Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

GíslIll ch. 5

Gísls þáttr Illugasonar 5 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (GíslIll ch. 5)

UnattributedGísls þáttr Illugasonar
45

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



En er þingið var sett þá stóð upp Sigurður ullstrengur og
mælti: "Það ætla eg að flestir menn munu vita að veginn er
lögunautur vor Gjafvaldur. Kom maður af Íslandi utan og
þóttist eiga sakar við hann og hafði þá atferðina að hann
veitti honum þegar banasár en leitaði eigi eftir bótum sem
öðrum mönnum er títt. Mun oss svo sýnast konungsmönnum að
lítið mun fyrir þykja að bleðja af hirð konungs ef þessa skal
hafa atförina að höggva niður hirðina. Má vera að þeir láti
svo ganga allt að höfðinu og þyrmi eigi heldur konunginum en
öðrum mönnum. Nú eru slíkt mikil endemi og stórrefsinga vert
og er eigi að bættra þótt þar séu tíu drepnir af íslenskum
mönnum sem einn er af vorum mönnum og hegna þeim svo sína
ofdirfð að taka menn úr konungsvaldi."



Síðan þagnaði hann.



Þá stóð upp Teitur biskupsson og mælti: "Hvort vill konungur
leyfa mér að tala erindi?"



Konungur spurði mann er stóð hjá honum: "Hver er sjá maður?"
segir hann.



Hann svarar: "Herra, það er Teitur biskupsson."



Konungur mælti til Teits: "Fyrir engan mun vil eg þér leyfa
að mæla því að öll þín orð þau er þú mælir munu mikið spilla
og væri maklegt að úr þér væri skorin tungan."



Þá stóð upp Jón prestur Ögmundarson og mælti: "Vill konungur
leyfa mér að mæla nokkur orð?"



Konungur spurði: "Hver mælir nú?"



Maðurinn svarar: "Prestur sá hinn íslenski, hann Jón."



Konungur mælti: "Leyfa vil eg þér að tala."



Þá hóf Jón prestur svo sitt mál: "Guði er það að þakka að
löndin eru kristin orðin, Noregur og Ísland, því að áður óðu
saman menn og fjandur en nú gengur fjandinn eigi svo
djarflega í sýn við menn. Fær hann nú menn til að bera fram
sín erindi sem skammt er á að minnast að fjandinn mælti fyrir
munn þessum er nú talaði. Var fyrst veginn maðurinn einn en
síðan fýsti hann að drepa skyldi tíu. Og það hygg eg að
slíkir menn muni mest að vinna í sinni illgirnd og vondum
fortölum að eyða réttlæti og miskunn og öðrum góðum siðum
höfðingjanna en hvetja þá og hvessa til grimmdar og glæpa og
gleðja svo fjandann í kristinna manna drápi. En jafnt erum
vér herra konungur þínir þegnar sem þeir er hér eru
innanlands. Skylduð þér að því hyggja er settir eruð hér í
heiminum höfðingjar og dómendur yfir fólkinu að þér berið
merking þess dómandans er koma mun að efsta dómi að dæma alla
veröldina. Nú mun yður herra mikið við liggja að þér dæmið
rétta dóma en eigi ranga því að til hvers þings og móts kemur
sjálfur almáttigur guð og hans helgir menn. Vitjar guð góðra
manna og réttra dóma. Svo kemur og fjandinn og hans árar að
vitja vondra manna verka og rangra dóma. Og utan ef mun sá
dómandi koma um síðir er alla hluti mun rétt dæma. Hyggið að
nú herra konungur hvor eldurinn mun vera heitari og langærri,
sá lagður er í eikistokkinn er ger er um ofninn eða hinn sem
kveiktur er í þurru limi. Nú ef þú konungur dæmir ranga dóma
þá mun þér orpið í þann eldinn er í eikistokkinn er lagður en
ef þú dæmir rétta dóma eftir þínu viti þá er þó von að þú
skírir þig í hreinsanareldi þeim er af þurru limi er ger."



Svo lauk Jón prestur sinni ræðu.



Þá mælti konungur: "Strítt hefir þú talað prestur."



En ekki fannst það á að hann reiddist mjög við.



Þá stóð upp Gísl og mælti: "Viltu leyfa mér konungur að tala
lítið erindi?"



Konungur spurði hver nú mælti. Honum var sagt.



"Eigi vil eg banna," segir konungur.



Gísl mælti: "Þá tek eg þar til máls að faðir minn var veginn.
Voru að því verki Gjafvaldur og Þormóður. Þá var eg sex vetra
gamall en Þorvaldur bróðir minn níu. Vorum við þar við
staddir er faðir minn var drepinn. Þá mælti Gjafvaldur að
okkur bræður báða skyldi drepa. En eigi er karlmannlegra frá
að segja herra að þá var grátraust í kverkum mér."



Konungur mælti: "Drengilega hefir þú þá grátraust á brott
fært."



Gísl mælti: "Það er satt að segja herra að eg hefi lengi í
vor setið um Gjafvald. Og þá tvisvar er mér gáfust helst færi
á virti eg til kirkjuna í annað sinn er þetta verk fórst
fyrir, en í annað sinn lét eg standa fyrir nónhringing og
virði eg svo að því gæfi nónhringingin mér nú líf. En kvæði
hefi eg ort um yður og vildi eg hljóð hafa."



Konungur mælti: "Kveð þú ef þú vilt."



Hann flutti kvæðið skörulega en ekki var þar mikill
skáldskapur í því kvæði.



Síðan mælti Gísl til Teits: "Þér hafið sýnt við mig mikinn
manndóm en nú vil eg eigi leggja yður í hættu lengur. Vil eg
ganga á vald Magnúss konungs og færa honum höfuð mitt."



"Ger nú sem þú vilt," segir Teitur.



Tók Gísl þá af sér vopnin, gekk yfir mótfjalarnar og lagði
höfuð sitt í kné konungi og mælti: "Gerið nú slíkt af höfði
mínu sem yður sýnist. Kann eg þökk ef þér viljið gefa mér og
gera mig að slíkum manni sem yður sýnist fallið."



Konungur svarar: "Ráð sjálfur höfði þínu en gakk inn til
borðs í rúm Gjafvalds, tak þar vist og drykk og halt slíka
þjónustu sem hann hefir haft áður. Geri eg þetta mest fyrir
bæn Gjafvalds vinar míns. En nú gangi átta íslenskir menn til
festu. En eg geri fyrir víg Gjafvalds sextán merkur gulls.
Skal gefast upp helmingur fyrir sakar en sína mörk gjaldi
hver yðvar festumanna."



Þeir þökkuðu konungi og sættust að því.



Þá mælti konungur til Jóns prests: "Vel virðist mér þitt
formæli. Hefir þú af guðs hálfu talað. Vildi eg gjarna vera
undir þínum bænum því að þær munu mikið mega við guð því að
eg trúi að saman fari guðs vilji og þinn."



Hann játti konungi bæn sína.



Og einn dag er Jón prestur gekk að stræti mælti maður til
hans: "Gakk inn í herbergið. Sigurður ullstrengur vill finna
þig."



Hann gerði svo.



Sigurður mælti: "Eigi veit eg prestur nema orðin þín hafi
bitið mig því að eg em sjúkur og vildi eg að þú syngir yfir
mér."



Hann gerði svo og signdi hann.



Þá mælti Sigurður: "Mikið mega orð þín, bæði hörð og góð, því
að nú er mér gott."



Sigurður gaf Jóni presti góðar gjafar og skildust þeir vinir.
Þessi Sigurður lét fyrst setja munklífi í Niðarhólmi og gaf
þar til stórar eignir.



Eftir þetta fóru þeir til Íslands, Jón prestur og Teitur
biskupsson. Gerðist Teitur ágætur maður og varð skammær. En
Jón prestur varð biskup að Hólum og er nú sannheilagur.



sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.