Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eb ch. 25

Eyrbyggja saga 25 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eb ch. 25)

Anonymous íslendingasögurEyrbyggja saga
242526

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):

Nú er að segja frá þeim Vermundi og Þórarni svarta að þeir komu af hafi norður við Þrándheimsmynni og héldu inn í Þrándheim. Þá réð Hákon jarl Sigurðarson fyrir Noregi og fór Vermundur til jarls og gerðist honum handgenginn.



Þórarinn fór vestur um haf þegar um haustið með Álfgeiri og gaf Vermundur þeim sinn hlut í skipinu og er Þórarinn eigi við þessa sögu héðan af.



Hákon jarl sat að Hlöðum um veturinn. Vermundur var með honum í kærleikum. Var jarl vel til hans því að hann vissi að Vermundur var stórættaður út hér.



Með jarli voru bræður tveir, sænskir að ætt. Hét annar Halli en annar Leiknir. Þeir voru menn miklu meiri og sterkari en í þann tíma fengjust þeirra jafningjar í Noregi eða víðara annars staðar. Þeir gengu berserksgang og voru þá eigi í mannlegu eðli er þeir voru reiðir og fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn. En hversdaglega voru þeir eigi illir viðureignar ef eigi var í móti þeim gert en þegar hinir mestu örskiptamenn er þeim tók við að horfa. Eiríkur hinn sigursæli Svíakonungur hafði sent jarli berserkina og setti varnað á að hann skyldi gera vel til þeirra og sagði sem var að hið mesta fullting mátti að þeim verða ef til yrði gætt skapsmuna þeirra.



Um vorið er Vermundur hafði verið einn vetur með jarli þá fýstist hann til Íslands og bað jarl gefa sér orlof til þeirrar ferðar.



Jarl bað hann fara sem hann vildi og bað hann hugsa um áður "ef nokkurir eru þeir hlutir í mínu valdi, aðrir meir en aðrir, er þú vilt þiggja þér til framkvæmdar en báðum okkur til sæmdar og virðingar."



En er Vermundur hugsaði eftir hverra hluta hann skal af jarli beiðast þá kom honum í hug að honum mundi mikillar framkvæmdar afla á Íslandi ef hann hefði slíka eftirgöngumenn sem berserkirnir voru. Og staðfestist það í skapi hans að hann mundi leita eftir ef jarlinn vildi fá honum berserkina til eftirgöngu. En það bar til er hann beiddist þessa að honum þótti Styr bróðir sinn mjög sitja yfir sínum hlut og hafa ójafnað við sig sem flesta aðra þá er hann fékk því við komið. Hugði hann að Styr mundir þykja ódælla við sig að eiga ef hann hefði slíka fylgdarmenn sem þeir bræður voru.



Nú segir Vermundur jarli að hann vill þann sóma af honum þiggja að hann gefi honum til trausts og fylgdar berserkina.



Jarl svarar: "Þar beiddist þú þess er mér sýnist að þér muni engi nytsemd í verða þó að eg veiti þér. Hygg eg að þeir verði þér stirðir og skapstórir þegar er þér kaupist við. Hygg eg það flestum bóndasonum ofurefli að stýra þeim eða halda hræddum þó að þeir hafi mér hlýðnir verið í sinni þjónustu."



Vermundur kvaðst mundu til hætta að taka við þeim ef jarl vildi gefa þá í hans vald. Jarl bað hann leita fyrst við berserkina ef þeir vildu honum fylgja.



Hann gerði svo, leitaði ef þeir vildu fara með honum til Íslands og veita honum fylgd og sporgöngu en hann hét í mót að gera vel til þeirra um þá hluti er þeim þætti sig varða og þeir kynnu honum til að segja.



Berserkirnir kváðust eigi hafa sett hug sinn eftir að fara til Íslands. Létust þeir og eigi vita von þar þeirra höfðingja er þeim þætti sér hent að þjóna "en ef þú kostgæfir svo mjög Vermundur að við skulum fara til Íslands með þér máttu svo ætla að við munum því illa kunna ef þú veitir okkur eigi slíkt er við beiðum ef þú hefir föng á."



Vermundur kvað það og eigi vera skyldu. Eftir það fékk hann jáyrði af þeim að fara með sér til Íslands ef það væri jarls vilji og samþykki.



Nú segir Vermundur jarli hvar þá var komið.



Jarl veitti þá úrskurð að berserkirnir skulu fara með honum til Íslands "ef þér þykir það þín sæmd mest ger," en bað hann svo hugsa að honum mundi fjandskapur í þykja ef hann lýkur illa við þá svo sem þeir eru nú á hans vald komnir.



En Vermundur kvaðst eigi mundu þurfa til þess að taka. Eftir það fór Vermundur til Íslands með berserkina og varð vel reiðfara og kom heim í Bjarnarhöfn til bús síns hið sama sumar sem Eiríkur rauði fór til Grænlands, sem fyrr er ritað.



Brátt er Vermundur kom heim vakti Halli berserkur til þess við Vermund að hann mundi fá honum kvonfang mjög sæmilegt. En Vermundur þóttist eigi vita von þeirrar konu af góðum ættum er sig mundi binda við berserk né sín forlög og hafði Vermundur undandrátt um þetta mál. En er Halli fann það sló hann á sig úlfúð og illsku og fór þá allt í þverúð með þeim. Gerðu berserkir sig stóra og ómjúka við Vermund. Tók Vermundur þá að iðrast að hann hafði berserkina á hendur tekist.



Um haustið hafði Vermundur boð mikið og bauð Arnkatli goða til sín og Eyrbyggjum og Styr bróður sínum. Og er boðinu var lokið bauð Vermundur að gefa Arnkatli berserkina og kallar það best henta, en hann vill eigi þiggja. Þá leitar Vermundur ráðs við Arnkel hversu hann skal af sér koma þessu vandræði en hann lagði það til að hann skyldi gefa Styr, kallar honum best fallið að hafa slíka menn fyrir sakir ofsa og ójafnaðar.



Og er Styr var brott búinn gekk Vermundur að honum og mælti: "Nú vildi eg bróðir að við legðum niður fæð þá er með okkur var áður eg fór utan en við tækjum upp holla frændsemi með góðri vináttu og þar með vil eg gefa þér menn þá er eg hefi út flutt þér til styrktar og fylgdar og veit eg eigi þeirra manna von að traust muni til hafa að stríða við þig ef þú hefir slíka sporgöngumenn sem þeir eru."



Styr svarar: "Vel vil eg því taka frændi að batni frændsemi okkur en þá eina frétt hefi eg til þessa manna er þú hefir út flutt að það mun heldur vera vandræðatak en menn muni framkvæmd eða auðnu af þeim hljóta. Nú vil eg aldrei að þeir komi í mín híbýli því að ærnar eru mínar óvinsældir þó að eg hljóti eigi vandræði af þeim."



"Hvert ráð gefur þú þá til frændi," segir Vermundur, "að eg komi þessu vandræði af mér?"



"Annað mál er það," sagði Styr, "að eg leysi vandræði þitt en hitt að þiggja menn þessa af þér í vingjöf og það vil eg eigi. En vandræði þitt er engi maður jafnskyldur að leysa sem eg ef okkur þykir einn veg báðum."



En þó að Styr mælti svo um þá kaus Vermundur að Styr tæki við berserkjunum og skilja þeir bræður nú með kærleik.



Fór Styr þá heim og berserkirnir með honum og voru þeir þess eigi fúsir í fyrstu og kalla Vermund eigi eiga að selja sig né gefa sem ánauðga menn en þó kalla þeir nær sínu skapi að fylgja Styr en Vermundi. Og fóru þeirra skipti mjög líklega fyrst.



Þá voru berserkirnir með Styr er hann fór vestur um fjörð að drepa Þorbjörn kjálka er bjó í Kjálkafirði. Hann átti lokrekkju sterka gerva af timburstokkum og brutu berserkirnir þegar upp svo að af gengu nafarnar fyrir utan, en þó varð Styr banamaður Þorbjarnar kjálka.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.