Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 70

Egils saga Skalla-Grímssonar 70 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 70)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
697071

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Arinbjörn var þenna vetur heima að búum sínum, en eftir um
vorið lýsti hann yfir því, að hann ætlar að fara í víking.
Arinbjörn hafði skipakost góðan; bjó hann um vorið þrjú
langskip og öll stór; hann hafði þrjú hundruð manna; hafði
hann húskarla á skipi sínu, og var það allvel skipað; hann
hafði og marga bóndasonu með sér. Egill réðst til farar með
honum; stýrði hann skipi, og fór með honum margt af föruneyti
því, er hann hafði haft með sér af Íslandi. En kaupskip það,
er Egill hafði haft af Íslandi, lét hann flytja austur í Vík;
fékk hann þar manna til að fara með varnað sinn. En þeir
Arinbjörn og Egill héldu langskipunum suður með landi; síðan
stefndu þeir liðinu suður til Saxlands og herjuðu þar um
sumarið og fengu sér fé; en er hausta tók, héldu þeir norður
aftur og lágu við Frísland.



Einhverja nótt, þá er veður var kyrrt, lögðu þeir upp í móðu
eina, þar er illt var til hafna og útfiri mikil; þar voru á
land upp sléttur miklar og skammt til skógar; þar voru vellir
blautir, því að regn höfðu verið mikil.



Þar réðu þeir til uppgöngu og létu eftir þriðjung liðs að
gæta skipa; þeir gengu upp með ánni, milli og skógarins; þá
varð brátt fyrir þeim þorp eitt, og byggðu þar margir bændur;
liðið rann úr þorpinu á landið, þar er mátti, þegar er vart
varð við herinn, en víkingar sóttu eftir þeim. Var þá síðan
annað þorp og hið þriðja. Liðið flýði allt það, er því kom
við. Þar var jafnlendi og sléttur miklar; díki voru skorin
víða um landið og stóð í vatn. Höfðu þeir lukt um akra sína
og eng, en í sumum stöðum voru settir staurar stórir yfir
díkin, þar er fara skyldi; voru brúar og lagðir yfir viðir.
Landsfólkið flýði í mörkina.



En er víkingar voru komnir langt í byggðina, þá söfnuðust
Frísir saman í skóginum, og er þeir höfðu aukin þrjú hundruð
manna, þá stefna þeir í móti víkingum og ráða til orustu við
þá. Varð þar harður bardagi, en svo lauk, að Frísir flýðu, en
víkingar ráku flóttann; dreifðist bæjarliðið víðs vegar, það
er undan fór; gerðu þeir og svo, er eftir fóru; kom þá svo,
að fáir fóru hvorir saman.



Egill sótti þá hart eftir þeim og fáir menn með honum, en
mjög margir fóru undan; komu Frísir þar að, er díki var fyrir
þeim, og fóru þar yfir; síðan tóku þeir af bryggjuna. Þá koma
þeir Egill að öðrum megin. Réð Egill þegar til og hljóp yfir
díkið, en það var ekki annarra manna hlaup, enda réð og engi
til. Og er Frísir sáu það, þá sækja þeir að honum, en hann
varðist; þá sóttu að honum ellefu menn, en svo lauk þeirra
viðskiptum, að hann felldi þá alla. Eftir það skaut Egill
yfir brúnni og fór þá aftur yfir díkið; sá hann þá, að lið
þeirra allt hafði snúið til skipanna; hann var þá staddur nær
skóginum; síðan fór Egill fram með skóginum og svo til
skipanna, að hann átti kost skógarins, ef hann þyrfti.



Víkingar höfðu haft mikið herfang ofan og strandhögg, og er
þeir komu til skipanna, hjuggu sumir búféð, sumir fluttu út á
skipin fén þeirra, sumir stóðu fyrir ofan í skjaldborg, því
að Frísir voru ofan komnir og höfðu mikið lið og skutu á þá;
höfðu Frísir þá aðra fylking. Og er Egill kom ofan og hann
sá, hvað títt var, þá rann hann að sem snarast, þar sem
múginn stóð; hafði hann kesjuna fyrir sér og tók hana tveimur
höndum, en kastaði skildinum á bak sér. Hann lagði fram
kesjunni, og stökk frá allt, það er fyrir stóð, og gafst
honum svo rúm fram í gegnum fylkinguna; sótti hann svo ofan
til manna sinna; þóttust þeir hafa hann úr helju heimtan.



Ganga þeir síðan á skip sín og héldu brott frá landi; sigldu
þeir þá til Danmerkur; og er þeir koma til Limafjarðar og
lágu að Hálsi, þá átti Arinbjörn húsþing við lið sitt og
sagði mönnum fyrirætlan sína: "Nú mun eg," segir hann, "leita
á fund Eiríkssona við lið það, er mér vill fylgja. eg hefi nú
spurt, að þeir bræður eru hér í Danmörku og halda sveitir
stórar og eru á sumrum í hernaði, en sitja á vetrum hér í
Danmörk. Vil eg nú gefa leyfi öllum mönnum að fara til
Noregs, þeim er það vilja heldur en fylgja mér; sýnist mér
það ráð, Egill, að þú snúir aftur til Noregs og leitir enn
sem bráðast til Íslands út, þegar við skiljumst."



Síðan skiptust menn á skipunum; réðust þeir til Egils, er
aftur vildu fara til Noregs, en hitt var meiri hluti liðs
miklu, er fylgdi Arinbirni. Skildust þeir Arinbjörn og Egill
með blíðu og vináttu; fór Arinbjörn á fund Eiríkssona og í
sveit með Haraldi gráfeld, fóstursyni sínum, og var síðan með
honum, meðan þeir lifðu báðir.



Egill fór norður í Víkina og hélt inn í Óslóarfjörð; var þar
fyrir kaupskip hans, það er hann hafði látið flytja suður um
vorið; þar var og varnaður hans og sveitungar, þeir er með
skipinu höfðu farið.



Þorsteinn Þóruson kom á fund Egils og bauð honum með sér að
vera um veturinn og þeim mönnum, er hann vildi með sér hafa;
Egill þekktist það, lét upp setja skip sín og færa varnað til
staðar. En lið það, er honum fylgdi, vistaðist þar sumt, en
sumir fóru norður í land, þar er þeir áttu heimili. Egill fer
til Þorsteins, og voru þar saman tíu eða tólf; var Egill þar
um veturinn í góðum fagnaði.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.