Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Flj ch. 10

Fljótsdæla saga 10 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Flj ch. 10)

Anonymous íslendingasögurFljótsdæla saga
91011

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð.
Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir
Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi
hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti
skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips
og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan
vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og
var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum.
Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri.



En um vorið spurði Gróa Droplaugu hvar hún sæi henni bústað.



Hún svarar: "Veit eg þá menn er sitja á góðum bústað með
mikið lið en fjárkost lítinn. Þykir mér líklegt að þeim muni
falt land. Sá bær heitir á Eyvindará, það er fyrir austan
Lagarfljót, og er eitthvert bjargmest land í héraðinu og
þokkaland allmikið."



Svo fór það til að þær systur keyptu þessa jörð og setur Gróa
þar bú saman og fékk Droplaug henni málnytu og aðra þá hluti
er hún þurfti að hafa til búsins. Gróa lætur höggva upp skip
sitt og flytja heim viðinn og leggja í hús og þeir viðir eru
þar enn í húsum. Gróa sýndi brátt af sér mikla risnu og tók
mikla vinsæld. Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg,
greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Hún hafði eigi
lengi búið áður hún ól þann grip með fé sínu er henni þótti
betri en önnur eiga sín jafnmikil. Það var hestur er hún
kallaði Inni-Krák því að hann var inni hvern vetur. Hann var
svartur að lit. Lét hún hann gelda snemma. Svo mikill
fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð
á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og
hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að
hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. Synir Droplaugar voru
lengi með Gróu og var það mál manna að þeir ættu góðs í milli
að ganga að vera á þeim þremur bæjum er bestir voru í
héraðinu og var þeim þar alls staðar ástsamlega veitt.



Það bar til einn dag að drepið var á dyr á Bessastöðum og
Bessi bóndi fagnaði þeim sem komnir voru. Var þar Ásbjörn
bóndi vestan af Aðalbóli og Helgi son hans og fóru bónorðsför
og báðu Þorlaugar Bessadóttir til handa Helga Ásbjarnarsonar.
Bessi hyggur að og líst svo að eigi muni víst að æðri maður
veldist til við hann til mægða þó að hún væri góður kostur,
því að Helgi var hinn vinsælasti maður. Var þessu ráðið.
Leggur Ásbjörn til mannaforráðið allt og fé svo mikið sem
Bessi beiddi. Var Helgi hinn sæmilegasti maður.



Eftir það var að veislu snúið og víða mönnum til boðið um
héraðið. Droplaugarsynir voru eigi heima og voru út á
Arneiðarstöðum. Bessi sendi þeim orð að þeir skyldu koma til
veislunnar en þeim fannst fátt um og létu sem þeir vissu
eigi. Fóru þeir og hvorgi og sátu heima. En veislan fór vel
fram allt að einu. Og upp frá því voru Droplaugarsynir aldrei
langvistum á Bessastöðum og hafa það margir menn fyrir satt
að Helga Droplaugarsyni væri aftursjá að um gjaforð þessarar
konu.



Eftir þetta setur Helgi Ásbjarnarson bú á Oddsstöðum og var
vel um samfarir þeirra. Tók Helgi Ásbjarnarson nú vinsældir
miklar og allt mannaforráð að helmingi við Hrafnkel frænda
sinn fyrir austan vatn. Og þegar hin fyrstu misseri er þau
voru ásamt varð þeim barns auðið. Það var mær og kölluð
Ragnheiður.



Helgi sat á Oddsstöðum tvo vetur og unnust þau mikið og vel.
Og á hinum þriðja vetrinum beiddist hún að fara á kynnisleit
upp á Bessastaði að finna föður sinn. Hún lét eftir meyna og
vandi af brjósti. Hún var uppi þar viku og þá þótti Helga mál
að hún færi heim og sendir eftir henni þræla tvo og uxa. Þeir
voru þar um nótt. Þá féll lognsnær um nóttina. Um morguninn
fara þau heimleiðis. Þá var Helgi farinn ofan á drang þann er
fram gengur af Oddsstaðahöfða. Sá hann þá að þeir óku sunnan
eftir ísinum og ofan í vök eina og drukknuðu þau þar öll. Þar
heitir nú Þrælavík. Helgi sá upp á misfarar þeirra og þótti
allmikið. Helgi gekk heim og sagði tíðindin og þóttu mörgum
mikil. Spurðust þessi tíðindi um allt héraðið. Og er Bessi
spurði þetta þá bauð hann heim meyjunni Ragnheiði og fékk
henni þar fóstur með sér. Ætlaði hann þá að Helgi mundi
skjótara af hyggja en það varð þó ekki.



En hann sat þá enn tvo vetur að Oddsstöðum og þá eggjuðu menn
hann að hann kvongaðist. Og hann fór heiman og norður
Smjörvatnsheiði til Vopnafjarðar og komu til Hofs. Þar bjó sá
maður er Bjarni hét og var Brodd-Helgason, hinn mesti
skörungur og höfðingi mikill. Hann átti sér systur er Þórdís
hét. Hún var fríð kona og vel mennt. Viðurnefni átti hún sér
og var kölluð Þórdís todda. Því var hún svo kölluð að hún gaf
aldrei minna en stóra todda þá er hún skyldi fátækum gefa,
svo var hún örlát. Hún var skapstór og skörungur mikill,
skafinn drengur og líkleg til góðs forgangs en þó var hún
lítils virð heima. Og þessarar konu bað Helgi Ásbjarnarson
sér til handa. Bjarni gaf konuna. Er þá boð stofnað og sitja
menn þar að veislu og er boðinu var lokið ríður Helgi heim
með konu sína Þórdísi. Tók hún þar við búi og öllum forgangi.
Kölluðu margir að þess væri vel fengið sem síðan bar raun á
að hún var forvitra.



Litlu síðar en hann var kvongaður var honum kennt barn. Það
hafði hann smíðað meðan hann var kvonlaus. Það var mær og hét
Rannveig. Matselja sú var móðirin er Helgi hafði sett fyrir
bú sitt. Þórdís tók við þessi meyju og gerði svo til sem hún
ætti. Fæddist mærin þar og var að öngvu ósjálegri en sú er
skilgetin var. En Þórdís lét þá konu þegar á burt og fékk
henni góða peninga. Á þetta lagðist mikil virðing hversu vel
Þórdísi fór það sem mart annað.



Og er þau höfðu einn vetur ásamt verið þá bað hún Helga selja
land þetta því að hún þóttist eigi halda mega risnu sinni
fyrir aðkvæmdarsakir "og vildi eg að þú keyptir landið í
Mjóvanesi því að mér sýnist þá eigi jafnmjög í garðshliði."



Þetta land kaupir Helgi og fer byggðum til og býr þar lengi
síðan þangað til að hann þóttist þar eigi mega sitja fyrir
þeim tíðindum er síðan gerðust.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.