Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Fbr ch. 12

Fóstbrœðra saga 12 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Fbr ch. 12)

Anonymous íslendingasögurFóstbrœðra saga
111213

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Nú er að segja frá Þorgeiri Hávarssyni, hirðmanni Ólafs
konungs. Það var eitthvert sumar er hann kom skipi sínu í
Hvítá og hélt því upp í Norðurá og setti þar upp um haustið í
þann stað er nú er kallað Þorgeirshróf Hann fór um veturinn
til vistar vestur á Reykjahóla og var þann vetur með frændum
sínum, selur þar varning sinn, fór um vorið snemmendis suður
til Borgarfjarðar og býr skip sitt til brottferðar.



Litlu fyrir þing fer hann vestur á Reykjahóla eftir vöru
þeirri er þar var saman dregin er hann hafði tekið fyrir
varning sinn þann er hann hafði selt um veturinn. Hann flutti
vöruna til Skógarstrandar og fær sér hesta, fer suður til
Borgarfjarðar og einn maður með honum sá er reið leiðina
fyrir og hafði hest í togi. Þorgeir reið eftir og rak nokkura
klyfjahesta. Hann reið með skjöld og hafði spjót og exi. Fara
nú við svo búið.



Sá maður bjó á Hvítstöðum er Snorri hét. Hann var kallaður
Hækils- Snorri. Hann var mikill maður vexti og sterkur og
vænn yfirlits og grimmlegur í ásjónu, óvinsæll og nasbráður,
heiftúðigur í skaplyndi. Helgi hét son Snorra. Hann var þá á
ungum aldri er þessir atburðir gerðust. Mannahúsin voru þá
neðar í tungunni en nú eru og var bærinn kallaður á Mel.
Lambahús mikið stóð vestur í túnið þar sem nú heita
Snorratóftir.



Þorgeir og hans förunautur fóru þar hjá garði. Förunautur
Þorgeirs ríður fram um bæinn en klyfjahestarnir, þeir er
Þorgeir rak, hljópu í túnið. Snorri kemur út í því er Þorgeir
elti klyfjahestana og vill taka þá úr túninu. Hestunum þótti
gott að bíta og nam þá annar staðar er hann rak annan.



Snorri gengur inn og tekur eitt mikið krókaspjót, gengur
bölvandi og blótar hestunum og svo Þorgeiri, ber hestana með
spjótinu og særir. Sýnist Þorgeiri eigi örvænt að Snorri bani
hestunum. Hann hleypur nú af baki og hefir skjöldinn fyrir
sér. Exinni heldur hann með skildinum í vinstri hendi. Spjót
hefir hann í hendi og sækir þá að Snorra. Hann hörfar þá
undan um völlinn til lambhússins og verst með spjótinu. Tveir
húskarlar Snorra sáu að hann hljóp út reiður með spjót sitt.
Tekur sína exi hvor þeirra í hönd sér og fara til fulltings
við Snorra. Þorgeir verst þeim með miklum mjúkleik en sækir
að þeim með miklu afli og öruggleik sem hið óarga dýr.
Húskarlarnir verða brátt sárir af Þorgeiri því að þeir höfðu
skammskeftar öxar en Þorgeir lagði spjótinu hart og tíðum.
Hrukku þeir Snorri inn í lambhúsið. Dyrnar voru lágar og
þröngvar á húsinu og var illt þar inn að sækja eftir þeim.
Þorgeir hleypur upp á húsið og rýfur til. Þar sem húsið
raufaðist leggur Snorri spjótinu út í móti. Þorgeir verður
sár af því nokkuð og þó lítt. Kastar Þorgeir þá spjótinu en
tekur exina í hægri hönd. Sækir Snorri þá að Þorgeiri með
hörðum hug þar sem húsið var rofið. En Þorgeir varðist með
skildi og exi og leitar eigi annars en höggva spjót Snorra af
skaftinu. Létti eigi þeim leik fyrr en Þorgeir hjó spjót
Snorra af skaftinu. Og þegar jafnskjótt hljóp Þorgeir inn í
húsið um glugg þann er á var rofinn með skjöld og exi og hjó
þegar í höfuð Snorra svo hart að hann klýfur hausinn allan.
Fær Snorri af því sári þegar bana. Þá snýr Þorgeir að
húskörlum Snorra og sækir þá fimlega, hlífandi með skildi,
höggvandi með exi þeirri er vön var að fá mörgum manni
náttstaðar. Lauk svo þeirri atsókn að Þorgeir vó þá báða.



Eftir það gengur hann út og stígur á bak hesti sínum, ríður
til dyra og hittir menn að máli, sagði að Hækil-Snorri vill
hafa fund þeirra og mun bíða þeirra í lambhúsinu og ríður á
brott eftir það til fundar við förunaut sinn. Hann hafði
rekið klyfjahrossin úr túninu meðan þeir börðust. Fara þeir
við svo búið til skips. Býr Þorgeir skip sitt og heldur því
til Seleyrar, bíður þaðan byrjar og lætur í haf að búnu.



Þorgeir hefir skamma útivist. Byrjar honum vel og tekur Noreg
og fer skjótt á fund Ólafs konungs og fær góðar viðtökur af
konungi. Þessa atburðar getur Þormóður í Þorgeirsdrápu í
þessu erindi:



Hús braut snarr til Snorra

sverðrjóðr og styr gerði,

hinn er heiftir manna,

Hækils sonar, rækir.

Varð eggjaðr þar þriggja

Þorgeir á hvöt meiri,

leygs hef eg slíkt frá sæki

sannspurt, bani manna.


Helgi, son Snorra, bjó lengi á Hvítstöðum. Var hann ólíkur
föður sínum og svo frændum bæði yfirlits og svo í skapi. Hann
færði hús sín þangað sem nú er bærinn. Hann átti það
kenningarnafn að hann er kallaður Helgi hinn hvíti og var
honum það eigi auknefni því að hann var vænn maður og vel
hærður, hvítur á hárslit. Við hann er bærinn kenndur á
Hvítstöðum. Helgi var vinsæll maður, góður búþegn við
héraðsmenn og gagnsamur við alþýðu. Hann deildi um Gufufitjar
við Þorstein Egilsson því að Þorsteinn vildi kaupa fitjarnar
en Helgi vildi eigi selja.



Helgi fór einn vetur með húskörlum sínum á Gufufitjar. Hann
ók heyjum sínum á öxnum sunnan um mýrarnar svo sem hann var
vanur. Þorsteinn fór eftir þeim með húskarla sína. Þeirra
fundur varð í eyjum þeim er Langeyjar heita, suður frá
Hvítstöðum. Á þeim fundi börðust þeir Þorsteinn og Helgi. Í
þeim bardaga varð Helgi sár mjög. Til þess fundar komu
góðgjarnir menn þeir er vitað höfðu ferð hvorratveggju og
skildu þá og sættust að því að Þorsteinn keypti fitjarnar en
bætti Helga áverkann við góðra manna sann.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.