Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eb ch. 18

Eyrbyggja saga 18 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eb ch. 18)

Anonymous íslendingasögurEyrbyggja saga
171819

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þetta sumar andaðist Þorgrímur Kjallaksson en Vermundur mjóvi
sonur hans tók þá við búi í Bjarnarhöfn. Hann var vitur maður
og stundar heilráður.



Styr hafði þá og búið um hríð undir Hrauni inn frá
Bjarnarhöfn. Hann var vitur maður og harðfengur. Hann átti
Þorbjörgu, dóttur Þorsteins hreggnasa. Þorsteinn og Hallur
voru synir þeirra. Ásdís hét dóttir þeirra, drengileg kona og
heldur skapstór. Styr var héraðríkur og hafði fjölmennt mjög.
Hann átti sökótt við marga menn því að hann vó mörg víg en
bætti engi.



Þetta sumar kom út skip í Salteyrarósi og áttu hálft norrænir
menn. Hét Björn stýrimaður þeirra. Hann fór til vistar á Eyri
til Steinþórs. Hálft skipið áttu suðureyskir menn og hét
Álfgeir stýrimaður þeirra. Hann fór til vistar í Mávahlíð til
Þórarins svarta og félagi hans með honum er Nagli hét, mikill
maður og fóthvatur. Hann var skoskur að kyni.



Þórarinn átti víghest góðan á fjalli. Þorbjörn digri átti og
stóðhross mörg saman er hann lét standa í fjallhögum og valdi
af hross um haustum til sláturs.



Þetta haust gerðist það til tíðinda að eigi fundust hross
Þorbjarnar og var víða leitað en haustið var heldur
veðurhart.



Í öndverðan vetur sendi Þorbjörn Odd Kötluson suður um heiði
undir Hraun. Þar bjó sá maður er Spá-Gils hét. Hann var
framsýnn og eftirrýningamaður mikill um stuldi eða þá hluti
aðra er hann vildi forvitnast.



Oddur spyr hvort hrossum Þorbjarnar höfðu stolið útlendir
menn eða utanhéraðsmenn eða nábúar hans.



Spá-Gils svarar: "Segðu svo Þorbirni sem eg mæli að eg hygg
að hross hans muni eigi langt gengin úr högum þeirra en vant
er á menn að kveða og er betra að missa síns en stór vandræði
hljótist af."



En er Oddur kom til Fróðár virtu þeir Þorbjörn sem Spá-Gils
hefði nokkurar sneiðir stungið Máhlíðingum um mál þessi.
Sagði Oddur og að hann hafði svo mælt að þeir væru líkastir
til hrossatöku er sjálfir voru févana og höfðu þó aukið
hjónum úr því sem vandi var til. Í þessum orðum þótti
Þorbirni kveðið á Máhlíðinga.



Eftir þetta reið Þorbjörn heiman við tólfta mann. Hallsteinn
sonur hans var þar í för en Ketill kappi, annar sonur hans,
var þá utanlands. Þar var Þórir, sonur Arnar af Arnarhvoli,
nábúi Þorbjarnar, hinn röskvasti maður. Oddur Kötluson var í
þessi ferð. En er þeir komu í Holt til Kötlu færði hún Odd
son sinn í kyrtil móbrúnan er hún hafði þá nýgert.



Síðan fóru þeir í Mávahlíð og var Þórarinn og heimamenn í
dyrum úti er þeir sáu mannferðina. Þeir kvöddu Þorbjörn og
spurðu tíðinda.



Síðan mælti Þorbjörn: "Það er vort erindi hingað Þórarinn,"
segir hann, "að vér leitum eftir hrossum þeim er stolin voru
frá mér í haust. Viljum vér hér beiða rannsóknar hjá yður."



Þórarinn svarar: "Er rannsókn þessi nokkuð með lögum upp
tekin eða hafið þér nokkura lögsjáendur til kvadda að skynja
þetta mál eða viljið þér nokkur grið selja oss í rannsókn
þessi eða hafið þér nokkuð víðara farið til rannsóknar?"



Þorbjörn svarar: "Ekki ætlum vér að víðar þurfi þessa
rannsókn að fremja."



Þórarinn svarar: "Þá viljum vér þverlega þessar rannsóknar
synja ef þér viljið aflaga eftir leita og upp hefja."



Þorbjörn svarar: "Þá munum vér það fyrir satt hafa að þú sért
sannur að sökinni er þú vilt þig eigi láta undan bera með
rannsókninni."



"Gerið það sem yður líkar," segir Þórarinn.



Eftir það setti Þorbjörn dyradóm og nefndi sex menn í dóm.
Síðan sagði Þorbjörn fram sökina á hendur Þórarni um
hrossatökuna.



Þá gekk Geirríður út í dyrnar og sá hvað er títt var og
mælti: "Of satt er það er mælt er að meir hefir þú Þórarinn
kvenna skap en karla er þú skalt þola Þorbirni digra hverja
skömm og eigi veit eg hví eg á slíkan son."



Þá mælti Álfgeir stýrimaður: "Veita munum vér þér allt það er
vér megum hvað sem þú vilt upp taka."



Þórarinn svarar: "Eigi nenni eg nú lengur hér að standa."



Eftir þetta hlaupa þeir Þórarinn út og vilja hleypa upp
dóminum. Þeir voru sjö saman og sló þegar í bardaga. Þórarinn
vó húskarl Þorbjarnar en Álfgeir annan. Þar féll og húskarl
Þórarins. Ekki festi vopn á Oddi Kötlusyni.



Auður húsfreyja hét á konur að skilja þá og köstuðu þær
klæðum á vopn þeirra.



Eftir það gengur Þórarinn inn og hans menn en þeir Þorbjörn
riðu í brott og sneru áður málum til Þórsnessþings. Þeir riðu
upp með voginum og bundu sár sín undir stakkgarði þeim er
Korngarður heitir.



Í túninu í Mávahlíð fannst hönd þar sem þeir höfðu barist og
var sýnd Þórarni. Hann sá að þetta var konuhönd. Hann spurði
hvar Auður var. Honum var sagt að hún lá í sæng sinni. Þá
gekk hann til hennar og spurði hvort hún var sár. Auður bað
hann ekki um það hirða en hann varð þó vís að hún var
handhöggin. Kallar hann þá á móður sína og bað hana binda sár
hennar.



Þá gekk Þórarinn út og þeir félagar og runnu eftir þeim
Þorbirni. Og er þeir áttu skammt til garðsins heyrðu þeir
mælgi til þeirra Þorbjarnar og tók Hallsteinn til orða og
mælti: "Af sér rak Þórarinn ragmælið í dag."



"Djarflega barðist hann," segir Þorbjörn, "en margir verða
vaskir í einangrinum þó að lítt séu vaskir þess í milli."



Oddur svarar: "Þórarinn mun vera hinn röskvasti maður en slys
mun það þykja er hann henti þá er hann hjó höndina af konu
sinni."



"Var það satt?" segir Þorbjörn.



"Satt sem dagur," segir Oddur.



Þá hljópu þeir upp og gerðu að þessu mikla sköll og hlátur.



Í þessu komu þeir Þórarinn eftir og varð Nagli skjótastur. En
er hann sá að þeir ofruðu vopnunum glúpnaði hann og hljóp
umfram og í fjallið upp og varð að gjalti.



Þórarinn hljóp að Þorbirni og hjó með sverði í höfuðið og
klauf ofan í jaxla. Eftir það sótti Þórir Arnarson að Þórarni
við þriðja mann. Hallsteinn sótti Álfgeir við annan mann.
Oddur Kötluson sótti félaga Álfgeirs við annan mann. Þrír
förunautar Þorbjarnar sóttu tvo menn Þórarins og var bardagi
þessi sóttur með miklu kappi.



Þeirra skipti fóru svo að Þórarinn hjó fót af Þóri þar er
kálfi var digrastur en drap báða förunauta hans. Hallsteinn
féll fyrir Álfgeiri sár til ólífis en er Þórarinn var laus
rann Oddur Kötluson við þriðja mann. Hann var eigi sár því að
eigi festi vopn á kyrtli hans. Allir lágu eftir aðrir
förunautar þeirra. Látnir voru og báðir húskarlar Þórarins.



Þeir Þórarinn tóku hesta þeirra Þorbjarnar og ríða þeim heim
og sáu þeir þá hvar Nagli hljóp hið efra um hlíðina. Og er
þeir komu í túnið sáu þeir að Nagli var kominn fram um
garðinn og stefndi inn til Búlandshöfða. Þar fann hann þræla
Þórarins tvo er ráku sauði úr höfðanum. Hann segir þeim
fundinn og liðsmun hver var. Kallaðist hann víst vita að
Þórarinn og hans menn voru látnir og í því sáu þeir að menn
riðu heiman eftir vellinum. Þá tóku þeir Þórarinn að hleypa
því að þeir vildu hjálpa Nagla að hann hlypi eigi á sjó eða
fyrir björg.



Og er þeir Nagli sjá að mennirnir riðu æsilega hugðu þeir að
Þorbjörn mundi þar fara. Tóku þeir nú rás af nýju allir inn
til höfðans og runnu þar til er þeir koma þar sem nú heitir
Þrælaskriða. Þar fengu þeir Þórarinn tekið Nagla því að hann
var nálega sprunginn af mæði en þrælarnir hljópu þar fyrir
ofan og fram af höfðanum og týndust sem von var því að
höfðinn er svo hár að allt hefir bana það sem þar fer ofan.



Síðan fóru þeir Þórarinn heim og var Geirríður í dyrum og
spyr þá hve farist hefir. Þórarinn kvað þá vísu:



Varði eg mig þar er myrðir

morðfárs vega þorði,

hlaut örn af ná neyta

nýjum, kvenna frýju.

Barkat vægð að vígi

valnaðrs í styr þaðra.

Mæli eg hól fyr hæli

hjaldrsgoðs af því sjaldan.


Geirríður svarar: "Segið þér víg Þorbjarnar?"



Þórarinn kvað:



Knátti hjör und hetti,

hræflóð, bragar Móða,

rauk um sóknar sæki,

slíðrbeittr staðar leita.

Blóð féll, en var voði

vígtjalds náar skaldi,

þá var dæmisalr dóma

dreyrafullr, um eyru.


"Tekið hefir þá brýningin," sagði Geirríður, "og gangið inn
og bindið sár yður." Og svo var.



Nú er að segja frá Oddi Kötlusyni. Hann fór þar til er hann
kom til Fróðár og sagði þar tíðindin. Lét Þuríður húsfreyja
safna þá mönnum og fara eftir líkunum en flytja heim sára
menn. Þorbjörn var í haug lagður en Hallsteinn sonur hans var
græddur. Þórir af Arnarhvoli var og græddur og gekk við
tréfót síðan. Því var hann kallaður Þórir viðleggur. Hann
átti Þorgrímu galdrakinn. Þeirra synir voru þeir Örn og
Valur, drengilegir menn.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.