Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 58

Egils saga Skalla-Grímssonar 58 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 58)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
575859

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):Haraldur hinn hárfagri setti sonu sína til ríkis í Noregi, þá
er hann tók að eldast, gerði Eirík konung yfirkonung sona
sinna allra, og er Haraldur hafði verið sjö tigu vetra
konungur, þá seldi hann í hendur Eiríki, syni sínum, ríki. Í
þann tíma ól Gunnhildur son, og jós Haraldur konungur vatni
og gaf nafn sitt og lét það fylgja, að hann skyldi konungur
vera eftir föður sinn, ef honum entist aldur til. Haraldur
konungur settist þá í kyrrsetu og sat oftast á Rogalandi eða
Hörðalandi; en þremur vetrum síðar andaðist Haraldur konungur
á Rogalandi, og var ger haugur eftir hann við Haugasund.En eftir andlát hans var deila mikil milli sona hans, því að
Víkverjar tóku sér til konungs Ólaf, en Þrændir Sigurð; en
Eiríkur felldi þá báða bræður sína í Túnsbergi einum vetri
eftir andlát Haralds konungs. Var það allt á einu sumri, er
Eiríkur konungur fór af Hörðalandi með her sinn austur í Vík
til bardaga við bræður sína og áður höfðu þeir deilt á
Gulaþingi Egill og Berg-Önundur og þessi tíðindi, er nú var
sagt.Berg-Önundur var heima að búi sínu, þá er konungur fór í
leiðangur, því að honum þótti óvarlegt að fara frá búi sínu,
meðan Egill var eigi úr landi farinn; þar var bróðir hans,
Haddur, þá með honum.Fróði hét maður, frændi Eiríks konungs og fóstursonur hans;
hann var hinn fríðasti maður, ungur að aldri og þó vaxinn
maður; Eiríkur konungur setti hann eftir til trausts
Berg-Önundi; sat Fróði á Álreksstöðum að búi konungs og hafði
þar sveit manna.Rögnvaldur er nefndur sonur Eiríks konungs og Gunnhildar;
hann var þá vetra tíu eða ellefu og var hið fríðasta
mannsefni; hann var þá með Fróða, er þetta var tíðinda.En áður Eiríkur konungur reri þenna leiðangur, þá gerði hann
Egil útlaga fyrir endilangan Noreg og dræpan hverjum manni.
Arinbjörn var með konungi í leiðangri, en áður hann fór
heiman, þá lagði Egill skipi sínu til hafs og hélt í útver
það, er Vitar heita, út frá Alda; það er komið af þjóðleið;
þar voru fiskimenn, og var þar gott að spyrja tíðindi; þá
spurði hann, að konungur hafði gert hann útlaga. Þá kvað
Egill vísu:
Lögbrigðir hefr lagða,

landalfr, fyr mér sjölfum,

blekkir bræðra sökkva

brúðfang, vega langa;

Gunnhildi ák gjalda,

greypt's hennar skap, þenna,

ungr gatk ok læ launat,

landrekstr, bili grandat.Veður voru vindlítil, fjallvindur um nætur, en hafgola um
daga. Eitt kveld sigldu þeir Egill út á haf, en fiskimenn
reru þá inn til lands, þeir er til njósnar höfðu settir verið
um farar þeirra Egils. Kunnu þeir það að segja, að Egill
hafði út látið og á haf siglt og hann var á brottu; létu
þessa njósn koma til Berg-Önundar.Og er hann vissi þessi tíðindi, hann sendi þá frá sér menn þá
er hann hafði áður haft þar til varúðar. Reri hann þá inn til
Álreksstaða og bauð Fróða til sín, því að Berg-Önundur átti
öl mikið heima að sín; Fróði fór með honum og hafði með sér
nokkura menn; tóku þeir þar veislu góða og höfðu gleði mikla;
var þar þá allt óttalaust.Rögnvaldur konungsson átti karfa einn, reru sex menn á borð;
hann var steindur allur fyrir ofan sjó; hann hafði með sér
menn tíu eða tólf, þá er honum fylgdu einart. Og er Fróði var
heiman farinn, þá tók Rögnvaldur karfann, og reru þeir út til
Herðlu tólf saman; þar var konungsbú mikið, og réð sá maður
fyrir, er hét Skegg-Þórir; þar hafði Rögnvaldur verið á
fóstri í barnæsku. Tók Þórir feginsamlega við konungssyni;
skorti þar og eigi drykk mikinn.Egill sigldi út á haf um nóttina, sem fyrr var ritað, og er
morgnaði, féll veðrið og gerði logn; lögðu þeir þá í rétt og
létu reiða fyrir nokkurar nætur; en er hafgola kom á, sagði
Egill skipurum sínum:"Nú munum vér sigla að landi, því að ógerla veit, ef hafviðri
kemur á hvasst, hvar vér náum þá landi, en heldur ófriðvænt
fyrir í flestum stöðum."Hásetar báðu Egil fyrir ráða þeirra ferð; síðan tóku þeir til
seglin og sigldu inn til Herðluvers; fengu þeir þar góða höfn
og tjölduðu yfir skipi sínu og lágu þá um nóttina. Þeir höfðu
á skipinu lítinn bát, og gekk Egill þar á við þriðja mann;
reri hann þá inn um nóttina til Herðlu, sendi þar mann í eyna
upp að spyrja tíðinda; og er sá kom ofan til skips, sagði
hann, að þar á bænum var Rögnvaldur konungsson og hans menn -
"sátu þeir þá við drykkju; hitti eg einn af húskörlum, en var
sá ölóður og sagði, að hér skyldi eigi minna drekka en að
Berg-Önundar, þótt Fróði væri þar á veislu og þeir fimm
saman."Ekki kvað hann þar fleira manna en heimamenn nema Fróða og
hans menn.Síðan reri Egill aftur til skips og bað menn upp standa og
taka vopn sín; þeir gerðu svo; þeir lögðu út skipið um
akkeri. Egill lét gæta tólf menn skips, en hann fór á
eftirbátinn og þeir átján saman, reru síðan inn eftir sundum;
þeir stilltu svo til, að þeir komu um kveldið inn í Fenhring
og lögðu þar til leynivogs eins.Þá mælti Egill: "Nú vil eg ganga einn upp í eyna og njósna,
hvers eg verði vís, en þér skuluð bíða mín hér."Egill hafði vopn sín, þau er hann var vanur að hafa, hjálm og
skjöld, gyrður sverði, höggspjót í hendi; síðan gekk hann upp
í eyna og fram með skógi nokkurum; hann hafði dregið hött
síðan yfir hjálm. Hann kom þar að, er sveinar nokkurir voru
og hjá þeim hjarðtíkur stórar, og er þeir tókust að orðum,
spurði hann, hvaðan þeir væru, eða fyrir hví þeir væru þar og
hefðu hunda svo stóra.Þeir mæltu: "Þú munt vera allheimskur maður; hefir þú eigi
heyrt, að hér gengur björn um eyna, hinn mesti spellvirki,
drepur hér bæði menn og fénað, og er lagt fé til höfuðs
honum; vökum við hér hverja nótt á Aski yfir fé voru, er
byrgt er í grindum - eða hví ferðu með vopnum um nætur?"Hann segir: "Hræðist eg björninn, og fáir þykir mér sem nú
fari vopnlausir; hefir björninn lengi elt mig í nótt, eða
sjáið hann nú, þar er hann nú í skógarnefinu. Hvort eru allir
menn í svefni á bænum?"Sveinninn sagði, að þeir Berg-Önundur og Fróði myndu enn
drekka; "þeir sitja nætur allar.""Segið þeim þá," segir hann Egill, "hvar björninn er, en eg
verð að skynda heim."Hann gekk þá brott, en sveinninn hljóp heim til bæjarins og
til stofunnar, er þeir drukku í; var þá svo komið, að allir
menn voru sofa farnir nema þeir þrír, Önundur og Fróði og
Haddur. Sveinninn segir, hvar björninn var; þeir tóku vopn
sín, er þar héngu hjá þeim, og hljópu þegar út og upp til
skógar; þar gengu fram skógarnef af mörkinni og runnar í
sumum stöðum. Sveinninn segir þeim, hvar björninn hafði verið
í runninum. Þá sáu þeir, að limarnar hrærðust, þóttust þá
skilja, að björninn myndi þar vera. Þá mælti Berg-Önundur, að
þeir Haddur og Fróði skyldu fram renna milli og
meginmerkurinnar og gæta, að björninn næði eigi skóginum.Berg-Önundur rann fram af runninum; hann hafði hjálm og
skjöld, gyrður sverði, en kesju í hendi. Egill var þar fyrir
í runninum, en engi björn, og er hann sá, hvar Berg-Önundur
var, þá brá hann sverðinu, en þar var hönk á meðalkaflanum,
og dró hann hana á hönd sér og lét þar hanga. Hann tók í hönd
sér kesjuna og rann þá fram í mót Berg-Önundi, og er
Berg-Önundur sá það, þá gæddi hann rásina og skaut skildinum
fyrir sig, og áður þeir mættust, þá skaut hvor kesju að
öðrum. Egill laust skildinum við kesjunni og bar hallan, svo
að reist úr skildinum og flaug í völlinn, en Egils spjót kom
á miðjan skjöldinn og gekk í gegnum langt upp á fjöðrina, og
varð fast spjótið í skildinum; varð Önundi þungbær
skjöldurinn. Egill greip þá skjótt meðalkafla sverðsins;
Önundur tók þá og að bregða sínu sverði, og er eigi var
brugðið til hálfs, þá lagði Egill í gegnum hann með sínu
sverði. Önundur rataði við lagið, e n Egill kippti að sér
sverðinu hart og hjó til Önundar og af nær höfuðið; síðan tók
Egill kesjuna úr skildinum.Þeir Haddur og Fróði sáu fall Berg-Önundar og runnu þangað
til; Egill snerist í móti þeim; hann skaut kesjunni að Fróða
og í gegnum skjöld hans og í brjóstið, svo að yddi um bakið;
féll hann þegar á bak aftur dauður; Egill tók þá sverðið og
snerist í mót Haddi, og skiptust þeir fáum höggum við, áður
Haddur féll.Þá komu sveinarnir að, og mælti Egill við þá: "Gætið hér til
Önundar, húsbónda yðvars, og þeirra félaga, að eigi slíti dýr
eða fuglar hræ þeirra."Egill gekk þá leið sína og eigi langt, áður félagar hans komu
í mót honum ellefu, en sex gættu skips; þeir spurðu, hvað
hann hefði sýslað. Hann kvað þá:
Sátum lyngs til lengi

ljósheims börvi þeima,

meir varðak fé forðum,

fjarðölna hlut skarðan,

áðr Berg-Önund benjum

bensæfðan létk venjask,

Bors niðjar feltk beðju

blóði, Hadd ok Fróða.Þá mælti Egill: "Vér skulum nú snúa aftur til bæjarins og
fara hermannlega, drepa menn þá alla, er vér náum, en taka fé
allt, það er vér megum með komast."Þeir fara til bæjarins og hlaupa þar inn í hús og drepa þar
menn fimmtán eða sextán; sumir komust undan af hlaupi; þeir
rændu þar öllu fé, en spilltu því, er þeir máttu eigi með
fara. Þeir ráku búfé til strandar og hjuggu, báru á bátinn
sem hann tók við; fóru síðan leið sína og reru út um
eyjasund.Egill var nú allreiður, svo að það mátti ekki við hann mæla;
sat hann við stýri á bátinum.Og er þeir sóttu út á fjörðinn til Herðlu, þá reru utan í
móti þeim Rögnvaldur konungsson og þeir þrettán saman á
karfanum þeim hinum steinda. Þeir höfðu þá spurt, að skip
Egils lá í Herðluveri; ætluðu þeir að gera Önundi njósn um
ferðir Egils; og er Egill sá skipið, þá kenndi hann þegar.
Hann stýrði sem beinst á þá, og er skipin renndust að, þá kom
barð skútunnar á kinnung karfans; hallaði honum svo, að sjór
féll inn á annað borð og fyllti skipið. Egill hljóp þá upp á
og greip kesjuna, hét á menn sína, að þeir skyldu engan láta
með lífi á brott komast, þann er á karfanum var. Það var þá
hægt, því að þar var þá engi vörn; voru allir þeir á kafi
drepnir, en engi komst undan. Létust þeir þar þrettán,
Rögnvaldur og förunautar hans; þeir Egill reru þá inn til
eyjarinnar Herðlu. Þá kvað Egill vísu:

Börðumk vér, né virðak,

vígleiptr sonar, heiptir,

Blóðöxar rauðk blóði,

böðmildr ok Gunnhildar;

þar féllu nú þollar

þrettán lagar mána,

stendr af styrjar skyndi

starf, á einum karfa.Og er þeir Egill komu til Herðlu, þá runnu þeir þegar upp til
bæjar með alvæpni; en er það sá Þórir og hans heimamenn, þá
runnu þeir þegar af bænum og forðuðu sér allir, þeir er ganga
máttu, karlar og konur. Þeir Egill rændu þar öllu fé, því er
þeir máttu höndum á koma; fóru síðan út til skips; var þá og
eigi langt að bíða, að byr rann á af landi; búast þeir til að
sigla, og er þeir voru seglbúnir, gekk Egill upp í eyna.Hann tók í hönd sér heslistöng og gekk á bergsnös nokkura, þá
er vissi til lands inn; þá tók hann hrosshöfuð og setti upp á
stöngina. Síðan veitti hann formála og mælti svo: "Hér set eg
upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd Eiríki konungi og
Gunnhildi drottningu" - hann sneri hrosshöfðinu inn á land -
"sný eg þessu níði á landvættir þær, er land þetta byggja,
svo að allar fari þær villar vega, engi hendi né hitti sitt
inni, fyrr en þær reka Eirík konung og Gunnhildi úr landi."Síðan skýtur hann stönginni niður í bjargrifu og lét þar
standa; hann sneri og höfðinu inn á land, en hann reist rúnar
á stönginni, og segja þær formála þenna allan.Eftir það gekk Egill á skip; tóku þeir til segls og sigldu á
haf út; tók þá byrinn að vaxa, og gerði veður hvasst og
hagstætt; gekk þá skipið mikið. Þá kvað Egill:
Þél höggr stórt fyr stáli

stafnkvígs á veg jafnan

út með éla meitli

andærr jötunn vandar,

en svalbúinn selju

sverfr eirar vanr þeiri

Gestils ölpt með gustum

gandr of stál fyr brandi.Síðan sigldu þeir í haf, og greiddist vel ferð þeirra og komu
af hafi í Borgarfjörð; hélt hann skipi sínu þar til hafnar og
báru föt sín á land. Fór þá Egill heim til Borgar, en
skiparar hans vistuðust. Skalla-Grímur gerðist þá gamall og
hrumur af elli; tók Egill þá til fjárforráða og bús
varðveislu.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.