Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 9

Egils saga Skalla-Grímssonar 9 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 9)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
8910

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Haraldur konungur bauð út leiðangri miklum og dró saman
skipaher, stefndi til sín liði víða um land; hann fór úr
Þrándheimi og stefndi suður í land. Hann hafði það spurt, að
her mikill var saman dreginn um Agðir og Rogaland og
Hörðaland og víða til safnað, bæði ofan af landi og austan úr
Vík, og var þar margt stórmenni saman komið og ætlar að verja
land fyrir Haraldi konungi.



Haraldur konungur hélt norðan liði sínu; hann hafði sjálfur
skip mikið og skipað hirð sinni. Þar var í stafni Þórólfur
Kveld-Úlfsson og Bárður hvíti og synir Berðlu-Kára, Ölvir
hnúfa og Eyvindur lambi, en berserkir konungs tólf voru í
söxum. Fundur þeirra var suður á Rogalandi í Hafursfirði; var
þar hin mesta orusta, er Haraldur konungur hafði átt, og
mikið mannfall í hvorratveggju liði. Lagði konungur
framarlega skip sitt, og var þar ströngust orustan. En svo
lauk, að Haraldur konungur fékk sigur, en þar féll Þórir
haklangur, konungur af Ögðum, en Kjötvi hinn auðgi flýði og
allt lið hans, það er upp stóð, nema það, er til handa gekk.



Eftir orustuna, þá er kannað var lið Haralds konungs, var
margt fallið, og margir voru mjög sárir. Þórólfur var sár
mjög, en Bárður meir, og enginn var ósár á konungsskipinu
fyrir framan siglu, nema þeir, er eigi bitu járn, en það voru
berserkir. Þá lét konungur binda sár manna sinna og þakkaði
mönnum framgöngu sína og veitti gjafir og lagði þar mest lof
til, er honum þótti maklegir, og hét þeim að auka virðing
þeirra, nefndi til þess skipstjórnarmenn og þar næst stafnbúa
sína og aðra frambyggja. Þá orustu átti Haraldur konungur
síðasta innan lands, og eftir það fékk hann enga viðstöðu, og
eignaðist hann síðan land allt. Konungur lét græða menn sína,
þá er lífs var auðið, en veita umbúnað dauðum mönnum, þann
sem þá var siðvenja til.



Þórólfur og Bárður lágu í sárum; tóku sár Þórólfs að gróa, en
Bárðar sár gerðust banvæn. Þá lét hann kalla konung til sín
og sagði honum svo:



"Ef svo verður, að eg deyja úr þessum sárum, þá vil eg þess
biðja yður, að þér látið mig ráða fyrir arfi mínum."



En er konungur hafði því játað, þá sagði hann:



"Arf minn allan, vil eg, að taki Þórólfur, félagi minn og
frændi, lönd og lausa aura. Honum vil eg og gefa konu mína og
son minn til uppfæðslu, því að eg trúi honum til þess best
allra manna."



Hann festir þetta mál sem lög voru til að leyfi konungs.
Síðan andast Bárður, og var honum veittur umbúnaður, og var
hann harmdauði mjög. Þórólfur varð heill sára sinna og fylgdi
konungi um sumarið og hafði fengið allmikinn orðstír.



Konungur fór um haustið norður til Þrándheims. Þá biður
Þórólfur orlofs að fara norður á Hálogaland að vitja gjafar
þeirrar, er hann hafði þegið um sumarið að Bárði, frænda
sínum. Konungur lofar það og gerir með orðsending og
jartegnir, að Þórólfur skal það allt fá, er Bárður gaf honum,
lætur það, að sú gjöf var ger með ráði konungs og hann vill
svo vera láta. Gerir konungur þá Þórólf lendan mann og veitir
honum þá allar veislur þær, sem áður hafði Bárður haft, fær
honum finnferðina með þvílíkum skildaga, sem áður hafði haft
Bárður; konungur gaf Þórólfi langskip gott með reiða öllum og
lét búa ferð hans þaðan sem best. Síðan fór Þórólfur þaðan
ferð sína, og skildust þeir konungur með hinum mesta kærleik.



En er Þórólfur kom norður í Torgar, þá var honum þar vel
fagnað; sagði hann þá fráfall Bárðar og það með, að Bárður
hefði gefið honum eftir sig lönd og lausa aura og kvonfang
það, er hann hafði áður átt; ber fram síðan orð konungs og
jartegnir.



En er Sigríður heyrði þessi tíðindi, þá þótti henni skaði
mikill eftir mann sinn. En Þórólfur var henni áður mjög
kunnugur, og vissi hún, að hann var hinn mesti merkismaður og
það gjaforð var allgott. Og með því að það var konungs boð,
þá sá hún það að ráði og með henni vinir hennar að heitast
Þórólfi, ef það væri föður hennar eigi í móti skapi. Síðan
tók Þórólfur þar við forráðum öllum og svo við konungssýslu.



Þórólfur gerði heimanför sína og hafði langskip og á nær sex
tigu manna og fór síðan, er hann var búinn, norður með landi;
og einn dag að kveldi kom hann í Álöst á Sandnes; lögðu skip
sitt til hafnar; en er þeir höfðu tjaldað og um búist, fór
Þórólfur upp til bæjar með tuttugu menn. Sigurður fagnaði
honum vel og bauð honum þar að vera, því að þar voru áður
kunnleikar miklir með þeim, síðan er mægð hafði tekist með
þeim Sigurði og Bárði. Síðan gengu þeir Þórólfur inn í stofu
og tóku þar gisting.



Sigurður settist á tal við Þórólf og spurði að tíðindum.
Þórólfur sagði frá orustu þeirri, er verið hafði um sumarið
suður á landi, og fall margra manna, þeirra er Sigurður vissi
deili á. Þórólfur sagði, að Bárður, mágur hans, hafði andast
úr sárum þeim, er hann fékk í orustu. Þótti það báðum þeim
hinn mesti mannskaði. Þá segir Þórólfur Sigurði, hvað verið
hafði í einkamálum með þeim Bárði, áður en hann andaðist, og
svo bar hann fram orðsendingar konungs, að hann vildi það
allt haldast láta, og sýndi þar með jartegnir. Síðan hóf
Þórólfur upp bónorð sitt við Sigurð og bað Sigríðar, dóttur
hans. Sigurður tók því máli vel, sagði, að margir hlutir
héldu til þess: sá fyrstur, að konungur vill svo vera láta,
svo það, að Bárður hefði þess beðið, og það með, að Þórólfur
var honum kunnugur og honum þótti dóttir sín vel gift; var
það mál auðsótt við Sigurð; fóru þá fram festar og ákveðin
brullaupsstefna í Torgum um haustið.



Fór þá Þórólfur heim til bús síns og hans förunautar og bjó
þar til veislu mikillar og bauð þangað fjölmenni miklu. Var
þar margt frænda Þórólfs göfugra. Sigurður bjóst og norðan og
hafði langskip mikið og mannval gott. Var að þeirri veislu
hið mesta fjölmenni.



Brátt fannst það, að Þórólfur var ör maður og stórmenni
mikið; hafði hann um sig sveit mikla, en brátt gerðist
kostnaðarmikið og þurfti föng mikil. Þá var ár gott og
auðvelt að afla þess, er þurfti.



Á þeim vetri andaðist Sigurður á Sandnesi, og tók Þórólfur
arf allan eftir hann; var það allmikið fé.



Þeir synir Hildiríðar fóru á fund Þórólfs og hófu upp tilkall
það, er þeir þóttust þar eiga um fé það, er átt hafði
Björgólfur, faðir þeirra.



Þórólfur svarar svo: "Það var mér kunnugt of Brynjólf og enn
kunnara um Bárð, að þeir voru manndómsmenn svo miklir, að
þeir myndu hafa miðlað ykkur það af arfi Björgólfs, sem þeir
vissu, að réttindi væru til. Var eg nær því, að þið hófuð
þetta sama ákall við Bárð, og heyrðist mér svo, sem honum
þætti þar engi sannindi til, því að hann kallaði ykkur
frillusonu."



Hárekur sagði, að þeir myndu vitni til fá, að móðir þeirra
var mundi keypt - "en satt var það, að við leituðum ekki
fyrst þessa mála við Brynjólf, bróður okkarn; var þar og með
skyldum að skipta. En af Bárði væntum við okkur sæmdar í alla
staði; urðu og eigi löng vor viðskipti. En nú er arfur þessi
kominn undir óskylda menn okkur, og megum við nú eigi með
öllu þegja yfir missu okkarri. En vera kann, að enn sé sem
fyrr sá ríkismunur, að við fáum eigi rétt af þessu máli fyrir
þér, ef þú vilt engi vitni heyra, þau er við höfum fram að
flytja, að við séum menn aðalbornir."



Þórólfur svarar þá stygglega: "Því síður ætla eg ykkur
arfborna, að mér er sagt móðir ykkur væri með valdi tekin og
hernumin heim höfð."



Eftir það skildu þeir þessa ræðu.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.