Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 55

Egils saga Skalla-Grímssonar 55 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 55)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
545556

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Aðalsteinn konungur sneri í brott frá orustunni, en menn hans
ráku flóttann; hann reið aftur til borgarinnar og tók eigi
fyrr náttstað en í borginni, en Egill rak flóttann og fylgdi
þeim lengi og drap hvern mann, er hann náði. Síðan sneri hann
aftur með sveitunga sína og fór þar til, er orustan hafði
verið, og hitti þar Þórólf, bróður sinn, látinn; hann tók upp
lík hans og þó, bjó um síðan, sem siðvenja var til. Grófu
þeir þar gröf og settu Þórólf þar í með vopnum sínum öllum og
klæðum; síðan spennti Egill gullhring á hvora hönd honum,
áður hann skildist við, hlóðu síðan að grjóti og jósu að
moldu. Þá kvað Egill vísu:




Gekk, sás óðisk ekki,

jarlmanns bani snarla,

þreklundaðr fell, Þundar,

Þórólfr í gný stórum;

jörð grær, en vér verðum,

Vínu nær of mínum,

helnauð es þat, hylja

harm, ágætum barma.



Og enn kvað hann:




Valköstum hlóðk vestan

vang fyr merkistangir,

ótt vas él þats sóttak

Aðgils bláum Naðri;

háði ungr við Engla

Áleifr þrimu stála;

helt, né hrafnar sultu,

Hringr á vápna þingi.



Síðan fór Egill með sveit sína á fund Aðalsteins konungs og
gekk þegar fyrir konung, er hann sat við drykkju; þar var
glaumur mikill; og er konungur sá, að Egill var inn kominn,
þá mælti hann, að rýma skyldi pallinn þann hinn óæðra fyrir
þeim, og mælti, að Egill skyldi sitja þar í öndvegi gegnt
konungi.



Egill settist þar niður og skaut skildinum fyrir fætur sér;
hann hafði hjálm á höfði og lagði sverðið um kné sér og dró
annað skeið til hálfs, en þá skellti hann aftur í slíðrin;
hann sat uppréttur og var gneyptur mjög. Egill var
mikilleitur, ennibreiður, brúnamikill, nefið ekki langt, en
ákaflega digurt, granstæðið vítt og langt, hakan breið
furðulega og svo allt um kjálkana, hálsdigur og herðimikill,
svo að það bar frá því, sem aðrir menn voru, harðleitur og
grimmlegur, þá er hann var reiður; hann var vel í vexti og
hverjum manni hærri, úlfgrátt hárið og þykkt og varð snemma
sköllóttur; en er hann sat, sem fyrr var ritað, þá hleypti
hann annarri brúninni ofan á kinnina, en annarri upp í
hárrætur; Egill var svarteygur og skolbrúnn. Ekki vildi hann
drekka, þó að honum væri borið, en ýmsum hleypti hann
brúnunum ofan eða upp.



Aðalsteinn konungur sat í hásæti; hann lagði og sverð um kné
sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr
slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og
dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir
eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á
gólfið; hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér,
gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti. En er
Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru
brýn hans í lag; lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og
tók við dýrshorni, er honum var borið, og drakk af. Þá kvað
hann:




Hrammtangar lætr hanga

hrynvirgil mér brynju

Höðr á hauki troðnum

heiðis vingameiði;

rítmæðis knák reiða,

ræðr gunnvala bræðir,

gelgju seil á galga

geirveðrs, lofi at meira.



Þaðan af drakk Egill að sínum hlut og mælti við aðra menn.



Eftir það lét konungur bera inn kistur tvær; báru tveir menn
hvora; voru báðar fullar af silfri.



Konungur mælti: "Kistur þessar, Egill, skaltu hafa, og ef þú
kemur til Íslands, skaltu færa þetta fé föður þínum; í
sonargjöld sendi eg honum; en sumu fé skaltu skipta með
frændum ykkrum Þórólfs, þeim er þér þykja ágætastir. En þú
skalt taka hér bróðurgjöld hjá mér, lönd eða lausa aura,
hvort er þú vilt heldur, og ef þú vilt með mér dveljast
lengdar, þá skal eg hér fá þér sæmd og virðing, þá er þú
kannt mér sjálfur til segja."



Egill tók við fénu og þakkaði konungi gjafir og vinmæli; tók
Egill þaðan af að gleðjast, og þá kvað hann:




Knáttu hvarms af harmi

hnúpgnípur mér drúpa,

nú fann ek þanns ennis

ósléttur þær rétti;

gramr hefr gerðihömrum

grundar upp of hrundit,

sá's til ýgr, af augum,

armsíma, mér grímu.



Síðan voru græddir þeir menn, er sárir voru og lífs auðið.



Egill dvaldist með Aðalsteini konungi hinn næsta vetur eftir
fall Þórólfs, og hafði hann allmiklar virðingar af konungi;
var þá með honum lið það allt, er áður hafði fylgt þeim báðum
bræðrum og úr orustu höfðu komist. Þá orti Egill drápu um
Aðalstein konung, og er í því kvæði þetta:




Nú hefr foldgnárr fellda,

fellr jörð und nið Ellu,

hjaldrsnerrandi, harra

höfuðbaðmr, þría jöfra;

Aðalsteinn of vann annat,

allt's lægra kynfrægjum,

hér sverjum þess, hyrjar

hrannbrjótr, konungmanni.



En þetta er stefið í drápunni:




Nú liggr hæst und hraustum

hreinbraut Aðalsteini.



Aðalsteinn gaf þá enn Agli að bragarlaunum gullhringa tvo, og
stóð hvor mörk, og þar fylgdi skikkja dýr, er konungur
sjálfur hafði áður borið.



En er voraði, lýsti Egill yfir því fyrir konungi, að hann
ætlaði í brott um sumarið og til Noregs og vita, hvað títt er
um hag Ásgerðar -- "konu þeirrar, er átt hefir Þórólfur,
bróðir minn; þar standa saman fé mikil, en eg veit eigi,
hvort börn þeirra lifa nokkur; á eg þar fyrir að sjá, ef þau
lifa, en eg á arf allan, ef Þórólfur hefir barnlaus andast."



Konungur sagði: "Það mun vera, Egill, á þínu forráði að fara
héðan á brott, ef þú þykist eiga skyldarerindi, en hinn veg
þykir mér best, að þú takir hér staðfestu með mér og slíka
kosti, sem þú vilt beiðast."



Egill þakkaði konungi orð sín; "eg mun nú fara fyrst, svo sem
mér ber skylda til, en það er líkara, að eg vitji hingað
þessa heita, þá er eg kemst við."



Konungur bað hann svo gera. Síðan bjóst Egill brott með liði
sínu, en margt dvaldist eftir með konungi; Egill hafði eitt
langskip mikið og þar á hundrað manna eða vel svo. Og er hann
var búinn ferðar sinnar og byr gaf, þá hélt hann til hafs;
skildust þeir Aðalsteinn konungur með mikilli vináttu; bað
hann Egil koma aftur sem skjótast; Egill kvað svo vera
skyldu.



Síðan hélt Egill til Noregs, og er hann kom við land, fór
hann sem skyndilegast inn í Fjörðu; hann spurði þau tíðindi,
að andaður var Þórir hersir, en Arinbjörn hafði tekið við
arfi og gerst lendur maður. Egill fór á fund Arinbjarnar og
fékk þar góðar viðtökur; bauð Arinbjörn honum þar að vera.
Egill þekktist það; lét hann setja upp skipið og vista lið;
en Arinbjörn tók við Agli við tólfta mann og var með honum um
veturinn.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.