fleira veit sá er fleira reynir," sagði Grettir, "en hvað
skal eg nú gera?"



Ásmundur svarar: "Þú skalt strjúka bak mitt við elda sem eg
læt jafnan gera."



"Heitt mun það um hönd," sagði Grettir, "en þó er verkið
löðurmannlegt."



Fór nú svo fram um hríð að Grettir heldur þessum starfa.
Tekur nú að hausta. Gerðist Ásmundur heitfengur mjög og
eggjar Gretti að strjúka fast bak sitt.



Það var háttur í þann tíma að eldaskálar voru stórir á bæjum.
Sátu menn þar við langelda á öftnum. Þar voru borð sett fyrir
menn og síðan sváfu menn upp frá eldunum. Konur unnu þar tó á
daginn.



Það var eitt kveld að Grettir skyldi hrífa bak Ásmundar að
karl mælti: "Nú muntu verða af þér að draga slenið,
mannskræfan," segir hann.



Grettir segir: "Illt er að eggja óbilgjarnan."



Ásmundur mælti: "Aldrei er dugur í þér."



Grettir sér nú hvar stóðu ullkambar í setinu, tekur upp
kambinn og lætur ganga ofan eftir baki Ásmundar. Hann hljóp
upp og varð óður við og vildi ljósta Gretti með staf sínum en
hann skaust undan. Þá kom húsfreyja að og spurði hvað þeir
áttust við.



Grettir kvað þá vísu þessa:



Mik vill menja stökkvir,

mjög kenni eg þess, brenna,

hodda grund, á höndum,

höfugt ráð er það báðum.

Læt eg á hringa hreyti,

hör-Gerðr, tekið verða

görr, sé eg gildra sára

gögl, óskornum nöglum.


Illa þótti húsfreyju er Grettir hafði þetta til tekið og kvað
hann ekki fyrirleitinn verða mundu. Ekki batnaði frændsemi
þeirra Ásmundar við þetta.



Nokkuru stundu síðar talaði Ásmundur til að Grettir skyldi
geyma hrossa hans. Grettir kvað sér það betra þykja en
bakeldagerðin.



"Þá skaltu svo að fara," sagði Ásmundur, "sem eg býð þér.
Hryssu á eg bleikálótta er eg kalla Kengálu. Hún er svo vís
að um veðráttu og vatnagang að það mun aldrei bresta að þá
mun hríð eftir koma ef hún vill eigi á jörð ganga. Þá skaltu
byrgja í húsi hrossin en halda þeim norður á hálsinn þegar er
vetur leggur á. Þætti mér þurfa að þú leystir þetta verk
betur af hendi en þau tvö sem áður hefi eg skipað þér."



Grettir svarar: "Þetta er kalt verk og karlmannlegt. En illt
þykir mér að treysta merinni því að það veit eg öngvan fyrr
gert hafa."



Nú tekur Grettir við hrossageymslunni og leið svo fram yfir
jól. Þá gerði á kulda mikla með snjóvum og illt til jarða.
Grettir var lítt settur að klæðum en maður lítt harðnaður.
Tók hann nú að kala en Kengála stóð á þar sem mest var svæðið
í hverju illviðri. Aldrei kom hún svo snemma í haga að hún
mundi heim ganga fyrir dagsetur. Grettir hugsar þá að hann
skal gera eitthvert það bellibragð að Kengálu yrði goldið
fyrir útiganginn.



Það var einn morgun snemma að Grettir kom til hrossahúss,
lýkur upp og stóð Kengála fyrir stalli því að þótt hrossum
væri fóður gefið, þeim er með henni voru, þá hafði hún það
ein. Nú fór Grettir upp á bak henni. Hann hafði hvassan hníf
í hendi og rekur á um þverar herðar Kengálu og lætur svo
ganga aftur tveim megin hryggjar. Hrossið bregður nú hart við
því að það var feitt og fælið, eys svo að hófarnir brustu í
veggjunum. Grettir féll af baki og er hann komst á fætur
leitar hann til bakferðar. Er þeirra viðureign hin snarpasta
og svo lýkur að hann flær af henni alla baklengjuna aftur á
lend, rekur síðan út hrossin og til haga. Ekki vildi Kengála
bíta nema til baksins. En er skammt var af hádegi bregður hún
við og hleypur heim til húss.



Grettir byrgir nú húsið og gengur heim. Ásmundur spyr hvar
hrossin væru. Grettir kveðst geymt hafa í húsi eftir vanda.
Ásmundur segir að þá mundi skammt til hríðar er hrossin vildu
eigi á standa í þvílíku veðri.



Grettir segir: "Skýst þeim mörgum vísdómurinn er betri von er
að."



Líður nú af nóttin og kom eigi hríðin. Rekur Grettir hrossin
og þolir Kengála ekki í haga. Undarlegt þótti Ásmundi það en
veðráttu brá eigi úr því sem áður hafði verið.



Hinn þriðja morgun fór Ásmundur til hrossanna og að Kengálu
og mælti: "Illa þykir mér hrossin við hafa orðið að jafngóðum
vetri en þú munt síst bregðast að bakinu Bleikála."



"Verður það er varir," sagði Grettir, "og svo hitt er eigi
varir."



Ásmundur strauk bakið á hrossinu og fylgdi þar húðin. Honum
þótti undarlegt því svo var orðið og kvað Grettir þessu valda
mundu. Grettir glotti að og svaraði öngu.



Bóndi fór heim og var málóði mjög. Hann gekk til eldaskála og
heyrði að húsfreyja mælti: "Vel skyldi nú reynst hafa
hrossageymslan frænda míns."



Ásmundur kvað vísu:



Fyrst hefir flegna trausta,

fær prettað mig, Grettir,

fljóð eru flest hin prúðu

fullmálug, Kengálu.

Víst mun venja flestar

vitr drengr af sér lengi,

hróðr nemi hrings hin fríða

Hlín, kvaðningar mínar.


Húsfreyja svarar: "Eigi veit eg hvort mér þykir meir frá móti
að þú skipar honum jafnan starfa eða hitt að hann leysir alla
einn veg af hendi."



"Nú skal og um enda gert fyrir það," sagði Ásmundur, "en hafa
skal hann viðurgerning því verra."



"Telji þá hvorigir á aðra," sagði Grettir og svo fór fram um
stund. Ásmundur lét drepa Kengálu.



Mörg bernskubrögð gerði Grettir, þau sem eigi eru í sögu
sett. Hann gerðist nú mikill vexti. Ekki vissu menn gjörla
afl Grettis því að hann var óglíminn. Orti hann jafnan vísur
og kviðlinga og þótti heldur níðskár. Ekki lagðist hann í
eldaskála og var fátalaður lengstum.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.