Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Flj ch. 18

Fljótsdæla saga 18 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Flj ch. 18)

Anonymous íslendingasögurFljótsdæla saga
171819

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þessi tíðindi spurðust brátt og þótti mörgum mikil sem var.
Hróari Tungugoða féll þetta næst svo að hann leggst í rekkju
af harmi og deyr af helstríði. Eftir þennan fund kemur
Þorkell fullspakur heim því að hann hafði farið ofan í fjörðu
eftir skreið. Hann kom þann dag heim er fundurinn hafði verið
áður um nóttina. Þorkell fréttir fundinn og að fallinn er
faðir hans og Þiðrandi. Haug verpir hann eftir Þiðranda
frænda sinn og stendur hann þar á bakkanum ofan undan bænum.
Hann færir í haug menn þá er féllu. Þorkell rak á burt
Austmanninn með miklum hrakningum, kvað hann þeim mikla skömm
gert hafa svo eigi mundu menn bætur bíða, drepið þann mann er
aðrir væntu sér af hins mesta yndis. Gunnar hvarf nú á burt
og spurðist ekki til hans.



Margir menn hörmuðu þessi tíðindi er þeir spurðu og þóttu
þetta miklir atburðir, bæði Þorkell Geitisson bróðir hans og
Bjarni Helgason frá Hofi í Vopnafirði því að hann var náinn
frændi Þiðranda, Þórdís todda, er átti Helgi Ásbjarnarson,
systir Bjarna, svo þeir bræður Þorvaldssynir Þiðrandasonar,
Grímur og Helgi. Þeir voru allir í eftirleit við Gunnar
austmann og vildu allir Þiðranda hefna en til þessa manns
spurðist aldrei. Var það flestra manna ætlan að hann mundi
hafa hlaupið til fundar við aðra Austmenn þá er sátu búðsetu
þar er þeir höfðu skip uppi, í víkum milli Njarðvíkur og
Borgarfjarðar fyrir handan Snotrunes. Þar sátu seytján
Austmenn og ætluðu menn af því að hann mundi þangað vera
farinn.



Líður nú á veturinn allt þar til að daga lengdi. Þá býr
Þorkell Geitisson ferð sína norðan úr Krossavík með tíunda
mann austur yfir heiði í hérað. Hann ríður upp eftir héraði
fyrir vestan fljót allt þar til er hann kemur á
Arneiðarstaði. Hann fær þar góðar viðtökur af Droplaugu og
sonum hennar. Hann var þar um nóttina.



Þá biður hann þá bræður að þeir mundu fara með honum ofan til
Njarðvíkur og hitta Þorkel fullspak og þaðan suður í fjörðu
"vil eg vita að eg komist nokkuð á sporð um þennan mann,
Gunnar, er nú er kallaður Þiðrandabani, er oss hefir mikla
harmsök unnið. Þetta er öllum oss mikil nauðsyn á að geta
hann af ráðið."



Þeir bræður ráðast nú til ferðar með Þorkeli og fara út eftir
héraði. Þeir kveðja upp einstaka menn og verða þeir saman
átján. Nú fara þeir og koma um kvöldið á Kóreksstaði til
Þorbjarnar. Þeim er þar boðið að vera og þeir eru þar um
nóttina. Þeir spyrja Gunnstein vandlega að þeim tíðindum er
gerst höfðu um haustið í Njarðvík en Gunnsteinn sagði
greinilega frá og þótti þó mikið fyrir að segja. En er
þriðjungur lifði nætur þá stendur Helgi Droplaugarson upp.
Var tunglskin mikið og færðir góðar bæði um héruð og heiðar.
Hann vekur þá förunauta sína.



Þá gengur hann til Gunnsteins og mælti við hann: "Þú munt
vilja með oss frændi út í Njarðvík."



Gunnsteinn svarar: "Fara skal eg ef þér viljið."



Eftir það ráðast þeir til ferðar, fara út fyrir neðan
Sandbrekku og svo út til Óss og upp í heiði til Gönguskarðs
uns þeir koma svo upp að ein brekka var eftir. Þar er hvammur
fyrir utan göturnar og heitir Djúpihvammur. Þar liggur leiðin
um sumarið hið syðra en jafnan um veturinn fara menn ofan
eftir hvamminum þá er snjáva leggur. Helgi snýr nú af götunni
og sest niður. Hann biður þá alla niður setjast og skipar
þeim í garða en hlið í miðju sem í húsgarði.



Þorkell Geitisson mælti: "Hvað skal breytni sú frændi?"



Helgi svarar: "Eg þóttist heyra mannamál upp í skarðið áðan.
Nú skulum vér taka þessa menn höndum hverjir sem þeir eru."



Og er þeir höfðu nýsest niður ríða þar að þeim fimm menn á
broddstöfum. Þessir menn allir höfðu stálhúfur og gyrðir
sverðum. Þeir kenndu þessa menn að þar var Þorkell Ketilsson
fullspakur neðan úr Njarðvík og heimamenn hans. Helgi
sprettur upp og þeir allir og mælti að þeir skyldu hafa
hendur á þeim. Þeir gerðu svo. Helgi gekk að Þorkeli og
heilsar honum og spyr hvert hann ætlar að fara.



Þorkell kveðst ætla að fara upp í hérað og heimta skuldir.



"Því segir þú svo ólíklega að þú munir fara að fjárreiðum í
þetta mund missera? Og sé eg að ekki er þetta þitt erindi. Nú
þykist eg vita hvert þú ætlar og svo erindi þitt. Það mundi
eg ætla að þú mundir fara upp í Mjóanes á fund Helga
Ásbjarnarsonar og selja honum í hendur Gunnar Þiðrandabana og
mun þér það þykja líklegast að hann muni geta haldið Gunnari
fyrir mér. Þú veist að fátt er með okkur."



Þorkell svarar: "Því ætlar þú mér þann hlut að eg muni þann
mann halda er oss hefur mesta skömm gert? Og munuð þér það
spurt hafa að eg rak hann í burt þegar hinn sama dag er eg
kom heim."



"Ekki hirði eg hvað þú segir til þess. Nú er þér skjótt til
að kjósa um tvo kosti, hvort þú vilt að eg drepi þig hér í
Djúpahvammi eða ella seljir þú fram manninn."



Þorkell kvaðst eigi mundu ferðir sjá um þennan mann. Helgi
flettir þá Þorkel af vopnum og klæðum og alla hans félaga. Þá
lætur Helgi leggja þá niður og fær til jafnmarga menn að
vinna á þeim.



Helgi mælti: "Ei er oss vant við þig ef þú virðir einskis
frændsemi við mig. Nú skal eg eigi hlífast við þig."



Nú sér Þorkell í hvert vandræði komið var og mælti: "Fast
gengur þú að flestu því er þú vilt þér afskipti veita. Mér
mun fara sem flestum að eg mun kjósa að lifa ef eg á kosti.
Mun eg nú segja víst að Austmaðurinn er í minni varðveislu.
Hefi eg hann haldið í allan vetur síðan er tíðindin gerðust.
Gerði eg það til ólíkinda að kveðja hann á burt. Upp í
heiðinni fyrir ofan bæinn í Njarðvík gengur hjalli sunnan frá
skarðinu út fyrir Skálanes. En á hjallanum gegnt bænum er
hlaupin urðskriða ofan úr hryggnum á hjallann. Það grjót er
mjög mosa vaxið og geitaskófu. Þar á milli steinanna sló eg
tjaldi á hausti er eg rak hann á burtu. Það er járngrátt og
samlitt við grjótið. Þar setti eg húðfat hans og bjó eg um
sem eg kunni og þar hefur hann verið síðan."



Þá svarar Helgi: "Nú gerðir þú vel er þú sagðir hið sanna
til. Eigi fyrir því, vissi eg áður að hann var í þinni
varðveislu. Skal eg nú og eigi gera þér til meins en þú munt
nú eigi að sinni laus verða að svo búnu."



Þá mælti Helgi til Þorkels Geitissonar og spurði: "Hvort
viltu nú heldur fara ofan yfir heiði og leita Austmanns eða
viltu sitja hjá Þorkeli nafna þínum og gæta hans til
hádegis?"



Þorkell Geitisson svarar: "Eg vil vera eftir hjá nafna mínum
og gæta hans því að við erum ófráir Vopnfirðingarnir. Mun hér
lítils við þurfa. Þykir mér meiri hamingjuraun eftir honum að
leita. Treysti eg þér betur og þinni giftu eftir honum að
leita."



"Því bauð eg og kjörs á," sagði Helgi, "að mér þykir vel að
þú ráðir en vant er að sjá hverjum þess verður auðið. Nú skal
skipta liði í helminga. Munum við bræður fara ofan yfir heiði
við tíunda mann og vita hvað eg komi áleiðis en þér félagar
farið upp á Arneiðarstaði í kvöld og bíðið mín þar uns eg kem
á morgun, nema eg finni eigi Austmanninn, þá mun eg koma á
hádegi. Þá skal drepa Þorkel fullspak ef hann hefur logið en
ef hann segir satt þá má hann eigi að hafa þó að hann setji
undan. En ef eg kem eigi aftur fyrir hádegi þá skaltu Þorkel
láta fara hvert er hann vill því að ratað mun eg þá hafa hæli
Austmannsins hvort sem hann verður fyrir höndum eða eigi."



Nú skiljast þeir þar. Fara þeir Helgi ofan yfir heiði en
Þorkell Geitisson situr eftir hjá nafna sínum. En er þeir
Helgi komu upp í skarðið þá lýsti af degi. Þá var bakki
mikill til hafs. Dregur upp skjótt á himininn og tekur að
drífa. Fylgir vindur af landnorðri. Þeir sækja ofan í
brekkurnar. Þá sjá þeir hvar hjallinn gengur út eftir
hlíðinni.



Þá mælti Grímur Droplaugarson: "Vinnum vér eigi tvisvar hið
sama. Snúum vér nú hér út eftir hjallanum."



Þeir fara nú eigi lengi áður en þeir sjá urðina og tjaldið
svo. Þá var hálfljóst af degi. Nú vex drífa og svo vindurinn.
Tekur nú að kólna.



Í þennan tíma vaknar Austmaðurinn í tjaldinu. Hann þarf að
ganga örna sinna. Hann rís upp í skyrtu og línbrækur. Hann
kippir skóm á fætur sér en hneppir ei. Ekki hafði hann yfir
sér og ekki í hendi. Og er hann bregður brókum sínum þá
heyrir hann mannamál suður á hjallann frá sér. Þeir áttu þá
skammt til tjaldsins. Hann sá að þá var eigi ráð að snúa í
tjaldið er ófriðarmenn voru svo nær komnir. Hann snýr þá út
eftir hjallanum slíkt sem hann má fara. Þeir sjá nú manninn
og þóttust í hendi hafa ráð hans og ætluðu að hann mundi
skammt undan taka. Eggjaði hver annan að eftir skyldi halda.
Gunnar hleypur nú slíkt sem fætur mega bera svo að af liggja
skórnir. Nú dregur þó í sundur með þeim meðan hann var
ómóður. Gunnar hleypur ofan hjá skálanum og út af lautinni.
Þá nemur hann staðar og hnýtir línbrókina að beininu. Þá voru
þeir komnir ofan hjá skálanum á völlinn. Þeir gera garð ofan
að sjónum. Grímur var þar allra manna skjótastur. Hann
hleypur þá fram frá liðinu og að honum Gunnari og ætlar þegar
að sæta áverkum við hann. Gunnar sér þetta og kastar sér á
kaf. Hann drepur þegar vör undir sig. Grímur sér að hann
getur eigi með vopnum sótt hann og skýtur eftir honum spjóti
og kemur í hina vinstri hönd Gunnari. Hann tekur til og
kippir á burt en hann leggst út á víkina. Þá varð hvasst mjög
og föll stór.



Helgi kveður nú við og mælti: "Hvar vitið þér slíkan mann að
áræði sem þennan eða hver er fús eftir honum að ráðast?"



Enginn kvaðst til mundu hætta.



"Þess er von," sagði Helgi, "því að annaðhvort mun einum
endast eða öngum af voru liði. En sá mun eigi fara því að mér
þykir landtakan óvísleg þar er Gunnar er á ströndu fyrir enda
er eigi víst hversu sundið tekst. Nú munum vér heldur ganga
inn til nausta og vita ef vér fáum oss þar skip að róa eftir
honum þó að oss sé það nokkru seinna. En þó skulum vér að
hyggja jafnan hvert hann leggst."



Þeir Helgi gera nú svo sem hann mælti fyrir en Gunnar leggst
yfir víkina og kemur á land fyrir sunnan skriðurnar er nú
heitir Gunnarsdæld. Því hafa þeir menn saman jafnað er
hvorttveggja hafa komið og kunnugt er um að það sé jafnlangt
sund er Gunnar hefur lagst yfir þvera Njarðvík og frá
Naustadæli og yfir til Vindgjár. Gunnar hleypur þá upp á
nesið, Snotrunes. Hásetar Gunnars sátu öðrumegin nessins
búðsetu. Hann leitar þangað til þeirra. Þeir Droplaugarsynir
róa yfir víkina og koma litlu síðar á land en Gunnar. Þeir
setja upp skipið og ráðast til göngu og sjá hvar Gunnar fer.
Þeir herða nú eftir honum. Gunnar hleypur inn í búðina. Þá
sitja þeir að dagverði.



Gunnar bað þá ásjá "vildi eg að þér verðust með mér. Munum
vér þá eigi uppgefnir fyrir þeim er eftir sækja."



Þeir kváðust aldrei mundu gefa sig upp fyrir ógiftu hans.
Hann gaf nafn víkinni og kenndi við félaga sína og kallaði
Geitavík, og svo heitir hún ávallt síðan. Og er hann sér að
hann fær ekki af þeim þá snýr hann burt og upp á Snotrunes.
Hann stefndi suður til Borgarfjarðar með ekki meirum birgðum
en áður hafði hann. Þeir Droplaugarsynir sjá að Gunnar
hleypur burt úr víkinni. Koma þeir ekki þar. Þeir hlaupa hið
efra fyrir ofan búðirnar. Gunnar tekur nú að hrymjast mjög á
fótum er hann hljóp berfættur um klakann og kuldi mikill.
Frýs að honum línklæðin. Dugði honum það að hann kostaði um
ferðina slíkt er hann mátti. Fékk honum því vermans. Nú
dregur þó saman með þeim uns hann kom upp í ásinn. Þá hallar
burt af suður.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.