Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 57

Egils saga Skalla-Grímssonar 57 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 57)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
565758

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):Egill hafði þá verið, svo að vetrum skipti mjög mörgum, að
Borg; þá var það á einu sumri, er skip komu af Noregi til
Íslands, að þau tíðindi spurðust austan, að Björn höldur var
andaður. Það fylgdi þeirri sögn, að fé það allt, er Björn
hafði átt, hafði upp tekið Berg-Önundur, mágur hans; hann
hafði flutt heim til sín alla lausa aura, en jarðir hafði
hann byggt og skilið sér allar landskyldir; hann hafði og
sinni eigu kastað á jarðir þær allar, er Björn hafði átt.Og er Egill heyrði þetta, þá spurði hann vandlega, hvort
Berg-Önundur myndi sínum ráðum fram hafa farið um þetta eða
hefði hann traust til haft sér meiri manna; honum var sagt,
að Önundur var kominn í vináttu mikla við Eirík konung og við
Gunnhildi þó miklu kærra.Egill lét það kyrrt vera á því hausti, en er veturinn leið af
og vora tók, þá lét Egill setja fram skip, það er hann átti,
er staðið hafði í hrófi við Langárfoss; hann bjó skip það til
hafs og fékk menn til. Ásgerður, kona hans, var ráðin til
farar, en Þórdís, dóttir Þórólfs, var eftir. Egill sigldi í
haf, er hann var búinn; er frá hans ferð ekki að segja, fyrr
en hann kemur til Noregs; hélt hann þegar til fundar við
Arinbjörn, sem fyrst mátti hann. Arinbjörn tók vel við honum
og bauð Agli með sér að vera, og það þekktist hann; fóru þau
Ásgerður bæði þangað og nokkurir menn með þeim.Egill kom brátt á ræður við Arinbjörn um fjárheimtur þær, er
Egill þóttist eiga þar í landi.Arinbjörn segir: "Það mál þykir mér óvænlegt; Berg-Önundur er
harður og ódæll, ranglátur og fégjarn, en hann hefir nú hald
mikið af konungi og drottningu; er Gunnhildur hinn mesti
óvinur þinn, sem þú veist áður, og mun hún ekki fýsa Önund,
að hann geri greiða á málinu."Egill segir: "Konungur mun oss láta ná lögum og réttindum á
máli þessu, en með liðveislu þinni þá vex mér ekki í augu að
leita laga við Berg-Önund."Ráða þeir það af, að Egill skipar skútu; fóru þeir þar á nær
tuttugu; þeir fóru suður á Hörðaland og koma fram á Aski;
ganga þeir þar til húss og hitta Önund.Ber þá Egill upp mál sín og krefur Önund skiptis um arf
Bjarnar og segir, að dætur Bjarnar væru jafnkomnar til arfs
eftir hann að lögum -- "þó að mér þyki," kvað Egill, "sem
Ásgerður muni þykja ættborin miklu betur en Gunnhildur, kona
þín."Önundur segir þá snellt mjög: "Þú ert furðulega djarfur
maður, Egill, útlagi Eiríks konungs, er þú ferð hingað í land
hans og ætlar hér til ágangs við menn hans. Máttu svo ætla,
Egill, að eg hefi velta látið slíka sem þú ert og af minnum
sökum en mér þykja þessar, er þú telur til arfs fyrir hönd
konu þinnar, því að það er kunnugt alþýðu, að hún er þýborin
að móðerni." Önundur var málóði um hríð.Og er Egill sá, að Önundur vildi engan hlut greiða um þetta
mál, þá stefnir Egill honum þing og skýtur málinu til
Gulaþingslaga.Önundur segir: "Koma mun eg til Gulaþings, og myndi eg vilja,
að þú kæmir þaðan eigi heill í brott."Egill segir, að hann mun til þess hætta að koma þó til þings
allt að einu -- "verður þá sem má, hversu málum vorum lýkur."Fara þeir Egill síðan í brott, og er hann kom heim, segir
hann Arinbirni frá ferð sinni og frá svörum Önundar;
Arinbjörn varð reiður mjög, er Þóra, föðursystir hans, var
kölluð ambátt.Arinbjörn fór á fund Eiríks konungs, bar upp fyrir hann þetta
mál.Konungur tók heldur þungt hans máli og segir, að Arinbjörn
hefði lengi fylgt mjög málum Egils -- "hefir hann notið þín
að því, er eg hefi látið hann vera hér í landi, en nú mun mér
örðugt þykja, ef þú heldur hann til þess, að hann gangi á
vini mína."Arinbjörn segir: "Þú munt láta oss ná lögum af þessu máli."Konungur var heldur styggur í þessu máli; Arinbjörn fann, að
drottning myndi þó miklu verr viljuð; fer Arinbjörn aftur og
sagði, að heldur horfir óvænt.Líður af veturinn og kemur þar, er menn fara til Gulaþings;
Arinbjörn fjölmennti mjög til þings; var Egill í för með
honum. Eiríkur konungur var þar og hafði fjölmenni mikið;
Berg-Önundur var í sveit konungs og þeir bræður, og höfðu
þeir sveit mikla. En er þinga skyldi um mál manna, þá gengu
hvorirtveggju þar til, er dómurinn var settur, að flytja fram
sannindi sín; var Önundur þá allstórorður.En þar er dómurinn var settur, var völlur sléttur og settar
niður heslistengur í völlinn í hring, en lögð um utan snæri
umhverfis; voru það kölluð vébönd. En fyrir innan í hringinum
sátu dómendur, tólf úr Firðafylki og tólf úr Sygnafylki, tólf
úr Hörðafylki; þær þrennar tylftir manna skyldu þar dæma um
mál manna. Arinbjörn réð því, hverjir dómendur voru úr
Firðafylki, en Þórður af Aurlandi, hverjir úr Sogni voru;
voru þeir allir eins liðs.Arinbjörn hafði haft fjölmenni mikið til þingsins; hann hafði
snekkju alskipaða, en hafði margt smáskipa, skútur og
róðrarferjur, er búendur stýrðu. Eiríkur konungur hafði þar
mikið lið, langskip sex eða sjö; þar var og fjölmenni mikið
af búöndum.Egill hóf þar mál sitt, að hann krafði dómendur að dæma sér
lög af máli þeirra Önundar. Innti hann þá upp, hver sannindi
hann hafði í tilkalli fjár þess, er átt hafði Björn
Brynjólfsson. Sagði hann, að Ásgerður, dóttir Bjarnar, en
eiginkona Egils, var til komin arfsins, og hún væri óðalborin
og lendborin í allar kynkvíslir, en tiginborin fram í ættir,
krafði hann þess dómendur að dæma Ásgerði til handa hálfan
arf Bjarnar, lönd og lausa aura.En er hann hætti ræðu sinni, þá tók Berg-Önundur til máls:
"Gunnhildur, kona mín," sagði hann, "er dóttir Bjarnar og
Ólafar, þeirrar konu, er Björn hafði lögfengið; er Gunnhildur
réttur erfingi Bjarnar. Tók eg fyrir þá sök upp fé það allt,
er Björn hafði átt, að eg vissi, að sú ein var dóttir Bjarnar
önnur, er ekki átti arf að taka; var móðir hennar hernumin,
en síðan tekin frillutaki og ekki að frændaráði og flutt land
af landi. En þú, Egill, ætlar að fara hér sem hvarvetna
annars staðar, þess er þú hefir komið, með ofkapp þitt og
ójafnað; nú mun þér það hér ekki týja, því að Eiríkur
konungur og Gunnhildur drottning hafa mér því heitið, að eg
skal rétt hafa af hverju máli, þar er þeirra ríki stendur
yfir. eg mun færa fram sönn vitni fyrir konungi og dómöndum,
að Þóra hlaðhönd, móðir Ásgerðar, var hertekin heiman frá
Þóris, bróður síns, og annað sinni af Aurlandi frá Brynjólfs.
Fór hún þá af landi á braut með víkingum og útlögum konungs,
og í þeirri útlegð gátu þau Björn dóttur þessa, Ásgerði. Nú
er furða að um Egil, er hann ætlar að gera ómæt öll orð
Eiríks konungs, það fyrst, er þú, Egill, hefir verið hér í
landi, síðan er Eiríkur konungur gerði þig útlægan, og það,
þótt þú hafir fengið ambáttar, að kalla hana arfgenga. Vil eg
þess krefja dómendur, að þeir dæmi mér allan arf Bjarnar, en
dæmi Ásgerði ambátt konungs, því að hún var svo getin, að þá
var faðir hennar og móðir í útlegð konungs."Þá tók Arinbjörn til máls: "Vitni munum vér fram bera,
Eiríkur konungur, til þess og láta eiða fylgja, að það var
skilið í sætt þeirra Þóris, föður míns, og Bjarnar hölds, að
Ásgerður, dóttir þeirra Bjarnar og Þóru, var til arfs leidd
eftir Björn, föður sinn, og svo það, sem yður er sjálfum
kunnugt, konungur, að þú gerðir Björn ílendan, og öllu því
máli var þá lukt, er áður hafði milli staðið sættar manna."Konungur svarar ekki skjótt máli hans.Þá kvað Egill:
Þýborna kveðr þorna

þorn reið áar horna,

sýslir hann of sína

síngirnð Önundr, mína;

naddhristir, ák nesta

norn til arfs of borna;

þigg, Auða konr, eiða,

eiðsært es þat, greiða.Arinbjörn lét þá fram bera vitnisburðinn tólf menn, og allir
vel til valdir, og höfðu allir þeir heyrt á sætt þeirra Þóris
og Bjarnar og buðu þá konungi og dómöndum að sverja þar
eftir. Dómendur vildu taka eiða þeirra, ef konungur bannaði
eigi; konungur sagði, að hann myndi þar hvorki að vinna að
leggja á það lof eða bann.Þá tók til máls Gunnhildur drottning, sagði svo: "Þetta er
undarlegt, konungur, hvernig þú lætur Egil þenna hinn mikla
vefja mál öll fyrir þér; eða hvort myndir þú eigi móti honum
mæla, þótt hann kallaði til konungdómsins í hendur þér? En
þótt þú viljir enga úrskurði veita, þá er Önundi sé lið að,
þá skal eg það eigi þola, að Egill troði svo undir fótum vini
mína, að hann taki með rangindi sín fé þetta af Önundi; en
hvar ertu, Askmaður? Far þú til með sveit þína, þar sem
dómendurnir eru, og lát eigi dæma rangindi þessi."Síðan hljóp Askmaður og þeir sveitungar til dómsins, skáru í
sundur véböndin og brutu niður stengurnar, en hleyptu á braut
dómöndunum; þá gerðist þys mikill á þinginu, en menn voru þar
allir vopnlausir.Þá mælti Egill: "Hvort mun Berg-Önundur heyra orð mín?""Heyri eg," sagði hann."Þá vil eg bjóða þér hólmgöngu og það, að við berjumst hér á
þinginu; hafi sá fé þetta, lönd og lausa aura, er sigur fær,
en þú ver hvers manns níðingur, ef þú þorir eigi."Þá svarar Eiríkur konungur: "Ef þú, Egill, ert allfús til að
berjast, þá skulum vér það nú veita þér."Egill svarar: "Ekki vil eg berjast við þig eða við ofurefli
liðs, en fyrir jafnmiklum mönnum, þá mun eg eigi flýja, ef
mér skal þess unna; mun eg og að því gera engan mannamun."Þá mælti Arinbjörn: "Förum vér á brott, ekki munum vér hér
iðna að sinni, það að okkur vinni." Síðan sneri hann á braut
og allt lið hans með honum.Þá sneri Egill aftur og sagði: "Því skírskota eg undir þig,
Arinbjörn, og þig, Þórður, og alla þá menn, er nú mega orð
mín heyra, lenda menn og lögmenn og alla alþýðu, að eg banna
jarðir þær allar, er Björn hefir átt, að byggja og að vinna.
Banna eg þér, Berg-Önundur, og öðrum mönnum öllum, innlenskum
og útlenskum, tignum og ótignum, en hverjum manni, er það
gerir, legg eg við lögbrot landsréttar og griðarof og
goðagremi."Þá gekk Egill á brott með Arinbirni; fóru þeir nú til skipa
sinna yfir leiti nokkuð, er eigi sá skipin af þinginu.En er Arinbjörn kom til skips síns, mælti hann: "Það er öllum
mönnum kunnugt, hver hér hafa orðið þinglok, að vér höfum
eigi náð lögum, en konungur er reiður svo mjög, að mér er
von, að vorir menn sæti afarkostum af honum, ef hann má; vil
eg nú, að hver maður fari til skipa sinna og fari heim."Þá mælti hann við Egil: "Gakk þú nú á skip þitt og þitt
föruneyti og verðið í brottu og verjið yður, fyrir því að
konungur mun eftir leita, að fund yðvarn beri saman; leitið
þá á fund vorn, hvað sem í kann að gerast með yður konungi."Egill gerði sem hann mælti; gengu þeir á skútu þrír tigir
manna og fóru sem ákafast. Skipið var einkar skjótt. Þá reru
fjöldi annarra skipa úr höfninni, er Arinbjörn átti, skútur
og róðrarferjur, en langskip, er Arinbjörn átti, fór síðast,
því að það var þyngst undir árum; en skúta Egils gekk skjótt
hjá fram. Þá kvað Egill vísu:
Erfingi réð arfi

arfljúgr fyr mér svarfa,

mætik hans ok heitum

hótun, Þyrnifótar,

nærgis simla sorgar

slík rán ek get hánum,

vér deildum fjöl foldar

foldværingja, goldin.Eiríkur konungur heyrði ályktarorð Egils, þau er hann mælti
síðast á þinginu, og varð hann reiður mjög; en allir menn
höfðu vopnlausir gengið á þinginu, veitti konungur því eigi
atgöngu. Hann bað menn sína alla ganga til skipa, og þeir
gerðu sem hann mælti.Þá skaut konungur á húsþingi og sagði þá fyrirætlan sína:
"Vér skulum nú láta fara tjöld af skipum vorum; vil eg nú
fara á fund Arinbjarnar og Egils; vil eg og því lýsa fyrir
yður, að eg vil Egil af lífi taka, ef vér komumst í færi, en
hlífa engum þeim, er í móti vill standa."Eftir það gengu þeir út á skip og bjuggust sem skjótast og
lögðu út skipunum og reru þangað, sem skip Arinbjarnar höfðu
verið; þá lét konungur róa eftir norður í sundin. En er þeir
komu í Sognsæ, sáu þeir lið Arinbjarnar; sneru þá langskipin
inn til Sauðungssunds, og sneri þá konungur þangað. Hann
hitti þar skip Arinbjarnar, og lagði konungur þegar að, og
köstuðust orðum á; spyr konungur, hvort Egill væri þar á
skipinu.Arinbjörn svaraði: "Eigi er hann á mínu skipi; munuð þér og,
konungur, brátt mega það sjá; eru þeir einir hér innan borðs,
er þér munuð kenna, en Egill mun ekki felast undir þiljum
niðri, þótt fund yðvarn beri saman."Konungur spyr, hvað Arinbjörn vissi síðast til hans, en hann
sagði, að Egill var við þrítugunda mann á skútu, -- "og fóru
þeir leið sína út til Steinssunds."Þeir konungur höfðu séð, að mörg skip höfðu róið til
Steinssunds. Mælti konungur, að þeir skyldu róa í hin innri
sundin og stefna svo móti þeim Agli.Maður er nefndur Ketill; hann var hirðmaður Eiríks konungs;
hann sagði leið fyrir konungs skipinu, en hann stýrði
sjálfur; Ketill var mikill maður vexti og fríður sýnum og
náfrændi konungs, og var það mál manna, að þeir konungur væru
líkir yfirlits.Egill hafði flota látið skipi sínu og fluttan til farminn,
áður hann fór til þingsins, en nú fer Egill þar til, er
kaupskip var, og gengu þeir á skipið upp, en skútan flaut við
stýristengur milli lands og skipsins, og lágu þar árar í
hömlu.En um morguninn, er ljóst var orðið varla, verða þeir varir
við, er vörð héldu, að skip stór reru að þeim; en er Egill
vissi það, þá stóð hann upp þegar; sá hann brátt, að ófriður
var að kominn; voru þar sex langskip og stefndu að þeim. Þá
mælti Egill, að þeir skyldu hlaupa allir í skútuna. Egill tók
upp kistur tvær, er Aðalsteinn konungur gaf honum; hann hafði
þær jafnan með sér; þeir hljópu í skútuna. Hann vopnaðist
skjótt og allir þeir, og reru fram í milli landsins og
snekkju þeirrar, er næst fór landinu, en það var skip Eiríks
konungs.En því að bráðum bar að, að lítt var lýst, þá renndust skipin
hjá, og er lyftingar bar saman, þá skaut Egill spjóti, og kom
á þann mann miðjan, er við stýrið sat, en þar var Ketill
höður. Þá kallar Eiríkur konungur og bað menn róa eftir þeim
Agli; en er skipin renndu hjá kaupskipinu, þá hljópu menn
konungs upp á skipið, en þeir menn, er eftir höfðu orðið af
Egils mönnum og eigi hljópu í skútuna, þá voru allir drepnir,
þeir er náð varð, en sumir hljópu á land; þar létust tíu menn
af sveitungum Egils. Sum skipin reru eftir þeim Agli, en sum
rændu kaupskipið; var þar tekið fé það allt, er innan borðs
var, en þeir brenndu skipið.En þeir, er eftir þeim Agli reru, sóttu ákaft, tóku tveir
eina ár; skortir þar eigi lið innan borðs, en þeir Egill
höfðu þunnskipað; voru þeir þá átján á skútunni. Þá dró saman
með þeim; en fyrir innan eyna var vaðilsund nokkuð grunnt
milli og annarrar eyjar; útfall var sjávarins; þeir Egill
hleyptu skútunni í það hið grunna sundið, en snekkjurnar
flutu þar eigi, og skildi þar með þeim; sneri þá konungur
suður aftur, en Egill fór norður á fund Arinbjarnar. Þá kvað
Egill vísu:
Nú hefr þrym-Rögnir þegna

þróttharðr, en mik varðak

víti, várrar sveitar

vígelds tíu fellda,

þvít sárlagar Sýrar,

sendr ór minni hendi,

digr fló beint meðal bjúgra

bifþorn Ketils rifja.Egill kom á fund Arinbjarnar og segir honum þessi tíðindi.Arinbjörn segir, að honum var ekki vildara af von um skipti
þeirra Eiríks konungs -- "en ekki mun þig fé skorta, Egill;
eg skal bæta þér skipið og fá þér annað, það er þú megir vel
fara á til Íslands."Ásgerður, kona Egils, hafði verið með Arinbirni, síðan þeir
fóru til þings.Arinbjörn fékk Agli skip það, er vel var haffæranda, og lét
ferma af viði; býr Egill skip það til hafs og hafði þá enn
nær þremur tigum manna; skiljast þeir Arinbjörn þá með
vináttu. Þá kvað Egill:
Svá skyldi goð gjalda,

gram reki bönd af löndum,

reið sé rögn ok Óðinn,

rán míns féar hánum;

folkmýgi lát flýja,

Freyr ok Njörðr, af jörðum,

leiðisk lofða stríði

landáss, þanns vé grandar.


sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.