Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 46

Egils saga Skalla-Grímssonar 46 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 46)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
454647

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þeir Þórólfur og Egill voru með Þóri í góðu yfirlæti, en þeir
bjuggu um vorið langskip mikið og fengu menn til og fóru um
sumarið í Austurveg og herjuðu og fengu of fjár og áttu
margar orustur. Héldu þeir og út til Kúrlands og lögðu þar
við land með hálfs mánaðar friði og kaupstefnu; en er því var
lokið, þá tóku þeir að herja og lögðu að í ýmsum stöðum.



Einn dag lögðu þeir að við árós einn mikinn, enda var þar
mörk mikil; þeir réðu þar til uppgöngu, og var skipt í
sveitir, tólf mönnum saman. Þeir gengu á skóginn, og var þar
ekki langt, áður byggðin tók við; þeir rændu þar og drápu
menn, en liðið flýði undan, og fengu þeir enga viðurtöku. En
er á leið daginn, lét Þórólfur blása liðinu til ofangöngu;
sneru menn þá aftur á skóginn, þar sem þá voru staddir, en
svo fremi mátti kanna liðið, er þeir komu til strandar; en er
Þórólfur var ofan kominn, var Egill eigi kominn, en þá tók að
myrkva af nótt, og þóttust þeir eigi mega leita hans.



Egill hafði gengið yfir skóginn og tólf menn með honum, og
sáu þeir þá sléttur miklar og byggðir; bær einn stóð skammt
frá þeim, og stefndu þeir þar til, og er þeir koma þar til,
hlaupa þeir í húsin inn og urðu við enga menn varir, en tóku
fé það, er laust var. Þar voru mörg hús, og dvaldist þeim þar
lengi, en er þeir voru út komnir og frá bænum, þá var lið
komið milli þeirra og skógarins, og sótti það að þeim.



Skíðgarður var hár ger millum þeirra og skógarins. Þá mælti
Egill, að þeir skyldu fylgja honum, svo að eigi mætti öllum
megin að þeim ganga; gekk Egill þá fyrst, en þá hver að öðrum
svo nær, að ekki mátti milli þeirra komast; Kúrir sóttu að
þeim fast og mest með lögum og skotum, en gengu ekki í
höggorustu. Þeir Egill fundu eigi fyrr, er þeir ganga með
görðunum, en garður gekk á aðra hönd þeim, og mátti eigi fram
komast; Kúrir sóttu eftir þeim í kvína, en sumir sóttu utan
að og lögðu spjótum og sverðum í gegnum garðana, en sumir
báru klæði á vopn þeirra. Urðu þeir sárir og því næst
handteknir og allir bundnir, leiddir svo heim til bæjarins.



Maður sá, er bæ þann átti, var ríkur og auðugur; hann átti
son roskinn; síðan var um rætt, hvað við þá skyldi gera;
sagði bóndi að honum þótti það ráð, að drepinn væri hver á
fætur öðrum. Bóndason sagði, að þá gerði myrkt af nótt, og
mætti þá enga skemmtun af hafa að kvelja þá; bað hann láta
bíða morguns; var þeim þá skotið í hús eitt og bundnir
rammlega; Egill var bundinn við staf einn, bæði hendur og
fætur; síðan var húsið læst rammlega, en Kúrir gengu inn í
stofu og mötuðust og voru allkátir og drukku. Egill færðist
við og treysti stafinn, til þess er upp losnaði úr gólfinu;
síðan féll stafurinn; smeygðist Egill þá af stafnum; síðan
leysti hann hendur sínar með tönnum, en er hendur hans voru
lausar, leysti hann bönd af fótum sér; síðan leysti hann
félaga sína.



En er þeir voru allir lausir, leituðust þeir um í húsin, hvar
líkast var út að komast; húsið var gert að veggjum af
timburstokkum stórum, en í annan enda hússins var skjaldþili
flatt; hljópu þeir þar að og brutu þilið. Var þar hús annað,
er þeir komu í; voru þar og timburveggir um.



Þá heyrðu þeir mannamál undir fætur sér niður; leituðust þeir
þá um og fundu hurð í gólfinu. Luku þeir þar upp; var þar
undir gröf djúp; heyrðu þeir þangað manna mál. Síðan spurði
Egill, hvað manna þar væri; sá nefndist Áki, er við hann
mælti. Egill spurði, ef hann vildi upp úr gröfinni; Áki
segir, að þeir vildu það gjarna. Síðan létu þeir Egill síga
festi ofan í gröfina, þá er þeir voru bundnir með, og drógu
þar upp þrjá menn.



Áki sagði, að það voru synir hans tveir og þeir voru menn
danskir, höfðu þar orðið herteknir hið fyrra sumar. "Var eg,"
sagði hann, "vel haldinn í vetur; hafði eg mjög
fjárvarðveislur búanda, en sveinarnir voru þjáðir og undu því
illa. Í vor réðum vér til og hljópum á brott og urðum síðan
fundnir, vorum vér þá hér settir í gröf þessa."



"Þér mun hér kunnugt um húsaskipan," segir Egill; "hvar er
oss vænst á brott að komast?"



Áki sagði, að þar var annað skjaldþili, -- "brjótið þér það
upp; munuð þér þá koma fram í kornhlöðu, en þar má út ganga
sem vill."



Þeir Egill gerðu svo, brutu upp þilið, gengu síðan í hlöðuna
og þaðan út; niðamyrkur var á; þá mæltu þeir förunautar, að
þeir skyldu skunda á skóginn.



Egill mælti við Áka: "Ef þér eru hér kunnug hýbýli, þá muntu
vísa oss til féfanga nokkurra."



Áki segir, að eigi myndi þar skorta lausafé; "hér er loft
mikið, er bóndi sefur í; þar skortir eigi vopn inni."



Egill bað þá þangað fara til loftsins, en er þeir komu upp í
riðið, þá sáu þeir, að loftið var opið; var þar ljós inni og
þjónustumenn og bjuggu rekkjur manna. Egill bað þá suma úti
vera og gæta, að enginn kæmist út; Egill hljóp inn í loftið,
greip þar vopn, því að þau skorti þar eigi inni; drápu þar
menn alla, þá er þar voru inni; þeir tóku sér allir alvæpni.
Áki gekk til, þar er hlemmur var í gólfþilinu, og lauk upp,
mælti, að þeir skyldu þar ofan ganga í undirskemmuna. Þeir
tóku sér ljós og gengu þangað, voru þar féhirslur bónda og
gripir góðir og silfur mikið; tóku menn sér þar byrðar og
báru út; Egill tók undir hönd sér mjöðdrekku eina vel mikla
og bar undir hendi sér; fóru þeir þá til skógar.



En er þeir komu í skóginn, þá nam Egill stað og mælti: "Þessi
ferð er allill og eigi hermannleg; vér höfum stolið fé bónda,
svo að hann veit eigi til, skal oss aldregi þá skömm henda;
förum nú aftur til bæjarins og látum þá vita, hvað títt er."



Allir mæltu því í mót; sögðu, að þeir vildu fara til skips.
Egill setur niður mjöðdrekkuna; síðan hefur hann á rás og
rann til bæjarins; en er hann kom heim til bæjarins, þá sá
hann, að þjónustusveinar gengu frá eldaskála með skutildiska
og báru inn í stofuna. Egill sá, að í eldahúsinu var eldur
mikill og katlar yfir; gekk hann þangað til; þar höfðu verið
stokkar stórir fluttir heim og svo eldar gerðir, sem þar er
siðvenja til, að eldinn skal leggja í stokks endann, og
brennur svo stokkurinn. Egill greip upp stokkinn og bar heim
til stofunnar og skaut þeim endanum, er logaði, upp undir
ufsina og svo upp í næfrina; eldurinn las skjótt tróðviðinn.
En þeir, er við drykkjuna sátu, fundu eigi fyrr en loginn
stóð inn um ræfrið; hljópu menn þá til dyranna, en þar var
ekki greiðfært út, bæði fyrir viðunum, svo það, að Egill
varði dyrnar. Felldi hann menn bæði í dyrunum og úti fyrir
dyrunum; en það var s vipstund ein, áður stofan brann, svo að
hún féll ofan. Týndist þar lið allt, er þar var inni, en
Egill gekk aftur til skógarins, fann þar förunauta sína; fara
þá allir saman til skips. Sagði Egill, að mjöðdrekku þá vill
hann hafa að afnámsfé, er hann fór með, en hún var reyndar
full af silfri.



Þeir Þórólfur urðu allfegnir, er Egill kom ofan; héldu þeir
þegar frá landi, er morgnaði. Áki og þeir feðgar voru í sveit
Egils; þeir sigldu um sumarið, er á leið, til Danmarkar og
lágu þar enn fyrir kaupskipum og rændu þar, er þeir komust
við.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.